Færsluflokkur: Bloggar
23.8.2009 | 18:15
Skáldin okkar góðu þeir Þórbergur, Gunnar og Halldór.
Allt annað líf enda búin að vera með Skáldalífið hans Halldórs Guðmundssonar í eyrunum síðustu tvo dagana á meðan ég dingla hér út við grindverkið.
Þökk sé Walkman og framförum alheimsins.
Það er ekki laust við að mig langi til að taka bækurnar þeirra kumpána, Þórbergs og Gunnars Gunnarssonar til yfirlestrar enn einu sinni. Viss um að ég mundi leggja allt annan skilning í þær núna en fyrir 30 árum eða svo.
Hallgerður Péturs bloggvinkona mín benti mér á bloggið hans Illuga Jökulssonar hér fyrir tveimur dögum að ég held, þar sem Illugi fer á kostum með að skilgreina Bjart í Sumarhúsum. Ekki vil ég nú segja að ég hafi verið allskostar sammála Illuga en greinin, sem er snilldarvel skrifuð, kom mér til að hugsa um hvort ekki væri tími til kominn að taka Sjálfstætt Fólk ofan úr hillu einu sinni enn. Ef til vill finn ég nýjan Bjart eftir lesturinn.
En allt um það í dag er merkisdagur því hún Soffa okkar og hennar Steini eiga sex ára brúðkaupsafmæli. Að hugsa sér að það séu sex ár síðan Séra Ragnheiður pússaði þau saman hér í garðinum okkar.
Innilega til hamingju með daginn krakkar mínir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.8.2009 | 09:57
Þetta er hættulegt, þetta er stórhættulegt!
Undanfarna daga hef ég hangið hér á grindverkinu og málað hvítt. Nú hugsar sjálfsagt einhver: Ekki eru nú afköstin mikil hjá kerlingunni, bara enn að mála. Sko þið þarna, þetta grindverk er hátt á annan kílómeter að lengd svo þið skuluð ekkert vera að hæðast að mér.
En hvað er svona hættulegt. Jú það skal ég segja ykkur. Að hanga svona dag eftir dag aleinn út við grindverk, mála einslitt og það hvítt, ekki kjaftur í mílu fjarlægð með brennheita sólina í bak og fyrir það getur gert hvern mann hálf vitlausan.
Sem sagt stórhættulegt fyrir sálartetrið. Jú ég á Ipod en hann er í láni, Nei ég á ekki ferðaútvarp eða CD ferðaspilara ef svo væri þá væri ég ekki að væla þetta asnarnir ykkar.
Fyrstu dagarnir voru OK ég hlustaði á fuglana tala við mig og söng á móti, voða svona sætt. Svo fór mér að leiðast að tala við málleysingja og hundinn svo ég fór að hugsa og hugsa og hugsa sem endaði með því að ég var farin að tala við sjálfa mig, UPPHÁTT! Shit sem sagt stórhættulegt ástand!
Svo var það andskotans gula fíflið svo hrikalega heit gæti auðveldlega fengið sólsting ofan í geðveikina. Treð húfunni fastar ofan á hausinn alveg ofan í augu. Tek ekki sénsinn á neinu.
Farin út að hanga á grindverkinu, mála hvítt og hugsa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
17.8.2009 | 10:11
Vélin fær að halda heiðurssætinu aðeins lengur.
Ég skokkaði ,,léttfætt" niður stigann í morgun. Viku djúsdögum var lokið og nú gat ég farið og gúffað í mig öllu því sem mér finnst gott á morgnanna. Hafrakex með miklu smjöri og marmelaði, ómælt kaffi og bara að nefna það!
Þegar niður kom barst mér í vit sama lyktin og ég hef fundið á hverjum morgni alla vikuna. Lykt af nýpressuðum ávöxtum með engifer og annarri hollustu. Minn elskulegi hafði auðsjáanlega haldið áfram í djúsnum.
Þarna stóð hún á sama staðnum og hún hefur verið alla vikuna. Í nokkurs konar heiðurssæti í eldhúsinu. Við hlið hennar var shakevélin, viktin og kannan. Allt eins og það er búið að vera í heila viku.
Um hvað er ég að tala? Nú auðvitað djúsvélina sem ég var búin að hlakka svo til að koma aftur út í horn hinum megin í eldhúsið. ´Langt, langt úr sjónmáli! Bara pakka græjunni og nota aðeins spari. Þetta var orðið ágætt og ég svindlaði ekki nema síðasta daginn enda búin að fá upp í kok af allri þessari hollustu.
Neip, minn elskulegi nú er nóg komið hugsaði ég og sótti mitt hafrakex í skúffuna, sem enn var í þokkalegu standi, ekkert farið að mygla að ráði, smjörinu og marmelaðinu var skellt á borðið og ég smurði kexið á meðan munnvatnið lak út um munnvikin.
Með kaffið í krúsinni og kexið í hendi settist ég og nú skildi kjamsað á óhollustunni. KJammmssss..... viti menn þetta var ekki eins gott og mig minnti. ´Stóð upp náði í djúskönnuna úr ísskápnum og skellti í mig einum góðum.
Djúsvélin fær að standa í heiðurssætinu aðeins lengur.
Verð sjálfsagt að drekka mig niður næstu daga.
Farin út að mála grindverkið hvítt.
Það er heitt, það er hrikalega heitt úti. Finna mér sólhlíf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.8.2009 | 21:16
Ekki eftirsóknarvert
Var að koma heim úr einu af þessum puttamatarboðum.
Þið vitið hvernig þetta er, heilsa kurteisilega og kynna sig:
,,Gott kvöld. Ég heiti so & so og er frá Íslandi".
Skil ekki alveg hvers vegna ég segi alltaf öllum hvaðan ég kem. Einhver lenska hjá mér í öll þessi ár. Held bara að mér hafi þótt það flott að vera frá þessari litlu eyju á norðurhjara veraldarinnar. Alla vega þótti það athyglisvert að vera frá Íslandi. Landinu þar sem allt var að gerast.
Í dag veldur það mér bara veseni að tilkynna hvaðan ég kem. Sorgleg staðreynd.
,,Vá ertu frá Íslandi? Hvernig er ástandið þar núna? Hvernig stóð á því að þið fóruð á hausinn? Hverjir eru ábyrgir fyrir því að þið eruð gjaldþrota þjóð? Hvað með skuldirnar, ætlið þið að borga? Haldið þið að þið komist inn í EU? Er forsætisráðherrann ykkar lessa?
Haldið að þetta sé ekki skemmtilegt? Nei elskurnar í dag er ekki eftirsóknarvert að vera frá fallegu eyjunni okkar í norðri.
Annars erum við bara í góðum málum hér að Stjörnusteini og mætum í næsta puttamatarboð á morgunn klukkan sex, promt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.8.2009 | 14:15
Sárt!
Hvernig getur konan látið annað eins út úr sér!
Mig verkjar í brjóstið eftir að hafa lesið þessa frétt!
Hvílítkt blygðunarleysi hjá Margréti Tryggvadóttur!
Þráinn minn okkur tekur þetta sárt og sendum þér baráttukveðjur héðan frá Stjörnusteini.
Þráinn segir sig úr þingflokki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.8.2009 | 08:55
Endurbyggjum Valhöll á Þingvöllum.
Eigum við svo ekki að hittast einhvern dagin á Þingvöllum og fá okkur snarl saman á Valhöll?
Þetta sagði einn góður vinur okkar þegar við hittumst heima í sumar og við tókum vel undir þessa tillögu. Okkur hafði líka dottið í hug að taka gamla settið þ.e. móður mína og tengdaföður í Þingvallasilung að Valhöll einn daginn á meðan við værum á landinu.
Það var alltaf svo hátíðlegt að heimsækja þjóðgarðinn. Alveg sama í hvernig veðri þú komst það ríkti alltaf einhver dulmögnuð stemmning á svæðinu.
Nokkrum dögum eftir að við komum heim brann Valhöll.
30. júlí keyrðum við hjónin austur á Þingvöll og svona var umhorfs þá.
Þarna stóð Valhöll eitt sinn. Þegar myndin er tekin er verið að tyrfa yfir reitinn.
Ég og sjálfsagt fleiri eigum góðar og ljúfar minningar frá þessum stað alveg síðan við vorum börn.
Nú er búið að skipa í nýja Þingvallanefnd sem á að sjá um þjóðgarðinn og alla framkvæmd á svæðinu.
Ég vona af heilhug að sú nefnd sjái til þess að endurbyggt verði þarna fallegt hótel sem gæti jafnvel þjónað sem lítið snoturt ráðstefnuhótel. Listamenn þjóðarinnar gætu fengið að sýna verk sýn, jafnvel hver og einn fengið eitt herbergi til þess að skreyta með list sinni.
Garðskáli með Flóru Íslands væri líka augnayndi þar sem hægt væri að sitja með góðan kaffisopa.
Að við almenningur gætum aftur heimsótt Valhöll og gert okkur glaðan dag eins og fyrr.
Þjóðgarðurinn er fyrir almenning og þar á okkur að líða vel.
Það nægir ekki að hafa vegasjoppu og upplýsingaborð!
Ég bíð þess að geta aftur komið að Valhöll í nýrri og betri mynd og fengið mér silung úr Þingvallavatni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
13.8.2009 | 08:52
Þráinn stóð við sín loforð og er það vel!
Hafa þessir þremenningar ekkert betra að gera heldur en karpa yfir kaffibolla um hvort Þráinn sitji áfram eður ei. Þið sem ætluðu að gera hrossakaupin á ,,Eyrinni" hættið þessum bjánaskap og farið að vinna eða er Alþingi of stór vinnustaður fyrir ykkur? Hvernig væri þá að þið fengjuð ykkar varamenn til að setjast í sætin ykkar og þið færuð heim og hugsið ykkar gang.
Þráinn gerði ekkert annað en að standa við gefin loforð! Stend með þér Þráinn!
Vilja Þráin af þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.8.2009 | 10:00
Við erum sterk þjóð og frábær! Stöndum af okkur alla storma!
Það fór ekki fram hjá okkur á ferð okkar um landið sl mánuð að það vantaði mikið upp á gamla góða baráttuviljann hjá mörgum.
Þrátt fyrir sól og sumaryl fannst mér eins og dimm ský lægju yfir mönnum og málleysingjum. Fólk skiptist í hópa sumir töluðu ekkert um ástandið hvort það var af því þeir höfðu gefist upp eða vildu njóta þess að vera til örlítið lengur veit ég ekki en það voru líka aðrir sem töluðu út i eitt um þetta hryllingsástand. Skömmuðust og rögnuðu yfir öllu en voru ekki með neina lausn á takteinum. Dapurlegt.
Þegar við vorum heima í nóvember í fyrra var viðkvæðið hjá flestum: ,, Hva þetta reddast" eða ,,þetta er nú ekki svo svart" Enda hvernig var hægt að trúa því að nokkrir einstaklingar gætu verið það siðblindir og geggjaðir að þeir gætu komið heilli þjóð á heljarþröm?
Því miður gerðist þetta og það virkilega tók á að horfa upp á allar breytingar sem orðið hafa í þjóðfélaginu á ekki lengri tíma. Verslanir sem áður gengu feiknavel var búið að loka eða hálf tómar hillur blöstu við manni þegar maður kom inn og afgreiðslustúlkan stóð örvæntingafull bak við borðið með hangandi hendi því það var ekkert til að selja lengur og engin tilgangur með því að halda þessu áfram. Þetta næstum stóð skrifað skýrum stöfum á enninu.
Túristabúðir, veitingastaðir og annað sem laðar að ferðamenn voru yfirfull af kátum ferðamönnum í BIÐRÖÐUM og þreyttu starfsfólki sem fékk varla matarpásu vegna þess að það var svo geðveikt að gera. Ég þori engu að spá um framhaldið á þessu en mikið asskoti mega Íslendingar vara sig ef þeir hætla að halda uppi ferðabransanum. Verðlagið er ekki í samræmi við gæði og sum staðar er maður bara einfaldlega tekinn harkalega i nefið.
Það fer ekkert á milli mála að þetta ástand gengur jafnt yfir alla, ríka sem fátæka, börn og gamalmenni. Nú þegar haustið nálgast með sínum dimmu dögum, verðlag hækkar og útivistartíminn styttist þá bið ég fyrir þjóð minni.
Gífurlegt þunglyndisálag á íslensku þjóðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.8.2009 | 19:58
Endalausar biðraðir hvar sem maður kemur.
Þessi færsla er sett saman hér í eldhúskróknum mínum að Stjörnusteini. Við erum sem sagt komin heim eftir fjögra vikna ferð til heimalandsins.
Í gær eftir að hafa snætt hádegismat með Ástu vinkonu á Jómfrúnni náði ég að sjá hvernig hinsegin dagur fer fram á Íslandi. Athyglivert! Flott skrautsýning!
Á leið minni heim til móður minnar gekk ég upp Laugaveginn og rakst á Jóhönnu bloggvinkonu mína í mátunarklefa hjá Sævari Karli. Það var óvænt ánægja. Einnig tókst mér að smella kossi á Berg Thorberg bloggvin þar sem hann sat og málaði með kaffinu sínu í einni skartgripabúðinni en hann hafði ég heldur aldrei hitt áður.
Það tók mig ansi langan tíma að komast upp allan Laugaveginn þar sem ég næstum stoppaði við hvert horn til að heilsa vinum og vandamönnum enda dagurinn til þess að sporta sig aðeins.
Íslenskur humar er hnossæti og okkur litlu fjölskyldunni tókst að torga fleiri kílóum af humri í gærkvöldi en það var svona smá kveðjusamsæti heima hjá Soffu okkar og Steina fyrir okkur og svo komu mamma og tengdapabbi auðvitað líka.
Við vorum komin snemma upp í íbúð enda mæting klukkan sex í morgun í flug til Köben. Ég veit ekki hvað ég er alltaf að taka þessi morgunflug trekk í trekk. Bara til þess að gera mann hálf geðillan! Lærir aldrei af reynslunni, get svo svarið fyrir það!
Maður ætlar sér að ná einhverjum svefni en tekst það aldrei nokkurn tíma. Er eins og milli svefns og vöku alla nóttina af því maður treystir ekki á að vekjaraklukkan standi sig, sko hún gæti klikkað einmitt þá.
Í morgun fór ég undir sturtuna hálf sofandi og auðvitað var hún annað hvort of heit eða of köld. Þar sem ég stóð þarna með lokuð augun og reyndi að stilla hitastigið var það auðvitað ekki hægt, hver geturðu stillt hitastig með lokuð augun, þið vitið, sturtan var með svona 30° - 60°dæmi. Ég ákvað að láta þennan kattarþvott nægja og hálf skaðbrunnin krönglaðist ég upp úr baðkarinu og auðvitað varð mér fótaskortur og rann til í bleytunni en slasaði mig ekki vitund en þetta var til þess að ég glaðvaknaði og byrjaði daginn á því að bölva og ragna. Ekki beint skemmtilegt.
Út í bíl, töskunum skellt afturí og beðið fallega um að ekkert hafi nú gleymst í íbúðinni. Passinn, útskriftin á farmiðanum, gleraugun og snyrtibuddan sé nú örugglega í handfarangrinum. Við hefðum verið í djúpum skít ef við hefðum gleymt einhverju af þessu í íbúðinni því lykillinn var kominn í póstkassann og eigendur einhvers staðar að ríða hrossum upp í óbyggðum, en allt var á sínum stað, hjúkket!
Bruna í Garðabæinn til að ná í Steina tengdason og síðan var lullað til Keflavíkur, ég segi lulla þegar keyrt er á 90 km pr. klst. Verst að geta ekki sofið en ég kann ekki að sofa í bíl, þarf alltaf að vera á vaktinni, sko það gæti eitthvað gerst sem ég hefði betur vit á en bílstjórinn.
Komum til Keflavíkur tveimur tímum fyrir brottför. Eins gott, það var varla að maður kæmist inn í afgreiðslusalinn svo mikil var örtröðin. Vitið þið hvernig manni líður eftir að hafa staðið í endalausum biðröðum í heilan mánuð upp á hvern einasta dag? Nei ekki það, ég skal sko segja ykkur að maður fær velgju fyrir brjóstið og svona snert af innilokunarkennd. Síðan fyllast vitin af alls konar líkamslykt sem gerir það að verkum að það er örstutt í það að maður lognist útaf á staðnum.
Þannig leið mér í morgun og við máttum bíða í klukkutíma innan um túhestana áður en við fengum bording passann. Svo þegar þú flýgur í Monkey þá er ekkert sem bjargar þér úr þessari prísund. Næst spandera ég á okkur deLux.
Síðan tekur önnur biðröð við þegar þú ferð í gegn um eftirlitið og ég átti líka eftir að fara í Tax free en hefði sleppt því ef ekki hefði verið um töluverða upphæð að ræða. Búin að vera óhemju dugleg að styðja við bakið á landanum sl. mánuð. Bara verslað eins og ....... þar beið ég í tuttugu mínútur!
Þá voru tíu mínútur í brottför og ég ekki enn búin að fá kaffið mitt. Engin bók keypt og ekkert af ´öllu því sem ég kaupi reglulega þegar ég fer þarna í gegn, allt þessum bölvuðu biðröðum að kenna. Ég dæsti framan í minn elskulega og sagði: ,, Veistu ég þoli ekki fleiri biðraðir, ef ég sé eina í viðbót þá klikkast ég" Auðvitað var svo önnur við hliðið og síðan bara endalausar raðir í allan dag!
Ég er svo fegin að vera komin heim og ég fer ekki einu sinni út í búð á morgun því þar get ég lent í því að verða að standa í biðröð við kassann og það hef ég alls ekki ætlað mér að gera.
Engar biðraðir í bráð. Please!!!!!!!!!!!!!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Heppinn Úlfar minn að verða ekki uppiskroppa með hnossætið. Ekki það að ég leggi mér þetta til munns en af því þú ert kominn í fréttirnar vil ég fá að nota tækifærið og þakka þér fyrir að halda uppi staðnum í öll þessi ár.
Geri aðrir betur! Við komum við hjá þér fyrir réttri viku og vorum með gamla fólkið þ.e. aldraða foreldra okkar með okkur. Fengum frábæran mat og þjónustan var þvílíkt til fyrirmyndar en því miður varst þú hvergi nærri gamli minn. En þú getur svo sannalega streyst þínu fólki fyrir staðnum af og til. Frábærir krakkar að vinna þarna og gaman að fylgjast með þeim leysa dæmin sem komu upp á yfirbókuðum staðnum og klukkan rétt um sjö mig minnir að þetta hafi verið laugardaginn 1. ágúst.
Aldrei neitt mál. Þau unnu saman eins og einn maður.
Takk fyrir okkur.
Hvalkjötið dugði Úlfari í sautján ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)