Færsluflokkur: Bloggar
4.8.2009 | 23:54
Vissuð þið að það er ekkert níu bíó lengur?
Helgin fór rólega fram hjá okkur hjónum og nutum við þess að vera hér í fámenninu í höfuðborginni, gengum um meðal ferðamanna og einstaka samlanda í sumri og sól.
Það var rölt um miðbæinn, einn daginn var kaffi drukkið á svölunum hjá Eymundsson við Austurvöll hinn daginn kaffi í gamla Hljómskálanum og gengið um garðinn. Minn elskulegi fór með mig í sund í Árbæjarlaugina og á eftir röltum við um Árbæjarsafnið en þangað höfðum við ekki komið í mörg ár.
Ég fór með móður mína í Grasagarðinn, takið eftir nú er ég ,,farin að fara með fólk" hingað og þangað en fólk hætt að ,,fara með mig", batnandi konu er best að lifa eða þannig.
Í dag tók ég sjálfa mig og gekk niður Laugaveginn en komst ekki lengra en niður hann hálfan, ekki það að ég hefði ekkert úthald heldur var svo gaman á búðarröltinu, bara alltaf jólin hjá okkur þessa daga. Nú á ég eftir skemmtilegri hlutann sko þennan með öllum flottu búðunum sem eru með vörur eftir Íslenska hönnuði. Það verður skannað á morgun svona á milli þess sem ég verð í heimsóknum.
En þetta var nú ekki það sem ég ætlaði að skrifa um í kvöld.
Vissuð þið að það er ekki hægt að fara í níu bíó lengur?, Neip, get svo svarið það bara átta og tíu bíó.
Nú ok vissuð þið þetta.
Ekki ég, varð bara hálf fúl þar sem við ætluðum að skella okkur í bíó, vegna þess að það er svo grautfúlt sjónvarpið á þessu landi, og okkur langaði að eiga bara svona eitt kvöld útaf fyrir okkur, haldast í hendur, maula popp og bara verða sextán aftur, en svo bara var ekkert níu bíó lengur.
Djö... frekar spælandi, fórum þá bara upp yfir snjólínu og horfðum á Bláfjallahringinn út um gluggann. Stóðum og héldumst í hendur þar til við vorum komin með sinadrátt og alles, sko föttuðum ekki að auðvitað hefðum við átt að setjast í stóla, fólk á okkar aldri, en fattarinn er stunum ekki alveg að meika það hjá okkur.
Aldurinn skiljið þið.
Minn elskulegi kominn til kojs og ég alveg að fara að skríða uppí enda langur dagur á morgun.
Ég skal sko segja ykkur það að það tekur á að heimsækja landið okkar.
Eintóm gleði en líka smá púl og stundum jafnvel pínu þrældómur.
Er ekki annars allt í góðu? Eins og ein servitrísan spurði okkur um daginn á einu fínu veitingahúsi hér í borg.
Ha jú jú allt í góðu. Hef ekki enn hugmynd um hvað hún átti við, en það er ekki að marka mig svo hrikalega langur fattarinn þessa dagana.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.8.2009 | 14:24
Það verður ekki farið yfir Elliðaárnar oftar í þessari reisu!
Það var fallegt að horfa til Eyja í fyrradag þegar við keyrðum austur fyrir fjall. Við vorum svona í fyrra fallinu eins og Hallgerður myndi orða það og ekki laust við að okkur langaði að skella okkur yfir með Herjólfi en létum skynsemina ráða og héldum okkur á meginlandinu.
Við gerðum víðreisn á fimmtudag. Heimsóttum vinkonu okkar sem býr ekki langt frá Skálholti og fengum þar frábærar súpur í hádeginu, já segi súpur því hún bauð upp á tvennskonar súpur.
Þá keyrðum við að sumarhúsi vina okkar ekki all langt frá og lentum þar á skemmtilegu ,,félagsmóti" algjörlega óvart. Hrikalega skemmtileg uppákoma.
Þeir eru flottir kofarnir á Íslandi!
Um sexleitið renndum við í hlað hjá Helga bróður Þóris og Jónu í Grímsnesinu en þar beið okkar uppdúkað borð og kræsingar. Eins og gefur að skilja var ómögulegt að keyra heim eftir að hafa stútfyllt magann allan daginn svo við þáðum gistingu um nóttina.
Í gær eftir góðan sundsprett í Hraunborgarlaug og auðvitað Brunch því maður verður jú að halda sér við efnið síðan keyrðum við í fyrra fallinu til Reykjavíkur.
Við sem sagt tókum Verslunarmannahelgina snemma og enduðum í gærkvöldi heima hjá góðum æskuvinum í frábærum félagsskap og að sjálfsögðu enn og aftur glæsilegum dinner!
Vitiði það við bæði hjónin stöndum nú á blístri eftir allt átið síðustu daga! Þetta er ekki nokkur hemja að kunna sér ekki magamál.
Svo bara hugsar maður: ,,Mikið vildi ég að ég væri sofnaður, vaknaður aftur og farin að éta"
Ætla að reyna að koma mér út úr húsi og rölta með móður minni um Hljómskálagarðinn í góða veðrinu.
Og eitt er alveg á hreinu ég fer ekki yfir Elliðaárnar já alla vega ekki lengra en að Rauðavatni í þessari ferð. Er aveg búin að fá nóg af sveitasælu í bili.
Ég er líka fegin að við tókum helgina í fyrra fallinu, þá getum verið hér í borginni alein, eða næstum því.
Blíða í Eyjum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.7.2009 | 22:48
Takk fyrir vinir mínir allir að vera til!
Við þessar flottu vinkonur hittumst í dag heima hjá Ingunni Jens eftir áratuga aðskilnað. Skil bara ekkert í því hvernig við fórum að því að halda út þennan langa aðskilnað og að sjálfsögðu var ákveðið að nú yrði bætt um betur og við kæmum til með að hittast reglulega á komandi árum.
Það er engin spurning við erum flottastar, Ingunn, Halla Guðmunds og ég. Jónína H. var með okkur og tók þessa flottu mynd af flottustu leikkonum ever!
Fyrst ég er komin hér í myndalistann þá ætla ég að smella inn nokkrum myndum af okkur með góðum vinum okkar sem við erum búin að vera að hitta sl. viku.
Minn elskulegi með okkar góðu vinum Sverri og Dennies Bernhöft.
Sveinn Grétar Jónsson og Hanna Kristín kona hans fær koss frá mínum elskulega.
Við vinkonurnar í Grasagarðinum fyrir viku. Ester, Hanna Kristín, Ég, Erla og Inga á myndina vantar í hópinn Helgu og J'onínu Bjartmarz en þær voru því miður fjarri góðu gamni. Sjáumst bara næst mínar kæru.
Það er aldrei leiðinlegt hjá þessum vinum. Hann er uppáhalds dansfélagi minn og æskuvinur hann Kristján Guðmundsson. Góð saman!
Elsa Baldurs og Arndís Borgþórsdóttir mínar æskuvinkonur. Frábært kvöld en þarna bauð Arndís og Ísleifur bloggfélagi m.m. okkur í mat og ljúfa drykki.
Hér kemur síðan síðasta myndin í bili. Þetta eru skólasystur sem hittast árlega eða jafnvel oftar og hafa gert það í fjörutíu og eitthvað ár. My oh my eithvað svo rosalega ,,Otto flotto" á myndinni.
Talið frá vinstri: Sigdís Sigmundsdóttir, Ía pía, Sigrún Erlendsdóttir, Birna Dís Benediktsdóttir og Elsa Baldursdóttir. Því miður vantar á myndina Huldu Ólafsdóttur en hún tók myndina þar sem við hitumst í fyrradag á Skrúð.
Þið sjáið nú að við hjónin höfum ekki bara setið og prjónað síðan við komum. Þetta er búið að vera endalaus gleði og kemur til með að halda áfram þar til við förum heim.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.7.2009 | 00:27
Það skelfur og titrar en bara innra með mér.
Sko konan í viðtalinu í tímaritinu Vikunni talaði með fyrirvara eða þ.e.a.s. skjálftinn getur komið á hverri stundu eða jafnvel eftir nokkra daga svo ég hangi hér enn í dyraopinu og þori ekki að hreyfa legg né lið. var næstum búin að skrifa li. fannst það bara eitthvað svo dónó.
Jenný er búin að kommentera hér að allir sem hafa tjáð sig hér á síðunni að ofan séu afskaplega auðtrúa á Gróusögur og hindurvitni. Hehehehe...er eitthvað svo rosalega sammála henni eru allir á þessu landi ekki alveg í lagi?
En................
Ég þori ekki úr hurðagættinni enda búin að upplifa þvílík undur og stórmerki þessar tvær vikur sem við erum búin að dvelja hér.
Á þessu landi upplifir maður bara undur og stórmerki sem hvergi annars staðar finnast á jarðríki. Á hverjum degi verður þú fimm sinnum kjaftstopp og fimm sinnum færðu hláturskast og fimm sinnum heldur þú að það sért þú sem ert hálfvitinn en ekki landinn.
Úllallala ansi var að vita það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.7.2009 | 11:49
Spennan magnast með hverri mínútu.
Ólygin sagði mér að við mættum búast við þessu og eftir öllum sólarmerkjum að dæma þá yrði ég ekki hissa ef einhverjar hræringar yrðu hér á landi.
Ég er búin að leita dyrum og dynkjum hér í íbúðinni að símaskrá en finn enga en þar standa eða stóðu alla vega allar leiðbeiningar um hvernig maður á að haga sér í svona tilfellum. Það eina sem ég man úr þessari klausu er að maður á að standa í dyragætt svo það ætla ég að gera, koma mér fyrir einhvers staðar í dyragætt og standa þar nákvæmlega klukkan 23:15 þegar sá stóri kemur til með að skella á okkur og ekki hreyfa mig fyrr en einhver með viti segir mér að hættan sé liðin hjá.
Það er ekki að spyrja að því það eru spennandi tímar hér á Íslandi.
Alltaf eitthvað nýtt og dulúðugt á hverjum degi í fréttum.
Spurt um jarðskjálftaspádóm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
23.7.2009 | 21:34
Snæfellsjökull er enn kynngimagnaður.
Á ferð okkar frá höfuðstað norðurlands og suður til Reykjavíkur vakti það athygli okkar hvað þorpin og sveitabæirnir á Snæfellsnesi báru af hvað snyrtimennsku og fallegt umhverfi varðar. Þá sérstaklega fannst okkur Stykkishólmur bera af með sínum fallegu gömlu húsum. Við keyrðum fyrir jökul og gistum á Búðum síðustu nóttina okkar á þessu ferðalagi.
Engin bauð þó upp á Hnallþórur í þetta sinn og fannst okkur pyngjan léttast all verulega við það að snæða kvöldverð á þessu ,, rómaða" hóteli. Held að Jónas Kristjáns hefði ekki orðið par hrifinn ef hann hefði verið þarna við næsta borð.
Við gengum um fjöruna í kvöldkyrrðinni og soguðum að okkur kraftinn sem streymdi frá jöklinum er glóði sem gull við sólsetur. Það er ekki oft sem færi gefst á að upplifa slíka daga hér á ísaköldu landi. Kynngimagnað!
Við komum seint til með að gleyma þessari ferð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.7.2009 | 11:57
Hvar er flugvöllurinn? Þetta er ekki alveg að gera sig fyrir lofthrædda.
Hér áður fyrr þegar við fórum norður heiða var bara keyrt eins og leið lá beint af augum og aldrei farið út af þjóðveginum. Að taka aukakrók var ekkert rosalega vinsælt þ.a.l. hafði ég aldrei komið á Siglufjörð eða aðra útkjálka landsins. En nú var breytt út af venju og við erum búin að þræða flest smáþorp og bæi norðurlands.
Eftir frábæra daga fyrir norðan með litlu fjölskyldunni frá Prag og Garðabæ þar sem við spókuðum okkur í höfuðstað Norðlendinga, fórum í böðin á Mývatni og nutum sjáfarloftsins á Grenivík í sól og sumaryl tókum við bátinn út í Hrísey og tókum eina Taxann á svæðinu sem keyrði okkur um eyna og sagði um leið sögur af lífinu í eynni. Þetta er sem sagt eini leigubíllinn þeirra Hríseyjarmanna. Flott farartæki en frekar hast á misjöfnum vegum.
Eftir að hafa skoðað Hrísey héldum við suður á bóginn með stuttum stoppum á hinum ýmsu stöðum. Ég hef oftsinnis sagt ykkur frá minni hrikalegu lofthræðslu en vegna þess að ég hafði aldrei komið á Siglufjörð vildi ég endilega keyra sem lá leið út á þetta margrómaða síldarpleis.
Við vorum komin svona hálfa leið að Strákagöngum þegar var ég næstum farin út úr bílnum á ferð. Ég er ekki að djóka. Ég hélt mér dauðahaldi í hurðina og hallaði mér yfir að mínum elskulega þar sem ég var alveg klár á því að ef ég hallaði mér að honum héldist bíllinn frekar á veginum en hentist ekki fyrir björg. Í hvert skipti sem minn elskulegi opnaði munninn til að lýsa fyrir mér, sem sat með klemmd augu, fegurð lands og sjávar bað ég han um að halda KJ, horfa á veginn og hugsa bara um það að koma okkur niður úr þessu þverhnípi þegjandi og hljóðalaust. Ég hefði engan áhuga á að vita hvernig umhorfs væri upp á þessum fjallvegi. ,,Keyrð þú bara og ekki tala við mig, ekki eitt orð!"
Göngin sem maður keyrir þarna á milli eru heldur ekki fyrir fólk með innilokunarkennd. Ég er sem betur fer laus við að hafa hana líka en mér leið eins og ég færi inn í ginið á Miðgarðsorminum og kæmi inn í kolsvart holið sem engan endi ætlaði að taka. EMMIN sem segja þér að þar geti þú farið inn í afkima ef þú mætir öðrum bíl eru eitthvað sem ég hef aldrei séð áður en auðvitað bráðnauðsynleg. Ég saup hveljur í hvert skipti sem við sáum ljós framundan. Náum við að næsta EMMI.
Ég var mjög fegin þegar við komumst út úr þessu svartholi og út í sumarsólina og þarna lá inn fægi síldarfjörður í öllu sínu veldi og ég sagði: ,, Hvar er flugvöllurinn?"
Minn leit á mig dálítið sposkur á svip og sagði: ,, Hva ætlar þú að fljúga suður?" Ég get svarið það að það hvarflaði að mér, ég gat ekki hugsað mér að keyra þetta aftur og þá með hyldýpið á mína hönd allan tímann.
Við keyrðum inn í bæinn og ég sló á þráðinn til vinkonu minnar sem á hús þarna upp á brekkunni. Hún var auðvitað ekki á svæðinu en svona á milli þess sem hún lóðsaði mig að húsinu og ég gekk um í garðinum hennar og kíkti á glugga með hennar leyfi datt út úr mér svona alveg óvart:,, Heyrðu Birna hvar er flugvöllurinn?" Hún vissi alveg af minni lofthræðslu og sagði: ,,Elskan mín, það er ekki lengur flogið til Siglufjarðar" og bætti svo við: ,, veistu vegurinn var sko helmingi verri hér í gamla daga, annars skil ég vel að það fari um fólk sem keyrir þetta svona í fyrsta skipti"
Ég varð sem sagt að keyra þetta aftur til baka og ekki spyrja mig hvernig útsýnið er því ég fór þetta með lokuð augu.
Nenni ekki að segja ykkur fleiri sögur í dag, er farin út í góða veðrið.
Njótið sumarblíðunnar á meðan hún endist.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.7.2009 | 13:57
Á Feeeeerðalagi
Sit hér innan um þéttvaxið birkið að Húsafelli og læt fara vel um mig í skjóli jökla.
Neip ég er ekki í apaleik (tjaldferð) læt aðra um það sem nenna svoleiðis vitleysu.Sitjum hér inn í hlýjum bústað og látum fara vel um okkur þar sem gula fíflið fór í frí í nokkra daga.
Ég verð nú að segja það að ég get ekki annað en dáðst að því fólki sem þyrpist hingað á tjaldsvæðin með heilu húsin í aftanídragi. Enn meir dáist ég að þeim sem koma sér fyrir á fallegum bala í kvöldsólinni og tjalda því sem tjaldað verður, sem sagt allt frá einu herbergi og upp í þriggja herbergja tjaldi með eldhúsi og setustofu. Síðan er farið að sofa og vaknað við það næsta morgun að það eru komnir nágrannar. Annar er húsbíll sem er á stærð við heilt einbýlishús og hinn er svona tjaldvagn með útskotum. Tjaldbúinn sem var svo ánægður með tjaldstæðið sitt kvöldið áður getur rétt skotið sér út fyrir skörina og verður að skáskjóta sér á milli tjalds og ferlíkisins til þess að létta á sér eftir nætursvefninn.
Ég hef nú ekki verið hrifin af teiknimyndum Mbl. en myndin í dag er alveg óborganleg og segir alla söguna.
Það yrði að borga mér afar vel fyrir að ferðast á þennan máta.
Eftir að hafa visiterað suðurlandsundirlendið um síðustu helgi með bróður mínum Kjartani og Bökku mágkonu, m.a. fórum við á tónleika að Listasetrinu Seli við Heklurætur þar sem Signý og Bergþór fluttu okkur sumardúetta og einsöngslög af þeirra einstöku snilld við undirleik Þóru Fríðu. Grilluðum með fjölskyldu Signýjar að Bjalla í Landssveit um kvöldið. Gistum um nóttina að Rangá. Gerðum usla hjá nokkrum vinum okkar sem áttu sér einskis ills von og ætluðu að hafa það náðugt í sumarhúsunum sínum. Tókum bæði vini okkar í heitum pottum,á kafi í byggingarvinnu og jafnvel náðum einum hjónum í rúminu. Ekki oft sem okkur tekst það!
Tókum gamla fólkið þ.e.a.s. mömmu og tengdapabba með okkur í Perluna á sunnudagskvöldið eftir mjög langan dag. Þreytt kona sem fór í rúmið þá um miðnætti og þess vegna erum við ekki komin lengra en upp í Borgarfjörðinn þar sem ég er að reyna að ná upp dampinum áður en við höldum áfram norður, en ætlunin er að leggja í hann á morgun.
Sendi frá mér fleiri pistla þegar ég verð í stuði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2009 | 11:38
Út í óvissuna í dag.
Við hjónin byrjuðum ferðina hingað heim á því að fá ærlegt hláturskast þegar við settumst upp í flugvélina frá Prag til Köben. Haldið þið að við höfum ekki fengið sæti í Exitinu alveg óumbeðið og ég fékk sömu lesninguna eins og ég lýsti hér tveimur færslum framar á síðunni minni.
Þetta var næstum svona taka tvö hehehe...
Nú þegar þetta er skrifað er ég stödd hér rétt við Rauðhóla í íbúð Guðfinnu vinkonu minnar með himneskan fjallahringinn í augsýn. Hengilinn, Hellisheiðina og Bláfjöllin í öllu sínu veldi. Ótrúlegt útsýni héðan af þriðju hæð. Ég held að þetta hús sé byggt á nákvæmlega sama stað og ég fór með móður minni í gamla daga í berjamó og þá þótti okkur við fara langt upp í sveit í ber.
Í gær fór ég og hitti góða vinkonu, Hönnu Kristínu sem kennd er við hárgreiðsustofuna Kristu og hún tók það sem eftir var af lubbanum mínum og gerði mig húsum hæfa svo nú get ég státað af stuttu hári og með lit sem ekkert líkist þeim músarlit sem var kominn á kollinn á mér. Takk elsku Hanna mín.
Það er búið að vera nóg að gera að heimsækja fjölskylduna og nú ætlum við að brenna austur yfir fjall með bróður mínum og mágkonu út í algjöra óvissu. Ætlum alla vega að hlusta á Signýju og Bergþór syngja í kvöld þarna fyrir austan.
Síðan sjáum við bara til.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.7.2009 | 07:07
Fara heim með sundfötin og Evrur í farteskinu
Jæja þá er hinn langþráði dagur runninn upp og við loksins á leiðinni heim. Ekki nema örfáir klukkutímar þar til við lendum í Keflavík.
Þið vonandi búin að draga út rauða dregilinn og flagga þjóðarfánanum. Lúðrasveitin tilbúin með ættjarðarlögin og svo ekki gleyma að það eru alltaf svona litlar sætar stúlkur klæddar í Íslenska þjóðbúninginn sem færa konu blómvönd. Muna að taka sellófanið utan af vendinum, þoli ekki blómvendi klædda í sellófan, bara svo það sé á tæru.
En svo ég tali nú í alvöru þá er mikil tilhlökkun hjá okkur að koma heim og knúsa ykkur öll!
Heyrði utan af mér að við skildum taka með okkur sólfatnað þar sem heima væri bongó blíða og Evrur og nóg af þeim vegna þess að sumir aðilar sbr. Hvalaskoðunarferðir, Einhverjir heilsupollar og ekki hvað síst nokkur veitingahús tækju nú aðeins evrur ef þeir hreyrðu á máli þínu að þú byggir ekki á landinu þá veskú taka upp Evrubudduna.
Púra íslenska verður það að vera heillin. Er búin að vera að æfa mig í slangmáli Íslendinga alveg í heila viku: Kaddamar ekki málið. Já sæll. Ertu ekki að grínast í mér og fleiri afbögur sem ég nenni ekki að telja upp núna.
Ég á eftir að sannreyna þetta allt á næstu vikum elskurnar mínar. Læt ykkur heyra frá mér.
En talandi um veitingahúsin þá hef ég oft farið inn á síðuna hans Jónasar Kristjáns veitingarýnis áður en ég hef komið heim, hann veit yfirleitt hvað hann syngur og það eru alla vega tveir staðir sem ég ætlar EKKI að sækja því hann telur þá engan veginn boðlega. Tek alla vega enga sénsa í þeim efnunum.
Ok er sem sagt alveg eldklár í bátana og allt tilbúið fyrir heimför.
Hendi inn einni og einni fæslu næstu vikur ef mér ofbýður eitthvað eða ég get sagt ykkur eitthvað skondið.
Njótið þess að vera til og elska lífið og tilverunna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)