Færsluflokkur: Vefurinn
14.8.2009 | 08:55
Endurbyggjum Valhöll á Þingvöllum.
Eigum við svo ekki að hittast einhvern dagin á Þingvöllum og fá okkur snarl saman á Valhöll?
Þetta sagði einn góður vinur okkar þegar við hittumst heima í sumar og við tókum vel undir þessa tillögu. Okkur hafði líka dottið í hug að taka gamla settið þ.e. móður mína og tengdaföður í Þingvallasilung að Valhöll einn daginn á meðan við værum á landinu.
Það var alltaf svo hátíðlegt að heimsækja þjóðgarðinn. Alveg sama í hvernig veðri þú komst það ríkti alltaf einhver dulmögnuð stemmning á svæðinu.
Nokkrum dögum eftir að við komum heim brann Valhöll.
30. júlí keyrðum við hjónin austur á Þingvöll og svona var umhorfs þá.
Þarna stóð Valhöll eitt sinn. Þegar myndin er tekin er verið að tyrfa yfir reitinn.
Ég og sjálfsagt fleiri eigum góðar og ljúfar minningar frá þessum stað alveg síðan við vorum börn.
Nú er búið að skipa í nýja Þingvallanefnd sem á að sjá um þjóðgarðinn og alla framkvæmd á svæðinu.
Ég vona af heilhug að sú nefnd sjái til þess að endurbyggt verði þarna fallegt hótel sem gæti jafnvel þjónað sem lítið snoturt ráðstefnuhótel. Listamenn þjóðarinnar gætu fengið að sýna verk sýn, jafnvel hver og einn fengið eitt herbergi til þess að skreyta með list sinni.
Garðskáli með Flóru Íslands væri líka augnayndi þar sem hægt væri að sitja með góðan kaffisopa.
Að við almenningur gætum aftur heimsótt Valhöll og gert okkur glaðan dag eins og fyrr.
Þjóðgarðurinn er fyrir almenning og þar á okkur að líða vel.
Það nægir ekki að hafa vegasjoppu og upplýsingaborð!
Ég bíð þess að geta aftur komið að Valhöll í nýrri og betri mynd og fengið mér silung úr Þingvallavatni.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.8.2009 | 08:52
Þráinn stóð við sín loforð og er það vel!
Hafa þessir þremenningar ekkert betra að gera heldur en karpa yfir kaffibolla um hvort Þráinn sitji áfram eður ei. Þið sem ætluðu að gera hrossakaupin á ,,Eyrinni" hættið þessum bjánaskap og farið að vinna eða er Alþingi of stór vinnustaður fyrir ykkur? Hvernig væri þá að þið fengjuð ykkar varamenn til að setjast í sætin ykkar og þið færuð heim og hugsið ykkar gang.
Þráinn gerði ekkert annað en að standa við gefin loforð! Stend með þér Þráinn!
Vilja Þráin af þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.8.2009 | 10:00
Við erum sterk þjóð og frábær! Stöndum af okkur alla storma!
Það fór ekki fram hjá okkur á ferð okkar um landið sl mánuð að það vantaði mikið upp á gamla góða baráttuviljann hjá mörgum.
Þrátt fyrir sól og sumaryl fannst mér eins og dimm ský lægju yfir mönnum og málleysingjum. Fólk skiptist í hópa sumir töluðu ekkert um ástandið hvort það var af því þeir höfðu gefist upp eða vildu njóta þess að vera til örlítið lengur veit ég ekki en það voru líka aðrir sem töluðu út i eitt um þetta hryllingsástand. Skömmuðust og rögnuðu yfir öllu en voru ekki með neina lausn á takteinum. Dapurlegt.
Þegar við vorum heima í nóvember í fyrra var viðkvæðið hjá flestum: ,, Hva þetta reddast" eða ,,þetta er nú ekki svo svart" Enda hvernig var hægt að trúa því að nokkrir einstaklingar gætu verið það siðblindir og geggjaðir að þeir gætu komið heilli þjóð á heljarþröm?
Því miður gerðist þetta og það virkilega tók á að horfa upp á allar breytingar sem orðið hafa í þjóðfélaginu á ekki lengri tíma. Verslanir sem áður gengu feiknavel var búið að loka eða hálf tómar hillur blöstu við manni þegar maður kom inn og afgreiðslustúlkan stóð örvæntingafull bak við borðið með hangandi hendi því það var ekkert til að selja lengur og engin tilgangur með því að halda þessu áfram. Þetta næstum stóð skrifað skýrum stöfum á enninu.
Túristabúðir, veitingastaðir og annað sem laðar að ferðamenn voru yfirfull af kátum ferðamönnum í BIÐRÖÐUM og þreyttu starfsfólki sem fékk varla matarpásu vegna þess að það var svo geðveikt að gera. Ég þori engu að spá um framhaldið á þessu en mikið asskoti mega Íslendingar vara sig ef þeir hætla að halda uppi ferðabransanum. Verðlagið er ekki í samræmi við gæði og sum staðar er maður bara einfaldlega tekinn harkalega i nefið.
Það fer ekkert á milli mála að þetta ástand gengur jafnt yfir alla, ríka sem fátæka, börn og gamalmenni. Nú þegar haustið nálgast með sínum dimmu dögum, verðlag hækkar og útivistartíminn styttist þá bið ég fyrir þjóð minni.
Gífurlegt þunglyndisálag á íslensku þjóðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Heppinn Úlfar minn að verða ekki uppiskroppa með hnossætið. Ekki það að ég leggi mér þetta til munns en af því þú ert kominn í fréttirnar vil ég fá að nota tækifærið og þakka þér fyrir að halda uppi staðnum í öll þessi ár.
Geri aðrir betur! Við komum við hjá þér fyrir réttri viku og vorum með gamla fólkið þ.e. aldraða foreldra okkar með okkur. Fengum frábæran mat og þjónustan var þvílíkt til fyrirmyndar en því miður varst þú hvergi nærri gamli minn. En þú getur svo sannalega streyst þínu fólki fyrir staðnum af og til. Frábærir krakkar að vinna þarna og gaman að fylgjast með þeim leysa dæmin sem komu upp á yfirbókuðum staðnum og klukkan rétt um sjö mig minnir að þetta hafi verið laugardaginn 1. ágúst.
Aldrei neitt mál. Þau unnu saman eins og einn maður.
Takk fyrir okkur.
Hvalkjötið dugði Úlfari í sautján ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.7.2009 | 00:27
Það skelfur og titrar en bara innra með mér.
Sko konan í viðtalinu í tímaritinu Vikunni talaði með fyrirvara eða þ.e.a.s. skjálftinn getur komið á hverri stundu eða jafnvel eftir nokkra daga svo ég hangi hér enn í dyraopinu og þori ekki að hreyfa legg né lið. var næstum búin að skrifa li. fannst það bara eitthvað svo dónó.
Jenný er búin að kommentera hér að allir sem hafa tjáð sig hér á síðunni að ofan séu afskaplega auðtrúa á Gróusögur og hindurvitni. Hehehehe...er eitthvað svo rosalega sammála henni eru allir á þessu landi ekki alveg í lagi?
En................
Ég þori ekki úr hurðagættinni enda búin að upplifa þvílík undur og stórmerki þessar tvær vikur sem við erum búin að dvelja hér.
Á þessu landi upplifir maður bara undur og stórmerki sem hvergi annars staðar finnast á jarðríki. Á hverjum degi verður þú fimm sinnum kjaftstopp og fimm sinnum færðu hláturskast og fimm sinnum heldur þú að það sért þú sem ert hálfvitinn en ekki landinn.
Úllallala ansi var að vita það!
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
5.7.2009 | 09:50
Häagen - Dazs opnar aftur í Prag eftir breytingar
Í gær opnuðum við aftur Häagen-Dazs ísbúðina okkar eftir miklar breytingar. Í stað þess að selja ís í anddyrinu á Restaurant Reykjavík eins og við gerðum hér áður tífölduðum við plássið og tókum hluta af gamla Rest. Reykjavík þegar við seldum staðinn. Íssbúðin er núna á þremur hæðum og ein sú glæsilegasta í allri Prag.
Úrvalið er miklu meira en áður og þjónustað er á borðin bæði úti og inni.
Þessar myndir voru teknar í gærkvöldi. Þetta eru hægindin á neðri hæðinni
En hér sést í hluta setustofunnar á efri hæðinni.
Ég veit að það verða margir ánægðir núna því fólk hefur beðið spennt eftir því að við opnuðum aftur.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.6.2009 | 18:06
Undir húsveggnum hér og þar.
Ég sat undir húsvegg með syni mínum á laugardaginn og þar sem við nutum þess að láta júnísólina verma okkur sagði Egill: ,,Mamma veistu að það er alveg óþarfi að spyrja þig hvernig þú hafir það" Ég pírði augun á móti honum og júnísólinni og hváði:,, Ha nú?" -Ja sérðu, maður þarf bara að opna bloggið og ef þú hefur ekki bloggað þann daginn þá veit maður að þú hefur það lousy en ef maður sér færslu frá þér þá veit maður að þú ert í lagi sagði hann og brosti sínu fallega brosi á móti mömmu sinni sem hafði þá ekkert bloggað í nokkra daga.
Humm, en bara svo þið vitið það þá hef ég það reglulega skítt í dag en ætla samt að setja hér inn litla færslu. Verð víst að fara í sprautu í fyrramálið en samt er þetta allt á uppleið og ég verð fín eftir nokkra daga. Ekkert helvítis væl núna þegar þetta er alveg að verða búið!
Orðalagið sem ég notaði hér að ofan ,,að sitja undir húsvegg" fékk mig til að fljúga á vit minninganna og ég var allt í einu orðin lítil stelpa sitjandi undir húsvegg með Sigrúnu vinkonu minni.
Við sátum á teppi og dúkkurnar okkar hjá okkur. Við vorum í mömmuleik. Það var sunnudagur og sól skein í heiði. Mín dúkka hét Pressý og var með ,,ekta hár" man ekki hvað Sigrúnar dúkka hét en mig minnir að það hafi verið negrastrákur.
Ég átti forláta dúkkuvagn svona mínitur af Pedegrí vagni. Vagninn minn bar af öllum dúkkuvögnum í hverfinu enda keyptur í útlöndum og ég var ofsalega montin með hann og þarna stóð hann við hlið mér og glampaði á krómaðar gjarðirnar í sólinni.
Hvernig var það þarna í denn var alltaf sól á sumrin? Alla vega var alltaf sól hjá mér og við vinkonurnar spásseruðum í mjallahvítum sportsokkum með risa slaufur í hárinu og ýttum dúkkuvögnunum á undan okkur upp og niður Hólmgarðinn sem þá var varla hægt að kalla götu heldur leit meira út sem moldartröð. Reyndar máttum við aldrei, alla vega ekki ég, fara niður fyrir millibilið, það bjuggu villingar fyrir neðan búð. Svanhvít mín og þið hin sem bjugguð þarna, ef þið lesið þetta þá bara brosa með mér núna.
Eftir göngutúrinn settumst við aftur undir húsvegg og plokkuðum drulluslettur af hvítum sportsokkunum og vonuðumst til að mæður okkar myndu ekki taka eftir því hvað við vorum orðnar skítugar til fótanna. En hvernig átti annað að vera þar sem við höfðum skondrast á milli drullupolla með dúkkuvagnana okkar.
Jahá það voru þarna drullupollar svo það hlýtur að hafa rignt líka á þessum árum.
Á meðan við biðum eftir að vera kallaðar í matinn hlustuðum við á Séra Jón Auðuns jarma yfir messugestum því ómurinn frá útvarpsmessunni barst út um eldhúsgluggann og við fundum ylminn af lærinu sem kraumaði í ofni mæðra okkar.
Ef ég man rétt þá hef ég sjálfsagt fengið mér forrétt þarna við húsvegginn. Ég var nefnilega dálítið sérkennilegur krakki. Mér nægði ekki að éta hundasúrur eins og allir hinir krakkarnir gerðu heldur át ég gras eins og kýrnar. Það hlýtur að hafa vantað helling af einhverjum efnum í mig þegar ég var að alast upp því ég lét mér til munns hin ólíkustu efni jarðar.
Já ég var hrikalega spes krakki.
Meir um það seinna.
B.T.W. Súkkulaðikakan klikkaði aðeins. Á að skila góðum kveðjum frá mínum elskulega til ykkar allra sem standið með honum í blíðu og stríðu hér í eldhúsinu að Stjörnusteini. Hann tók það fram í dag að hann vildi svo gjarna hitta þessar vinkonur mínar hehehe... ekki skrítið eins og þið dásamið hann í bak og fyrir.
17.6.2009 | 10:44
Gleðilega þjóðhátíð kæru landar - Hátíðarhöldin í beinni.
Það ríkir mikil þjóðerniskennd hér í eldhúsinu mínu núna þar sem hornablástur hljómar hér frá tölvunni og við ég og hann Erró minn hlustum með andakt á Öxar við ána spilaða af merkum hornleikurum Íslands. Það er að segja ég hlusta en hundurinn gólar upp í sumarsólina sem skín hér að tilefni dagsins.
Ég er ein heima (og hundurinn) eins og stendur þar sem gestir okkar brugðu sér af bæ og skondruðust í bæinn. Hér áður fyrr var maður nú venjulega komin niður í borg og búin að skreyta Restaurant Reykjavík með fánum og blöðrum þennan dag en þar sem það er liðin tíð þá læt ég duga að horfa hér á aðeins einn fána lýðveldisins blakta í golunni við Stjörnustein.
Oft hefur verið hér glatt á hjalla á þessum degi og við tekið á móti mörgum góðum gestum í tilefni dagsins. Í dag verður hér fámennt og góðmennt.
Ég heyri að ekkert bjáti á óeirðum á Austurvelli eða það tilkynnti þulan hér fyrir nokkrum mínútum. Er fólk að búast við pottaliðinu á sjálfan þjóðhátíðardaginn? Er það ekki einum of mikið vesen, held það verði alveg nóg um uppákomur í höfuðborginni í dag þó við getum verið laus við pottaglamur og leifaslag.
En nú heyri ég að hátíðargestir eru sestir á stólana sína við hlið Jóns Sigurðssonar og áhorfendur sem sagt sauðsvartur almúginn standi stilltur bak við reipin þar sem lögreglan heldur vörð um svo enginn geti laumast að yfirstéttinni.
Ágætu landar GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ!!!!!!!!!!
VERIÐ STILLT OG PRÚÐ OG GANGIÐ HÆGT UM GLEÐINNAR DYR Í DAG!!
Góðar og hlýjar kveðjur heim frá okkur héðan að Stjörnusteini.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.6.2009 | 15:55
Flautuhjónin eru að lenda núna hér í Prag.
Nú fer að færast líf aftur í Listasetrið þar sem von er á Guðrúnu Birgisdóttur og Martial Nardeau hingað hvað úr hverju. Þá megum við búast við því að heyra ljúfa flaututóna hljóma frá Leifsbúð bara svona með morgunkaffinu.
Hugsið ykkur hvað við erum heppin, við þurfum ekki einu sinni að sækja konserta þeir bara koma hingað til okkar frábæru listamennirnir á færibandi ár eftir ár.
Hjartanlega velkomin kæru flautuhjón hingað í sveitina okkar. Vonandi eigið þið eftir að njóta dvalarinnar hér næstu vikukurnar og fá innblástur héðan úr okkar fallega umhverfi.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.6.2009 | 20:06
Hraunmolarnir okkar voru festir á þröskuldsbút.
Mikið hefði verið gaman að standa í sporum forseta Alþingis og taka í hlýja hönd friðarleiðtogans frá Tíbet.
Hraunmolinn sem Dalai Lama var færður vakti athygli mína enda minnti mig óneitanlega á grip sem við hjónin hönnuðum fyrir all mörgum árum hér í Tékklandi.
Þannig var að árið 1994 að ég held, ákvað ég að taka þátt í alþjóðlegum jólabazar hjá International Womens Club. Þar sem ég var ein frá Íslandi og varð að koma með eitthvað þjóðlegt á söluborðið ákvað ég þegar ég fór heim um sumarið að fylla nokkra poka með hraunmolum og flytja með mér út.
Þá er það sem sé upplýst hér að ég stal hrauni og flutti með mér úr landi.
Þegar heim kom var hafist handa við að hanna mynjagrip frá Íslandi. Minn elskulegi kom með þá hugmynd að festa hraunmola á viðarkubb og þar sem við vildum halda verðinu í hófi keyptum við nokkra þröskulda, söguðum í búta og lökkuðum svarta. Hraunmolanum var síðan komið fyrir með skrúfu minnir mig frekar en nagla ofan á bútnum og til að gera þetta seljanlegra létum við útbúa skildi sem á stóð GREETING FROM ICELAND sem var síðan komið snyrtilega fyrir á hlið þröskuldsins.
Þetta auðvitað rann út á jólabazarnum ásamt íslensku síldinni sem ég nota bene stal ekki og ég safnaði vel í sjóð sem rann til fátækra barna.
Nú er sem sagt einhver listamaður búinn að stela hugmyndinni okkar og farinn að stórgræða, shit svona missir maður hvert tækifærið á eftir öðru út úr höndunum bara fyrir eintóman klaufaskap.
Man hvað mér fannst hugmyndin frábær á sínum tíma en var auðvitað búin að steingleyma henni þar til ég sá þetta ferlíki sem blessaður maðurinn fékk í dag afhent með viðhöfn.
Verð að segja það að mér fannst okkar útgáfa fallegri, eitthvað svona nettari.
Hvernig ætli það sé núna með hraunið fylgir vottorð eins og með kjötinu?
Nei segi bara svona og svo var ég að velta öðru fyrir mér líka ætli hann verði látinn borga yfirvikt?
Dalai Lama í Alþingishúsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt 3.6.2009 kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)