Færsluflokkur: Bloggar

Vá sú kom á óvart!

Ég slæ ekki oft upp svona fréttum en þetta er þess virði að upplifa.  Susan Boyle kom, sá og sigraði.  Þessi hallærislega kona sem allir hlógu að sló svo sannarlega í gegn.  Hvet ykkur til að horfa á myndbandið.  Ég sat bara hér dolfallin og það hrukku jafnvel tár af hvörmum.  Virkilega áhrifamikið.


mbl.is Hæfileikar leynast víða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega hátíð

Gleðilega páska

Vorið 2009 016

 

Þegar vorar fjörgast flest

fæst vart stund til náða

í hug mér ómar heima er best

og hvetur mig til dáða.

Bestu kveðjur til ykkar allra héðan frá Stjörnusteini.

Njótið dagsins við störf og leik hvar sem þið eruð stödd í heiminum.


Bloggvinkona frá Danaveldi bankaði uppá í gær.

Páskar 2009   Bloggedí blogg hér á laugardegi fyrir páska.

Þið heyrið nú að hér er kona bara mjög hress.  Ætli þetta sé ekki svona ,,opsa deisí " dagur og það meir að segja númer tvö.  Það sem ég var búin að bíða lengi eftir þessu en svo bara kom þetta allt í einu án þess að gera boð á undan sér.  Frábært!

Ekki datt mér nú í hug að ég ætti eftir að hitta einhvern af þessum fáu bloggvinum mínum en viti menn var ekki bara bankað uppá hjá okkur í gær og var þar komin bloggvinkona mín  Guðrún Þorleifsdóttir og hennar maður Brynjólfur en þau búa á eyjunni Als í Danaveldi.  Óvænt ánægja og sátum við hér og spjölluðum í góða veðrinu allan eftirmiðdaginn.

  Virkilega gaman að hitta þessa frábæru konu.

Já kæru vinir hér er komið þetta líka fína veður svo maður heyrir næstum þegar blómin blómgast á trjánum svo mikill flýtir er á vorkomunni.  

Ætla nú ekkert að vera að svekkja ykkur þarna heima meir með fréttum af hitastigi en bara svo þið vitið það þá er hér 25°  úps ég bara varð, sorry.

Farin út að vökva kryddjurtirnar mínar.  

 

 


Vorið komið og við búin að opna Listasetrið okkar fyrir Íslenska listamenn.

Listasetrið Leifsbúð sept.2008 007Fyrstu ábúendur Listasetursins okkar á vordögum eru nú komin hingað í Leifsbúð.  Fræðimaðurinn, Íslenskufræðingurinn og kennarinn Baldur Sigurðsson og kona hans Eva ætla að dvelja hér næstu sex vikurnar og vinna að verefnum sem ég kann nú ekki enn skil á en vonandi skýrist með tímanum.

Mikið finnst mér alltaf gott þegar líf færist yfir litla setrið okkar og ég get horft yfir frá Stjörnusteini að Leifsbúð og séð ljós kvikna á kvöldin eins líka þegar ég horfi yfir á morgnanna og fylgist með þegar ábúendur setjast með morgunkaffið sitt á litlu veröndina áður en byrjað er á dagsverkum. 

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri að koma upp þessu litla setri og getað deilt því með frábæru Íslensku listafólki nokkra mánuði á ári.  Setrið er lokað yfir háveturinn eða frá enda nóvember fram í mars. 

 Við förum að eins og farfuglarnir.  Opnum um leið og þeir þyrpast hingað úr suðri og syngja inn vorið með sínu dirrindí. 

Fyrir þá sem áhuga hafa á að skoða fleiri myndir af Leifsbúð þá er hér linkurinn

www.leifsbud.cz

 

    

 

 


Mánudagsmórall

Ég er með móral. Hér hrannast upp póstur í tölvunni, sniglapóstur úr póstkassanum, bókasendingar, blóm og svo mætti lengi telja en ég, þessi samviskusama kona sem ég er kemst ekki til að svara öllum og þakka fyrir mig.

Hrikalega fer þetta mikið í pirrurnar mínar.  Þið vitið þessar fínustu.

Elskurnar mínar þið sem lesið þetta takið á móti stóru knúsi frá mér og þakklæti fyrir alla umhyggjuna undanfarið.  Satt að segja hef ég nú minnstar áhyggjur af ykkur þarna heima það eru vinir mínir úti í   hinum stóra heimisem ég er með móral yfir.  Ég horfi á bunkann hér af kortum og hugsa mikið hrikalega eigum við mikið að vinum og kunningjum.  Hvaðan í ósköpunum kemur allt þetta fólk.

Ég ætla að reyna að vera duglegri að svara.

Annars er ég nokkuð hress í dag.  Og þar sem ég veit að sumir hafa áhyggjur ef þeir sjá ekki færslu hér daglega þá eigi ég lousy dag.  Jú það getur svo sem verið en stundum hef ég bara ekkert að gefa og þá er best að hlaða batteríiin og koma fílefldur inn seinna, ekki satt.

Í morgun þegar ég vaknaði hélt ég að þessi dagur yrði einn af þessum lousy eins og ein vinkona mín orðaði það svo skemmtilega en síðan ákvað ég að svo skildi ekki verða og áður en minn elskulegi fór niðr´í  Prag bað ég hann að kippa niður tveimur kössum með páskaskrauti og nú ætla ég að fara út og skreyta pínu lítið hér í kring. 

Búin að klippa greinar og setja í vasa svo þær verða útsprungnar með fallegum gulum blómum á skírdag.

Nú ætla ég út og sjá til hvort ég get ekki hengt nokkur plastpáskaegg á eitt tré hér á veröndinni.  Ef ég meika þetta  í dag þá er ég bara góð skal ég segja ykkur.

 

 

 

 

 

 


Ljóð að morgni

Þetta ljóð kom til mín með póstinum í gær sent frá skólasystkinum mínum Kristjönu og Pétri Maack. Takk kæru vinir fyrir hlýjar kveðjur.

Langaði að deila þessu með ykkur þar sem mér fannst það eiga svo vel við núna á þessum fallega föstudagsmorgni. 

 

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður

vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður

Ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það 

hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

 

Ég ákveð því að velja að vandamálin fá

vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá

tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti

ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

 

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur

faðma þennan morgun og allar hans rætur

hita mér gott kaffi af kærleik þess ég nýt

kex smyr með osti í blöðin svo  ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest

þetta er góður dagur, hafðu það sem best.

Ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni

ég faðmlag þér sendi og kveð þig að sinni.

Höf. ókunnugur

 

 


Betur væri að við ættum fleiri svona hugaða blaðamenn.

Jæja þá á að koma Agnesi og Þorbirni bak við lás og slá fyrir það eitt að upplýsa þjóðina um sannleikann.  Hvenær ætli þeir fari nú að endurskoða þessi blessuð lög.  Nú ætti fólk að mæta með spjöldin sín og hrópa H.F.F. og styðja við bakið á þessum blaðamönnum sem voru bara að segja okkur sannleikann.

Annars fletti ég Mbl. mjög snemma í morgun og viti menn hann var bara alls ekki eins niðurdrepandi og undanfarna daga.  Ef til vill er það vorið í hjarta mínu sem hefur þessi áhrif en alla vega sá ég nokkrar athyglisverðar greinar (ekki um pólitík) og jafnvel stutta samantekt með með hressandi bröndurum. 

Batnandi mönnum er best að lifa. 


mbl.is Brutu þau bankaleynd?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta ,,hanastélið" mitt á spítalanum í boði Tékkneska ríkisins.

Í gær þar sem við Marta smarta sátum upp á spítala og biðum eftir að læknirinn kallaði mig inn, ó já m.a.o. hér er ég ekki að meina okkar Mörtu smörtu bloggvinkonu heldur mína Mörtu smörtu sem hefur þýtt allar læknaskýrslur fyrir mig og var svo sæt að koma með mér í gær í viðtalið hjá krabbameinslækninum svona til öryggis og þýða fyrir mig. Hún Marta mín er Tékknesk en gæti alveg verið Íslensk þar sem hún talar okkar tungumál betur heldur en sumir innfæddir.

Takk elsku Marta mín fyrir alla hjálpina og skemmtilegar umræður í gærmorgun.

Þar sem við sátum, gerðum að gamni okkar og flissuðu eins og smástelpur kom hjúkrunarkona að okkur og brosti alveg hringinn og sagði mikið er gaman að sjá hvað þið eruð hressar og getið skemmt ykkur, jæja eitthvað í þá áttina var það sem hún sagði.  Við brostum báðar og mér var litið yfir ganginn þar sem fólk sat og beið eftir að komast inn í chemo eða komast í viðtal.  Margir voru þarna í fylgd með sjúklingum en enginn sást brosa og hver sat í sínum heimi.  

Ég hugsaði eftir á, alltaf þarft þú að láta eins og fífl frú Ingibjörg, hvenær ætlarðu eiginlega að vaxa upp úr þessu kona!

Í bitið í morgun var lagt af stað í fyrsta hanastélið á spítalanum. 

 Fyrir ykkur, asnarnir ykkar sem vita ekki hvað hanastél er þá þýðir það kokteill en því miður löngu hætt að nota þetta orð yfir samkvæmi eins og cocktail pary.  Þetta hanastél sem ég var að fara í var í boði Tékkneska ríkisins ja eða næstum því.

Mér var nú ekki hlátur í huga í morgun þar sem við biðum eftir að vera kölluð inn á stofuna.  Ég sat prúð og stillt og sötraði vatn til að dreifa huganum.  Hafði ekkert að segja, ekkert að spyrja, ekkert að tala um.  Bara ein biðin í viðbót.

Loksins kom að mér og ég gekk keik inn á stofuna.  Þar blasti við mér fjögur rúm, fjórir svona hægindastólar og síðan voru nokkurn konar kollar, þó með baki við hvern rúmfótagafl.  Það var þröngt setinn bekkurinn, hver með sinn koktail drippandi inn í æðakerfið úr álklæddri platflösku.  Mér var sagt að setjast á einn kollinn. Þar sem ég sneri baki í glugga, rúm og næstum allt vistvænt inni í þessu herbergi var mér nauðugur einn kostur að horfa á gulmálaðan vegg og tvær hurðir sem ég vissi að ég hefði komið í gegn um.

 Þarna fyrir framan hurðina var lífið. Hér inni, þetta var biðsalur dauðans. Og mér varð allri lokið. Ég fór að gráta. Ekki mín vegna heldur vegna allra hinna sem voru með mér þarna inni. 

Þið sem hafið gengið í gegn um þetta skiljið hvað ég er að fara en þið hin, Guð gefi að þið þurfið aldrei að skilja þetta.

Þar sem ekki var búið að tengja mig við koktailinn minn bað ég um að fara fram og tala við minn elskulega sem tók mig í fangið og hughreysti.  Alltaf til staðar minn!  Eftir smá stund gáfum við hvort öðru five og ég þrammaði inn í þetta herbergi sem ég á nú eftir að heimsækja nokkuð oft næstu mánuði.

En nú kemur það skemmtilega við þetta allt saman.  Haldið ekki að minn eðalskrokkur hafi bara ekki næstum neitað að fá þennan fína koktail í æð.  Það var ekki fyrr en í þriðju tilraun sem tókst að troða þessu á sinn stað. 

 Ja hérna Sjaldan hef ég nú flotinu neitað sagði kerlinginog það hefur bara aldrei komið fyrir mig áður að neita koktail hehehhe....... hvað þá svona að fá þetta beint í æð! 

Sem sagt nú er ég komin heim þrælhress og útstungin.  Svo nú á ég frí í viku frá spítala og kærleikssystrum.  

 

 

 

 

 


Vorverkin hafin hér að Stjörnusteini.

-Má ég klippa þennan runna?

-Hvað viltu að ég fari langt niður með þetta hér?

- Af hverju má ég ekki aðeins snyrta þetta líka?

Svona hljómuðu spurningarnar frá mínum elskulega í gær þegar hann æddi hér um landareignina með trjáklippur að vopni eins og óður væri.  Hann er lengi búinn að suða um að fá að klippa tré, runna og rósir en ekki fengið leyfi fyrr en í gær.  Þetta hefur nú verið mitt verk hingað til en nú varð ég að láta honum þetta vandasama verk eftir en auðvitað í minni umsjá og ströngu eftirliti.

Annars fórst honum þetta bara þokkalega úr hendi skal ég segja ykkur. Ég stalst aðeins til að klippa nokkrar rósir og vissi síðan ekki fyrr en ég var komin með hrífuna í hendur og farin að raka afklippurnar.  Úps..... ekki alveg það gáfulegasta enda hætti ég fljótlega þessari vitleysu og fékk síðan aðeins að kenna á því um kvöldið. 

Það sem ég kann ekki að sitja svona og stjórna.  Ætli sé hægt að fara á námskeið nú eða taka eitthvað inn við þessu?    Nei bara spyr.

Vorið sem kom í gær var næstum horfið í morgun þegar ég vaknaði. Jafnvel spörfuglarnir sungu með litlum tilþrifum hér á veröndinni eins og þeir findu á sér að þessi dagur yrði ekki eins sólríkur og góður eins og gærdagurinn. 

Reyndar varð dagurinn góður.  Elma Lind kom í heimsókn með mömmu sinni og pabba og afi setti upp róluna á veröndinni fyrir litla sólargeislann okkar.  Það sem hún stelur manni þessi litla stelpa, algjör dúllurass.

 Við skelltum steikum á grillið og þá veit maður að vorið er að koma, ekki spurning.

 


Hann er kominn með pungapróf á þvottavél og þurrkara.

Í morgun þegar ég loksins komst út úr draumalandinu og drattaðist niður í eldhús beið eftir mér pakki að heiman.  Það sem mér finnst gaman að fá pakka svona óforvarandis, ég kætist eins og fimm ára barn skal ég segja ykkur. 

Innihald pakkans sem Erla vinkona mín sendi mér var bók eftir Randy Pausch, Síðasti fyrirlesturinn.  Ég hef aldrei heyrt um þennan prófessor en skilst að bókin sé vel þess virði að lesa.  Takk fyrir kæra vinkona. Er að ljúka við einhvern Thriller sem ég man ekki einu sinni hvað heitir og síðan ætla ég að taka þessa fyrir.

  Það er ekkert smá mikið sem ég hef innibyrgt af lesefni síðasta mánuðinn. Flest af því hefur nú bara farið inn um annað og út um hitt.  Sumir segja að maður verði svona ruglaður og minnislaus eftir svona langa svæfingu.  Hvað veit ég.

Jæja vinir mínir ætla að skella hér inn smá frétt um minn elskulega svona til gamans. 

Þrátt fyrir að við höfum hér hússtýru er ekki þar með sagt að hún sé hér alla daga þannig að hér verður stundum að taka til hendinni eins og gengur og gerist á öllum heimilum og allt hefur þetta lent á elsku kallinum mínum undandfarið. 

 En satt best að segja hefur hann aldrei verið mikið fyrir húsverk svo fyrsta vikan fór í það að kenna honum á uppþvottavélina, hvernig ætti að raða í hana og hvaða efni væri notað og til hvers hólfin væru. Eftir viku var hann kominn með þetta svona nokkurn vegin á hreint:  Á ég núna að setja á Auto?  Já elskan og loka vélinni síðan varlega ekki skella.- Var síst að skilja í öllum þessi skörðum í diskunum okkar.

Rétt áður en ég fór heim af spítalanum sagði hann mér hróðugur að hann hefði sett handklæði í þvottavélina.  - Flott hjá þér sagði ég.

Þegar heim kom voru samanbrotin handklæðin snyrtilega uppröðuð inn á baðherbergi.  Hann leit á mig og sagði: Sko þetta gat ég alveg aleinn! En af hverju eru þau svona stíf og ómeðfærileg?

-Settir þú þau ekki í þurrkarann og smá þvottamýki í vélina spurði ég ósköp varlega.

-Hehumm... já jú þau fóru í þurrkarann en æ ég vissi ekki hvað þau ættu að vera lengi svo ég bara engdi þau upp blaut...... hvað er þvottamýkir bætti hann svo við alveg bláeygður og ljóshærður.

- það lætur maður í eitt hólfið og það gerir þvottinn svona fluffy.

-OK geri það næst, ekki málið.  Hvernig lítur þvottamýkir út? Ég meina er þetta í brúsa eða dufti?

-Heyrðu elskan, ég fer alveg að komast á ról svo þú skalt ekkert hafa áhyggjur af þessu svo held ég líka að það sé ekki til mýkir svo það verður bara að bíða.

En minn lét sér nú ekki segjast og í hvert skipti sem hann fór í matvörubúðina leitaði hann að þvottamýki en kom tómhentur heim í nokkur skipti og var farinn að segja mér að svoleiðis væri bara ekki til í búðinni með svo mikilli sannfæringu að ég var næstum farin að trúa honum.

Fyrir viku, já þetta er búið að ganga lengi, þá skellti hann hróðugur stórum plastbrúsa á borðið, brosti alveg hringinn og var að rifna úr monti og sagði:  Sko ég fann mýkir!

- Ég þorði ekki einu sinni að brosa en hláturinn sauð í mér:  Nei elskan þetta er ekki þvottamýkir þetta er þvottaefni fyrir ullarflíkur.

- Hvernig í andsk... lítur þessi mýkir út ég bara spyr? 

- Æ vertu ekki að pæla í þessu meir ég skal kaupa þetta fljótlega.

- Minn lætur ekki segjast og daginn eftir var hann búinn að finna rétta brúsann og ég gat farið og sett í vél    hehehehe..... og hann kominn með fullnaðarpróf í þvottavélabuissnes.

Hann er sem sagt búinn að læra á uppþvottavélina, þrífa eldavélina, komin með pungapróf á þvottavél og þurrkara.  Geri aðrir betur á sjötugsaldri en ég hætti ekki á að kenna honum á ryksuguna enda með konu í því.

Svo elska ég þennan mann alveg út af lífinu bara svo þið vitið það. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband