Færsluflokkur: Bloggar
4.5.2009 | 08:09
Rússland á lista yfir þau lönd sem okkur langar að heimsækja.
Við áttum líka að vera á leiðinni til Moskvu núna. Nei ekki til að syngja bakraddir með Íslenska Euro liðinu okkar heldur ætluðum við að ferðast þarna um í tvær vikur með góðum vinum að heiman.
Svo kom kreppan og vinir okkar hættu við.
Svo kom meinið og við hættum við.
Hvað síðan verður kemur í ljós með tíð og tíma.
Ég segi nú eins og krakkarnir: Ég ætla samt að heimsækja þetta stóra land einn daginn!
Íslandi spáð góðu gengi í Moskvu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
30.4.2009 | 12:38
Ef þú getur miðlað fróðleik til annarra er þá ekki rétt að gera svo.
Ég er búin að velta þessu lengi fyrir mér og lofaði að ég skildi opna allar gáttir einn daginn.
Reiðin sem er búin að búa innra með mér í nokkurn tíma hefur lægt. Ég get núna talað um þessi mál án þess að fyllast þessari óstjórnlegu reiði í garð Íslenska heilbrigðiskerfisins og tími kominn til að gefa af sjálfri mér öðrum til varnaðar, alla vega umhugsunar.
Góð vinkona mín hér í Prag heimsótti ,, Dr. House" fyrir nokkru síðan en hann er okkar sameiginlegi læknir og það er honum að þakka að ég sit hér núna og skrifa þetta hér inn. Dr. House sagði við vinkonu mína: Mikið vildi ég að hún vinkona þín hefði komið til mín þremur mánuðum fyrr.
Það er nefnilega það. Þremur mánuðum áður en ég fór til Dr House sat ég heima á Íslandi, bæði hjá Krabbameinsfélaginu og Hjartavernd og kvartaði yfir verkjum í brjóstholi, þyngdartapi og energileysi. Enginn hlustaði á mig, á hvorugum staðnum. Hjá Krabbameinsfélaginu sat læknirinn fyrir framan mig og tók þessa venjulegu stroku og bæ búið. Frétti seinna að það er víst ekki þeirra deild að ath. neitt annað en brjóstin og leghálsinn, hitt skiptir víst engu nema þú sér í einhvers konar úrtaki. Sem sagt ,,spes" meðferð er ekki í dæminu jafnvel þó þú kvartir yfir einhverju sem hefði átt að ath. ekki seinna en þarna á staðnum.
Sama sagan var hjá Hjartavernd. Læknirinn þar hafði miklu meiri áhuga á Prag heldur en mér sem sat þarna og kvartaði. Hann hlustaði mig ekki einu sinni því ef hann hefði gert það hefði hann átt að heyra í ,,græna karlinum" og það vel. Það eina sem hann sagði var þú ættir að láta athuga þetta ef þetta lagast ekki!!!!!!!!!!!!!!!!!! Halló, ég var með 10 x 7 cm mein í lunga plús........
Þið sem hafið fylgst með blogginu mínu munið e.t.v. eftir því að ég bloggaði um þetta hér 20. sept. eða rétt eftir að ég kom heim. Set hér inn link fyrir þá sem ekki hafa lesið áður:
http://iaprag.blog.is/iaprag/entry/718779
Ekki er það svo að við séum að níðast á helbrigðiskerfinu heima. Við borgum fullt gjald fyrir þá þjónustu sem við biðjum um og ég held að ég hafi pungað út nokkrum tugi þúsunda þessa þrjá daga fyrir nákvæmlega ekki neitt.
Í janúar fór ég síðan til Dr. House og hann þurfti ekki annað en að hlusta mig. Ég var send í gegnumlýsingu og síðan Scan og eftir þrjá daga var ég komin með besta skurðlækni og lungnalækni Tékklands og búið að ákveða dag fyrir uppskurð. Hér var ekkert verið að bíða eða sjá til það var bara gengið í málið.
Ég kvartaði við meinalækninn minn og ég fór í gær í Scan með bakið. Biðin tók tvo daga.
Ég hef sagt nokkrum þessa sögu og þ.á.m. tveimur Íslenskum læknum og báðir hafa sagt mér að ég ætti að skrifa bréf bæði til Krabbameinsleitarstöðvarinnar og Hjartavernd. Ég hef nú ekki látið vera að því en kem sjálfsagt til með að gera það við tækifæri. Líka þar sem við erum alltaf að heyra sögur að heiman um gáleysislega meðferð á sjúklingum og hrikaleg læknamistök.
Það skal tekið fram að ég er ekki að áfellast alla læknastéttina í heild, þetta var vonandi bara einsdæmi með mig á tveimur leitarstöðvum Reykjavíkurborgar.
Þetta var bara brot af því sem liggur mér á hjarta elskurnar. En hálfnað verk þá hafið er.
Kem örugglega inná ýmislegt fleira þegar liggur vel á mér.
Annars á ég bara svona ,,Obbsadeysí " dag í dag og þess vegna ætlum við að bregða okkur niðrí Sternberg á eftir og fylgjast með hátíðahöldum nornadagsins sem er í dag. Nú fara þær á brokk allar sem ein og þess vegna eru kveiktir hér eldar um alla sveitir.
Heyrði að veitt væru verðlaun ef maður kæmi í nornaroutfitti en þar sem ég er norn í eðli mínu þá þarf ég engan búning og fæ örugglega fyrstu verðlaun sem ég held að sé einn bjór.
Ætli ég geti bíttað og fengið rauðvín í staðin. Sakar ekki að reyna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
27.4.2009 | 11:29
Já svo er nú það, ansans vesen.
Jæja þá er búið að skemmaleggja það fyrir mér ja alla vega þetta árið. Mig sem langaði svoooooo mikið til Mexíkó og var farin að plana ferð í huganum. Ætlaði að droppa við hjá vinum mínum í LA og Las Vegas en nú er maður bara stökk hér í Mið-Evrópu. Þvílíkur bömmer!
Svo er þjóðin búin að kjósa yfir sig það sem hún taldi vera réttast og ég fékk ekki tækifæri á að fagna því í gær eins og ég hafði planað þar sem ég átti ógeðslega vondan dag einn af þessum lousy dögum númer þrjú bara einn verri en síðast. Ég bjóst nú alveg við smá timburmönnum eftir síðasta kocktailpartýið en ekki svona hrikalegum. Dísussssss, það var eins og það væri verið að brenna í mér innyflin öðru hvoru allan gærdaginn. Verð bara að segja það, mikið helvíti var þetta vont.
Er fín í dag eða þannig, er auðvitað helaum eftir átökin en samt ekkert sem þarf að gera veður út af. Var að koma úr nuddpottinum og ætla á eftir út í göngutúr og láta sunnanvindinn lemja aðeins á mér já ér eru hvassir sunnanvindar í dag.
Hér sjáið þið kátu krakkana mína sem erfa eiga landið.
Tek undir orð skáldsins:
Oft finst mér eins og blessuð börnin hafi margföld not af tilverunni borið saman við okkur þá fullorðnu.
Ótti við svínaflensu vex | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
25.4.2009 | 17:07
Salt er ekki bara salt.
Það er talað um að vinna fyrir saltinu í grautinn. En vitið þið að það er til margskonar salt. Ég var nú ekki betur informeruð en það fyrir viku að ég vissi ekki betur en að salt væri bara salt. Jú hafði heyrt um mismunandi salt eftir því hvaðan það kom en að það væri svona mikill munur því hafði ég aldrei pælt í. Fyrir mér var bara til borðsalt, sjávarsalt, og síðan þetta grófa sem fiskurinn er saltaður upp úr en nú veit ég betur og get frætt ykkur um það að salt er ekki bara salt, það er mismunandi salt, salt og sumt jafnvel með sætukeim.
Alveg hreina satt.
Svo nú þegar þig farið að grilla á eftir því ég geri nú ráð fyrir að þrátt fyrir kosningar verði fólk að næra sig þá er ekki verra að pæla aðeins í saltinu sem þið látið í matinn. Annars höfum við á þessu heimili varla notað salt í mat í mörg ár þess vegna kom það okkur dálítið að óvöru þegar við dvöldum í Wirzberg um síðustu helgi og mínum elskulega var boðið upp á að smakka sex tegundir af salti áður en steikin var krydduð. Hélt bara ekki að salt væri notað á fimm stjörnu veitingastað en sjálfsagt eitthvað inn í dag.
Hvernig salt má bjóða herranum? Suður-Afrískt, Algarve, Hawaii, Himalaya eða Peru.
Viti menn það var munur á þessum söltum, sumt ansi parfumerað, annað með sæt-saltbragði. Sem sagt salt er ekki bara salt. Það er mikill munur á.
Ef vel er að gáð getið þið séð hluta af saltstaukunum fyrir frama mig hér á myndinni. Þarna er ég að gæða mér á fyrsta aspasnum þetta árið. Jammí, elska aspas með Hollandaise.
Og fyrst ég er komin á kaf að segja frá veitingastaðnum þá verð ég að geta þess að nú hafa steikarhnífar breist mikið. Nei elskurnar það er ekkert eðalstál í þeim lengur heldur keramik, segi og skrifa KERAMIK. Við héldum fyrst að þetta væri plast og væri rétt fólki sem þeir héldu að gætu farið sér eða öðrum að voða með venjulegum hnífum. Að við litum svona hrikalega krimmalega út að okkur væri ekki treystandi fyrir venjulegu áhaldi hehehe en nei þetta er keramikhnífur og okkur sagt að væri líka alveg rosalega inn í dag.
Hér má sjá minn elskulega munda hnífinn úr hvítu keramik. Vígalegur enda bað ég hann að lyfta áhaldinu svo ég gæti fest á filmu.
Jæja fólkens, nú kjósið þið rétt og njótið síðan kvöldsins með vinum og ættingjum. Eigið góða og skemmtilega kosningavöku. Hér verður farið snemma í rúmið enda ekkert úthald til að vaka hér fram eftir öllu. Ætlum þess í stað að vakna við sólarupprás og hafa hér kosningabrunch með fyrstu tölum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Vitið þið hvað Ayurvedic Massage er? Nei ekki það, ekki ég heldur fyrr en í gær þegar ég uppgötvaði þetta frábæra Indverska heilunarnudd. Það var ekki amalegt að byrja sumarið á því að kynnast þessari meðferð.
Ég hafði verið að hugsa um að reyna eitthvað nýtt tll þess að koma orkuflæðinu í stand og reyna að koma mér út úr þessu aðgerðaleysi og aumingjaskap og hafði hugsað mér að reyna Reiki sem ég hafði heyrt um að væri gott fyrir sál og líkama. Þess í stað var mér bent á Indverska meðferð þar sem notaðar eru þrennskonar olíur og þú liggur þarna eins og Skata í einn og hálfa klukkustund og lætur mjúkar hendur gæla við líkamann sem endar á sandmeðferð sem einnig er líka mjög þægileg.
Þessi meðferð á að hjálpa líkamanum að endurnýja sig sjálfur en auðvitað með þinni hjálp, sem fellst í því að hugleiða og vera meðtækilegur og skemmir ekki að hafa trúna meðferðis.
Ég veit ekki hvað gerðist en ég fékk það á tilfinninguna að ég lægi í mjúkum grænum mosa og yfir mér hvolfdist iðjagrænt laufþak. Tónlistin sem var framandi og kom úr litlum Ipod varð allt í einu lifandi og ég sá konu í hvítum kufli sem stóð ekki langt frá mér og söng þessa framandi söngva. Seinna tók við á Ipodinum karlaraddir en þá fannst mér þær berast all langt frá úr einhverskonar húsagarði með gosbrunni í miðju og þar gengu þessi munkar um í rólegheitum og hummuðu fyrir mig.
Alveg sama þið þurfið ekkiert að trúa mér en þetta var ótrúleg reynsla fyrir mig.
Í framhaldi varð ég svo heilluð af þessari meðferð að yfir teinu sem Camilla nuddarinn eða eigum við ekki heldur að kalla hana heilara drakk með mér, tek það fram að ég er ekki te fan, en þarna fannst mér það allt í einu gott, þá pantaði ég Jóga tíma í næstu viku og nudd á eftir. Aldrei komið nálægt Jóga en það var bara eitthvað sem sagði mér að þetta ætti eftir að hjálpa mér heilmikið og trúin flytur fjöll það vitum við.
Það var ekki amalegt að byrja sumarið svona vel.
SENDUM YKKUR ÖLLUM HLÝJAR SUMARKVEÐJUR HEIM Í YKKAR HÚS SEM BERAST VONANDI MEÐ SUNNANVINDUM HÉÐAN FRÁ STJÖRNUSTEINI.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.4.2009 | 18:58
Andskotan ekkert fútt i Hanastélinu í morgun.
Yfirleitt þar sem ég hef mætt í Hanastél (cocktail party á góðri Íslensku) hefur mér sjaldan leiðst og stundum jafnvel bara frundist þræl gaman. Ég hef kynnst fjöldann allan af fólki í þannig samkvæmum bæði skemmtilegu og miður skemmtilegu. Stundum hefur maður orðið fyrir hrikalegum vonbrigðum með veitingarnar en stundum líka fengið algjört lostæti.
Það er nú það.
Ég verð nú að segja að Hanastélsboðið sem ég var boðin til í morgun var ekki alveg það skemmtilegasta sem ég hef farið í. Vertarnir sem tóku á móti gestunum voru afskaplega ólíkar. Önnur brosti út að eyrum og var ekkert nema elskulegheitin af hinni lak fýlan og svipurinn sagði eitthvað á þessa leið: Guð hvað ég nenni þessu ekki, vonandi fer þessum gestum fækkandi hvað úr hverju. Ég forðaðist að tala við hana á meðan ég dvaldi þarna þessar tvær klukkustundir. Enda sá sú brosmilda um að halda uppi small talk öðru hverju við gestina.
En blessaðir gestirnir voru ekki skrafhreifnir það verð ég nú að segja. Allir höfðu komið sér fyrir eins vel og hugsast gat, tek það fram að ég lenti í betri sætum í morgun, sem sagt rúmi. Allir voru með sinn cocktail misjafnlega sterkan auðvitað, allt eftir óskum hvers og eins. Einstaka gestur brosti til næsta manns en mér fannst nú sem öllum leiddist heil ósköp í þessu partýi enda engin lifandi músík og ekki heldur úr hljóðkerfi. Tveir voru með Ipod sá ég og fannst mér það góð hugmynd. OK við vorum þó blessunarlega laus við leiðindar ræðuhöld á Tékknesku sem yfirleitt eru haldin í svona gillum. Þvílikur tortúr að hlusta á og nú er ekki einu sinni afsökun að fara út að reykja á meðan á tölum stendur. Trallallallallala.....
Því las ég bókina hans Randy Pausch, Síðasta fyrirlesturinn. Ekki kannski rétta bókin í svona partý en hún er alla vega blákladur veruleikinn settur á blað án uppspuna.
Það var sem sagt ekkert fútt í þessu partýi en vegna þess að maður má ekki vera ókurteis þá hélt ég það út þessa tvo tíma enda í betri sætum og lét sólina verma á mér hvirfilinn. Smá vítamín fyrir hárið í leiðinni. Nei elskurnar það er enn á sínum stað og vonandi bara helst það þannig.
Var ég búin að segja ykkur að mér og örugglega flestum þarna inni fundust veitingarnar bragðlausar.
En andskotinn hafi það ég held þær séu að virka. Ég alla vega trúi því.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.4.2009 | 10:33
Morgunstund gefur gull í mund.
Eftir svefnlausa nótt fór ég með kaffibollann með mér út í bíl klukkan rúmlega sex í morgun, úrill útí sjálfa mig vegna þess að geta ekki fest blund alla nóttina. Eitthvað smá stress í gangi? Jamm ætli það ekki ja alla vega var það eitthvað sem angraði mig.
Tók bara klukkutíma að keyra upp á spítala. Ég hafði eitthvað misreiknað mig, hélt ég væri að fara í Hanastélsboð no. II en var þá bara að fara í blóðtöku, röntgen, öndunarþol og að endingu að bjóða lækninum mínum góðan daginn.
Hún var svona líka ánægð með mig og þar sem ég ældi ekki lifrinni og restinni af lungunum eftir síðasta Hanastél á að bæta við lyfjagjöfina. En ég fer í þann pakka í fyrramálið.
Ég varð nú að kvarta aðeins fyrst þetta ætlar að ganga svona vel og sagði henni frá bakverkjum og hvað ég væri búin að lesa um á netinu. Ég væri orðin smá stressuð yfir þessum verkjum og lægi andvaka teljandi kindur nótt eftir nótt, sem er auðvitað haugalygi, ég sef alveg ágætlega, ja nema sl. nótt.
Hún bað mig í guðana bænum að hætta að þvælast svona á netinu, það gerði mér ekkert gott, bara til að búa til ímynduð vandamál.
En til að róa mig, ekki það að ég væri eitthvað æst, sendi hún mig í Scan með bakið.
Svona á að taka á því, ekkert verið að bíða hér eins og á SUMUM stöðum þar sem ekki einu sinni er hlustað á mann. Þarna er ég næstum byrjuð að segja ykkur eitt að því sem liggur svo þungt á mér. OK þetta er byrjunin. Viss um að ég gubba þessu út úr mér einn daginn.
Er sem sagt bara fín og ætla út að athuga með blómin, hvort þau eru farin að blómstra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
20.4.2009 | 19:50
Sko það er alveg lágmark að þetta sé í sétteringu.
- Heyrðu er það ekki Hortensíur sem þú hefur sett í kerin hér í gluggakisturnar?
Þetta var minn elskulegi sem tók svona til máls þegar hann var rétt kominn inn úr dyrunum hér í eftirmiðdaginn. Hvað var minn núna að pæla hugsaði ég.
-Ha ja það fer nú bara eftir því hvað fæst og og stundum eftir því í hvaða stuði ég er í hvort ég vel Hortensíur eða eitthvað annað. Af hverju spyrðu?
- Ég keypti nokkur blóm á leiðinni heim sagði hann og það var ekki laust við að það væri dálítill ánægjuhreimur í röddinni. Þau eru þarna úti við bílskúrinn.
Ég var næstum farin að tuða yfir því að hann hefði nú átt að bíða þar til ég hefði getað farið með honum. Þetta væri örugglega ekki nógu góðar plöntur og þar fram eftir götunum en stillti mig alveg eins og ég gat. Andaði djúpt og taldi upp á hundrað. Hugsaði um leið, hvað var hann nú að vesenast í þessu. Þetta hefur alltaf verið mín deild og um leið og ég fór til að skoða innkaupin hugsaði ég : ,,Andskotinn, hann hefur örugglega keypt einhverja vitleysu"
En viti menn voru þetta ekki bara hinar gerðalegustu plöntur og engin smá bunki sem lá þarna og æpti á mig: ,,Setja mig niður, setja mig niður strax, ekki seinna en núna!!!!"
Ég fór í skítagallann og byrjaði strax að setja niður í ker þrátt fyrir hörð mótmæli frá mínum elskulega, hann ætlaði að gera þetta allt sjálfur þetta árið. Ég hélt nú ekki en lofaði honum að bera í mig mold og koma kerjunum fyrir í gluggakistum á Stjörnusteini, Fákaskjóli og Leifsbúð.
Ég fór að velta því fyrir mér hvaða lit minn hefði keypt þar sem engin plantan var byrjuð að blómstra og ég sá ekki neitt um lit blóma á pottunum svo ég spurði: Hvaða lit keyptirðu?
Ég hefði átt að sleppa þessari spurningu því það kom aðeins á minn en samt alltaf fljótur til svars:
- - Lit? Allt sami litur.
- Ertu viss, það stendur ekkert utan á pottunum.
- Já þetta var allt í sama rekkanum.
- Já það er nú ekkert að marka það sagði ég og var næstum farin að búa til mál. Þið vitið, það er ekki hægt að hafa ljósbleikt, rautt og ferskjuliti saman í keri. Það bara virkar ekki þannig.
Svo nú er það stóra spurningin. Hvaða litur verður á sumarblómunum í ár hér að Stjörnusteini. Sko við erum að tala um hátt í áttatíu plöntur sem eiga eftir að blómstra hér í allt sumar og það verður að vera alla vega í smá setteringu.
Annars er ég bara nokkuð hress. Fer í Hanastélsboð no. tvö í fyrramálið í boði Tékkneska ríkisins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
19.4.2009 | 13:38
Hotel Reiterhof í Wirsberg alltaf jafn kósí
Ég hef sagt ykkur það áður en minn elskulegi er stundum langt á undan sjálfum sér þannig að venjulegt fólk á stundum erfitt með að fylgja honum og föstudagurinn var einn af þessum dögum sem maður bara andar djúpt og bíður bara þar til hann róast niður.
Þegar ég vaknaði var hann rétt nýbúinn að bera á eldhúsgólfið efni sem lokar steininum og lyktar eins og blanda af terpentínu og lími. Ég gat sem betur fer smokrað mér inn fyrir skörina og teygt mig í kaffið, annars hefði hann nú fengið smá Gú moren á Tékknesku ef ég hefði ekki fengið morgunsopann minn fyrr en eftir dúk og disk.
Ég heyrði í traktornum og vissi að þar fór minn hamförum í slætti sem stóð langt fram yfir ádegi eða þar til fór að rigna um fjögur leitið. Hann var ekki fyrr kominn inn en hann segir: Hvernig hefur þú það núna elskan?
- Ég , jú bara fínt.
-Já er það. Ég var að pæla í því hvort þú vildir skella þér til Þýskalands.
-Núna? Ég horfi á hann þar sem hann situr við tölvuna og greinilega búinn að finna hótel á netinu og kominn hálfa leið í huganum.
- Já hvernig væri það segir hann, eigum við að skella okkur til Nürnberg?
- Æ ég nenni ekki inn í stórborg segi ég, væri miklu meira til í að fara bara til Wirsberg.
Wirsberg er lítill bær ekki langt frá Bayreuth og þar er eitt af mínum uppáhalds hótelum. Það tekur svona þrjá tíma að keyra þangað heiman frá okkur. Ég var varla búin að sleppa orðinu þá var minn búinn að hringja og panta herbergi, ríkur upp af stólnum og segir: ókey drífum okkur þá.
Eftir hálftíma vorum við búin að pakka niður fyrir okkur og hundinn, því auðvitað varð að keyra hann í pössun í leiðinni og klukkan hálf sex renndum við hér úr hlaði.
Ég get alveg sagt ykkur að þetta var ekki alveg það gáfulegasta sem okkur gat dottið í hug. Í fyrsta lagi var föstudagur og brjáluð traffik í öðru lagi var ausandi rigning og hrikalegt skygni.
Það tók okkur tvo klukkutíma að ná út úr borginni, segi og skrifa tvo tíma!
Það sem hefði tekið þrjá tíma tók okkur fjóra og hálfan.
En skítt með það þessi keyrsla var þess virði. Eins og alltaf var tekið vel á móti okkur við nutum þess í botn að láta stjana við okkur yfir helgina. Þar sem Reiterhof er Spa hotel þá var dagurinn í gær svona heilsu dagur með gufu, sundi, nuddi og fl. sem var ekki slæmt fyrir minn eðalskrokk.
Þá vitið þið það, þið sem eruð búin að reyna að ná í okkur yfir helgina. Við vorum ekki heima.
Erum sem sagt komin aftur heim og minn kominn á traktorinn og ég er að hugsa um að setjast í sólina með góða bók og halda áfram að hafa það huggulegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.4.2009 | 20:17
Ég er að pæla í því svo mikið..............
Það er svo margt sem ég er að velta núna fyrir mér. Ég hef verið að spyrja sjálfa mig hvort ég ætti að setja þessa þanka mína hér niður eða skrifa það heldur í bók minninganna en sú skrudda er ekki til sýnis hverjum sem er.
Margt af því sem mig langar til að deila með ykkur á fullan rétt á því að koma fram í dagsljósið sumt gæti jafnvel opnað augu fólks en gæti líka reynst öðrum hart að kyngja. Það hefur ekki vantað hvatningu en ég er eitthvað svo rög að taka stóra skrefið. Hella mér útí djúpu laugina.
Nú brosa margir út í annað því hvað hef ég ekki oft hent mér út í þá djúpu og svamlað alltaf upp að bakkanum. Hvers vegna ekki einu sinni enn?
Og hvað er það sem mig langar svo mikið að deila hér með ykkur?
Nei hefur ekkert að gera með kosningarnar, flokka eða pólitík almennt. Gæti ekki staðið meir á sama um allan þann endemis hálfvitagang sem þarna er í gangi uppi á mínu fagra föðurlandi. Stundum óska ég þess að þjóðin kjósi bara yfir sig ,,jólasveininn". Pælið í því hvað er í gangi þarna hjá þingheimi öllum. Ég skil engan útundan mér finnst sami rassinn undir þeim öllum, só sorrí!
Ekki heldur hefur það neitt með ástand gamalla húsa að gera eða hústökufólk sem kemur sér fyrir í ónýtum hjöllum stórkaupstaðarins. Hvað þá það skipti mig máli hvort verðir laganna heima æpi Gas,gas,gas og aftur gas. Allt í einu komnir á bólakaf inn í einhvern æsispennandi amerískan thriller með kylfur á lofti og stríðsglampa í augum.
Ef hústökufólk hefur gaman að því að koma upp þessum hjöllum, þrífa til og hreinsa út kakkalakka (síðan hvenær hafa kakkalakkar þrifist á Íslandi?) þar sem eigendur hafa ekki séð sóma sinn í því að rífa þessi hreysi niður þá bara mega þeir taka þessi hús mín vegna til handagagns. Tala nú ekki um ef þarna var búið að koma upp ,,verslun" sem,,seldi" ókeypis varning og sneisafullur pottur stóð á hlóðum allan daginn fyrir þurfalinga. Biðið við er þetta bara ekki hið besta mál?
En hvers vegna í ósköpunum varð að eyrnamerkja húsið með graffeti? Æ greyin mín þarna klikkið þið alveg. Það þarf nebblega að vera smá dipló til að fólk fíli ykkur. Nei ég segi bara svona.
Dísus hvað ég næ þessu ekki.
Heheheh nei það var sko alls ekki þetta sem ég vildi deila með ykkur það kemur seinna.
Veit ekki, ef til vill, ef til vill ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)