Færsluflokkur: Matur og drykkur
4.11.2008 | 11:24
Séra Siggi sér um sína!
Það er ekki að spyrja að þessum öðlingsmanni nú er hann búinn að fylla sendiráðið okkar í London af fisk og lætur landa okkar njóta góðs af. Þegar ég las fréttina fann ég alveg fisklyktina og sá fyrir mér fundarherbergið þar sem togaramyndir frá fyrri árum klæða veggina og fundarborðið svignar undan þorskinum.
Ég var heldur ekkert hissa að heyra að kirkjusókn væri góð og fólk kæmi langar leiðir tll kirkju. Ég var svo lánsöm að kynnast séra Sigurði og hans starfi þarna úti fyrir nokkrum árum og gleymi aldrei páskamessu sem við sóttum einu sinni. Hvert mannsbarn tók fullan þátt í messunni eins og ein fjölskylda. Dóttir okkar var í kórnum í smá tíma og heyrði maður oft hversu frábærlega Siggi hélt utan um allt sitt fólk.
Haltu þínu góða starfi áfram Siggi minn. Gerir ekkert til þó sendiráðið ,,ylmi" eins og gúanó í smá tíma þið loftið bara út þegar þetta er gengið yfir. Bestu kveðjur til ykkar allra.
Fiskað í íslenska sendiráðinu í London | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2008 | 18:40
Sæmundur Kristjánsson hafðu þökk fyrir!
Ef ég tryði á hugsanaflutning þá væri mér næst að halda að Sæmundur og minn elskulegi hefðu verið í góðu sambandi því hér í síðustu viku sagði Þórir svona upp úr eins manns hljóði: Veistu ef ástandið verður til þess að fólk fer að svelta þá er ég farinn heim og set upp stóran súpupott í Austurstrætinu til að seðja hungur fólksins.
Ég leit á hann og sá strax að hann meinti þetta alveg frá hjartanu svo ég bara sagði: Við skulum vona að svo illa fari ekki fyrir fólkinu okkar.
Sæmundur minn okkar bestu kveðjur til þín og alls starfsfólks! Hafðu þökk fyrir þína manngæsku og við hér að Stjörnusteini tökum ofan fyrir þér og öllum sem stóðu að þessu góðverki.
Stórt knús til ykkar allra.
Súpueldhús í kreppunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2008 | 14:28
Hvað á að gera við strákaling?
Var að koma inn úr haustblíðunni hér og eins og alltaf þegar ég er úti fer hugurinn á flug. Stundum eru þetta rosalega merkilegar uppgötvanir en að öllu jöfnu einskisnýtar pælingar.
Hvað gerir maður við elskulegan eiginmann sem allt í einu tekur upp á því eftir 30 ár að fara með sinni heittelskuðu í búðir. Á maður að hoppa hæð sína og hrópa upp yfir sig, batnandi mönnum er best að lifa eða fara í baklás og hugsa andskotinn hvar er nú frjálsræðið!
Eins og þið flest vitið þá er minn sem sagt nýorðinn svona 25% atvinnurekandi og þar sem okkur finnst nú ekki mikil vinna í því að halda uppi einni íssjoppu þó fræg sé, þá er nægur tími til annarra verka. Häagen Dasz rekur sig eiginlega sjálft miða við Rest. Reykjavík sem við urðum að vaka og sofa yfir 24 hours. Þess vegna segi ég að hann sé í svona 25% vinu miða við sem áður var.
Á laugardaginn datt honum í hug að spyrja mig hvort ég vildi ekki fara í smá búðarráp. Ekki það að okkur vanhagi um eitt eða neitt heldur bara svona window -shopping. Ég missti andlitið alveg niður að hnjám. Var manninum mínum alvara eða var þetta bara svona morgundjók? Eftir rúmlega 30 ár hef ég ekki einu sinni fengið hann með mér til þess að kaupa jólagjafir nema eftir margra daga tuð og rekistefnur.
Ég sagði sem satt væri að ég yrði hvort sem er að fara í matvörubúð svo hann mætti alveg koma með mér. Það hringsnerist allt í hausnum á mér alla þessa 30 km í búðina. Þarna sat hann sallarólegur með bros á vör og gerði að gamni sínu eins og fyrirmyndar húsband auðvitað á að vera en ég varð alltaf meir og meir undrandi.
Þegar við komum inn í Billa (matvöruverslun) þá skildu fljótt leiðir og hann birtist af og til með eitthvað smotterí í höndunum enn brosandi út að eyrum.
Nei elskan við eigum nóg af smjöri. Ekki þennan ost. Hvað ætlar þú að gera við allt þetta brauð? Það er til nóg af hundanammi heima. Svona gekk þetta lengi vel. Ég rak hann umsvifalaust með vörurnar til baka eins og ég væri með óþægan krakka í eftirdrægi. Loksins gafst minn upp á þessari mimmandi kerlingu og sagði: Heyrðu ég ætla að fá mér kaffi, við hittumst bara þar. NB hann var enn brosandi!
Ég veit ekki hvort þetta var vegna ástandsins heima á Íslandi og ég var farin að spara eins og allir aðrir eða ég gat bara ekki einbeitt mér að því að versla alla vega var ótrúlega lítið í körfunni þegar ég kom að kassanum og þegar ég kom heim uppgötvaði ég að ég hafði ekki keypt neitt kjötmeti í matinn.
Þessari verslunarferð var nú ekki aldeilis lokið heldur dró minn mig með sér á milli húsgagnaverslana og ljósabúða sem hafði auðvitað ekkert upp á sig þar sem við vorum svo hjartanlega sammála um að það sem okkur líkaði væri á uppsprengdu verði.
Nú er það stóra spurningin, hvað á að gera við strákaling?
Hef annars ekki stórar áhyggjur því nú tekur við stækkun á Häagen Dazs í Karlova og það tekur nokkrar vikur svo hann verður upptekinn við að ráðskast þar.
Ein viknona mín hér sagi við mig um daginn ,,Rosalega ertu heppin að eiga svona mörg hús þú getur bara sent hann í eitt þeirra þegar þú færð nóg". NB þessi vinkona mín er með einn svona retired heima hjá sér.
Æ ég veit ekki hvort ég hefði hjarta til þess, hann er jú svo mikil dúlla þessi elska.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.10.2008 | 19:22
In memory - Restaurant Reykjavík - Prag
Adieu, adieu. Þið sem ætlið að leggja leið ykkar í Karlova götuna hér í Prag og heimsækja okkur á Restaurant Reykjavík komið nú að lokuðum dyrum. Að gefnu tilefni langar okkur til að þakka þeim rúmlega 3 milljónum manna sem heimsótt hafa staðinn okkar undanfarin sautján ár.
Til þess að valda engum misskilning þá viljum við líka taka fram að þessi ákvörðun var ekki tekin vegna einhvers kreppuástands í heiminum heldur eru samningar búnir að standa yfir sl. átta mánuði og það bara vildi þannig til að skrifað var undir samninga 30. sept. og við lokuðum fyrirtækinu 1. október.
Þegar horft er til baka þá minnumst við þegar við gengum Liliova 1991 og vorum að ,,njósna" um staðinn sem þá var rekinn á vegum ríkisins. Þar sem við gengum fram hjá færallt í einu minn elskulegi bunu yfir nýju jakkafötin. Við litum upp og sáum mann standa uppi á annarri hæð út á svölum með allt úti og hafði auðsjáanlega orðið mál. Okkur brá auðvitað en um leið litum við á hvort annað og sögðum næstum samtímis: Let´s do it! Þar með var það ákveðið að kaupa staðinn og þurfti ekki nema eina litla pissusprænu til að sannfæra okkur um að þetta yrði okkur í hag.
Við gerðum okkur strax grein fyrir því að staðsetningin var prime location en við yrðum að moka út áður en við gætum opnað nýjan stað eftir okkar höfði. Hafist var strax handa og á mánuði var búið að kaupa innréttingar frá Hollandi, græjur í eldhús, ráða starfsfólk og þann 29. nóvember 1991 opnuðum við Restaurant Reykjavík.
Það var engin lognmolla sem ríkti frekar en fyrri daginn og viku fyrir opnun vorum við tilbúin en ekki með öll leyfi þannig að við byrjuðum á því að bjóða vinum og ýmsum fyrirtækjum í dinner sem var bráðsnjallt vegna þess að þá fékk staffið að æfa sig í þjónustu og matargerðarlist sem engin í eldhúsinu hafði kynnst áður. Við komum með nýjungar og vorum sektuð í tíma og ótíma fyrir að breyta hefðbundnum matseðli frá kommatímanum yfir í Evrópskan standard.
Matseðlar voru þá allir eins hvort sem það hét Hotel Intecontinental (sem þótti flottast í Prag) eða venjulegur bjórpöbb. Það hét Skubina I - II eða III. og það voru landslög að þessu mætti ekki breyta. Við breyttum öllu og þess vegna vorum sektuð í tíma og ótíma sem við kipptum okkur ekkert upp við enda margt af því sem við settum á matseðilinn okkar er orðinn hálfgerður þjóðarréttur í dag.
Man þegar við vorum að ráða starfsfólk og spurðum hvort þau töluðu ensku. Svarið var yfirleitt Yes og við héldum þá áfram að spyrja en fengum engin svör vegna þess að þau skildu ekkert í því máli. Þegar við sögðum síðan að því miður gætum við ekki ráðið viðkomandi kom andsvar: En ég kann matseðilinn.
Kokkarnir okkar voru rosalegur höfuðverkur. Steikur að þeirra mati áttu að vera yfirsteiktar, annað var dýrafóður! Þeir helltu olíu á gasgrillið og síðan vatni svo lá við að gestirnir köfnuðu í salnum fyrstu kvöldin. Þegar við komum með örbylgjuofninn þá gladdist allur mannskapurinn, þeir héldu að þetta væri sjónvarp! Örbylgjuofn höfðu þeir aldrei litið augum. Ojá þetta var ekkert auðvelt í byrjun en við höfðum gott fólk sem vildi læra og sumir voru hjá okkur öll þessi sautján ár.
Já það er margs að minnast og Reykjavík varð strax einn af þekktustu stöðum Prag. Man eftir því vorið eftir að við opnuðum kom ég gangandi að heiman og sá langa biðröð sem náði frá Reykjavík og langt inn í Karlova. Ég spurði einn sem stóð í röðinni eftir hverju fólkið væri að bíða og svarið var að komast inn á Reykjavík. Nú sagði ég, hvers vegna? Jú þetta var eini staðurinn í Prag sem borðandi væri á. Ég spurði síðan, hvað ert´u búinn að bíða hér lengi? Um 45 mínútur og býst ekki við að komast að fyrr en eftir hálf tíma, það er nefnilega ekki hægt að panta þarna borð. First come, fist served. Já er það sagði ég og gekk að veitingastaðnum mínum sem var þá strax orðinn þekktur.
Ég gæti haldið lengi áfram að segja ykkur sögur en ætla að láta þetta nægja að svo stöddu. Það eiga örugglega eftir að spretta upp í minningunum skemmtileg atvik sem ég segi ykkur síðar frá.Það er dálítil blendin tilfinning sem er ríkjandi hér á þessu heimili. Eftirsjá og léttir eru held ég bestu orðin yfir það hvernig okkur líður í dag.
Við hjónin viljum þakka ykkur öllum sem heimsótt hafa Restaurant Reykjavík þessi sautján ár fyrir viðskiptin og nú tekur við nýr og vonandi spennandi kafli í okkar lífi hér í hundrað turna borginni okkar.
Ræðismannsskrifstofan verður áfram opin í Karlova 20 alla vega næstu mánuði.
Þökkum enn og aftur ykkar hlýhug kæru landar í okkar garð og lifið heil.
Heimasíðan okkar er enn lifandi www.reykjavik.cz
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
22.9.2008 | 11:58
,,Teggja" ára afmæli er stórhátíð.
Ég var löngu búin að gleyma þessu en rifjaðist allt upp fyrir mér hér í gær. Barnaafmæli, allt frá eins árs aldri og langt fram á fermingaraldurinn eru stórviðburðir í lífi allra barna. Allt umstangið fyrir afmælið er engin smá vinna ég tala nú ekki um þegar gestir eru það margir að hleypa þarf inn í hollum.
Þessi amma sem skrifar hér var fjarri öllum undirbúning því hún og afi fóru út fyrir borgarmörkin á laugardaginn og komu ekki í bæinn fyrr en rétt eftir hádegi í gær. Amman fékk svona vott af samviskubiti yfir að hjálpa ekki dóttur sinni við undirbúninginn en afinn bætti úr betur og pantaði brauðtertur í tilefni dagsins.
Þegar við mættum í Garðabæinn upp úr tvö var allt tilbúið hjá henni dóttur minni. Borðið hlaðið veitingum, skemmtilega skreytt, blöðrur inni og úti, hattar og servíettur í stíl og allt eins og ég hefði verið með puttana í þessu. Eitthvað hefur stelpan lært af mömmu sinni.
Þá vatt ég aðeins til baka og viti menn, ég mundi allt í einu eftir því að þetta hafði ég líka gert án allrar hjálpar í denn og man ekki eftir því að mér hafi þótt þetta neitt stórmál. Svona er maður fljótur að gleyma og vex e.t.v. allt of mikið í augum í dag það sem manni fannst ekkert mál hér áður fyrr.
Tveggja ára stórafmælið hér við Strandveginn stóð langt fram eftir kvöldi eins og hæfir stórveislum.
Ætla að fara að gá til veðurs.
18.9.2008 | 12:08
Gamla góða heimsendingarþjónustan. Sendlarnir á svötu hjólunum.
Ahhh... það er komin glæta, ég meina sólarglæta. Var svona að spá í það hvort ég ætti að skella mér í bæjarleiðangur eða bara kúra hér innandyra þar sem veðrið er nú ekki alveg upp á það besta hér við sjávarsíðuna í Garðabænum. Var búin að gleyma rokrassinum hér heima.
Í gær sat ég með móður minni aldraðri en hún er nú ótrúlega hress eftir aldri. Við röbbuðum um lífið og tilveruna svona almennt og ég fór að hugsa hvað í raun og veru við systkinin værum heppin hversu sjálfbjarga hún er komin hátt á níræðisaldur. Eina utanaðkomandi aðstoðin sem hún fær er þrif á íbúðinni hálfsmánaðarlega.
Það sem ég horfði á regnið lemja rúðurnar og vindinn gnauða fyrir utan hátt uppi á níundu hæð þá hugsaði ég með mér að ekki kæmist hún nú langt í þessu veðri. Þarna gerði samviskubitið vart við sig því ég veit að ábyrgðin er öll á systkinum mínum þremur sem búa hér á landi. Þau sjá um að keyra hana á milli, versla inn fyrir hana ef með þarf, ná í lyfin o. sv. frv. á meðan ég kem bara hingað sem gestur og stoppa yfirleitt stutt. Og öll vitum við að í hraða þess þjóðfélags sem við lifum í þá hafa allir nóg á sinni könnu. Móðir mín er líka ein af þeim sem aldrei vanhagar neitt þegar spurt er en síðan kemur það í ljós daginn eftir að hún er dauðþreytt af því hún fór út í matvöruverslunina og bar pokana alla leiðina heim.
Ég spurði gömlu konuna sem sat þarna keik á móti mér: Heyrðu mamma er ekkert hér sem heitir heimsendingaþjónusta frá matvöruverslunum.
Gamla konan leit á mig og glotti út í annað: Nei vinan það er nú ekki neitt svoleiðis hér. Ja ég get tekið leigubíl til og frá búðinni en sjálf verð ég nú að skakklappast þetta. Bætti síðan við, annars eru nú krakkarnir voða dugleg að hjálpa mér. Vildi auðheyranlega ekki vera að kvarta undan systkinum mínum við mig í þetta sinn.
Mér var hugsað til fyrri ára þegar mamma hringdi í Ólabúð og pantaði inn fyrir helgina og sendillinn kom með þetta á sendiferðahjólinu frá búðinni. Yfirleitt voru þetta einn til tveir troðfullir pappakassar af matvöru. Man enn eftir lyktinni sem fylgdi kössunum. Eitthvað hlýtur nú fólk að hafa borgað upp í sendingarkostnað en getur varla hafa verið nein ósköp.
Ég vildi eiginlega ekki trúa þessu. Meira að segja í landinu þar sem ég bý er heimsendingarþjónusta. Þegar dóttir mín var nýbúin að eiga frumburðinn og bjó i London notfærði hún sér heimsendingu frá Tesco. Það þótti bara ósköp eðlilegt.
Hvað með allt þetta gamla fólk og sjúklinga sem búa einir og komast illa ferða sinna. Það hljóta að vera einhverjir með þessa þjónustu. Ég fór á netið og leitaði og komst að því að ein búð hér býður upp á heimsendingu, Nóatún en allt fer það í gegn um tölvu. Síðan er slatti af Pizza og hraðréttastöðum, Kjöt í heilum skrokkum, grænmeti aðeins stórar pakkningar. Það var ekki það sem ég var að leita að. Ég nennti ekki að fara inn á síðuna hjá Nóatúni vegna þess að ég fór að hugsa en hvað með allt þetta fólk sem kann ekkert á tölvur, ætli sé hægt að fá vörulista í búðinni og panta símleiðis?
Nú nálgast veturinn óðum og færðin versnar. Hvernig fer gamla fólkið að sem á enga aðstandendur sem létta undir. Er það inni í heimaþjónustu að versla inn fyrir sjúklinga og aldraða? Afsakið en nú spyr ég bara eins og bjáni.
Hugsið ykkur hvað margt gamalt fólk sem býr eitt væri þakklátt fyrir að geta hringt í hverfisbúðina og pantað inn nauðsynjavörur. Ekkert vesen. Ekkert svona þegar hringt er í börnin sín: Æi, fyrirgefðu að ég skuli vera að kvabba þetta, ég veit þú hefur nóg annað að gera en ég bara treysti mér ekki út í veðrið.
Svo einfalt. Lyfta tólinu, velja númerið, panta eftir lista og síðan: Viltu svo væni minn senda þetta heim fyrir mig. Þakka þér fyrir góurinn.
Það hefur dregið fyrir sólu.
15.9.2008 | 07:39
F..... kokkurinn er líka með veitingastað hér í borg.
Oft þarf nú oft ekki nema nafnið til að staðir gangi vel og Gordon Ramsey er inn. Engan hef ég séð fara öðrum eins hamförum í eldhúsinu eins og hann brussast í þáttunum nema ef væri minn elskulega eiginmann.
Við höfum nú ekki borðað nema einu sinni á staðnum hans hér í Prag og það var rétt eftir að hann opnaði. Misstum af því að sjá höfðingjann sjálfan þar sem hann var nýfarinn heim enda komum við frekar seint að kvöldi og mesta traffíkin liðin hjá og hann örugglega dauðuppgefin eftir að hafa hent pottum og pönnum í gólf og veggi og öskrað sig hásan á starfsliðið.
Okkur fannst nú staðurinn ekki merkilegri en það að við höfum algjörlega gleymt honum og ekki farið þangað aftur en auðvitað á maður alltaf að gefa stöðum second change. Ættum að láta verða af því við tækifæri enda heyrðum við frá syni okkar sem hefur farið þangað oftar en við að hann héldi alveg sínum standard.
Ekki held ég að við komum til með að bera höfðingjann augum því blessaður karlinn hefur örugglega nóg með alla hina nítján ef fréttin er rétt.
Ramsey í klandri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 07:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.8.2008 | 15:18
Tvöföld hátíðahöld hér í dag.
Hér var fylgst með leiknum í hádeginu og auðvitað fögnuðum við silfrinu sem strákarnir koma með heim í farteskinu. Tökum á móti þeim heima með pomp og pragt og höldum þeim góða veislu!
Eftir að hafa fagnað silfrinu fórum við, ég og minn elskulegi niður í Prag til að fagna fæðingardegi hans. Hann á afmæli minn gamli og af því tilefni bauð hann litlu fjölskyldunni út í hádegismat á Mandarin sem er einn af okkar uppáhaldstöðum.
Elma Lind skemmti okkur öllum með sínu yndislega babli á meðan við röðuðum í okkur kræsingum með Tai og Indversku ívafi. Kvaddi síðan afa og ömmu með gjöfum (þrátt fyrir að ég ætti ekkert afmæli) sniðug, sló tvær flugur í einu höggi svo hún þarf ekkert að pæla í gjöf í handa mér í október. Eitthvað hefur henni fundist afinn og amman vera þreytuleg því hún færði okkur dekurnudd á Mandarin - Spa. Ekki veitir af að reyna að flikka aðeins upp á þau gömlu hehehhe.
Ætli við tökum það bara ekki rólega það sem eftir er dags og komum okkur vel fyrir í sófanum fyrir framan TV- ið enda búinn að vera góður dagur í dag.
Til hamingju Ísland! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.8.2008 | 19:46
Hnallþórur í frysti út um allan bæ
Sló á þráðinn heim til Íslands núna rétt áðan til að kasta kveðju á mág minn hann Richard Briem sem á afmæli í dag. Ég bjóst nú helst við því að það væri fullt hús af fólki í Miðstrætinu þar sem hún systir mín er þekkt fyrir sínar stórveislur.
Nei engin veisla hér sagði Rikki og bætti við: Við erum enn að reyna að klára kræsingarnar frá afmæli Kolbrúnar Evu.
- Jæja sagði ég, bíddu en það var 4 ágúst og barnið var nú bara eins árs. Er þetta ekki orðnar ansi þreyttar kræsingar.
- Ja ég bara veit það ekki, þar sem frystirinn okkar bilaði þá var brugðið á það ráð að skella afgöngum af tertum og öðru fíneríi hingað og þangað í frost til nánustu ættingja. Ég fór líka með byrgðir í vinnuna og það bara sést ekki högg á vatni, þvílík ósköp sem hér var bakað. Þetta var eins og fyrir fermingaveislu.
- Já sagði ég, mín hefur viljað hafa nóg.
- Það er víst, dæs heyrðist á línunni. Nú svo eru allir (þá meinti hann systur mína) í átaki svo það er nú lítið látið ofan í sig af þessu fíneríi.
- Nú hvað er bara vatn og salat alla daga?
- Ja ég segi það nú ekki en....
- Jæja svo engin veisla í dag
- Nei ég verð bara hér í rólegheitum með krakkana, Anna er að fara á átaksfund eða eitthvað svoleiðis.
-OK, annars allir hressir?
-Já við erum þrusuhress!
Samtalið varð aðeins lengra áður en lagt var á og knúskveðjur til allra að sjálfsögðu bárust yfir hafið.
Ég fór að hugsa eru allir í einhverju átaki þarna heima? Þá birti upp í kollinum, jú auðvitað þetta gerist á hverju hausti, allir panta sér tíma í líkamsrækt vegna þess að það á að ná sér niður fyrir haustkræsingarnar, þið vitið nýja lambið, slátrið og rabbabaragrautinn. Nú og ef það tekst ekki alveg er haldið áfram til jóla, síðan páska og síðan fyrir sumarfríin svo maður geti látið sjá sig í stuttbuxum. Úff ég man sko vel eftir þessu hér áður fyrr.
Sagan endalausa.
17.7.2008 | 15:16
Barist við Kerfil, stórlaxa og snarvitlausa ferðalanga
Hér vex kerfill meðfram sveitaveginum og finnst mér hann bara til prýði svona snemma sumars þrátt fyrir að ég vildi nú ekki hafa hann hér inn á lóðinni. Nú veit ég ekki hvort ég fer með rétt mál en nota Svíar ekki kerfil til að brugga eðal-líkjör? Alla vega hefur sænsk vinkona mín komið hingað og tínt þetta ,,illgresi" í júní og bruggað drykk sem okkur þykir bara nokkuð góður. Held að hún noti blómin en ekki stöngulinn í seiðinn sem hún hefur síðan gefið okkur að smakka á vetrarmánuðum. Hún notar þetta eins og við notum kirsuberjalíkjör blandað saman við kampavín. Nú verðið þið bara að leiðrétta mig ef ég fer hér með rangt mál en mér finnst endilega að þetta sé hinn illræmdi kerfill sem þeir nota.
Um leið langar mig að smjatta aðeins á fréttinni um stórlaxana sem laxveiðimenn moka upp þessa dagana. Ég fæ vatn í munninn bara við tilhugsunina. Glænýr lax út ískaldri bergvatnsá Íslands með nýjum kartöflum og íslensku smjöri. Jammí, jamm....
Hér verðum við að notast við eldislaxinn sem mér finnst algjörlega óætur!
Skelli mér bara heim með næstu vél eða þannig. Vonandi enginn snarvitlaus Breti með í för sem þolir ekki við inní vélinni og ræðst á hurðina og heimtar að fara út.....
Þannig er nú það gott fólk, vandlifað hér í henni veslu okkar.
Ráðist til atlögu við kerfil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |