Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Jólakveðja frá Prag - Stjörnusteini - Tékklandi - Ó helga nótt.

Gamla torgið jólin 2008 001  Elsku Soffa okkar, Steini, Þórir Ingi. mamma mín, tengdapabbi og allir aðrir ættingjar og góðir vinir.  Sendum ykkur hugheilar jólakveðjur með óskum um farsæld á árinu sem gengur í garð.  Þökkum allan ykkar stuðning á árinu sem nú er að líða. 

Megi ljósið lýsa ykkur nú sem fyrr og blessun Guðs fylgja ykkur á leið ykkar á lífsins braut.

Vildi að ég gæti sett hér inn lag en geri það í huganum Pie Jesu og vonast til þess að hann bróðir minn bjargi þessu fyrir mig á aðfangadag ef hann er þarna niðri í RÚV að vinna.  Þá veit ég að hann gerir það blessaður og ef þið heyrið þá er lagið sent frá okkur til ykkar.

Stórt jólaknús og njótið jólanna í faðmi fjölskyldu og vina.  Borðið vel og mikið en gle

ymir ekki smáfuglunum sem flögra úti í kuldanum og myrkrinu fyrir utan gluggana ykkar. 

Guð blessi ykkur öll. 

Ía og Þórir Gunnarsson að Stjörnusteini - Tékklandi.  


Þetta er fyrir tengdabörnin að lesa............ meina það............... koma svo krakkar! Ekkert múður!

Fyrir þremur tímum leit ég upp og sá hvar minn elskulegi var búinn að yfirtaka MITT svæði í eldhúsinu.  Sko segi og skrifa mitt svæði.  Byrjaður á að skera lauk eins og Jamie Oliver og eins og engin væri morgundagurin.  Lifur og lungu út um öll borð, frosin og afþyðin.  Allt í gumsi og ég svona hvæsti aðeins að honum:  ,Hvað ertu eiginlega að gera í mínum helming eldhússins?" Æ hann alveg kipptist við og næstum skar af sér putta í öllum látunum en ég hélt bara áfram:  ,, Heyrðu ég er að fara að nota þetta bláss  NÚNA!!!!!!!!!"  Enn meiri kippingur og hann alveg svona eins og jólasveinn:  ,,Ha nú?" - Eg bara"   -,,Þú bara, nei það er ekkert svona núna"  Það eru að koma jól og ég hafði ætað mér að bæta við stigafjöldan hjá tengdabörnunum" 

Sko já ég hef ætlað mér að verða kosin BESTA TENGDAMAMMA 2009  ja alla vega að vera útnefnd.  ,,Hvurslags skilningaleysi er þetta maður!!!!! Halló burt með þessa lifur og dót það verður engin kæfa búin til hér í dag skal ég segja þér sveinki minn" 

Hann alveg á nálum tók allt draslið saman og skellti í mareneringu og út í ísskáp.  Og ég komst að borðinu til að halda áfram mínu ætlunarverki sum sé að koma mér í raðir bestu Tengó ever!!!! Meina það. 

Þið hafið séð hérna diplómana um BESTA MAMMA, BESTA AMMA, BESTI PABBI OG BESTI AFI nú hvers vegna ekki Besta tengdó?  Ég vil svoleiðis dipló frá mínum tengdabörnum. 

Þess vegna er ég búin að standa löðursveitt við eldavélina í þrjá tíma og leggja mig alla fram við að búa til Eplaskífur á danska mátan.  Eftir að hafa gert 58 tlraunir við að snúa helv.... bolunum á pönnunni þá tókst mér loksins að fá nokkurn vegin hringlaga bollu vá þvílík vinna við þetta sko nú lesið þið sem eigið að gefa mér diplómann eftir nokkra daga ekki seinna vænna að byrja að hanna skjalið. Annað elskurnar svo getið þið grætt á þessu komið því í umferð og selt eins og heitar epleskiver, eða hvað veit ég................

Mér var hugsað til aumingja húsmæðranna hér áður fyrr sem stóðu yfir hlóðunum og bjuggu til eplaskífur.  Þvílík vinna .. Sko og ekkert að segja mér núna að þetta sé auðvelt eða það sé komið eitthvað nýtt járn´.  Pannan mín er antik búin að eiga hana í þrjátíu ár eða lengur og hún virkar ef maður hefur þolinmæði til að nota þetta apparat.  En málið er að ég hef enga þolinmæði í svona dútl!!!!! En ok það eru hér 60 bollur, misfríðar eins og Halla vinkona mundi segja, en þær eru allt í lagi á bragðið, ég redda útlitinu með því að hylja þær með flórsykri og það miklum.

Jæja þá er ég búin að buna þessu út úr mér og nú skal maður fara í Laufabrauðsbakstur með litlu fjölskyldunni hér í Prag.  Dísús að ég hafi þolinmæði á að skera út kökur núna en ef til vill fæ ég prik ef ég held KJ og reyni að vera til friðs. 

Syngja bara með Þú nýfæddi Jesú og allt það get svo sem líka tekið Pier Jesu ef einhver vill eðalsound.


Hann Egill okkar á afmæli í dag.

Hann glókollur minn á afmæli í dag.  Frumburðurinn orðinn þrjátíu og fimm ára.  Úps hvað mamman og pabbinn eru þá orðin gömul segir þá einhver.  Neip ekki að ræða það við erum enn kornung.

Ég man eftir því þegar ég var búin að dásama lækninn á Fæðingarheimilinu fyrir alla hjálpina eins og hann hefði búið til þennan mola minn þá setti sá stutti upp smá grettu í vöggunni til þess að mótmæla móður sinni og þá sá ég það.  Drengurinn hafði spékoppa föður síns svo það fór nú ekkert á milli mála hver hefði komið þarna við að verki. Það vottaði ekki fyrir spékoppum í alvarlegu andliti læknisins.  Svo þar með var málið afgreitt.

Eins og gengur og gerist verður haldin veisla og við mætum þar gamla slektið, prúðbúin og fögur eins og Bláfjöllin með jólakransa og ljósasjó í augunum. Í afmælisfíling, engin spurning.

Hafið þið tekið eftir því hvað erfitt er að finna afmælisgjafir handa börnunum þegar þau eldast.  Eiginlega ógjörningur.  Ég hafði nú ætlað að baka fyrir minn í dag eina gula, rauða og græna en þar sem nennan er ekki mikil og getan ef til vill í lágmarki held ég að hann verði að eiga það inni hjá mömmu sinni.  Þetta verður sjálfsagt afgreitt fyrir jólin.  Vonandi.

Jæja þar sem nú er sunnudagur og messan eiginlega alveg að byrja er best að koma sér í stellingar. 

Nei halló það er kominn þriðjudagur.  Svona hef ég misst úr daga núna. Andskotinn. 

Sendi góða kveðjur yfir hafið frá okkur hér að Stjörnusteini í fallega vetrarveðrinu hér í sveitinni.

Njótið aðventu og friðarljóss á þessum góða árstíma.

 

 

 


É á engan lopp amma.

Í gærkvöldi hringdi síminn og á hinum endanum var lítill þriggja ára gutti:  ,,Amma ég á engan lopp, þú verður að kaupa nýjan, minn er allt of lítill"

- ,,Ha áttu ekki hvað?" skildi ekki hvað hann var að fara.

,,Ég á ekki lopp" endurtók hann og hvæsti aðeins á eftir svona pínu pirró, þessi amma hans var ekki alveg með á nótunum þar til mamman kom í símann og sagði:  ,,Mamma hann er að segja að hann eigi engan slopp"

OK, svo ég í einfeldni minni spurði:  Jæja ég skal athuga hvort ég finn slopp en hvernig á hann að vera á litinn.  Smá þögn í síman síðan:

,,Sona Spider - man eða Super- man loppur!"  Smá dæs, þessi amma var ekki alveg að skilja þetta.

,,Nú ok"  sagði ég og bætti við ,,hvar fæst þannig sloppur?"

Hann alveg búinn á því að ræða þessi sloppamál ,, Í HM heyrist frá mömmunni og síðan alveg búinn á því frá þeim stutta  ---- ,,blessssss"

Nú þá veit ég það. Og fer í þessi mál eftir helgi.

Sem betur fer var ég búin að kaupa harðan pakka handa honum í jólagjöf svo þetta verður bara nýársgjöf. 

 Ætla að kalla það kósígjöf. Spiderman loppur.

 

 


Sænska Lucian ætlar að yfirkeyra þetta. Ég býð hingað Grýlu og Leppalúða í staðin

Ég vil alls ekki vera vanþakklát, svo sannalega ekki nú þegar hátíðin nálgast óðfluga með hverjum deginum.  Nei, alls alls ekki, hemst nei inte tale om.

Málið er að í dag barst okkur þrjú boðskort á Luciukvöld, dag- morgun- og kvöldverðarboð.  Sko eitt Luciuboð með syngjandi fallegum ljóshærðum stelpum í pífukjólum er alveg nóg en þrjú!!!!!!!!!!!!

Halló minnir mig eitthvað svo mikið á jólalagið hans Gísla Rúnars um fimm feitar mjaltakerlingar og sjö syngjandi svani.  Alveg á tæru að Gísli fékk þennan texta lánaðan hjá frændum vorum Svíum.  Ég er alveg sjúr á því.  Eitthvað svo hrikalega sænskt við allan textann.  Svo kemur þetta sjö syngjandi Luciur frá morgni til kvölds.

Hvernig fer ég að því að afþakka eitthvað af þessu án þess að móðga elskulegu Svíana vini okkar.  Það sem hægt er að koma manni í vandræði svona rétt fyrir jólin.  Mér fannst allt annað alveg nóg þó þrír Luciutónleikar bættust ekki á dagsskrána hjá okkur.

Nú megið þið ekki halda að mér sé illa við lagið og þessa athöfn.  Neip, mér finnst þetta virkilega fallegt og lagið einhvern vegin sogast inn í heilann ef maður heyrir það einu sinni og situr þar næstu dægur.   Það er gallinn við þetta.

Nei mér finnst þetta svo fallegt að eitt sinn fékk ég lánaðar Luciurnar frá sænska sendiráðinu til að koma og syngja í boði heima hjá okkur.  Allir héldu að þetta væri sænsk/íslenskur siður.

' Mig vantar ekkert svona núna ég er að undirbúa Grýlu og Leppalúðakvöld hér heima á föstudagskvöldið með tilheyrandi jólasveinum komandi úr fjöllunum á Íslandi. 

Hér verður ruslaralýður og illþýði í boði en ekkert Santa Lucia.

Skemmtileg andstæða á fólk eftir að segja. 

Já við Ísendingar erum alltaf dálítið spes og barbaraleg þegar kemur að veisluhöldum. 

Er farin að finna illþýðið sem er hér falið í einhverjum kassa frá því í fyrra.  


Klósettrúlan sem spilar jólalögin og Jólinn sem hvarf af heimilinu okkar.

Búin að finna jólagjöfina handa hverjum og einum í fjölskyldunni. 

Eitthvað svo notadrjúgt og um leið skemmtilegt og gleður sál sem auga!

Alveg hreina satt!  Þetta er klósttrúlluhaldari með svona Ipod tengingu.  Það tók mig smá stund að fatta hvað þetta var.  Hélt fyrst að þetta væri til að hlaða símann en kom í ljós þegar ég fór að lesa.  Þú smellir Ipodinum þarna niður í hólfið þegar þú sest á lúguna og svo bara spilar hann þína uppáhaldstónlist um leið og þú gerir þínar þarfir með tilheyrandi óhljóðum eða söngli því auðvitað syngur þú með t.d. ,, White Christmas"  voða kósi tæki.

Nú fá allir sem einn svona græju frá okkur hér að Stjörnusteini og ég tek það fram að það er ekki hægt að skila þessu.  Keypt á netinu heheheh þar fór ég alveg með þetta fyrir ykkur.

Þetta er miklu sniðugra en WC haldarinn sem ég sá í einu húsi hér í fyrra sem spilaði alltaf Ho ho ho Merry Christmas um leið og þú snertir rúlluna svo húseigendur gátu fylgst mjög vel með hvað þú notaðir mörg bréf. 

Það kallar maður nú bara að hnýsast í persónuleg mál og ansi frekt.

Neip, segi og skrifa þetta tæki er það besta sem ég hef séð.

Já það er margt sem maður getur keypt og glatt fólk með um hátíðarnar.

Fyrir nokkrum árum átti ég svo sniðurgan ,,Sveinka"  Þetta var nú bara svona hausinn af Jóla gamla sem ég setti út við útidyrnar og um leið og einhvern bar að garði sagði hann:  Hó,hó hó og svo kom eitthvað voða ljúft jólalag. 

Nágranni okkar sem þá var frá Skotlandi hrindi einn morguninn hjá okkur um miðjan desember og spurði hvort það væri mögulegt að þagga niður í þessu óféti?  Með svona löngu P  L  E  A  S  E  á eftir beiðninni.

Vi héldum það nú en spurðum hvers vegna þetta færi svona í taugarnar á honum.  Þá kom svarið:  Sko þegar ég er að laumast heim á nóttunni ( hann stundaði mörg jólaboðin með vinnufélögum) þá byrjar helv..... í góla og hún Laura mín vaknar og allt kemst upp.  Hvað ég er seinn á ferð og hvernig ásigkomulagi ég er í.

Nohhh...sollis, No problemo my friend. Við kipptum Jóla úr sambandi en einhverja hluta vegna hef ég ekki orðið vör við hann síðan þessi jól í Prühonice.  Alla vega ekki rekist á hann hér að Stjörnusteini í mörg ár.

Hvar ertu Jóli minn? 

 Farin að leita úti í geymslunni eða hér í einhverjum kassanum.

Finn hann vonandi langar svo að hengja hann út við hliðið.


Hann lítur nákvæmlega eins út og fyrir þrjátíu árum. Ætli hann hafi látið klóna sig?

Sumt get ég auðveldlega leitt hjá mér en annað getur farið þvílíkt í mínar fínustu.  Fyrir nokkrum mánuðum var fólk að kvarta undan auglýsingunum sem birtast hér til hægri þegar þú opnar Mbl.is  Mér gæti eiginlega ekki staðið meir á sama nema þegar ég í vor eða snemmsumars tók eftir því að góðvinur minn frá 1969 birtist á síðunni sem einn af aðalleikurunum í kvikmynd sem átti að byrja að frumsýna í einhverju kvikmyndahúsanna í Rvík. 

Þarna var hann kominn ljós lifandi alveg ein og hann leit út fyrir þrjátíu og eitthvað árum.  Með sömu gleraugun og allan pakkann. Nú er sjálfsagt einhver orðinn forvitinn og spyr:  Hver?  Um hvern er verið að tala?  Nú hann Magga Axels.  Get svarið það þarna droppar hann upp þrjátíu árum seinna og hefur ekki breyst baun.  Nákvæmlega alveg eins og hann leit út á þessum árum. 

Hver er Maggi Axels?  Jú hann útskrifaðist sem leikari með mér 1972, síðan gerðist hann ljósavitringur niðrí gamla Iðnó en held að hann starfi núna sem fasteignasali.  Hef ekki séð hann í mörg herrans ár.  En fyrr má nú rota en dauðrota.  Bara koma svona fram og láta alla halda að hann sé að leika aðalhlutverkið í The Hangover.  Einhvern gaur sem heldur á barni og spyr:  Howse baby is this? 

Ég vona að þeir fari að taka þessa auglýsingu út svo ég verði ekki alveg galin að hafa þetta fyrir augunum dagsdaglega.  Please!!!!!!!!!!!!!  Do it NOW!!!!!!!!!!!!!

Ef þú lest þetta Maggi minn sem er nú frekar ólíklegt væri gaman að heyra frá þér.  Léstu klóna þig? 


Þessi hlaup á milli eldhúss og borðstofu hafa sett toll á mínar eðal fætur og ruglað heilabúið verulega í dag.

Dagurinn er búinn að vera svona upp og niður, út og suður.  Hlaupa úr einu í annað.  Aðallega að ganga frá eftir kalkúnveisluna í gærkvöldi.  Hér sjáið þið minn elskulega í Benihana ham, get svo svarið fyrir það.  Þið sem þekkið japanska steikhúsið Benihana vitið hvað ég er að fara.  Sjáið hvernig hann mundar hnífinn við að ,,carva" fuglinn sem var heil átta kíló fyrir sjö manns. 

Thanksgiving og X Mas cards 2009 003 Sjáið hvað minn er happy go lucky!!!!!

Já sem sagt á milli þess sem ég hljóp inn í eldhús og setti í uppþvottavélina vegna þess að ég nennti ekki að klára það í gærkvöldi, fór út og rak kattarkvikindi, sko villikött, sem var á kafi í ofnskúffunni löðrandi í fitu af fiðurfuglinum, leit eftir hvort ofninn sem var að sjálfhreinsa sig kveikti nokkuð út frá sér eins og einu sinni gerðist næstum því, heppin þá að vera heima.  Þá var ég á kafi að skrifa jólakort til ykkar allra, nema ykkar aularnir sem ég tók út af listanum og þíðir ekkert að röfla yfir því, búið og gert! 

Thanksgiving og X Mas cards 2009 006

Sko svona leit borðstofuborðið mitt út og svo verðið þið að ímynda ykkur skíðlogandi arineld í horninu á stofunni.  Koma svo, setja ímyndunaraflið í gang! 

Ok ég er búin að skrifa þessi 200 kort sem senda á hingað og þangað um heiminn.  Léttir? Já ekkert smá!

Nú get ég einbeitt mér að eldhúsinu sem er alveg að fara að taka á sig mynd eftir tiltekt dagsins frá klukkan níu í morgun. Ef einver er að undrast hvar Barbara er þá er hún í fríi í dag.  Bara eintómt vesen.

Jæja ég ætla nú að fara að huga að kalkúnsafgöngum og laga risa BLT samloku að hætti Ameríkana.

Síðan verður kvöldið tekið með ró og spekt.

Farin að bæta á arininn. 

Asnar búin að segja ykkur það, Barbara er í fríi í dag. 

 Þarf að gera allt sjálf!

Þíðir ekkert að smella á þetta ALLT, hefur ekkert að gera með sjá nánar, oh þið eruð svo miklir aular, meina það!

 


Spádómskertið tendrað í dag.

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Innkeyrslan að Stjörnusteini  Það er orðið jólalegt hér að Stjörnusteini og jólastemmning sem aldrei fyrr.  Allt sem ég missti af í fyrra verður tekið tvöfalt inn núna. 

Ég hef það á tilfinningunni að þessi aðventa verði okkur skemmtileg og hátíðleg með ógrynni af allra handa uppákomum heima sem heiman.

Njótið kæru vinir mínir og ekkert stress. Ég ætla alla vega ekki að halda jólin í skápum eða geymslunni svo allt þrifnaðaræði verður látið bíða fram á vorið.

  Njóta bara og njóta hverrar mínútu.

 


Guð ekki láta hann taka ORA baunirnar og þar með eyðilegja jólin!

Hann lyfti upp hendi og stoppaði okkur þar sem við komum ýtandi vögnunum á undan okkur troðfullum af farangri svo varla sást í nema bleikan nefbroddinn á okkur.

Minn elskulegi var á undan, einhver hissa, nei ég bara spyr svona?

Vörður tollgæslunnar stöðvaði hann og í fyrsta skipti fór um mig smá fiðringur.  Ekki það að ég sé smeyk við þessa verði laga og réttar en þarna á undan mér í einni töskunni var jólamaturinn, fiðurfé, Hólsfjallahangikjöt eða næstum því og ORA. 

 Guð ekki láta hann taka ORA baunirnar!  Ég grátbændi almættið í huganum þar sem ég sá þennan í hvítu skyrtunni stöðva minn mann. 

Ég mundi eftir því þegar við vorum einu sinni tekin í tollinum á Keflavík vegna þess að við vorum með svo hrikalega mikinn farangur og beðin um að opna eina tösku.  Rótað upp óhreinum nærum og sælgæti frá USA.  Lokað síðan en þá segir sonur okkar:  Pabbi vá gott að hann fann ekki byssuna!  Og hvað? Jú auðvitað rifið upp úr öllum töskunum. 

Nú sá ég jólamatinn okkar á hraðleið í tékkneskar ruslafötur eða á nægtaborð yfirvaldsins.

Minn fór í vasann og veifaði diplópassanum en við honum var fussað og spurt hvað hann ætlaði að vera lengi í landinu.  Þá stakk minn hendi í hinn vasann og dró upp græna passann þar sem stendur að við séum með dagvistar og næturleyfi í Tékklandi til ársins 2089.

Mistök sem gerð voru af yfirvaldi þegar við fengum græna passann. 

Tollarinn gerði enga athugasemd og vísaði okkur inn í landið með bugti og honor.

Andsk.... man eftir því núna ég gleymdi að kaupa Makintosið og Nóa Sirius.

Jólin ónýt, get svo svarið það!

Er einhver á leið hingað?  Endilega takið með Nóa Sirius. 

 Makkintosið fæ ég sjálfsagt í Mark &Spencer.

Farin að leita að jóla eithvað....alla vega telja niður til jóla. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband