Færsluflokkur: Bloggar
17.6.2009 | 10:44
Gleðilega þjóðhátíð kæru landar - Hátíðarhöldin í beinni.
Það ríkir mikil þjóðerniskennd hér í eldhúsinu mínu núna þar sem hornablástur hljómar hér frá tölvunni og við ég og hann Erró minn hlustum með andakt á Öxar við ána spilaða af merkum hornleikurum Íslands. Það er að segja ég hlusta en hundurinn gólar upp í sumarsólina sem skín hér að tilefni dagsins.
Ég er ein heima (og hundurinn) eins og stendur þar sem gestir okkar brugðu sér af bæ og skondruðust í bæinn. Hér áður fyrr var maður nú venjulega komin niður í borg og búin að skreyta Restaurant Reykjavík með fánum og blöðrum þennan dag en þar sem það er liðin tíð þá læt ég duga að horfa hér á aðeins einn fána lýðveldisins blakta í golunni við Stjörnustein.
Oft hefur verið hér glatt á hjalla á þessum degi og við tekið á móti mörgum góðum gestum í tilefni dagsins. Í dag verður hér fámennt og góðmennt.
Ég heyri að ekkert bjáti á óeirðum á Austurvelli eða það tilkynnti þulan hér fyrir nokkrum mínútum. Er fólk að búast við pottaliðinu á sjálfan þjóðhátíðardaginn? Er það ekki einum of mikið vesen, held það verði alveg nóg um uppákomur í höfuðborginni í dag þó við getum verið laus við pottaglamur og leifaslag.
En nú heyri ég að hátíðargestir eru sestir á stólana sína við hlið Jóns Sigurðssonar og áhorfendur sem sagt sauðsvartur almúginn standi stilltur bak við reipin þar sem lögreglan heldur vörð um svo enginn geti laumast að yfirstéttinni.
Ágætu landar GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ!!!!!!!!!!
VERIÐ STILLT OG PRÚÐ OG GANGIÐ HÆGT UM GLEÐINNAR DYR Í DAG!!
Góðar og hlýjar kveðjur heim frá okkur héðan að Stjörnusteini.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.6.2009 | 11:21
Ekkert lát á hjónabandsælunni jafnvel eftir 35 ár í blíðu og stríðu.
Ég rakst á þetta í morgun þegar ég var að blaða í Perlunum hans Laxness og datt í hug að setja þetta hér inn með færsu dagsins:
Það er ekki annað en uppspuni að konan kasti sér andvarpandi um háls elskhuganum þegar hann stynur upp bónorðinu og svari: Ég er þín að eilífu! Slíkt ber ekki við nema í illa ortum ljóðum og fimmtíu aura lygasögum skrifuðum fyrir vinnukonur og borgara.
Þegar karlmaður hefur upp bónorð sitt svarar konan alltaf þessu sama: Hvað býðurðu mér? Hvað borgarðu mér? Fæ ég borðstofumubblur, stássstofumubblur og píanó? Gefurðu mér steiktan kjúkling? Gefurðu mér strútsfjöður? Gefurðu mér bíl?
Þetta á við færslu dagsins þar sem við hér að Stjörnusteini héldum upp á 35 ára hjúskaparafmæli okkar í gær og ekki nóg með það heldur héldum við upp á 40 ára hjúskaparafmæli Helga bróður Þóris og Jónu konu hans hér hátíðlegt þann 14. júní en þau komu hingað á fimmtudaginn til að halda með okkar hátíð þessa helgi. Hér erum við í fyrsta í afmæli. Glæsileg hjón og ekkert mjög þreytuleg þrátt fyrir að vera búin að hanga saman í 75 ár samanlagt!
Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið dugleg að blogga undan farið, hef bara haft alveg brjálað að gera í partýstandi alla daga og verður ekkert lát á fyrr en á fimmtudaginn en þá fljúga vinir okkar heim.
Martial Nardeau hélt stofutónleika fyrir okkur í gærkvöldi. Ekki allir sem fá svona stórkostlegan glaðning á afmælisdaginn sinn.
Í dag ætlum við að taka það rólega enda dumbungur í lofti og ekkert spes veður. Gestir okkar keyrðu sig í Mallið en við gömlu erum heima og tökum lífinu með ró.
Svo bíðum við bara eftir næsta ,,Happy hour" eins og venjulega.
Eins gott að halda sig við efnið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.6.2009 | 15:55
Flautuhjónin eru að lenda núna hér í Prag.
Nú fer að færast líf aftur í Listasetrið þar sem von er á Guðrúnu Birgisdóttur og Martial Nardeau hingað hvað úr hverju. Þá megum við búast við því að heyra ljúfa flaututóna hljóma frá Leifsbúð bara svona með morgunkaffinu.
Hugsið ykkur hvað við erum heppin, við þurfum ekki einu sinni að sækja konserta þeir bara koma hingað til okkar frábæru listamennirnir á færibandi ár eftir ár.
Hjartanlega velkomin kæru flautuhjón hingað í sveitina okkar. Vonandi eigið þið eftir að njóta dvalarinnar hér næstu vikukurnar og fá innblástur héðan úr okkar fallega umhverfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.6.2009 | 09:22
Fer alveg að losna við sótthreinsilyktina úr nefinu sem hefur fylgt mér síðustu mánuði.
Yes, Yes, Yesssssssss!!!!! Sagði ég og hélt hnefanum hátt á lofti um leið og ég tók smá hliðarspor þegar gekk út af spítalanum í gær eftir síðustu chemo meðferðina. Allt tekur þetta endi og í næstu viku tek ég síðustu ógeðspillurnar sem hafa farið verst í mig.
Ég bjóst við að fá grænt ljós svo ég gæti farið heim í júní en minn góði læknir vill ekki sleppa af mér hendinni fyrr en ég hef farið vel í gegn um meðferðina og vill fylgjast með mér næstu þrjár vikurnar svo ég kem ekki heim fyrr en í byrjun júlí og ætla þá að mála borg og bæi rauða að hætti Íu í heilan mánuð.
Jamm þið losnið ekki við mig aftur fyrr en í byjun ágúst greyin mín. Og þið sem viljið komast hjá því að hitta mig getið pantað ykkur flug núna til útlanda hehehe..... love you all guys!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
6.6.2009 | 16:55
Svona er það þegar maður finnur hinn eina sanna tón!
Þær koma með gull og silfur heim flottu stelpurnar hans Jóns Stefánssonar! Það var svo sem ekki við öðru að´búast þar sem þarna er á ferð alveg frábær kór og fagrar raddir.
Við hjónin vorum á leið heim núna rétt áðan þegar Jón hringdi í okkur frá Olomouc og sagði okkur þessi frábæru tíðindi. Þetta kom svo sem ekki okkur á óvart þar sem kórinn var búinn að halda hér tónleika við mikinn fögnuð áheyranda.
Það er á svona stundum sem maður fyllist þjóðarstolti.
Innilegar hamingjuóskir og stórt knús til ykkar allra sem standið að þessu verkefni frá okkur hér að Stjörnusteini.
Góða ferð heim á morgun.
Gullverðlaun til Gradualekórsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Ég stóð undir sturtunni og grét óstöðvandi tárum. Það er þá svona að upplifa það að missa hárið. Ég skrúfaði fyrir vatnið og eins og venjulega byrjaði á því að þurrka hárið í von um að það versta væri farið niður um holræsið en það tók verra við þegar ég tók burstann og renndi honum létt yfir hársvörðinn. Þetta var sárt, þetta var hrikalega sárt og skar í hjartað, ég var svo óviðbúin og ég hugsaði líka: Ekki í dag, í dag þarf ég að standa mína plikt.
Á eftir kom helvítis, djöfulsins, andskotinn og ég settist fram í sjónvarpsherbergi og tárin runnu í stríðum straumi án þess að nokkuð hljóð kæmi frá mér. Ég sagði: Ég fer ekkert í dag, þetta bara gengur ekki upp. Svo er ég farin heim strax við fyrsta tækifæri. Hér á ég enga vini, ég hef engan til að tala við og ég hélt áfram að gráta.
Þetta var svona ,,aumingja ég" móment. Stóð stutt yfir.
Mér varð allt í einu minnistætt saga sem fyrrverandi sendiherra Tékklands og minn lærifaðir Einar Benediktson sagði mér fyrir hart nær sextán árum. Hann sagði mér sögu af konu sem var að gefast upp þar sem hún stóð í fjörutíu stíga hita við móttöku og eiginmaðurinn þá sendiherra sagði: ,, Stattu kerling! " og hún stóð sína plikt. Eins ákvað ég í dag að standa mína plikt og sagði við sjálfa mig : ,,Stattu kerling" og það virkaði.
Ég stóð upp og fór inn í fataherbergi og gróf upp eitthvað sem ég gæti verið í og hatt á hausinn. Vildi ekki lenda í því að verða sköllótt í miðri veislu svo þetta gróf ég fram. Klar í bátana!
Um eitt þúsund manns komu í boðið okkar í kvöld. Þetta er í annað skipti sem við höldum átta landa sameiginlega þjóðhátíð. Þ.e.a.s. Noregur, Sviðþjóð, Danmörk, Ísland, Finnland, Eistland, Lettland og Litháen.
Þarna sést í minn elskulega þar sem hann stendur í ströngu í móttökudeildinni.
Boðið var hrikalega vel heppnað og endaði með því að við þjóðirnar átta, sem stöndum alltaf með pálmann í höndunum hér í Prag, sungum saman Oleioleioleiolie!! við mikla hrifningu gesta.
Enging minnimáttarkennd hjá þessum sendiherrum skal ég segja ykkur og hvort þetta er eftir prodokolsrteglum það verður bara hver að dæma fyrir sig. Við alla vega nutum þess að standa saman sem ein þjóð í kvöld.
Flottasta móttaka ever!!!!!!!!!!!!!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
3.6.2009 | 19:17
Og heitasta ósk mín var sú.......ú
Þegar ég var yngri og nú er ég að tala um töluvert yngri þá hafði ég eins og flestir jafnaldrar mínir miklar áhyggjur af útlitinu og ég bað alla góða vætti, hátt og í hljóði að redda mér um hátt og greindarlegt enni.
Ég var fædd með þetta svokallaða ,,Heiðarenni" úr föðurfjölskyldunni og mér fannst ég hafa verið illa svikin þar sem systkini mín voru öll með hátt og greindarlegt enni úr móðurættinni.
Í þá daga þótti heldur ekki flott að greiða aftur frá andlitinu heldur var maður að halda lookinu með því að vera með skipt í miðju og hárið svona sleikt niður með andlitinu. Þessi hárgreiðsla gerði það að verkum að andlitið á mér varð ennislaust. Það var ekki fyrr en árið 1969 sem ég fór að greiða aftur frá enninu og þvílíkur munur ég leit allt í einu ekki út eins og ennislaus vanskapningur.
Nú loksins er að rætast þessi heitasta ósk mín ég er að fá þetta líka fína greindarlega enni svona líka hátt og velformað. Segið svo að maður hafi ekki góða vætti til að þóknast manni. Mínir bara voru heldur treggáfaðir og tóku seint við sér. En það er alveg bannað að vera vanþakklátur svo ég segi bara betra seint en aldrei.
Nú erum við tvö að fara úr hárum ég og Erró minn svo það er erfitt að sjá hvort okkar skilur meira eftir sig á gólfunum hann eða hún ég.
Á morgun þarf ég að mæta í veislu og ég er búin að velta fyrir mér nýrri hárgreiðslu í allan dag. Held ég verði með svona ,,Bryndísar Schram sleikt aftur" greiðslu. Ef þú lest þetta Bryndís mín þá vil ég að þú vitir að mér finnst þú alltaf svo flott með þá greiðslu.
Svo bara verið til friðs greyin mín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
2.6.2009 | 20:06
Hraunmolarnir okkar voru festir á þröskuldsbút.
Mikið hefði verið gaman að standa í sporum forseta Alþingis og taka í hlýja hönd friðarleiðtogans frá Tíbet.
Hraunmolinn sem Dalai Lama var færður vakti athygli mína enda minnti mig óneitanlega á grip sem við hjónin hönnuðum fyrir all mörgum árum hér í Tékklandi.
Þannig var að árið 1994 að ég held, ákvað ég að taka þátt í alþjóðlegum jólabazar hjá International Womens Club. Þar sem ég var ein frá Íslandi og varð að koma með eitthvað þjóðlegt á söluborðið ákvað ég þegar ég fór heim um sumarið að fylla nokkra poka með hraunmolum og flytja með mér út.
Þá er það sem sé upplýst hér að ég stal hrauni og flutti með mér úr landi.
Þegar heim kom var hafist handa við að hanna mynjagrip frá Íslandi. Minn elskulegi kom með þá hugmynd að festa hraunmola á viðarkubb og þar sem við vildum halda verðinu í hófi keyptum við nokkra þröskulda, söguðum í búta og lökkuðum svarta. Hraunmolanum var síðan komið fyrir með skrúfu minnir mig frekar en nagla ofan á bútnum og til að gera þetta seljanlegra létum við útbúa skildi sem á stóð GREETING FROM ICELAND sem var síðan komið snyrtilega fyrir á hlið þröskuldsins.
Þetta auðvitað rann út á jólabazarnum ásamt íslensku síldinni sem ég nota bene stal ekki og ég safnaði vel í sjóð sem rann til fátækra barna.
Nú er sem sagt einhver listamaður búinn að stela hugmyndinni okkar og farinn að stórgræða, shit svona missir maður hvert tækifærið á eftir öðru út úr höndunum bara fyrir eintóman klaufaskap.
Man hvað mér fannst hugmyndin frábær á sínum tíma en var auðvitað búin að steingleyma henni þar til ég sá þetta ferlíki sem blessaður maðurinn fékk í dag afhent með viðhöfn.
Verð að segja það að mér fannst okkar útgáfa fallegri, eitthvað svona nettari.
Hvernig ætli það sé núna með hraunið fylgir vottorð eins og með kjötinu?
Nei segi bara svona og svo var ég að velta öðru fyrir mér líka ætli hann verði látinn borga yfirvikt?
Dalai Lama í Alþingishúsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 3.6.2009 kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.6.2009 | 20:01
Gradualekórinn hans Jóns Stefánssonar kom hingað í dag.
Það er ekki á hverjum degi sem við fáum einkakonsert hér að Stjörnusteini en þó kemur það fyrir.
Klukkan hálf fimm í dag keyrði Grétar Hansson rútuna sína í hlað
Ef þið smellið á myndina þá sjáið þið að rútan er merkt Reykjavík Iceland
og út skondruðust flottu stelpurnar hans Jóns Stefánssonar úr Gradualekórnum. Hver annarri glæsilegri!
Kórinn er hér í Prag í nokkra daga og hélt tónleika í miðborginni í gærkvöldi og einnig söng hann við messu í gærmorgun en það voru víst viðstaddir athöfnina um 500 manns. Var þeim rosalega vel tekið og fengu meir að segja klapp í messunni sem er víst ekki algengt að gerist hér við slíkar athafnir.
Þar sem ég gat ekki sótt tónleikana í gærkvöldi fékk ég einkakonsert hér í dag. Þær tóku lagið fyrir mig út í Listasetrinu og að sjálfsögðu undir stjórn síns meistara.
Ég þarf ekki að taka það fram hér að kórinn er alveg sérlega flottur með frábærar raddir enda held ég að ég fari rétt með að það séu 22 stelpur af þessum 30 sem eru í söngnámi hjá einkakennurum.
Áður en haldið var til Prag var að sjálfsögðu tekin ein hópmynd en því miður sjást ekki allar skvísurnar á myndinni. Hundspottið sem þið sjáið í var að trufla myndatökuna svo ljósmyndarinn fór aðeins út fyrir rammann.
Takk elsku Jón minn fyrir að koma með stelpurnar þínar hingað í heimsókn og gangi ykkur vel á alþjóðamótinu í Olomoc.
Takk stelpur fyrir frábæran söng og skemmtilegan eftirmiðdag hér í garðinum. Þið eruð landi okkar og þjóð til sóma!
Bloggar | Breytt 2.6.2009 kl. 07:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
31.5.2009 | 10:00
Eru þið alveg að missa það þarna uppi á ísaköldu landi!
Vá bara það að detta niður á hugmyndina er eitt og sér túskildings virði en það að framkvæma þennan gjörning hlýtur að hafa kostað blood, sweat and tears. Hugsið ykkur úthaldið hjá listamanninum. Að standa í þessu í öllum veðrum (geri sterklega ráð fyrir að þetta hafi verið framið á Íslandi) berjast á móti storminum í grenjandi rigningu bara til þess eins að bera grjót í haug, já og gangsstéttahellur eða eru þetta ekki hellur þarna efst?
Mér finnst hann alveg hafa átt skilið að fá annan túskilding fyrir það að hálf drepa sig á þessum burði en að kaupa ljósmynd af fyrirbærinu fyrir 10 millur, Já sæll, er ekki alveg allt í lagi þarna heima!!!!
Láttu nú ekki svona Ía mín segja sumir núna, þetta er list!
Sér er nú hver helvítis listin urra ég bara á móti!
Alveg skítsama hvað ykkur finnst, þið megið kalla þetta list ég hef bara ekki geð í mér að meðtaka þetta núna.
Á meðan leikskólagjöld hækka, bensín, olía, sígó og bjór sko ég meina allt þetta allra nauðsynlegasta sem almenningur þarf á að halda til að geta lifað þarna uppi á klakanum þá er verið að kaupa ljósmynd af gjörning!
Ástæðan jú okkur vantaði svona í safnið! Áttum enga svona mynd fyrir!
Segið mér hver hefur gaman af því að skoða svona myndir og hvar í ósköpunum á hún svo að hanga? Spyrjið eftir henni aftur eftir u.þ.b. hálft ár, þá verður svarið: ,,Ha jú ég man eftir henni ætli henni hafi ekki verið komið fyrir hér niðri í geymslu".
Og þar kemur hún til með að liggja um ókomin ár!
Hér urra ég á eftir efninu! Djöf..... það sem veröldin er klikkuð á köflum!
Dýrasta verkið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)