Færsluflokkur: Bloggar

Það liggur eitthvað í loftinu

Ef maður tryði því að dagurinn í dag væri bundinn álögum þá færi maður nú ekki langt frá húsi.  Satt best að segja er ég svona hálft í hvoru að spá í að vera bara inni en það hefur ekkert með almanakið að gera heldur er ég bara hræðilega löt. Held það sé einhver lægð hér innra svo þá er ekki að búast við miklum afrekum á þessu heimili.

Enda hvernig á annað að vera þegar hitastigið fellur niður um 10 til 15° og austanvindar blása hressilega.  Já ég veit þetta er auðvitað eintómur aumingjaskapur en hér sit ég og er búin að draga fram lopapeysu og er vafin inn í 66°norður teppi og er skítkalt. Horfi hér út þar sem þungbúin ský hrannast upp eins og óvættir.  Þau gera aðför að mér ég meina það!  

OK, best að hætta að bulla þetta og koma sér út út húsi, en ég fer ekki úr lopanum, það er sko alveg á hreinu!  Svo kemur gollan líka til með að hjálpa til ef ég skildi nú hendast á hausinn, dregur alla vega úr fallinu og áverkum.

Ætli hundurinn viti að það sé föstudagurinn 13.?  Hann hefur heldur ekki farið út fyrir dyr í dag!


mbl.is Óhappadegi fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Algjörlega á röngum forsendum

Skondinn misskilningur kom upp hjá okkur hjónum um daginn þegar við heimsóttum hafnarborgina Hamborg.  Snemma morguns héldum við á vit ævintýra og byrjuðum á því að fara í skoðunarferð.   Leiðsögumaður bablaði á þýsku í hátalara sem lítið sem ekkert heyrðist úr nema skruðningar en ef eitthvað komst til skila þá var það á óskiljanlegri mállýsku, svo það litla sem við heyrðum fór eiginlega inn um annað og út um hitt.

Þegar bíllinn kom niður að höfninni ákváðum við að fara úr bílnum og ganga úr okkur allt gjammið sem eiginlega var farið að fara í okkar fínu taugar, anda að okkur fersku sjávarloftinu og láta goluna leika við vanga. 

Þar sem minn elskulegi hafði komið oftsinnis til Hamborgar á sínum uppvaxtarárum með fraktskipum barst talið að öllum þessum flota sem lá í höfninni.  Fjöldinn allur af túristafleyjum sigldu fram og til baka í misjafnlegu ásigkomulagi.  Ég gjóa augunum að mínum og sé eitthvað sem glampar svo ég spyr:  Eigum við að fara í siglingu með einhverjum bátnum um höfnina? 

 Hann svarar: Jú við gætum svo sem alveg gert það. 

Síðan koma smá vangaveltur um hvaða bátur yrði fyrir valinu.  Mér leist best á gamlan fljótabát sem ég í fáfræði minni hélt að væri orginal af Missisippy og við kaupum miða og stökkvum um borð rétt áður en landgangurinn var leystur frá.  Við komum okkur fyrir sólarmegin, (ég er svo lítill sjómaður að ég veit aldrei hvað er stjórnborði eða bakborði) og báturinn veltir letilega frá bryggju.

Voða kósí  allt saman.  Eftir svona hálftíma siglingu er mér farið að leiðast þófið.  Andskotinn við sáum varla neitt annað en gámaskip og aftur gámaskip og krana sem tjónuðu þarna eins og risahrammar yfir hræðilegum skrokkum skipanna.  Allt í einu rek ég augun í gám  og æpi upp:  Nei sjáðu SAMSKIP!!!!  Vá.....  einn einmanna gámur innan um öll hin stórveldin og hvað þetta gladdi mig, ég sá allt í einu eitthvað sem ég kannaðist við.  Fyrir mér var ferðinni bjargað, og ég hélt enn í sakleysi mínu að minn væri alsæll þarna innan um gáma og tröllaskip.

Loksins, loksins komum við í land og ég var fyrst frá borði, sver það.  Spyr síðan alveg bláeyg og ljóshærð:  Jæja hvernig fannst þér?

Svarað svona með algjöru áhugaleysi:  Veit ekki, fannst þér gaman?

Ég: Nei það veit hamingjan, næst getur þú farið einn.

Hann: Nú ég hélt að þig langaði svo mikið til að fara í svona siglingu?

Ég:  Ha ertu ekki að grínast, ég var að gera þetta fyrir þig!

Síðan tókumst við í hendur og leiddumst hlægjandi eftir bryggjunni. 

Stundum getur misskilningur orðið til þess að tengja okkur betur saman, og er það vel.  Love Boat 

 


Stundum er maður bara alveg ofan úr afdölum.

Ekki má maður skreppa bæjarleið eina viku þá er eins og gróðurinn taki kipp á meðan svo nú eru allar trjáa, rósa og runnaklippur komnar í hleðslu þannig að ég geti eytt helginni í að snyrta og fegra hér úti. Ekki voru það nú einungis garðplönturnar sem tóku kipp heldur sá ég í morgun að mitt undurfagra hár hafði tekið miklum stakkaskiptum og ég leit út eins og reytt hæna.  Sjálfsagt hefur blessað sjávarloftið haft þessi áhrif svo nú þarf að gera eitthvað róttækt í þeim málum líka.

Annars var ferðin okkar bara hin huggulegasta.  Tekið var á móti okkur sem höfðingjum af General Mills ( Häagen-Dazs) og okkur komið fyrir á Hotel East sem er eitt það mest trend hótel sem við höfum gist á, staðsett í St. Pauli svo auðvitað var kíkt á Reeperbahn eitt kvöldið.  Óskaplega ömurlegt að fylgjast með næturlífinu þar og rusli sem þakti alla götuna hvar sem litið var.  Minn elskulegi fékk létt sjokk og kallar hann nú ekki allt ömmu sína en hann fræddi mig á því að mikla breytingar hefðu orðið þarna í áranna rás og allar til hins verra.  

Ég ætla aðeins að víkja að hótelinu sem við bjuggum á.  Við fengum svokallaði mini suite og vorum að sjálfsögðu voða lukkuleg með það þar sem minn þolir illa þrengsli í hótelherbergjum.  Rúmið var auðvitað king size og var staðsett út á miðju gólfi eins og einhver hefði ekki haft kraft til þess að koma því upp að vegg. 

 Í enda herbergisins var tvöfalt baðkar með nuddi að sjálfsögðu þar fyrir framan var komið fyrir löngu borði og tók það mig dálítinn tíma að fatta að þarna var vaskurinn staðsettur en hann leit út eins og risa kuðungur úr stáli. Ekkert skilrúm bara svona plantað þarna á miðju gólfi.  Ég get svarið fyrir það að mér fannst ég alltaf vera að afgreiða á bar þegar ég stóð þarna og burstaði tennurnar. Datt meir að segja einu sinnu út úr mér:  Hvað má bjóða þér að drekka!

Að sjálfsögðu var allt stýrt með fjarstýringu svo það lá við að ég hringdi í Helga í Lumex til að fá upplýsingar um hvernig ég gæti dregið teppið af rúminu. En það fór ljómandi vel um okkur þessa daga og við skemmtum okkur konunglega enda hvernig var annað hægt þegar gestgjafarnir eru slíkir höfðingjar. 

Næst ætla ég samt að vera búin að afla mér þekkingar á svona smávægilegum hlutum eins og fjarstýrðum gardínum og frussandi vatni í kuðungavaski sem sullaðist út um allt borð þegar maður kom nálægt en ekki vera eins og einhver álfur úr afdölum.  It's All Good 

   

   


Þessi fallegi dagur, þessi fallegi dagur!

Elsku kallinn okkar. Var að hlusta á lagið þitt og fannst það eiga svo vel við á þessum fallega degi.  Okkar innilegustu hamingjuóskir til ykkar Hrafnhildar!  Vonandi kíkið þið í kaffi fljótlega. Borgin skartar sínu fegursta hér núna og við flöggum fána í tilefni dagsins.

Njótið þess að vera til!  Bestu kveðjur og knús frá okkur hér að Stjörnusteini og öðru frændfólki hér í Prag. Heart


mbl.is Bubbi Morthens á afmæli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætti ég að þora?

Ég nenni nú ekki alltaf að fylgja mínum elskulega á hans ferðalögum en vegna eindregnar óskar, og yfirlýsingar hans um ágæti minnar nærveru og hvað ég er skemmtilegur ferðafélagi, ætla ég að láta það eftir honum í þetta sinn. 

Langar bílferðir með mínum eru nú ekki það sem ég vildi kjósa sem dægrastyttingu.  Hann er einn af þeim sem er kominn á leiðarenda löngu áður en ferðin er hafin.  Svona aðeins á undan sjálfum sér.  Þ.a.l. sér maður nú asskotakornið lítið af fegurð fjalla og dala, þar sem brunað er á hraðbrautinni og varla að maður fái pissupásu. 

 Viðkvæðið er oft:  Er ekki bara allt í lagi að stoppa næst?  50 km í næstu resteríu og ég í spreng. 

Ég alltaf svo samvinnuþýð eða þannig:  Ha jú, jú ekkert mál. 

Ferðinni er sem sagt heitið til Hamborgar þar sem minn ætlar að mæta á þriggja daga fund.  Kemur síðan bara í ljós hvað ég dunda mér við á meðan.  Hef nú ekki komið til Hamborgar í mörg ár svo þetta getur orðið spennandi reisa, kannski ætti ég að líta á portkonurnar í Herbertstrasse (heitir hún ekki það fræga gatan) og sjá hvort þær hreyta í mig ónotum eins og seinast þegar við fórum þar um, en þá var ég nú í fylgd með mínum svo ekki skrítið að þær hræktu að mér, fávísri konunni með myndalega manninum. Wink  Spurning um hvort ég þori að taka áhættuna.

Svo nú er að henda ofan í töskur og bara drífa sig á vit ævintýra næstu daga. It's Friday 

 

 

  


Króatarnir bara með læti gagnvart vinum mínum.

Æ, æj, æj,  elsku vinirnir á nú að banna ykkur að ferðast með fullar töskur af ykkar uppáhaldi.  Pylsum, súrsuðum gúrkum og öðru góðmeti.  Ekki að undra þó hálf þjóðin fari í kerfi og afpanti ferðir til Króatíu. Annars má nú held ég aðeins taka á þessum matvælaflutning ykkar elskurnar.

Hvernig ætli sé annars að keyra alla leið til Króatíu í óloftkældum bíl, hvert sæti skipað.  Pabbinn við stýrið, mamman í framsætinu með soðkökur og pylsur í fanginu sem skyggir á allt útsýni.  Afi og amma í aftursætinu með lítinn gutta á milli sín. Á gólfinu er bjórkassi og pokar með tékkneskum mat sem yfirleitt er súrsaður eða reyktur, svo afi og amma geta hvergi sig hreyft og blóðið hætt að leka niður í fæturna.

  Á þaki bílsins er hlass af farangri fjölskyldunnar vel pakkað inn í gamalt teppi og snærað niður.  Ég gleymdi að geta þess að fullorðna fólkið er líka keðjureykjandi, svo strókurinn er ekki bara úr lélegri vél bílsins heldur líka út um opna bílgluggana. 

Nú er ég aðeins að ýkja en maður sér stundum svona ferðalanga hér á vegum úti og verður alltaf jafn undrandi á elju þessa fólks.      


mbl.is Pylsubann angrar Tékka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið væri gaman hér í henni velsu ef enginn væri bardaginn

Jæja þar kom að því að frekar leiðinlegar umræður spruttu upp á blogginu mínu í gær.  Ég var eiginlega alls ekki viðbúin þessu og hafði dálítið gaman að í fyrstu, en fór að leiðast þófið þegar líða tók á daginn.  En þegar maður tekur sterkt til orða sem ég og gerði, þá má auðvitað búast við því að ekki séu allir sammála og myndast getur misskilningur.  Þannig er það bara í henni veslu. 

En gott fólk nú er runninn upp nýr dagur með nýjum verkefnum og við skulum bjóða hann velkominn með öllu því sem honum tilheyrir.

Í gærdag skruppum við aðeins til litlu fjölskyldunnar í Prag til að knúsa þau aðeins áður en þau halda til Íslands.  Við ætlum líka að leggja land undir fót á morgun en þau í næstu viku.  Litla fjölskyldan frá Laufási/Grenivík var líka að fara heim í dag svo allir voru í svona knússtuði. 

Eigið góðan og bjartan dag og elskið hvort annað.   Kisses 

 

 


Við erum ekki ENDUR!

Hvernig dettur Unni Sigurþórsdóttur að svara svona!  Hélt að fólk sem starfaði við umönnun dýra væru dýravinir.  Færsla Jóhönnu Magnúsar- Völudóttur lýsir ótrúlegri grimmd starfsfólks Húsdýragarðsins.  Maður fer ósjálfrátt að hugsa hvort umönnun dýranna sé ásættanleg. 

En fyrst Húsdýragarðurinn vill ekki taka á móti málleysingjunum þá er hægt að fara með þá niður að tjörn og vona að einhver mamman taki munaðarleysingjann að sér. 

Það er líka ekki auðvelt að reyna að útskýra fyrir börnum um eðli náttúrunnar og hvernig ungar geti bjargað sér ófleygir og villtir í stórborg. 

 Ég átti föðursystur sem var sérstaklega elsk að fuglum.  Hún var yfirhjúkrunarkona á Farsóttarheimilinu sem þá var og hét.  Frænka mín, Anna Kjartansdóttir bjó þarna meir og minna, hafði sitt herbergi og út frá því voru svalir.  Þar hafði hún komið fyrir stóru búri og tók að sér að hlúa að veikum og ósjálfbjarga fuglum.  Alla tíð sem hún vann þarna voru að minnsta kosti fjórir til fimm þrestir og einn til tveir krummar. 

Þessir ólíku fuglar voru ekkert aðskildir í búrinu og ég man sérstaklega eftir einum krumma sem hélt til þarna nokkuð lengi og löngu eftir að hann var orðinn ferðafær.  Hann átti það til að sitja á öxl frænku minnar og narta í hennar hrafnsvarta hár. 

Þarna fór merk kona með hjartað á réttum stað hvort sem var við menn eða málleysingja.

 


mbl.is Ekki „bjarga" fuglsungum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn bætist hér við Flóruna í Listasetrinu okkar

Næstu sex vikurnar mun Halldór Guðmundsson, rithöfundur dvelja hér í Listasetrinu Leifsbúð og hlökkum við hjónin til að kynnast þessum víðfræga fræðimanni og rithöfundi í eigin persónu. 

Mér datt í hug áðan þegar himnarnir opnuðust og helltu hér yfir okkur þrumum og eldingum hvort einhver sterk öfl fylgdu þeim hjónum hingað, lætin voru þvílík! Það er ekki óalgengt að fylgjur gesta okkar geri vart við sig hér rétt áður en þeir banka uppá. Nei, verið ekki að taka mig svona alvarlega, ég er hálft í hvoru að grínast.

 En nú hefur stytt upp og sólin er aftur farin að þurrka jarðveginn.  Innkeyrslan hjá okkur varð eitt stórfljót og leist mér satt að segja ekki alveg á blikuna minnug flóðanna sem urðu hér í fyrrasumar.

Hér með bjóðum við Halldór og hans konu hjartanlega velkomin hingað að Listasetrinu.  Njótið vel kæru gestir. 

Best að fara að klippa nokkrar rósir hér úti og setja í vasa, gera smá huggó út í Leifsbúð, já og kampavín í kælinn ekki má gleyma því.


Bio matseðill Vesturlandabúa

Við sátum saman á veitingastað nokkrar góðar vinkonur hér einn sólríkan dag við bakka Viltava (Moldá) með útsýni yfir Karlsbrúnna.  Áin fyrir neðan okkur glitraði í hádegissólinni og skemmtiferðabátarnir lulluðu fram hjá.  Frá einstaka bát ómuðu Jazz tónar frá hljómsveit upp á dekki en frá öðrum undurfagrir tónar Smetana. 

Einstaka túristi veifaði glaðlega til okkar þegar siglt var fram hjá okkur þar sem við nutum þessa sérstaka útsýnis og sötruðum hvítvínið. 

Þjónninn kom með matseðilinn sem var tvískiptur.  Annarsvegar þessi hefðbundni og hinsvegar Bio matseðill sem nýfarinn er að sjást hér á nokkrum veitingastöðum borgarinnar. 

Umræðan snerist fljótlega um þennan Organic seðil.  Við sem búið höfum hér í nokkuð mörg ár höfðum litla trú á að það sem boðið var upp á væri 100% organic og ein hafði á orði að e.t.v. væru þarna ýmis skordýr því nóg væri af þeim hér í landinu.  Og vitnaði í þessa frétt sem birtist nú í Mbl.  Þetta þætti hollur og góður matur, fólk yrði bara að kunna að matreiða þetta á réttan hátt.

Held að um okkur allar hafi farið svona nettur, klígjugjarn hrollur við þessar umræður en þrátt fyrir það ákvað ég að prófa kjúkling af Bio seðlinum. 

Ekki fann ég nú neinn mun á þessu lostæti nema verðið svo ég spurði þjóninn hvaðan þessi fugl kæmi og hann var ansi fljótur til svars og sagði frá Frakklandi.  OK, e.t.v var hann að segja satt en ég var ekki alveg sannfærð.

Satt best að segja held ég að við hér setjum ofan í okkur þokkalega mikið af skordýrum á sumrin.  Hvað haldið þið að ég hafi drukkið margar moskito flugur með kókinu mínu, eða eina og eina vespu með pastanu.  Humm..... vil helst ekki hugsa um þetta.

Ætla að borða framvegis innandyra með net yfir sjálfri mér og því sem ég læt ofan í mig. Beekeeper 

  


mbl.is Ráðlagt að borða skordýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband