Færsluflokkur: Matur og drykkur

Þetta Aloa Vera er farið að fara aðeins í mínar fínustu.

Það er endalaust verið að troða í mig heilsusamlegu viðbiti. Ég er bara ekkert sérstaklega móttækileg fyrir svoleiðis gumsi og ef einhver vill ólmur að ég prófi þetta eða hitt aðeins vegna þess að það sé svo heilsusamlegt fer ég hreinlega í baklás.

Undanfarið hef ég fengið svo mikið af þessu Aloa Vera kjaftæði að ég er komin með hálfgerð útbrot og er alveg klár á því að þau eru afleiðing af því að allir eru að troða að mér kremum, olíum og ég tala nú ekki um tei sem ég á núna hér í pakkavís uppi í skáp.  Halló, eða já sæll, sko ég drekk ekki te!!!!!!!!!!!!  alveg sama hversu heilsusamlegt það er.

Eftir kvöldmatinn hér að Stjörnusteini sem var ekkert sérstaklega óheilsusamlegur, Tandori kjúlli með steiktu grænmeti, Jasmin hrísgrjónum og dreypt á Cianti rauðvíni til að skola þessu niður röltum við hjónin yfir í Leifsbúð til að heilsa upp á flautuhjónin.

Eftir að hafa verið kynnt fyrir eðal Mozart flautu og rabbað um heima og geima vildi Guðrún endilega gefa mér einhvern heilsudrykk sem væri allra meina bót og gerði húðina svo mjúka.

Vegna þess að ég er með afbrigðum kurteis að eðlisfari vildi ég ekki afþakka drykkinn og þáði bara svona rétt neðan í glasið. Ég bjóst við einhverju heimalöguðu en þetta er framleitt hér í landi Bóhema og kemur í plastflöskum eins og vatnið.

  Nota bene mín húð er eins og barnsrass eftir chemo meðferðina svo ég þarf ekkert á einhverjum drykk að halda til að gera hana mýkri, þá bara fengi ég enn fleiri sár þar sem húðin er viðkvæm eins og silki en eins og ég sagði ég vildi vera kurteis þess vegna smakkaði ég á þessum Aloa Vera drykk.

Ég fór mjög pent í þetta og þegar ég var búin að kyngja spurði Guðrún: ,, Jæja og hvernig finnst þér?"   Ég reyndi að gretta mig sem minnst um leið og ég sagði:  , Hehem  sko þetta smakkast eins og útþynnt sykurvatn þar sem Opal brjóstsykur er búinn að liggja í bleyti og vatnið búið að standa út í sólinni í sólarhring, sem sagt hræðilega vont" 

Hrikalegt að vera svona hreinskilin.  En mér fannst þetta vera þannig á bragðið. 

Hvers vegna eru allir að berjast við að troða í mig einhverju heilsusamlegu?  Bara svo þið vitið það áður en ég kem heim þá finnst mér allt svoleiðis hræðilega vont!  

 

 


Undir húsveggnum hér og þar.

Ég sat undir húsvegg með syni mínum á laugardaginn og þar sem við nutum þess að láta júnísólina verma okkur sagði Egill: ,,Mamma veistu að það er alveg óþarfi að spyrja þig hvernig þú hafir það"  Ég pírði augun á móti honum og júnísólinni og hváði:,, Ha nú?"  -Ja sérðu, maður þarf bara að opna bloggið og ef þú hefur ekki bloggað þann daginn þá veit maður að þú hefur það lousy en ef maður sér færslu frá þér þá veit maður að þú ert í lagi sagði hann og brosti sínu fallega brosi á móti mömmu sinni sem hafði þá ekkert bloggað í nokkra daga.

Humm, en bara svo þið vitið það þá hef ég það reglulega skítt í dag en ætla samt að setja hér inn litla færslu.  Verð víst að fara í sprautu í fyrramálið en samt er þetta allt á uppleið og ég verð fín eftir nokkra daga.  Ekkert helvítis væl núna þegar þetta er alveg að verða búið!

Orðalagið sem ég notaði hér að ofan ,,að sitja undir húsvegg" fékk mig til að fljúga á vit minninganna og ég var allt í einu orðin lítil stelpa sitjandi undir húsvegg með Sigrúnu vinkonu minni. 

Við sátum á teppi og dúkkurnar okkar hjá okkur.  Við vorum í mömmuleik. Það var sunnudagur og sól skein í heiði.  Mín dúkka hét Pressý og var með ,,ekta hár"  man ekki hvað Sigrúnar dúkka hét en mig minnir að það hafi verið negrastrákur. 

 Ég átti forláta dúkkuvagn svona mínitur af Pedegrí vagni. Vagninn minn bar af öllum dúkkuvögnum í hverfinu enda keyptur í útlöndum og ég var ofsalega montin með hann og þarna stóð hann við hlið mér og glampaði á krómaðar gjarðirnar í sólinni.

Hvernig var það þarna í denn var alltaf sól á sumrin?  Alla vega var alltaf sól hjá mér og við vinkonurnar spásseruðum í mjallahvítum sportsokkum með risa slaufur í hárinu og ýttum dúkkuvögnunum á undan okkur upp og niður Hólmgarðinn sem þá var varla hægt að kalla götu heldur leit meira út sem moldartröð. Reyndar máttum við aldrei, alla vega ekki ég, fara niður fyrir millibilið, það bjuggu villingar fyrir neðan búð.  Svanhvít mín og þið hin sem bjugguð þarna, ef þið lesið þetta þá bara brosa með mér núna.

Eftir göngutúrinn settumst við aftur undir húsvegg og plokkuðum drulluslettur af hvítum sportsokkunum og vonuðumst til að mæður okkar myndu ekki taka eftir því hvað við vorum orðnar skítugar til fótanna.  En hvernig átti annað að vera þar sem við höfðum skondrast á milli drullupolla með dúkkuvagnana okkar.

Jahá það voru þarna drullupollar svo það hlýtur að hafa rignt líka á þessum árum.

Á meðan við biðum eftir að vera kallaðar í matinn hlustuðum við á Séra Jón Auðuns jarma yfir messugestum því ómurinn frá útvarpsmessunni barst út um eldhúsgluggann og við fundum ylminn af lærinu sem kraumaði í ofni mæðra okkar.

Ef ég man rétt þá hef ég sjálfsagt fengið mér forrétt þarna við húsvegginn.  Ég var nefnilega dálítið sérkennilegur krakki.  Mér nægði ekki að éta hundasúrur eins og allir hinir krakkarnir gerðu heldur át ég gras eins og kýrnar. Það hlýtur að hafa vantað helling af einhverjum efnum í mig þegar ég var að alast upp því ég lét mér til munns hin ólíkustu efni jarðar. 

Já ég var hrikalega spes krakki. 

Meir um það seinna. 

B.T.W.  Súkkulaðikakan klikkaði aðeins.  Á að skila góðum kveðjum frá mínum elskulega til ykkar allra sem standið með honum í blíðu og stríðu hér í eldhúsinu að Stjörnusteini.  Hann tók það fram í dag að hann vildi svo gjarna hitta þessar vinkonur mínar hehehe... ekki skrítið eins og þið dásamið hann í bak og fyrir.

  


Taka tvö í eldhúsinu að Stjörnusteini

Þú vogar þér ekki að blogga um þetta Ía fyrr en búið er að smakka á tertunni sagði minn elskulegi þar sem ég sat við tölvuna í eldhúskróknum.  - Ha nei, nei sagði ég en auðvitað varð það til þess að þessi færsla er nú að renna hér út í tómið. 

Nú stendur sem sagt yfir taka tvö á súkkulaðikökubakstri hér í eldhúsinu okkar og ég berst við að halda mér á mottunni og skipta mér sem minnst af gjörningnum.

Þið sem fylgst hafið með hér munið eftir súkkulaðikökubakstri míns elskulega fyrir nokkrum vikum.  Nú sem sagt átti að reyna að bæta um betur því eins og þið eflaust hafið tekið eftir þá gefst minn ekki upp fyrr en í fulla hnefana. 

Gjörningurinn byrjaði hér snemma í morgun og ég sá að hann barðist við að fara eftir uppskriftinni minni, alla veg lá hún opin á borðinu.  Það datt út úr mér svona af og til:  Það eru til bollamál og mæliskeiðar.  Það á að hræra smjörið og sykurinn saman FYRST!!!! 

Þegar hann var búinn að hræra vel og lengi þá kom að því að finna form og þar sem mér fannst hann vera búinn að dúlla í þessu allt of lengi sagði ég:  - Settu þetta bara í skúffukökuform.  Það átti ég auðvitað ekki að segja því hann fór alveg í baklás og þverneitaði að gera eins og ég vildi.  Tók út klemmuform og spurði á að smyrja það?  Ég játti því og með það skellti hann öllu deiginu í formið og inn í ofn á 150°  

Ég þagði en vissi að með þessu færi kakan að falla svo ég sagði:  Veistu ég held þú verðir að hækka hitann og hafa kökuna aðeins lengur en stendur í bókinni.  Hann hegndi þessu svona með hangandi haus en gegndi samt.

Kakan kom út og ekki svo slæm.  Þá kom að kreminu sem hann gerði ,,his way"  hafið þið til dæmis séð súkkulaðikrem hrært í laukskrerara þessum þið vitið litlu sem taka einn lauk eða tíu olivur.  Ekki ég  en honum tókst að troða þarna ofaní smjöri, einu eggi og kakó (engin flórsykur) hehe..... ástæðan fyrir að þetta apparat var notað:  Hrærivélaskálin var í uppþvottavélinni og ég benti honum á að við ættum svona BLENDER, neip I´m going to do it MY WAY darling!!!!!!!!!  OK ! 

Þessu gumsi var síðan hellt á kökuna sem hann var búinn að skera snyrtilega í tvo botna.  Skellt saman og soðkrem ,,his way" (ég kalla það soðkrem því hann sýður það í potti)  sett ofaná og skreytt með silfurkúlum. 

Not bad skal ég segja ykkur.      

Nema hvað ég bað hann vinsamlegast um að færa kökuna aðeins frá eldavélinni þar sem brúna sósan sem hann var að búa til um leið og kremið, kraumaði í potti.  Þegar hann fór að sigta laukinn og kryddið úr soðinu þá gat ég ekki setið lengur á mér.  Mér finnst nefnilega ekkert gott að hafa lambakjötskeim af súkkulaðiköku.

Ef ég vissi ekki betur gæti ég haldið að hann væri náskyldur Jamie Oliver, það eru svipuð vinnubrögðin í eldhúsinu.  Báðir frábærir kokkar en frekar messy.

Nú bíður kakan inn í  kæli eftir að litla Prag fjölskyldan komi og smakki á herlegheitunum. Og ég bíð eftir að fá yfirhalningu þegar þessi færsla er farin út í tómið í óþökk míns elskulega.

Læt ykkur vita hvernig til tókst seinna í dag.

 

 


Af Hnallþórum og það að taka viljann fyrir verkið.

Helgin liðin.

Nú er þetta að verða helv... töff. Virðist ætla að ná saman á milli gjafa.  Enginn svona opsadeisí dagur lengur. Skil alveg núna fólk sem neitar að ganga í gegn um þetta trekk í trekk en það góða við þetta er þó að þetta tekur allt enda.  Eftir mánuð verð ég farin að dansa aftur.

Ég var búin að segja ykkur að ég á besta og elskulegasta eiginmann í heimi það versta er að ég læt hann allt of sjaldan vita af því. Hann reynir allt hvað hann getur að létta mér lífið þessa dagana en stundum er ég bara ekkert nema fýlan og finnst hann bara eigi að láta hluti eiga sig, ég ætti að geta gert þetta sjálf.

Ég hafði hugsað mér fyrir helgi að nú ætti ég að skella í eina klessu svona til málamynda ef einhver ræki hér inn nefið en það varð ekkert úr framkvæmdum en stunum er eins og við hjónin hugum nákvæmlega það sama svo í gærmorgun tekur minn bökunarbókina mína og byrjar að hræra í súkkulaðiköku. 

Ég lét þetta fara í pirrurnar á mér og varð hrikalega fúl á móti. Hann átti bara ekkert með það að taka hugsunina frá mér og færa hana til raunveruleikans.  Andsk... frekja og svo líka það að hann kann ekkert að baka!  Flest annað fer honum vel út hendi en bakstur er eitthvað sem hann hefur alls engin tök á. 

Enda kom það í ljós þegar hann, þetta líka montinn, skellti  Hnallþórunni á borðið fyrir framan tengdadóttur og son.  Kakan var kolfallin en til að bæta það hafði hann sullað saman súkkulaði og einhverju fleiru og skellt yfir svo flæddi yfir barmana á kökudiskinum. Bar þetta svo fram með þeyttum rjóma svona sem punktinn yfir i-ið.  

Ég sem hafði fylgst með aðförunum við baksturinn sagði ekki orð en tengdadóttirin sagði svona frekar pent:  Hvað er nú þetta?   Ég sagði að við yrðum að taka viljann fyrir verkið hann væri búin að hafa mikið fyrir þessu allan morguninn.  Tengdadóttirin leit sposk á mig og sagði:Þú hefðir nú aldrei borið þetta á borð.  Svona slys hefði farið beint í ruslið.

Kakan smakkaðist samt alveg ágætlega.

Það sem ég elska þennan mann, það er alveg dæmalaust! 

 

 

 


Getur einhver vitringurinn hannað rafmagnsflysjara fyrir aspas.......

Fáir fussa við ferskum aspas með ítalskri pharma skinku og Hollandaise sósu eða hvað?  Nei held ekki en mikið óskaplega er nú þessi athöfn við að flysja þetta frábæra grænmeti þreytandi og seinlegt. En tilhugsunin um þetta ljúfmeti í munni gerir það að verkum að þú lætur þig hafa alla þessa fyrirhöfn.

.......ég skildi glöð borga vel fyrir þannig græju. Hann (flysjarinn) mætti líka þjóna í víðtækari tilgangi þá er ég að hugsa um annað gott grænmeti sem við stöndum sveitt við að flysja áður en skellt er í pottinn. Nú segir einhver, hva ertu að flysja, þá helst vítamínið ekki í gærnmetinu.  Já elskurnar mínar við hér á þessu heimili étum ekki skrælling, síðan lítur grænmetið svo miklu fallegra út flysjað.   

Það var Þýsk vinkona mín sem kenndi mér, konunni úr norðri hvernig best væri að hantera og elda aspas, þennan góða vorboða mið Evrópu. Ég sýð hann alltaf í sykurvatni það gerir reginmun á bragðinu.  En mikið vildi ég að einhver vitringur gæti fundið upp annað verkfæri en þennan venjulega aspasflysjara til að létta okkur verkið.  

Af hverju er ég að pæla í þessu núna jú vegna þess að ég stóð í nærri einn tíma í fyrradag við að flysja aspas sem ég ætlaði að hafa í hádeginu handa gestum mínum. En það var þess virði og þessir sænsku vinir okkar sem komu hingað jömmuðu og ummuðu yfir góðgætinu.

Í dag skín sólin eins og fyrr og kominn tími til að koma sér á fætur og finna einhver smart sumarföt því nú skal halda til afmælisveislu í hádeginu.  Við vinkonurnar ætlum að halda surprise party fyrir Írska vinkonu okkar sem varð sextug í síðustu viku. 

Dagurinn er sem sagt að byrja vel og verður vonandi einn af þessu opsadeysí dögum.

 

 


Salt er ekki bara salt.

Það er talað um að vinna fyrir saltinu í grautinn. En vitið þið að það er til margskonar salt.  Ég var nú ekki betur informeruð en það fyrir viku að ég vissi ekki betur en að salt væri bara salt. Jú hafði heyrt um mismunandi salt eftir því hvaðan það kom en að það væri svona mikill munur því hafði ég aldrei pælt í. Fyrir mér var bara til borðsalt, sjávarsalt, og síðan þetta grófa sem fiskurinn er saltaður upp úr  en nú veit ég betur og get frætt ykkur um það að salt er ekki bara salt, það er mismunandi salt, salt og sumt jafnvel með sætukeim. 

 Alveg hreina satt. 

Svo nú þegar þig farið að grilla á eftir því ég geri nú ráð fyrir að þrátt fyrir kosningar verði fólk að næra sig þá er ekki verra að pæla aðeins í saltinu sem þið látið í matinn.  Annars höfum við á þessu heimili varla notað salt í mat í mörg ár þess vegna kom það okkur dálítið að óvöru þegar við dvöldum í Wirzberg um síðustu helgi og mínum elskulega var boðið upp á að smakka sex tegundir af salti áður en steikin var krydduð. Hélt bara ekki að salt væri notað á fimm stjörnu veitingastað en sjálfsagt eitthvað inn í dag. 

Hvernig salt má bjóða herranum?  Suður-Afrískt, Algarve, Hawaii, Himalaya eða Peru.

Viti menn það var munur á þessum söltum, sumt ansi parfumerað, annað með sæt-saltbragði.  Sem sagt salt er ekki bara salt.  Það er mikill munur á.

Fyrsti aspasinn 2009 Ef vel er að gáð getið þið séð hluta af saltstaukunum fyrir frama mig hér á myndinni.  Þarna er ég að gæða mér á fyrsta aspasnum þetta árið.  Jammí, elska aspas með Hollandaise.

Og fyrst ég er komin á kaf að segja frá veitingastaðnum þá verð ég að geta þess að nú hafa steikarhnífar breist mikið.  Nei elskurnar það er ekkert eðalstál í þeim lengur heldur keramik, segi og skrifa KERAMIK.  Við héldum fyrst að þetta væri plast og væri rétt fólki sem þeir héldu að gætu farið sér eða öðrum að voða með venjulegum hnífum.  Að við litum svona hrikalega krimmalega út að okkur væri ekki treystandi fyrir venjulegu áhaldi hehehe en nei þetta er keramikhnífur og okkur sagt að væri líka alveg rosalega inn í dag.

Nýjasti steikarahnífurinn úr keramik  Hér má sjá minn elskulega munda hnífinn úr hvítu keramik.  Vígalegur enda bað ég hann að lyfta áhaldinu svo ég gæti fest á filmu.

Jæja fólkens, nú kjósið þið rétt og njótið síðan kvöldsins með vinum og ættingjum.  Eigið góða og skemmtilega kosningavöku.  Hér verður farið snemma í rúmið enda ekkert úthald til að vaka hér fram eftir öllu.  Ætlum þess í stað að vakna við sólarupprás og hafa hér kosningabrunch með fyrstu tölum.


Andskotan ekkert fútt i Hanastélinu í morgun.

Yfirleitt þar sem ég hef mætt í Hanastél (cocktail party á góðri Íslensku)  hefur mér sjaldan leiðst og stundum jafnvel bara frundist þræl gaman.  Ég hef kynnst fjöldann allan af fólki í þannig samkvæmum bæði skemmtilegu og miður skemmtilegu. Stundum hefur maður orðið fyrir hrikalegum vonbrigðum með veitingarnar en stundum líka fengið algjört lostæti.

Það er nú það.

Ég verð nú að segja að Hanastélsboðið sem ég var boðin til í morgun var ekki alveg það skemmtilegasta sem ég hef farið í.  Vertarnir sem tóku á móti gestunum voru afskaplega ólíkar.  Önnur brosti út að eyrum og var ekkert nema elskulegheitin af hinni lak fýlan og svipurinn sagði eitthvað á þessa leið:  Guð hvað ég nenni þessu ekki, vonandi fer þessum gestum fækkandi hvað úr hverju.  Ég forðaðist að tala við hana á meðan ég dvaldi þarna þessar tvær klukkustundir. Enda sá sú brosmilda um að halda uppi small talk öðru hverju við gestina.

En blessaðir gestirnir voru ekki skrafhreifnir það verð ég nú að segja. Allir höfðu komið sér fyrir eins vel og hugsast gat, tek það fram að ég lenti í betri sætum í morgun, sem sagt rúmi.  Allir voru með sinn cocktail misjafnlega sterkan auðvitað, allt eftir óskum hvers og eins.  Einstaka gestur brosti til næsta manns en mér fannst nú sem öllum leiddist heil ósköp í þessu partýi enda engin lifandi músík og ekki heldur úr hljóðkerfi.  Tveir voru með Ipod sá ég og fannst mér það góð hugmynd. OK við vorum þó blessunarlega laus við leiðindar ræðuhöld á Tékknesku sem yfirleitt eru haldin í svona gillum.  Þvílikur tortúr að hlusta á og nú er ekki einu sinni afsökun að fara út að reykja á meðan á tölum stendur.  Trallallallallala.....

 Því las ég bókina hans Randy Pausch, Síðasta fyrirlesturinn.  Ekki kannski rétta bókin í svona partý en hún er alla vega blákladur veruleikinn settur á blað án uppspuna. 

Það var sem sagt ekkert fútt í þessu partýi en vegna þess að maður má ekki vera ókurteis þá hélt ég það út þessa tvo tíma enda í betri sætum og lét sólina verma á mér hvirfilinn.  Smá vítamín fyrir hárið í leiðinni.  Nei elskurnar það er enn á sínum stað og vonandi bara helst það þannig. 

Var ég búin að segja ykkur að mér og örugglega flestum þarna inni fundust veitingarnar bragðlausar. 

 En andskotinn hafi það ég held þær séu að virka.  Ég alla vega trúi því.  


Vorverkin hafin hér að Stjörnusteini.

-Má ég klippa þennan runna?

-Hvað viltu að ég fari langt niður með þetta hér?

- Af hverju má ég ekki aðeins snyrta þetta líka?

Svona hljómuðu spurningarnar frá mínum elskulega í gær þegar hann æddi hér um landareignina með trjáklippur að vopni eins og óður væri.  Hann er lengi búinn að suða um að fá að klippa tré, runna og rósir en ekki fengið leyfi fyrr en í gær.  Þetta hefur nú verið mitt verk hingað til en nú varð ég að láta honum þetta vandasama verk eftir en auðvitað í minni umsjá og ströngu eftirliti.

Annars fórst honum þetta bara þokkalega úr hendi skal ég segja ykkur. Ég stalst aðeins til að klippa nokkrar rósir og vissi síðan ekki fyrr en ég var komin með hrífuna í hendur og farin að raka afklippurnar.  Úps..... ekki alveg það gáfulegasta enda hætti ég fljótlega þessari vitleysu og fékk síðan aðeins að kenna á því um kvöldið. 

Það sem ég kann ekki að sitja svona og stjórna.  Ætli sé hægt að fara á námskeið nú eða taka eitthvað inn við þessu?    Nei bara spyr.

Vorið sem kom í gær var næstum horfið í morgun þegar ég vaknaði. Jafnvel spörfuglarnir sungu með litlum tilþrifum hér á veröndinni eins og þeir findu á sér að þessi dagur yrði ekki eins sólríkur og góður eins og gærdagurinn. 

Reyndar varð dagurinn góður.  Elma Lind kom í heimsókn með mömmu sinni og pabba og afi setti upp róluna á veröndinni fyrir litla sólargeislann okkar.  Það sem hún stelur manni þessi litla stelpa, algjör dúllurass.

 Við skelltum steikum á grillið og þá veit maður að vorið er að koma, ekki spurning.

 


Díssuss mér líður alveg eins og ég hafi orðið undir valtara.

Jæja þá er maður komin inn á svítuna og búin að breiða úr sér eins og drottning.  Búið að fylla ísskápinn af allsslags gúmmelaði, Ylmandi Starbucks kaffi á brúsa, ávextir í skál og rósir í vasa.  Bara allveg eins og maður sé komin inn í miðjan þátt hjá Dr. House eða þannig , vantar bara blöðrurnar, þið vitið þessar sem stendur á Get well.  Wizard  I love you girl og fl. í þeim dúr.

Professor Pafko dró úr mér allar slöngur í morgun og spurði hvort ég væri ekki alveg tilbúin að fara bara heim í fyrramálið.  Hehehhe það eru allir sem sagt búnir að fá yfir sig nóg af mér og vilja losna við mig sem allra fyrst, helvítis útlendinginn sem neitar að éta gullaschið  þeirra og soðbrauðið sem borið er hér fram í hádeginu en lætur færa sér Roast Beef með kartöflusalati að heiman. OK er aðeins að ýkja þið trúið því sem þið viljið trúa.  En það er sannleikur ég er að fara heim á miðvikudaginn og er alveg hæstánægð með það enda ekkert hér að gera ef allt gengur svona vel á morgun eins og í dag.

Eitt var það sem gleymdist alveg að segja mér og það var að þegar mænudeyfing og annað er tekið af manni þá líður manni eins og maður hafi orðið undir valtara. Hefði nú alveg mátt segja manni að þessi fína líðan sem er búin að vera undanfarna daga var bara allt í plati!!!! 

 Síðan er ég auðvitað algjört fífl, fór að láta reyna á sársaukastigið hjá mér.  Bara svona langaði að vita hvað ég þyldi mikinn verk án þess að fá sprautu.  Auðvitað endaði þetta með því að ég var farin að emja á deyfingu eins og versti fíkill. OK ég lærði aðeins af þessu og geri þetta ekki aftur í bráð en það mátti reyna þetta. Wink 

Núna fer ég svona hvað úr hverju að hringja á þjónustuna og láta stinga einni góðri í bossann fyrir svefninn.  

     


Helgin leið eins og dögg fyrir sólu.

Það var vel hugsað um konurnar á þessu heimili í gær.  Þórir minn snerist í kring um okkur mæðgurnar allan daginn og við nutum þess að láta hann stjana við okkur.

Þrátt fyrir að minn elskulegi sé eðal kokkur þá er hann ekki besti bakari í heimi.  Hann var allur að vilja gerður í gærmorgun og vildi ólmur baka bollur í tilefni dagsins.  Þar sem ekki var til nóg smjör í húsinu brá hann á það ráð, þrátt fyrir einróma mótmæli frá okkur mæðgum, að nota smjörva.  Það hlyti að koma í sama stað niður sagði hann.  Þið sem hafið bakað vatnsdeigsbollur vitið alveg hvernig deigið á að vera.  Hans varð pínu öðruvísi, en ekki gafst hann upp skellti einni plötu í ofninn og út komu tvíbökur.  Þá skellti hann aðeins meira hveiti í hræruna og prófaði í annað sinn.  Sko aldrei að gefast upp, útkoman varð hin sama svo þetta endaði því miður í ruslinu.  Æ,æ ég vorkenndi honum pínu hann vildi svo vel.

Annars leið helgin allt of fljótt. Á föstudag fórum við mæðgur í göngutúr hér í nágrenninu. Mér fannst ég vera voða dugleg en fann fyrir því daginn eftir.  Fór aðeins of langt og geyst.

Í gær bauð Þórir okkur í nudd á Hotel Mandarin sem ég varð því miður af vegna þess að nuddarinn tók engan séns á sjúkling eins og mér.  Ég skal viðurkenna að ég varð fyrir smá vonbrigðum en skildi afstöðu nuddarans og lét mig bara dreyma um gott nudd á meðan ég beið eftir Soffu minni og mínum elskulega.  Iss ég á þetta bara inni, ekkert mál.

  Á eftir var okkur svo boðið í mat á Mandarin og ég var bara mjög dugleg að borða. Sem sagt frábær konudagur með dóttur og eiginmanni.

Ég er ansi löt að kommentera hjá ykkur bloggvinir mínir. Ég fylgist samt með ykkur öllum á hverjum degi. 

 Sendi ykkur öllum sem kíkja hér inn hlýjar kveðjur héðan úr sveitinni og snjónum. 

 

  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband