Færsluflokkur: Bloggar
8.7.2009 | 10:54
Værirðu til í að opna dyrnar in case við lendum í nauðlendingu.
Þetta er eitthvað svo týpískt. Í hvert skipti sem ég legg upp í ferðalag með flugi þá gerast svona hópflugslys rétt áður eða alla vega yfirvofandi slysahætta í háloftunum. Ekki það að ég sé flughrædd enda hvernig ætti það að gera sig svona hundgömul flugfreyja sem var sko klár í bátana hér í denn. En samt, það hefur aukist með aldrinum að ég fari með mína farbæn um leið og vélin sleppir taki á flugbrautinni.
Mig langar að segja ykkur smá sögu. Eitt sinn sem oftar vorum við á leið yfir hafið og ég hef haft það fyrir venju, sérstaklega á löngum leiðum og ef ég man eftir að biðja um sæti við Exitið. Þá getur maður rétt betur úr fótunum og er ekki að troðast með bossann upp í andliti á næsta farþega sem situr við hliðina á manni þegar maður þarf að skutlast á WC-ið.
Jæja rétt fyrir flugtak kemur þessi líka fallega stelpa til okkar og spyr mig hvort mér sé alveg sama um að sitja í Exitinu?
-Ég lít á hana svona með spurningu í augum en segi síðan ,, Já ég bað um þessi sæti sérstaklega"
- Hún brosir um leið og hún segir: ,, Ja sko er þér þá sama að þú berir ábyrgð á því að opna hurðina ef við verðum að nauðlenda?"
Mér svelgdist aðeins á munnvatninu enda aldrei verið spurð að þessu áður og oftsinnis setið við neyðarútganginn. -,, Ha humm, já ég held ég ráði alveg við það"
- Viltu þá ekki að ég kenni þér hvernig á að opna?
- Neip segi ég þetta er í góðum málum, hefði nú frekar átt að segja að þetta væri í góðum höndum.
Við vorum ekki fyrr komin í loftið en alls konar spurningar fóru að vakna í mínum ljósa kolli.
Ætli það sé eitthvað að vélinni? Hvers vegna spurði hún mig hvort ég kynni örugglega á opnunarbúnaðinn? Var Capteinninn eitthvað veikur, eða timbó eða bara hálf fullur? Var vélin komin yfir skoðunartíma? Var illa raðað í Cargoið eða hafði gleymst að afísa vélina?
Svona spurningar veltust í mínum kolli fram og til baka en það versta var að ég fór allt í einu að hugsa:
My good, kann ég yfir höfuð að opna þessar dyr!!!!!!! Ég var að fljúga fyrir þrjátíu og eitthvað árum. Hefur ekki búnaður vélanna breyst á þeim tíma?
Þarna sat ég kófsveitt og titrandi í heila þrjá tíma og bar ábyrgð á lífi 250 farþega plús áhöfn á vegum Icelandair þar sem ég hafði ekki hugmynd um hvort ég gæti opnað neyðarútganginn í tíma ef vélin færi niður. Og einhver ljóshærð og bláeygð stelpa hafði spurt í sakleysi sínu hvort ég gæti örugglega opnað helvítis dyrnar.
Eftir þetta hef ég oft gjóað augum á flugfreyjuna sem opnar dyrnar eftir lendingu og mér sýnist þetta vera bara gamla góða systemið og nokkuð auðvelt.
Er að fara í flug á morgun. Ætla að sitja i Monkey og ekki að ræða það að ég biðji um sæti við Exitið. Tek ekki nokkurn séns hvort ég geti höndlað þetta verk ef til þarf.
Farþegi gerði við flugvélina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.7.2009 | 10:09
C´est la vie!
Þegar fólk kvartar þá reyni ég að bæta um betur svo hér bæti ég við tveimur myndum af stækkuninni á Häagen-Dazs ísbúðinni. Hættið svo að væla í mér, ég get ekki gert betur nema þá að fá professjónal ljósmyndara og maður eyðir ekki peningunum sínum í sollis vitleysu eins og ástandið er í heiminum. Skilið?
Happy?
Og svo vil ég ekki heyra fleiri kvartanir frá ykkur þarna heima í landi ís og funa.
Og þar sem hitastigið er komið yfir 25° í skugga og gula fíflið alveg að missa það úr hamingju þá ætla ég að fara út og setjast hér í skuggann og ekki hreyfa mig fyrr en sólin er sest þá e.t.v. reyni ég að gera eitthvað af viti. C´est la vie!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
5.7.2009 | 09:50
Häagen - Dazs opnar aftur í Prag eftir breytingar
Í gær opnuðum við aftur Häagen-Dazs ísbúðina okkar eftir miklar breytingar. Í stað þess að selja ís í anddyrinu á Restaurant Reykjavík eins og við gerðum hér áður tífölduðum við plássið og tókum hluta af gamla Rest. Reykjavík þegar við seldum staðinn. Íssbúðin er núna á þremur hæðum og ein sú glæsilegasta í allri Prag.
Úrvalið er miklu meira en áður og þjónustað er á borðin bæði úti og inni.
Þessar myndir voru teknar í gærkvöldi. Þetta eru hægindin á neðri hæðinni
En hér sést í hluta setustofunnar á efri hæðinni.
Ég veit að það verða margir ánægðir núna því fólk hefur beðið spennt eftir því að við opnuðum aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
2.7.2009 | 08:58
Æ mín elskulega þjóð ætlið þið aldrei að læra af reynslunni.
Er þetta ekki alveg eftir öllu öðru á Íslandi. Nú ætla allir að græða á ferðamönum bæði bílaleigur og hótelin. Satt best að segja eru Íslendingar grunnhyggin þjóð. Um leið og einhver sér að hægt er að græða á einhverju er verðið sprengt upp úr öllu valdi og hvað gerist þá. Jú asnarnir ykkar ferðamenn hætta að koma til landsins.
Við litla fjölskyldan erum á leið heim og vinafólk Egils og Bríetar, útlendingar, eru núna að spóka sig með börnin ásamt þeim fyrir norðan. Áður en þau lögðu land undir fót fóru þau að huga að bílaleigubíl fyrir sjö manns. Hvað haldið þið að slíkur bíll hafi kostað í eina viku. yfir 500.000.- kall! Já sæll, Agli datt í hug að kaupa bíl það yrði örugglega ódýrara. Henda honum bara síðan eftir notkun. Hótelherbergin á góðum hótelum í henni Reykjavík voru á uppsprengdu verði og sum jafnvel með tvö verð Euro og Krónu. Nú á sko að græða á útlendingunum.
Fífl, vitið þið ekki að fjögra til fimm stjörnu hótel sem voru á bilinu 180 - 260 Euro í fyrra hafa lækkað um helming í Evrópu en þið sauðirnir hækkið eins og fífl. Og hver verður árangurinn, jú kæru landar þið missið þetta eina sem hefur haldið ykkur á floti undanfarna mánuði, túrismann. Fólk hættir að koma og þetta er því miður þegar farið að spyrjast út hér.
Ballið er líka að verða búið hjá veitingamönnum, hóteleigendum og öllum öðrum sem hafa sett allt sitt traust á ferðamanninn hingað til. Þetta er allt keðjuverkandi ef þið hafið ekki skilið það enn og ef engin eru túrhestarnir þá fara veitingahúsin og Rammagerðin eða hvað þetta heitir í dag sem selur lopapeysur og aska að taka upp á því að væla aftur.
Þetta minnir mig á þegar þið mín elskulega þjóð fóruð að senda hingað til Tékklands lambakjötið og það seldist eins og heitar lummur. Hvað gerðu þið þá , jú asnarnir ykkar þið hækkuðuð kílóaverðið um einhver cent og um leið hætti Tékkland að versla við ykkur og sneri sér til Nýja Sjálands.
Eins þegar þið senduð okkur útrunna niðursuðuvöru og voruð rosalega hissa á að við fengjum þetta ekki samþykkt af heilbrigðiskerfinu og spurðu í forundran: Hva er þetta ekki austantjalds land! Svo kom lausnin frá ykkur: ,,Setjið bara nýjan miða yfir dagsetninguna þá fattar engin neitt! Við vorum heiðarlegri en svo að fara eftir ykkar ráðum. Nú fer maður að skilja hvernig sumir urðu svona oheyrilega ríkir á svindli og svínaríi.
Annað sem mér dettur í hug þar sem ég er byrjuð að agnúast út í landann er þegar við fengum sendan heitreyktan Silung frá Íslandi. Okkur fannst hann svo góður og vel verkaður að við pöntuðum heilan gám en hvað gerðist. Jú fiskurinn kom hingað óhreinsaður og hrikalega vondur, við kvörtuðum og svarið var: ,, Já ég veit, en þú pantaðir svo mikið magn að við höfðum ekki mannskap til að hreinsa fiskinn"
Finnst ykkur eitthvað skrítið að við hættum að versla við ykkur kæru landar!
Í guðana bænum farið nú að hugsa aðeins. Þessi græðgi gerir ykkur að athlægi út um allan heim. Það er betra að selja ódýrt, gott og í magni en lítið, vont og taka fólk í nefið. Það græðir engin á því að verða að aurum api!
Ég ætla nú samt heim og hjálpa til við gjaldeyrissjóðinn. Setja nokkrar Euro inn í kassann af því mér þykir svo undurvænt um ykkur öll bjánarnir ykkar.
Verðgjá á milli innlendra og erlendra ferðamanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
1.7.2009 | 20:25
Þetta Aloa Vera er farið að fara aðeins í mínar fínustu.
Það er endalaust verið að troða í mig heilsusamlegu viðbiti. Ég er bara ekkert sérstaklega móttækileg fyrir svoleiðis gumsi og ef einhver vill ólmur að ég prófi þetta eða hitt aðeins vegna þess að það sé svo heilsusamlegt fer ég hreinlega í baklás.
Undanfarið hef ég fengið svo mikið af þessu Aloa Vera kjaftæði að ég er komin með hálfgerð útbrot og er alveg klár á því að þau eru afleiðing af því að allir eru að troða að mér kremum, olíum og ég tala nú ekki um tei sem ég á núna hér í pakkavís uppi í skáp. Halló, eða já sæll, sko ég drekk ekki te!!!!!!!!!!!! alveg sama hversu heilsusamlegt það er.
Eftir kvöldmatinn hér að Stjörnusteini sem var ekkert sérstaklega óheilsusamlegur, Tandori kjúlli með steiktu grænmeti, Jasmin hrísgrjónum og dreypt á Cianti rauðvíni til að skola þessu niður röltum við hjónin yfir í Leifsbúð til að heilsa upp á flautuhjónin.
Eftir að hafa verið kynnt fyrir eðal Mozart flautu og rabbað um heima og geima vildi Guðrún endilega gefa mér einhvern heilsudrykk sem væri allra meina bót og gerði húðina svo mjúka.
Vegna þess að ég er með afbrigðum kurteis að eðlisfari vildi ég ekki afþakka drykkinn og þáði bara svona rétt neðan í glasið. Ég bjóst við einhverju heimalöguðu en þetta er framleitt hér í landi Bóhema og kemur í plastflöskum eins og vatnið.
Nota bene mín húð er eins og barnsrass eftir chemo meðferðina svo ég þarf ekkert á einhverjum drykk að halda til að gera hana mýkri, þá bara fengi ég enn fleiri sár þar sem húðin er viðkvæm eins og silki en eins og ég sagði ég vildi vera kurteis þess vegna smakkaði ég á þessum Aloa Vera drykk.
Ég fór mjög pent í þetta og þegar ég var búin að kyngja spurði Guðrún: ,, Jæja og hvernig finnst þér?" Ég reyndi að gretta mig sem minnst um leið og ég sagði: , Hehem sko þetta smakkast eins og útþynnt sykurvatn þar sem Opal brjóstsykur er búinn að liggja í bleyti og vatnið búið að standa út í sólinni í sólarhring, sem sagt hræðilega vont"
Hrikalegt að vera svona hreinskilin. En mér fannst þetta vera þannig á bragðið.
Hvers vegna eru allir að berjast við að troða í mig einhverju heilsusamlegu? Bara svo þið vitið það áður en ég kem heim þá finnst mér allt svoleiðis hræðilega vont!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.6.2009 | 10:49
Ljúfur drengur ljós og fagur.......... fæddist í sólmyrkva...........
...........á Fæðingardeildinni fyrir fimmtíu og fimm árum. Himintunglunum varð svo mikið um þessa fæðingu að það gerði sólmyrkva um leið og hann kom úr móðurkviði. Ég man ekki mikið eftir því að hafa verið eitthvað spennt fyrir þessari fæðingu en man þó hvar ég stóð með föður mínum fyrir utan Fæðingardeild Landspítalans og við horfðum saman til himins. Faðir minn sjálfsagt að þakka fyrir fæðingu sonar síns og ég bara að glápa eins og fimm ára bjáni á sólina hverfa bak við tunglið.
Þessi ljúfi drengur sem fæddist þennan dag var auðvitað bróðir minn Kjartan Oddur Jóhannsson. Ég held ég hafi verið afskaplega stolt stóra systir en þar sem þetta barn var með einsdæmum rólegt og fyrirferðalítið hafði ég lítið af honum að segja fyrstu árin. Ég man eftir honum sitjandi uppi í vagni með einn lítinn bíl burrrandi langtímum saman. Ég býst við því að mér hafi ekki þótt hann neitt sérlega spennandi leikfang. Man aldrei eftir því að hann hafi grenjað eins og hinir krakkarnir í hverfinu. Sem sagt frekar ólíkur systur sinni sem var algjört óþekktarrasskat.
Hann Daddi bróðir minn er enn þetta ljúfmenni og gæti ég ekki hugsað mér betri félaga og bróður. Við þroskuðumst vel saman með árunum.
Ég sendi þér kæri vinur okkar innilegustu hamingjuóskir með daginn sem þú heldur hátíðlegan þarna einhvers staðar norður í Eyjafirði. Við skálum svo saman þegar ég kem heim í næstu viku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.6.2009 | 21:38
Strákaskammirnar hans Einars Jóhannessonar klarinettó, Jónas Ingimundarson píanóleikari og Rannveig Fríða Bragadóttir Óperusöngkona á einu bretti!
Við erum komin heim og satt best að segja fór ég meir á viljanum heldur en getunni til Vínar en gaman var það og ég hefði ekki viljað missa af því að hitta strákaskammirnar í blásarakvintett Reykjavíkur eins og Einar klarinettó kallar þá, hvað þá að missa af því að hitta Jónas Ingimundar, píanóleikara og Rannveigu Bragadóttur messóprimadonnu en Jónas spilaði með strákaskömmunum á tónleikunum en Rannveig kom og borðaði með okkur fámennum en góðum hóp eftir tónleikana í boði sendiherrahjónanna á Sole.
Mér gafst tækifæri á að skamma hana fyrir að vera ekki búin að koma og heimsækja mig eftir öll þessi ár en hún lofaði að bæta út því fljótlega. Algjör dúlla hún Rannveig mín, hefur ekkert breyst síðan hún var fimmtán svei mér þá!
Eins og alltaf var tekið á móti okkur eins og höfðingjum af sendiherrahjónunum okkar og stofutónleikarnir sem strengjakvintettinn hélt á miðvikudagskvöldið með undirleik Jónasar Ingimundar var frábær og gestir klöppuðu þeim lof í lófa vel og lengi.
Ég gekk aðeins fram af mér daginn eftir með því að rápa um borgina þannig að ég gat ekki mætt á tónleikana á fimmtudagskvöldið en hitti strákaskammirnar fimm, Jónas og frú Ágústu, Rannveigu Fríðu Bragadaóttur að ótöldum sendiherrahjónunum á Sole seinna um kvöldið. Sole er þekktur staður þar sem frægir tónlistamenn sækja að staðaldri. Við komum þarna í fyrsta sinn með Kolbeini Ketilssyni Óperusöngvara sem þá var að læra í Vín, svo það eru liðin ár og dagar síðan við komum þarna í fyrsta skipti og satt best að segja, fyrir ykkur sem þekkið staðinn, hefur ekkert breyst, sömu þjónarnir taka á móti þér á ítölsku og maturinn er enn frábær.
Við Þórir enduðum síðan ferðina með því að fara með Jónasi Ingimundar og Ágústu konu hans á Nas-markt í gær og fengum okkur saman hádegismat áður en við lögðum af stað heim á leið. Frábært að setjast niður með þeim hjónum og tala um lífsins gagn og nauðsynjar og þar sem við Jónas eigum margt sameiginlegt var þetta mér mómetanlegt.
Ég hlaka til að geta tekið á móti þeim hér í sveitinni á næsta ári og þá verð ég búin að fjárfesta í flygli eins og ég lofaði, ekki málið.
Takk fyrir frábæra tónlistadaga kæru vinir mínir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.6.2009 | 16:34
Endurfundir - Við og strákarnir í Blásarakvintett Reykjavíkur - Hittingur í Vínarborg
Bara svo þið vitið það þá erum við að fara í tveggja til þriggja daga frí frá tölvu, sláttuvél og öðru heimilisstússi. Það verður gott að skipta um umhverfi og ekki verra að hitta skemmtilega landa okkar sem búa í borginni við ,,bláu ána", Jamm Vienna here we come again!
Hef aldrei skilið þetta með ,,Dóná svo blá, svo blá"........... Fyrir mér er hún svört en ekki blá, aðeins einu sinni man ég eftir að hafa séð bláan bjarma á yfirborðinu í ljósaskiptunum og þá langt inn í Dónárdal. En það skiptir ekki svo miklu máli hún er tignaleg eins og hún er.
Það verða nú fleiri sem við ætlum að knúsa þarna í Vínarborg, því þarna eiga eftir að verða miklir og skemmtilegir endurfundir þar sem Blásarakvintett Reykjavíkur mætir á svæðið. Við komum til með að hitta strákana annað kvöld á heimili sendiherrahjónanna þeirra Sveins Björnssonar og Sigríðar og síðan verðum við viðstödd tónleika á fimmtudagskvöldið einhvers staðar í tónlistarborginni fögru.
Ég hlakka mikið til þess að knúsa strákana það er næstum ár síðan þeir spiluðu hér í garðinum okkar að Stjörnusteini.
Sem sagt engar áhyggjur þó þið heyrið ekkert frá mér í nokkra daga ég verð á full swing að skemmta mér og öðrum á bökkum Dónár.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
22.6.2009 | 18:06
Undir húsveggnum hér og þar.
Ég sat undir húsvegg með syni mínum á laugardaginn og þar sem við nutum þess að láta júnísólina verma okkur sagði Egill: ,,Mamma veistu að það er alveg óþarfi að spyrja þig hvernig þú hafir það" Ég pírði augun á móti honum og júnísólinni og hváði:,, Ha nú?" -Ja sérðu, maður þarf bara að opna bloggið og ef þú hefur ekki bloggað þann daginn þá veit maður að þú hefur það lousy en ef maður sér færslu frá þér þá veit maður að þú ert í lagi sagði hann og brosti sínu fallega brosi á móti mömmu sinni sem hafði þá ekkert bloggað í nokkra daga.
Humm, en bara svo þið vitið það þá hef ég það reglulega skítt í dag en ætla samt að setja hér inn litla færslu. Verð víst að fara í sprautu í fyrramálið en samt er þetta allt á uppleið og ég verð fín eftir nokkra daga. Ekkert helvítis væl núna þegar þetta er alveg að verða búið!
Orðalagið sem ég notaði hér að ofan ,,að sitja undir húsvegg" fékk mig til að fljúga á vit minninganna og ég var allt í einu orðin lítil stelpa sitjandi undir húsvegg með Sigrúnu vinkonu minni.
Við sátum á teppi og dúkkurnar okkar hjá okkur. Við vorum í mömmuleik. Það var sunnudagur og sól skein í heiði. Mín dúkka hét Pressý og var með ,,ekta hár" man ekki hvað Sigrúnar dúkka hét en mig minnir að það hafi verið negrastrákur.
Ég átti forláta dúkkuvagn svona mínitur af Pedegrí vagni. Vagninn minn bar af öllum dúkkuvögnum í hverfinu enda keyptur í útlöndum og ég var ofsalega montin með hann og þarna stóð hann við hlið mér og glampaði á krómaðar gjarðirnar í sólinni.
Hvernig var það þarna í denn var alltaf sól á sumrin? Alla vega var alltaf sól hjá mér og við vinkonurnar spásseruðum í mjallahvítum sportsokkum með risa slaufur í hárinu og ýttum dúkkuvögnunum á undan okkur upp og niður Hólmgarðinn sem þá var varla hægt að kalla götu heldur leit meira út sem moldartröð. Reyndar máttum við aldrei, alla vega ekki ég, fara niður fyrir millibilið, það bjuggu villingar fyrir neðan búð. Svanhvít mín og þið hin sem bjugguð þarna, ef þið lesið þetta þá bara brosa með mér núna.
Eftir göngutúrinn settumst við aftur undir húsvegg og plokkuðum drulluslettur af hvítum sportsokkunum og vonuðumst til að mæður okkar myndu ekki taka eftir því hvað við vorum orðnar skítugar til fótanna. En hvernig átti annað að vera þar sem við höfðum skondrast á milli drullupolla með dúkkuvagnana okkar.
Jahá það voru þarna drullupollar svo það hlýtur að hafa rignt líka á þessum árum.
Á meðan við biðum eftir að vera kallaðar í matinn hlustuðum við á Séra Jón Auðuns jarma yfir messugestum því ómurinn frá útvarpsmessunni barst út um eldhúsgluggann og við fundum ylminn af lærinu sem kraumaði í ofni mæðra okkar.
Ef ég man rétt þá hef ég sjálfsagt fengið mér forrétt þarna við húsvegginn. Ég var nefnilega dálítið sérkennilegur krakki. Mér nægði ekki að éta hundasúrur eins og allir hinir krakkarnir gerðu heldur át ég gras eins og kýrnar. Það hlýtur að hafa vantað helling af einhverjum efnum í mig þegar ég var að alast upp því ég lét mér til munns hin ólíkustu efni jarðar.
Já ég var hrikalega spes krakki.
Meir um það seinna.
B.T.W. Súkkulaðikakan klikkaði aðeins. Á að skila góðum kveðjum frá mínum elskulega til ykkar allra sem standið með honum í blíðu og stríðu hér í eldhúsinu að Stjörnusteini. Hann tók það fram í dag að hann vildi svo gjarna hitta þessar vinkonur mínar hehehe... ekki skrítið eins og þið dásamið hann í bak og fyrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
20.6.2009 | 12:06
Taka tvö í eldhúsinu að Stjörnusteini
Þú vogar þér ekki að blogga um þetta Ía fyrr en búið er að smakka á tertunni sagði minn elskulegi þar sem ég sat við tölvuna í eldhúskróknum. - Ha nei, nei sagði ég en auðvitað varð það til þess að þessi færsla er nú að renna hér út í tómið.
Nú stendur sem sagt yfir taka tvö á súkkulaðikökubakstri hér í eldhúsinu okkar og ég berst við að halda mér á mottunni og skipta mér sem minnst af gjörningnum.
Þið sem fylgst hafið með hér munið eftir súkkulaðikökubakstri míns elskulega fyrir nokkrum vikum. Nú sem sagt átti að reyna að bæta um betur því eins og þið eflaust hafið tekið eftir þá gefst minn ekki upp fyrr en í fulla hnefana.
Gjörningurinn byrjaði hér snemma í morgun og ég sá að hann barðist við að fara eftir uppskriftinni minni, alla veg lá hún opin á borðinu. Það datt út úr mér svona af og til: Það eru til bollamál og mæliskeiðar. Það á að hræra smjörið og sykurinn saman FYRST!!!!
Þegar hann var búinn að hræra vel og lengi þá kom að því að finna form og þar sem mér fannst hann vera búinn að dúlla í þessu allt of lengi sagði ég: - Settu þetta bara í skúffukökuform. Það átti ég auðvitað ekki að segja því hann fór alveg í baklás og þverneitaði að gera eins og ég vildi. Tók út klemmuform og spurði á að smyrja það? Ég játti því og með það skellti hann öllu deiginu í formið og inn í ofn á 150°
Ég þagði en vissi að með þessu færi kakan að falla svo ég sagði: Veistu ég held þú verðir að hækka hitann og hafa kökuna aðeins lengur en stendur í bókinni. Hann hegndi þessu svona með hangandi haus en gegndi samt.
Kakan kom út og ekki svo slæm. Þá kom að kreminu sem hann gerði ,,his way" hafið þið til dæmis séð súkkulaðikrem hrært í laukskrerara þessum þið vitið litlu sem taka einn lauk eða tíu olivur. Ekki ég en honum tókst að troða þarna ofaní smjöri, einu eggi og kakó (engin flórsykur) hehe..... ástæðan fyrir að þetta apparat var notað: Hrærivélaskálin var í uppþvottavélinni og ég benti honum á að við ættum svona BLENDER, neip I´m going to do it MY WAY darling!!!!!!!!! OK !
Þessu gumsi var síðan hellt á kökuna sem hann var búinn að skera snyrtilega í tvo botna. Skellt saman og soðkrem ,,his way" (ég kalla það soðkrem því hann sýður það í potti) sett ofaná og skreytt með silfurkúlum.
Not bad skal ég segja ykkur.
Nema hvað ég bað hann vinsamlegast um að færa kökuna aðeins frá eldavélinni þar sem brúna sósan sem hann var að búa til um leið og kremið, kraumaði í potti. Þegar hann fór að sigta laukinn og kryddið úr soðinu þá gat ég ekki setið lengur á mér. Mér finnst nefnilega ekkert gott að hafa lambakjötskeim af súkkulaðiköku.
Ef ég vissi ekki betur gæti ég haldið að hann væri náskyldur Jamie Oliver, það eru svipuð vinnubrögðin í eldhúsinu. Báðir frábærir kokkar en frekar messy.
Nú bíður kakan inn í kæli eftir að litla Prag fjölskyldan komi og smakki á herlegheitunum. Og ég bíð eftir að fá yfirhalningu þegar þessi færsla er farin út í tómið í óþökk míns elskulega.
Læt ykkur vita hvernig til tókst seinna í dag.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)