Færsluflokkur: Bloggar
1.6.2008 | 10:06
Hugum að fólkinu okkar næstu mánuði
Margir spyrja núna sjálfsagt hver verða eftirköstin? Hvaða sálræn áhrif hafa þessar endalausu hræringar á fólkið sem býr á þessu svæði? Landlæknir Sigurður Guðmundsson bendir á í viðtali við Mbl. í morgun að nú verði að fara að huga að þessum málum ekki bara núna heldur næstu vikur og mánuði.
Það eru svo ótal margir sem geta staðið uppréttir á meðan ósköpin ganga yfir og engin skilur hvaðan sá styrkur kemur. En gleymum ekki að líkaminn okkar er eins og vél og vélina þarf að smyrja reglulega. Ef það gleymist hættir vélin að ganga eðlilega.
Hugum að fólkinu okkar næstu mánuði, gleymum ekki að hringja, spyrjast fyrir og aðstoða eins vel og við getum. Lítið hvatningaorð getur gert kraftaverk.
![]() |
Snarpir kippir í nótt og morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
31.5.2008 | 20:26
Heitt, heitt, heitt hér líka
Hér fór hitinn yfir 35° í skugga í dag og blakti ekki hár á höfði. Við móktum hér í skugga hjónakornin úti á veröndinni og minn elskulegi hafði á orði að það lægi við að hann næði í rafmagnsviftuna til að fá smá hreyfingu á þessa þungu mollu.
Um fjögurleitið fórum við síðan í grill til Egils og Bríetar og ekki var hitinn minni þar inni í miðri borg. Þegar við héldum heimleiðis um áttaleitið sáum við hvar óveðurskýin hrönnuðust upp fyrir framan okkur. Það er nú ekki oft sem maður fagnar rigningunni en þar sem fyrstu droparnir féllu á framrúðu bílsins var næstum því hrópað upp af fögnuði, vá hann er að fara að rigna, guði sé lof!
Við rétt náðum heim áður en þrumuveðrið skall á og nú dansa hér glæringar um himininn og drunur þrumanna eru ansi háværar. Kærkomið regnið steypist niður og á morgun verður aftur komið sumar og sól með 27° í skugga.
Ætla að fara að huga að hundinum hann er svo skíthræddur við þrumuveður, liggur sjálfsagt við fætur fóstra síns og vælir, grey ræfillinn.
![]() |
Sólríkasti mánuður í Danmörku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.5.2008 | 07:55
Hugurinn sækir heim á stundum sem þessum
NÚ HEYRI ÉG MINNAR ÞJÓÐAR ÞÚSUND ÁR
SEM ÞYT Í LAUFI Á SUMARKVÖLDI HLJÓÐU.
Eins og flestir landar okkar fylgdumst við með þeim ósköpum sem gengu yfir suðurlandið í gær og hugur okkar hjá þeim sem lentu í þessum náttúruhamförum. Mildi að ekki urðu alvarleg slys á fólki. Heyrði í morgunfréttum að lítill gutti hefði fæðst fyrir austan mitt í öllum látunum. Dúlluleg frétt það.
Eftir að fréttir birtust um að sá stóri hefði líklega komið strax í kjölfarið varð manni rórra og við hættum á vaktinni um miðnætti. Dóttir okkar er á leið austur í dag og ætlar að dvelja í sumarhúsi yfir helgina með vinum sínum. Ekki veit ég hvernig ástandið er þar og helst hefði ég nú bara viljað vita haf henni í bænum en ætli þetta sé ekki að ganga yfir svo það þýðir ekkert að vera með einhverja móðursýki hér handan hafsins.
Kæru landar, sendum ykkur hlýjar kveðjur og hugur okkar er hjá ykkur öllum.
![]() |
Tíðindalítil nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um leið og ég heyri orðið hlerun fer um mig ískaldur gustur. Áður en við lögðum leið okkar hingað til Tékklands vorum við oft gestir í sendiráði Tékkóslóvakíu í Reykjavík. Það var altalað að hvert orð væri hlerað og hljóðnemar í hverju herbergi. Okkur var ráðlagt að tala varlega jafnvel á okkar eigin móðurmáli því heimilisfólkið skildi meir en það vildi láta uppi í okkar ylhýra tungumáli.
Þegar við fluttum síðan hingað 1991 var maður hvergi öruggur, spæjarar í hverju horni og síminn var hleraður og það var ekkert leyndarmál á þeim tímum. Ekki það að þetta böggaði okkur hið minnsta, okkur stóð svo nákvæmlega á sama hvort fylgst væri með okkur þar sem við höfðum ekkert að fela og síðan hefðu þeir orðið að hafa ansi færan túlk til að túlka okkar tungumál. Ef til vill var það gert, hvað veit ég? Hér var engin óhultur á þeim árum.
Símalínur voru fáar og ófullkomnar svo algengt var að fjórar til fimm fjölskyldur deildu einu símanúmeri. Maður varð að sæta lagi til að ná línu út. Um leið og maður tók upp tólið heyrði maður hvort einhver var á línunni og gat fylgst með fjörugum samræðum eða hávaðarifrildi ef maður var hnýsinn á annað borð.
Ég skal nú samt viðurkenna að við vorum afskaplega fegin þegar ástandið fór batnandi með árunum og síminn varð okkar prívatapparat.
![]() |
Dómarar ekki viljalaus verkfæri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.5.2008 | 16:56
Sýning Auðar Vésteinsdóttur vel tekið hér að Listasetrinu
Vel mætt var á sýningu Auðar Vésteinsdóttur, veflistakonu hér sl. sunnudag. Auður er búin að dvelja hér í Listasetrinu Leifsbúð undanfarnar fimm vikur og lauk dvöl sinni hér með fallegri sýningu á 20 - 25 verkum sem hún hefur unnið að þennan tíma.
Má geta þess að þegar Auður byrjaði að vinna hér voru verk hennar frekar dökk og drungaleg en eitthvað hefur litasinfónían hér í sveitinni haft áhrif því verkin fóru að taka á sig allt aðra mynd þegar líða tók á dvölina. Fólk var sammála því að mikil litagleði og hamingja ríkti í verkunum og var auðvelt að sjá hvað náttúran og birtan hér hefur haft áhrif.
Því miður erum við ekki búin að koma okkur upp vefstól hér svo verkin voru mestmegnis klippimyndir. Það kemur e.t.v. að því að við fjárfestum í vefstól hér fyrir þá listamenn sem kjósa að nota það apparat.
Ég vil nota tækifærið hér og þakka Auði og hennar manni, Sveini fyrir skemmtileg kynni og vonum að þau hafi notið dvalarinnar hér þessar vikur. Góða ferð heim kæru vinir og sjáumst fljótlega aftur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.5.2008 | 09:36
Sumargleðin okkar endaði sem Eurovision partí
Þrátt fyrir eindreginn ásetning minn og loforð bæði hátt og í hljóði um að hér yrði ekki fylgst með Júró var ég kaffærð af gestum mínum á laugardagskvöldið. En hvernig átti annað að vera þar sem 12 Íslendingar voru saman komnir og margir algjörir Eurovision Fan, búnir að fylgjast með undankeppni og alles!
Á laugardaginn buðum við til Sumargleði hér að Stjörnusteini og um fimm leitið renndu hér í hlað kampakátir Íslenskir vinir okkar frá Vínarborg meira að segja með fánabera í forgöngu. Að sjálfsögðu var rætt um Júróið og eftir kvöldverðinn vissi ég ekki fyrr en að búið var að tengja tölvuna við græjurnar og sjónvarpið á eftir hæðinni líka komið á full swing svo undir tók í allri sveitinni. Ég var, þrátt fyrir allan minn góða ásetning komin í Júró partí og þar sem ég er svo rosalega gestrisin, eins og kemur fram í síðustu færslu, þá ákvað ég að horfa fram hjá þessum mistökum í mínu eigin húsi.
Að sjálfsögðu var ég farin að dilla mér í takt við gömlu íslensku lögin og tók jafnvel nokkur spor hér úti á veröndinni gestum mínum til samlætis. Áhugi minn var nú ekki meiri en það að ég varð að spyrja í lokin hver hefði unnið og hvort við hefðum lent ofar en í sextánda sæti.
Annars varð úr þessu dúndur partí fram eftir nóttu og allir í bana-júróstuði, jafnvel hún ég!
Takk fyrir komuna kæru vinir og landar! Sjáumst fljótlega aftur í sama stuðinu hér eða í Vín!
![]() |
Partí hjá Páli Óskari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.5.2008 | 07:27
Óboðinn gest bar að garði
Margir kvarta yfir því að fólk sé alveg hætt að ,,droppa" inn heldur verði að bjóða heim formlega og það er ekkert öðruvísi hér í okkar sveit. Hljóðið í dyrabjöllunni getur jafnvel látið mig hrökkva í kút ef ég á ekki von á neinum.
Um daginn vorum við að dunda hér við útiverkin, gefa hænsnunum og moka flórinn, nei bara segi svona, og eins og á öllum sveitaheimilum var farið í kaffi upp úr hádegi. Við vorum rétt komin inn og bæði gráskítug upp fyrir haus þá er dinglað á bjöllunni. Ég kipptist að sjálfsögðu við svo skvettist úr kaffibollanum og um leið og minn elskulegi tekur upp tólið sé ég mann á skjánum sem ég kannast ekkert við. Minn bara ýtir á hnappinn og opnar hliðið fyrir þessum ókunnuga manni.
Ég spyr: Hver er þetta? Ég lít út eins og niðursetningur!
Hann: Æ, ég var víst búinn að bjóða honum að koma hingað við tækifæri, þetta er Svisslendingur....
Síðan heyrði ég ekki meir því ég romsaði út úr mér: Núna, við erum hér á kafi í garðinum, ég er bara ekkert tilbúin til að taka á móti gestum og síðan mimmaði ég einhver heil ósköp um hvað fólk væri að þvælast hingað óboðið og blablablabla..
Það tekur sem betur fer smá tíma fyrir gangandi að koma hingað upp að húsi frá hliðinu svo ég gat aðeins róað mig niður og var búin að setja upp sparibrosið þegar maðurinn birtist í dyrunum.
Ég góndi á manninn þar sem hann stóð í hvítri skyrtu með bindi og alles en það sem vakti athygli mína var ferðataskan sem hann dró á eftir sér. Í fyrstu datt mér í hug að maðurinn væri einhverskonar Votti. Hvernig í andskotanum datt mínum í hug að bjóða svona fólki hingað en þar sem ég er nú einu sinni Íslendingur og við þekkt fyrir okkar einskæru gestrisni þá brosti ég bara enn breiðar og bauð manninn velkominn.
Um leið hvæsti ég að mínum á milli tannanna á íslensku: Er maðurinn að flytja hingað?
Komumaður stóð enn fyrir utan dyrnar svo ég bauð honum að ganga í bæinn, þá allt í einu beygir hann sig niður, opnar töskuna og nú var ég alveg klár á því að guðsorðið kæmi fljúgandi upp úr töskunni. Nei ekki aldeilis, þarna dró hann upp vínflösku sem hann vildi færa okkur.
Hjúkket hvað mér létti. Ég spyr síðan hvort ég megi ekki bjóða honum einhverja hressingu, vatn, kaffi eða te? Hann svona hváir, bjóst örugglega við einhverju sterkara, en ég hafði nú ekki hug á því að setjast að sumbli með þessum gaur. Þar sem ég fæ ekkert svar spyr ég aftur og enn fæ ég bara svona uml. Ég næstum segi upphátt: Heyrðu góði gerðu þetta upp við þig, vatn, kaffi eða te! það er það sem í boði er! Andskotinn er þetta!
Gestur: Just....hummm.... What are you having?
Ég fremur snögg upp á lagið: Water! Um leið segi ég á íslensku er maðurinn fífl?
Síðan er sest út á verönd og drukkið vatn og ég lét mig hafa það að sitja smá stund svona fyrir kurteisisakir. Lét mig síðan hverfa og hugsaði að minn elskulegi gæti bara setið með þessum hálfvita ég hefði nóg annað að gera við minn tíma.
Eftir svona þrjú korter sé ég hvar minn kemur keyrandi með gest í framsætinu og stoppar þar sem ég stend og segir: Ætla að skila honum niðrá lestarstöð. Mannauminginn hafði sem sagt komið með lest hingað! Það tekur fjórar klukkustundir frá Prag! Og ég held að það fari tvær á dag hér um. Ég spyr minn hvort hann viti hvenær næsta lest fari en hann svarar: Hef ekki hugmynd, ég get bara ekki hugsað mér að sitja lengur yfir honum. Svo bætti hann við: Ég sagðist verða að fara að hjálpa þér við verkin, gæti ekki látið þig púla svona eina allan daginn. Hheheheh mér var dálítið skemmt!
Gestur stígur út úr bílnum og segir brosandi: Thank you soooo very much. It was nice meeting you. I will drop by again one day.
Ég: Please do any time! En hugsaði: En þá verð ég ekki heima vinur.
Hvað hefur orðið um alla þessa rómuðu gestrisni? Ég hálf skammast mín núna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
21.5.2008 | 13:40
Sorgleg grein sem vekur mann til umhugsunar
Þegar ég las þessa grein eftir Ingibjörgu S. Benediktsdóttur í morgun setti mig hljóða. Ef þetta er staðreynd þá er mikið að í okkar fyrirmyndar þjóðfélagi. Sem betur fer hef ég aldrei orðið að horfa upp á slíkar hörmungar í minni fjölskyldu svo erfitt er að dæma en á hinn bóginn get ég heldur ekki rengt frásögn Ingibjargar.
Vonandi vekur þetta fólk til umhugsunar og hvet ég alla til að lesa greinina.
![]() |
Um 20 fíklar látist frá börnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.5.2008 | 08:13
Var engin beinagrind gerð?
Þetta hljómar mjög undarlega og dettur mér helst í hug auglýsingabrella. Auðvitað getur komið upp ágreiningur en að hætta samstarfi á síðustu stundu finnst mér dálítið skondið. The Show must go on!
Ég hef lítið sem ekkert vit á gjörningum hvað þá kynlífsráðgjöf en sem leikmanni kemur mér þetta dálítið spánskt fyrir sjónir. Töluðu þessar konur ekkert saman áður en þær ákváðu að troða upp á Listahátíð? Var engin beinagrind gerð að uppákomunni? Eða hrundi hún við fyrstu kynni?
Ánægjulegt samt að heyra að listamaðurinn og kynlífsráðgjafinn gátu troðið upp hver fyrir sig fyrir fullu húsi.
![]() |
Atriði Dr. Ruth og Marinu féll um sjálft sig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.5.2008 | 10:12
Mér finnst rigningin góð, trallallallalla ó já!
Kærkomnir dropar, dropp, dropp heyrðist hér fyrir utan á laugardag og í kjölfarið fór að rigna hressilega. Ég hugsaði: Umm gott fyrir gróðurinn, en innst inni var ég að hugsa um heimilið innan dyra sem setið hefur á hakanum undanfarnar vikur vegna blíðviðris.
Þegar sólin skín er ég alla daga útivið og dunda hér í garðinum frá morgni til kvölds. Á meðan þvottur hrúgast upp í þvottahúsinu, fataherbergið lítur út eins og táningar búi í húsinu, blöð og bækur út um allt og ísskápurinn tómur vegna þess að ég nenni ekki að eyða tíma mínum á markaðinum, þá dundar mín sér úti við skipulagningu og viðhald. Næ að henda í uppþvottavélina á kvöldin, en það er nú bara svona sýndarmennska skal ég segja ykkur, geri það af algjörri neyð svo ég eigi hreinan bolla fyrir morgunsopann.
Í gær fór ég hamförum í þvottahúsinu, er næstum búin að þvo allan bunkann. Dró minn elskulega með mér í svona ,,Greipt og Gripið" þar sem þú kaupir allt í stórum pakkningum. Minn spurði mig þegar við komum að kassanum: Ertu að opna búð elskan? Það hnussaði aðeins í minni og sagði að hann ætti bara að þakka fyrir þessi innkaup, nú væri hann laus allra mála þangað til í desember.
Og hann rignir enn svo ég get haldið áfram með góðri samvisku að dunda hér innan um húsmunina þangað til hann styttir upp sem ég vona að verði á morgun vegna þess að mér leiðast nefnilega svo asskoti mikið húsverk!
Annað líka, þú getur staðið upp fyrir haus í tiltekt en það sér engin mun nema þú sjálf! Smá pirrandi stundum!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)