Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Það var örugglega meira fjör inn í hólkinum síðast.

Ég svaf lítið í nótt.  Var svona á milli svefns og vöku alla nóttina.  Mig dreymdi eða ég held mig hafi verið að dreyma fólk sem mig hefur aldrei dreymt áður en gott fólk og góðar draumfarir svo ekki ætla ég að kvarta yfir því.   

Ég er mikið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að fá mér blund.  Held að það sé alveg bráðnauðsynlegt þar sem ég var komin á ról hér fyrir fimm í morgun.  Það er bara spurning hvort ég eigi að henda mér á rúmið eða fleyja mér í sólstól úti á verönd. 

Sem sagt hrikalega erfið ákvörðun sem ég stend fram fyrir, svo líka þar sem sólin felur sig öðru hvoru bak við ský þá gæti mér orðið kalt á tásunum ef ég legg mig úti en ef ég fer upp þá gæti verið að ég gæti ekki fest blund þar sem ég er ekki vön að henda mér að degi til. 

Hætti bara við, þetta er allt of mikið vesen.

Nú spyr einhver hvað var konan að gera klukkan fimm í morgun. Jú elskurnar mínar ég varð að vera komin inn í Prag klukkan sjö en þá átti ég að vera mætt í CT og þar sem ég hafði aldrei komið á þennan spítala fyrr var eins gott að hafa tímann fyrir sig.  Þetta eru þvílíkir ranghalar og byggingar við þessar stofnanir hér. 

Ég var sem sagt í seinustu rannsókninni eða þar til annað verður ákveðið. Mig minnir endilega að það hafi verið meira fjör inn í hólkinum síðast alla vega voru engin smile merki í þessum sem mér var rennt inn í í morgun enda var verið að taka scan af öllu draslinu inní mér í morgun en ekki bara einhverjum parti af innyflunum. 

Þá vitið þið hvers vegna mig langar til að fá mér ,,kríu"  held bara að ég láti það eftir mér.

Er samt enn að pæla í því hvort ég eigi að fara út eða vera inni.

Það sem maður getur verið ósjálfstæður og klikk!

Nennessekki lengur!  Farin út!


Værirðu til í að opna dyrnar in case við lendum í nauðlendingu.

Þetta er eitthvað svo týpískt.  Í hvert skipti sem ég legg upp í ferðalag með flugi þá gerast svona hópflugslys rétt áður eða alla vega yfirvofandi slysahætta í háloftunum.  Ekki það að ég sé flughrædd enda hvernig ætti það að gera sig svona hundgömul flugfreyja sem var sko klár í bátana hér í denn. En samt,  það hefur aukist með aldrinum að ég fari með mína farbæn um leið og vélin sleppir taki á flugbrautinni. 

Mig langar að segja ykkur smá sögu.  Eitt sinn sem oftar vorum við á leið yfir hafið og ég hef haft það fyrir venju, sérstaklega á löngum leiðum og ef ég man eftir að biðja um sæti við Exitið.  Þá getur maður rétt betur úr fótunum og er ekki að troðast með bossann upp í andliti á næsta farþega sem situr við hliðina á manni þegar maður þarf að skutlast á WC-ið.

Jæja rétt fyrir flugtak kemur þessi líka fallega stelpa til okkar og spyr mig hvort mér sé alveg sama um að sitja í Exitinu? 

 -Ég lít á hana svona með spurningu í augum en segi síðan ,, Já ég bað um þessi sæti sérstaklega" 

- Hún brosir um leið og hún segir:  ,, Ja sko er þér þá sama að þú berir ábyrgð á því að opna hurðina ef við verðum að nauðlenda?" 

Mér svelgdist aðeins á munnvatninu enda aldrei verið spurð að þessu áður og oftsinnis setið við neyðarútganginn.  -,, Ha humm, já ég held ég ráði alveg við það"

- Viltu þá ekki að ég kenni þér hvernig á að opna?

- Neip segi ég þetta er í góðum málum, hefði nú frekar átt að segja að þetta væri í góðum höndum.

Við vorum ekki fyrr komin í loftið en alls konar spurningar fóru að vakna í mínum ljósa kolli. 

Ætli það sé eitthvað að vélinni?  Hvers vegna spurði hún mig hvort ég kynni örugglega á opnunarbúnaðinn?  Var Capteinninn eitthvað veikur, eða timbó eða bara hálf fullur?  Var vélin komin yfir skoðunartíma?  Var illa raðað í Cargoið eða hafði gleymst að afísa vélina?

Svona spurningar veltust í mínum kolli fram og til baka en það versta var að ég fór allt í einu að hugsa:

My good, kann ég yfir höfuð að opna þessar dyr!!!!!!!  Ég var að fljúga fyrir þrjátíu og eitthvað árum.  Hefur ekki búnaður vélanna breyst á þeim tíma? 

Þarna sat ég kófsveitt og titrandi í heila þrjá tíma og bar ábyrgð á lífi 250 farþega plús áhöfn á vegum Icelandair þar sem ég hafði ekki hugmynd um hvort ég gæti opnað neyðarútganginn í tíma ef vélin færi niður. Og einhver ljóshærð og bláeygð stelpa hafði spurt í sakleysi sínu hvort ég gæti örugglega opnað helvítis dyrnar.

 Eftir þetta hef ég oft gjóað augum á flugfreyjuna sem opnar dyrnar eftir lendingu og mér sýnist þetta vera bara gamla góða systemið og nokkuð auðvelt.

Er að fara í flug á morgun.  Ætla að sitja i Monkey og ekki að ræða það að ég biðji um sæti við Exitið. Tek ekki nokkurn séns hvort ég geti höndlað þetta verk ef til þarf. 

 

 


mbl.is Farþegi gerði við flugvélina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hann er kominn með pungapróf á þvottavél og þurrkara.

Í morgun þegar ég loksins komst út úr draumalandinu og drattaðist niður í eldhús beið eftir mér pakki að heiman.  Það sem mér finnst gaman að fá pakka svona óforvarandis, ég kætist eins og fimm ára barn skal ég segja ykkur. 

Innihald pakkans sem Erla vinkona mín sendi mér var bók eftir Randy Pausch, Síðasti fyrirlesturinn.  Ég hef aldrei heyrt um þennan prófessor en skilst að bókin sé vel þess virði að lesa.  Takk fyrir kæra vinkona. Er að ljúka við einhvern Thriller sem ég man ekki einu sinni hvað heitir og síðan ætla ég að taka þessa fyrir.

  Það er ekkert smá mikið sem ég hef innibyrgt af lesefni síðasta mánuðinn. Flest af því hefur nú bara farið inn um annað og út um hitt.  Sumir segja að maður verði svona ruglaður og minnislaus eftir svona langa svæfingu.  Hvað veit ég.

Jæja vinir mínir ætla að skella hér inn smá frétt um minn elskulega svona til gamans. 

Þrátt fyrir að við höfum hér hússtýru er ekki þar með sagt að hún sé hér alla daga þannig að hér verður stundum að taka til hendinni eins og gengur og gerist á öllum heimilum og allt hefur þetta lent á elsku kallinum mínum undandfarið. 

 En satt best að segja hefur hann aldrei verið mikið fyrir húsverk svo fyrsta vikan fór í það að kenna honum á uppþvottavélina, hvernig ætti að raða í hana og hvaða efni væri notað og til hvers hólfin væru. Eftir viku var hann kominn með þetta svona nokkurn vegin á hreint:  Á ég núna að setja á Auto?  Já elskan og loka vélinni síðan varlega ekki skella.- Var síst að skilja í öllum þessi skörðum í diskunum okkar.

Rétt áður en ég fór heim af spítalanum sagði hann mér hróðugur að hann hefði sett handklæði í þvottavélina.  - Flott hjá þér sagði ég.

Þegar heim kom voru samanbrotin handklæðin snyrtilega uppröðuð inn á baðherbergi.  Hann leit á mig og sagði: Sko þetta gat ég alveg aleinn! En af hverju eru þau svona stíf og ómeðfærileg?

-Settir þú þau ekki í þurrkarann og smá þvottamýki í vélina spurði ég ósköp varlega.

-Hehumm... já jú þau fóru í þurrkarann en æ ég vissi ekki hvað þau ættu að vera lengi svo ég bara engdi þau upp blaut...... hvað er þvottamýkir bætti hann svo við alveg bláeygður og ljóshærður.

- það lætur maður í eitt hólfið og það gerir þvottinn svona fluffy.

-OK geri það næst, ekki málið.  Hvernig lítur þvottamýkir út? Ég meina er þetta í brúsa eða dufti?

-Heyrðu elskan, ég fer alveg að komast á ról svo þú skalt ekkert hafa áhyggjur af þessu svo held ég líka að það sé ekki til mýkir svo það verður bara að bíða.

En minn lét sér nú ekki segjast og í hvert skipti sem hann fór í matvörubúðina leitaði hann að þvottamýki en kom tómhentur heim í nokkur skipti og var farinn að segja mér að svoleiðis væri bara ekki til í búðinni með svo mikilli sannfæringu að ég var næstum farin að trúa honum.

Fyrir viku, já þetta er búið að ganga lengi, þá skellti hann hróðugur stórum plastbrúsa á borðið, brosti alveg hringinn og var að rifna úr monti og sagði:  Sko ég fann mýkir!

- Ég þorði ekki einu sinni að brosa en hláturinn sauð í mér:  Nei elskan þetta er ekki þvottamýkir þetta er þvottaefni fyrir ullarflíkur.

- Hvernig í andsk... lítur þessi mýkir út ég bara spyr? 

- Æ vertu ekki að pæla í þessu meir ég skal kaupa þetta fljótlega.

- Minn lætur ekki segjast og daginn eftir var hann búinn að finna rétta brúsann og ég gat farið og sett í vél    hehehehe..... og hann kominn með fullnaðarpróf í þvottavélabuissnes.

Hann er sem sagt búinn að læra á uppþvottavélina, þrífa eldavélina, komin með pungapróf á þvottavél og þurrkara.  Geri aðrir betur á sjötugsaldri en ég hætti ekki á að kenna honum á ryksuguna enda með konu í því.

Svo elska ég þennan mann alveg út af lífinu bara svo þið vitið það. 

 

 


Öðruvísi mér áður brá

Hvað ef hér væri ekki nettenging aðeins sími sem væri hleraður og faxtæki sem virkaði eftir dúk og disk? Væri bara ekki lífið auðveldara?  Alla vega væri umræðan á heimilinu ekkert í líkingu við  það sem hún er í dag.

  Ætli það séu nema þrjú ár síðan við fengum almennilega nettengingu.  Áður komu íslenskar fréttir í stakato útfærslu sem engin nennti að fylgjast með. Okkar fréttasöð var CNN og Sky og við vorum sátt við það. Fréttir að heiman bárust með vor og haustskipunum ef svo má segja.  Einstaka sinnum var síminn notaður en þá sérstaklega til að fylgjast með ættingjum heima. Og okkur fannst við ekkert vera utanveltu, fannst jafnvel þegar við komum heim að fólkið talaði um það sama og síðast þegar við litum við.  Sem sagt allt í ró og spekt og himnalægi.

Í dag glymja hér þrjár íslenskar útvarpstöðvar í takt við hvor aðra þ.e. Rás eitt og tvö og Bylgjan allan liðlangan daginn.  Tvær heimilistölvur eru rauðglóandi svo liggur við að þær brenni yfir einn daginn.  Síminn hringir í tíma og ótíma. - Ertu að horfa á sjónvarpið?  -Hvað finnst þér? Vááááá.......   

Umræðuefnið á heimilinu, ja hvað haldið þið?   Ekki það að ég taki ekki líka þátt í þessu, o svei því, jú ég geri það af fullum krafti, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður.  Núna t.d. bíð ég í ofvæni eftir nýjustu fréttum að heiman.  Horfi á klukkuna og bíð eftir ellefu fréttum.  Andsk......... verð að fara að hætta þessu ég hvort eð er breyti engu um ástandið.

Sko vissi ég ekki, ýtti ,,alveg óvart"  á plús takkann.  Ekkert fréttnæmt, bíða til klukkan tólf!

Vildi óska þess að það væri komið vor.  Ég er ekki janúar-febrúar manneskja.  Vildi helst leggjast í hýði eins og björninn.

 En nú er bara að þreyja Þorrann og líta á björtu hliðarnar.

 

 


Bíllinn sem talar mannamál, eða þannig.........

Ekkert lát er á brunakuldanum hér í Tékklandi og telja veðurfræðingar að þetta kuldakast haldist eitthvað fram í næstu viku. 

Í morgun sýndi hitamælirinn sem ég er nú farin að kalla frostmæli - 23° hér í sveitinni.  Brrr...

Það tók minn elskulega langan tíma að koma bílnum í gang þar sem hann átti erindi inn í borgina eldsnemma í morgun og þegar það loks tókst blikkuðu öll viðvörunarljós í mælaborðinu og birtist stórum stöfum og gáfuleg rödd tilkynnti: End journey now!!! eða eitthvað álíka gáfulegt.  Sko bíllinn hans talar mannamál og eins gott því annars hefði minn bara flanað út í einhverja vitleysu.

Hann lét farartækið ganga smá stund og eftir nokkrar mínútur fór að lækka rostinn í bílnum og viðvörunarljósin slokknuðu smátt og smátt og röddin kom aftur:  You can start your journey now but drive carefully!!!  Já, já alveg hreina satt.  Whistling

Annars var helgin hér róleg og mest gert nákvæmlega ekki neitt.  Í gær heimsóttum við þessa litlu dúllu sem bræðir öll hjörtu með sínu yndislega brosi.   

 

 Elma Lind

       Hvað ég geri í dag veit ég ekki enn er svona að pæla í því hér yfir þriðja kaffibollanum.

 


Fréttalaus helgi og misstum ekki af neinu.

Fyrir mörgum árum fundust mér það forréttindi að geta hoppað upp í bílinn minn og keyra yfir landamærin inn í ,,nýjan heim" eins og við kölluðum það.  Komast í burtu frá amstri hversdagsins og skilja allar veraldlegar áhyggjur eftir heima. 

Í glóandi litum haustsins sl. föstudagsmorgunn hentum við tannburstum niður í tösku og ókum suður á bóginn.  Eiginlega var engin sérstök ferðaáætlun, bara komast aðeins í burtu og gleyma sér augnablik og njóta samvistar hvors annars.

Ekki er alveg jafn auðvelt að kúpla sig frá fréttum eins og áður fyrr þegar tölvan var of stór til að taka hana með sér og við áttum engan farsíma.  Núna fer maður ekki einu sinni út í garð án þess að göngusíminn sé meðferðis og tölvan er eitt af því sem pakkað er niður ef farið er lengra en 200 km frá heimilinu.

Ég opnaði aldrei tölvuna þessa daga en var þakklát fyrir göngusímann þar sem ég gat hringt í vinkonu mína sem stödd var á Barcelona í tilefni 60 ára afmælis hennar og líka þegar ég týndi mínum elskulega alveg óvart eða þannig.  Hvar ertu?  Hann stóð við hliðina á mér, get svarið það.

Við áttum góða helgi, nutum þess að dóla okkur í haustsólinni, borðuðum góðan mat og fórum í leikhús. 

 Í gærmorgun ákváðum við að keyra sveitavegina heim þar sem við höfðum ekki keyrt þá leið í tíu ár eða fleiri. Eitthvað hlýtur minnið að hafa skertst því það tók okkur fimm og hálfan tíma að keyra þessa leið.  Fallegt en verður ekki gert aftur i bráð, minn rass þolir illa svona langkeyrslu á misjöfnum fjallavegum.

Það kom í ljós þegar heim var komið að við höfðum ekki misst af neinu sérstöku úr fréttum að heiman.  Allt var við það sama.  Samningar sem löngu hefðu átt að vera í höfn voru enn í frysti og sama blablabla í gangi.  Horfðum á Silfrið í gærkvöldi og var gott að heyra í vini okkar Jóni Baldvin, hann talar enga tæpitungu karlinn sá frekar en fyrri daginn.

Eigið góðan mánudag öll sömul.

Farin að sinna haustverkum. 

 

            


Mannaþefur í helli mínum

Aumingja skessan, hvað er líka verið að þvæla henni á milli eyja og lands.

  Hún er sjálfsagt mjög ósátt við allt þetta brambolt.

  Nú verður bara að kalla Siggu litlu til hjálpar.  Þær eru vinkonur og hún er sú eina sem getur tjónkað við kerlu.

Annars held ég að skessan hafi ekkert með þessar truflanir að gera heldur hafi annar/önnur verið fyrir í hellinum eða mjög nálægt og hann eða hún sættir sig ekki við þennan ágang á sínu yfirráðasvæði.

Það hefur jú alltaf verið talið mjög reimt á Suðurnesjunum.


mbl.is Er skessunni illa við fjölmiðla?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir ykkur sem náðuð ekki Rás 2 - Eurovisionsports.tv/olympics

Snilld hjá strákunum!  Ég sem horfi ekki á handbolta datt niður í síðustu mínúturnar af leiknum.  Það var bara ekki hægt annað.  Var nú svo sem búin að gjóa augunum á skjáinn öðru hvoru og fylgdist með mörkunum úr fjarðlægð enda voru hrópin og köllin sem bárust úr barka míns elskulega þannig að hálf sveitin fylgdist örugglega með.

Annars varð uppi hér fótur og fit þegar minn elskulegi kom heim og ætlaði að stilla á Rás 2 og auglýst var um bilun en viðgerð stæði yfir.  Hann gjörsamlega spólaði hér um húsið þar sem ekki var sýnt frá leiknum á enskum eða þýskum stöðum, ja alla vega ekki þeim sem við getum náð.

Eftir bölsót og hótanir um að hringja í útvarpstjóra, ráðherra eða bara eitthvað hringdi sonur okkar og tilkynnti honum að hann gæti séð þetta á Eurovisionsports. tv/olympics  og hér með er þessu komið á framfæri til ykkar sem búið hér í nágrannalöndunum ef útvarpið klikkar aftur á sunndaginn. 

Þessi tenging bjargaði mínum frá því að fá taugaáfall eða eitthvað ennþá verra og nú get ég verið róleg á sunnudaginn ef Rás 2 klikkar aftur sem á auðvitað ekki að gerast þegar svona stórviðburðir eru í aðsigi. 

Flott hjá þér Þorgerður Katrín að halda út og hvetja strákana og ekki verra að boða til þjóðhátíðar.  Svona á að gera það, með stæl og ekkert öðruvísi!   


mbl.is Ráðherra boðar þjóðhátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum er maður bara alveg ofan úr afdölum.

Ekki má maður skreppa bæjarleið eina viku þá er eins og gróðurinn taki kipp á meðan svo nú eru allar trjáa, rósa og runnaklippur komnar í hleðslu þannig að ég geti eytt helginni í að snyrta og fegra hér úti. Ekki voru það nú einungis garðplönturnar sem tóku kipp heldur sá ég í morgun að mitt undurfagra hár hafði tekið miklum stakkaskiptum og ég leit út eins og reytt hæna.  Sjálfsagt hefur blessað sjávarloftið haft þessi áhrif svo nú þarf að gera eitthvað róttækt í þeim málum líka.

Annars var ferðin okkar bara hin huggulegasta.  Tekið var á móti okkur sem höfðingjum af General Mills ( Häagen-Dazs) og okkur komið fyrir á Hotel East sem er eitt það mest trend hótel sem við höfum gist á, staðsett í St. Pauli svo auðvitað var kíkt á Reeperbahn eitt kvöldið.  Óskaplega ömurlegt að fylgjast með næturlífinu þar og rusli sem þakti alla götuna hvar sem litið var.  Minn elskulegi fékk létt sjokk og kallar hann nú ekki allt ömmu sína en hann fræddi mig á því að mikla breytingar hefðu orðið þarna í áranna rás og allar til hins verra.  

Ég ætla aðeins að víkja að hótelinu sem við bjuggum á.  Við fengum svokallaði mini suite og vorum að sjálfsögðu voða lukkuleg með það þar sem minn þolir illa þrengsli í hótelherbergjum.  Rúmið var auðvitað king size og var staðsett út á miðju gólfi eins og einhver hefði ekki haft kraft til þess að koma því upp að vegg. 

 Í enda herbergisins var tvöfalt baðkar með nuddi að sjálfsögðu þar fyrir framan var komið fyrir löngu borði og tók það mig dálítinn tíma að fatta að þarna var vaskurinn staðsettur en hann leit út eins og risa kuðungur úr stáli. Ekkert skilrúm bara svona plantað þarna á miðju gólfi.  Ég get svarið fyrir það að mér fannst ég alltaf vera að afgreiða á bar þegar ég stóð þarna og burstaði tennurnar. Datt meir að segja einu sinnu út úr mér:  Hvað má bjóða þér að drekka!

Að sjálfsögðu var allt stýrt með fjarstýringu svo það lá við að ég hringdi í Helga í Lumex til að fá upplýsingar um hvernig ég gæti dregið teppið af rúminu. En það fór ljómandi vel um okkur þessa daga og við skemmtum okkur konunglega enda hvernig var annað hægt þegar gestgjafarnir eru slíkir höfðingjar. 

Næst ætla ég samt að vera búin að afla mér þekkingar á svona smávægilegum hlutum eins og fjarstýrðum gardínum og frussandi vatni í kuðungavaski sem sullaðist út um allt borð þegar maður kom nálægt en ekki vera eins og einhver álfur úr afdölum.  It's All Good 

   

   


Þær taka ,,fýlupillur" líka í Kóngsins Köbenhavn

Komin heim frá Hamingjulandinu heil á húfi en auðvitað töskulaus. Ég mátti svo sem alveg búast við því þar sem ég hafði aðeins 25 mín í millilendingu í Köben.  Held að heilinn í mér sé aðeins farinn að klikka, ég hef lent í þessu áður að bóka mig á flug með svona stuttum millilendingartíma og lofað sjálfi mér að gera það aldrei aftur en einhvern vegin dettur þetta bara í gleymskunnar dá og ég lendi aftur og aftur í þessari hringyðu sem líkist geðveiki.

Þegar ég kom til Keflavíkur um hádegisbil var fátt um manninn í innbókun og ég þakkaði fyrir það pent í huganum.  Þar sem ég stend fremst við borðið kemur voða sæt stúlka til mín og segir:  ég skal hjálpa þér að bóka þig inn hérna megin.  Ja hérna hugsa ég eitthvað hefur nú þjónustan batnað.

Stúlkan dregur mig að maskínu sem stendur þarna aðeins afsíðis og sé ég þá að þetta er  sjálfbókunarvél. Ég brosi mínu blíðasta og segi:  Ég held að þetta gangi ekki ég verð að millilenda og bóka töskuna alla leið til Prag.  Ekkert mál segir hún, ég ætla bara að kenna þér á þetta og rífur um leið af mér bókunarblaðið  og pikkar inn númer og aftur númer, segir svo voða sætt sjáðu, svo bara ýtir þú á áfram. 

 Á meðan er ég á kafi ofan í tösku að leita að gleraugunum því ég sé ekki glóru án þeirra, þ.a.l. missti ég af þessari kennslustund í innbókun.  Ég nennti ekki að fara að útskýra fyrir henni að ég  hefði bara engan áhuga á svona apparati, sem sagt þarna var ég rosalega meðvirk Hallgerður. Hehehehhe.... Auðvitað varð ég síðan að fara að afgreiðsluborðinu og bóka inn töskurnar, þetta var sem sé algjör tvíverknaður. 

Þar tók á móti mér önnur yndælis stúlka og ég krossaði fingur, góðu verndarar, enga yfirvikt!  Taskan bókuð og ég bið um Priority-miða á töskuna vegna þess hve stutt sé á milli véla.  Ekkert slíkt fékkst en hún vafði Saga miða um handfangið og sagði að það virkaði rosa vel. Huhumm ég vissi betur.  

Þegar ég kem inn í vélina sé ég að ,,apparatið" hafði gefið mér sæti næstum aftast í vélinni og lítil von um að geta látið færa sig því vélin var fullbókuð.  Flugið yfir hafið gekk vel þrátt fyrir að ég gat engan vegin hreyft mig þar sem 170 kg. karlmaður sat mér við hlið og þrýsti sínum holdlega líkama fast að mér alla leiðina. Þegar við nálgumst Kóngsins Köben kalla ég í eina freyjuna og spyr hvort möguleiki sé á að ég geti fengið að færa mig fram í þar sem ég hafi svo lítinn tíma á milli véla , þetta var ekkert mál og ég gat loks andað eðlilega síðustu tíu mínúturnar.

Ég er lent og þá byrjar martröðin fyrir alvöru.  Hlaup frá terminal B yfir í C til að bóka mig í Transit.  Þar er ætlunin að farþegar taki miða og bíði rólegir þangað til kemur að þeim.  Ég hafði bara engan tíma í þetta svo ég arka að næsta deski og bið unga konu um að bjarga mér á nóinu þar sem vélin væri að fara eftir 15 mín.  Sú hafði tekið nokkrar ,,fýlupillur" um morguninn og var ekkert nema ólundin.  Ég taldi upp á 100 andaði djúpt, talaði dönsku með ísl. hreim en það hefði ég einfaldlega ekki átt að gera því þá fyrst fór stúlkan í baklás.  Loksins, loksins og ég aftur til baka alla leið á terminal A.  Hljóp eins og geðsjúklingur með svitastrokið andlit og rétt náði að smeygja mér inn um hliðið áður en því var skellt aftur.  Hjúkket ég náði!

Óveður geisaði í Prag í lendingu og vélin tók dýfur og hentist til hægri og vinstri vegna mikilla sviptivinda. Haglið dundi á vélarskrokknum og síðan steypiregn í kjölfarið.  Veðurguðirnir tóku ekki sérlega vel á móti mér í gærkvöldi og síðan til þess að kóróna allt kom ekki taskan.

Það var úrvinda kona sem féll í faðm síns elskulega.  Gat vart komið upp orði. Eina hugsunin var rúm og sofa og sofa. 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband