Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Andleg pína í Draumalandinu

Ég barðist við að vekja sjálfa mig og koma mér út úr draumheimum í morgun.  Mörgum sinnum rumskaði ég og reyndi að rífa mig upp úr fletinu en féll aftur og aftur inn í þennan draumaheim sem var að fara með mig á tauginni.  

Þegar ég loksins gat komið mér til hálfrar meðvitundar hentist ég fram úr rúminu og skjögraði fram algjörlega búin að sál og líkama.  Umlaði góðan daginn til míns elskulega sem auðvitað var löngu vaknaður og sat í makindum við tölvuna í bókaherberginu.  Nuddaði hausinn rækilega og hélt niður stigann enn með bankandi hjartslátt og brauðfætur sem varla nenntu að bera mig uppi.

Kaffi, kaffi, kaffi var það eina sem komst að í mínum litla kolli því það var eina sem gat vakið mig almennilega til meðvitundar um að þetta hafði verið draumur. Álíka draumarugl hefur komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og er alltaf jafn taugatrekkjandi og ég verð ekki búin að ná mér fyrr en undir kvöld skal ég segja ykkur.  Sit hér, algjör taugahrúga með sveitta lófa og andateppu.  Ég er ekki að djóka.

Nú eru margir farnir að hugsa:  Hvað, á ekki að segja manni drauminn?  Svo ætli sé ekki best að skrifa sig út úr þessu.  Þið sem nennið ekki að lesa lengur, hættið bara núna.

Ég er stödd upp í Þjóðleikhúsi og það er frumsýning í kvöld.  Stór og mikil sýning með fjöldann allan af  leikurum, gömlum sem ungum.  Ég sit með handritið uppi í búningsherbergi og er að bögglast við að læra textann.  Hugsa, andskotinn ég hef ekki mætt á eina einustu æfingu.  Ég mundi að ég hafði mætt á fyrsta samlestur en síðan kom sumarfrí og ég bara fylgdist ekki nógu vel með æfingartöflunni svo ég hafði aldrei mætt.  NB þarna var ég með þokkalega stórt hlutverk og margar innkomur.

Ég var komin í búninginn og var hann allur hinn skrautlegasti enda var þetta sýning með söngvum og dansi.  Ég vissi að hraðinn yrði mikill og ég hafði verulegar áhyggjur af því að ég hefði ekki græna glóru hvenær ég ætti að koma inn, kunni hvorki dansspor eða staðsetningar hvað þá stikkorðin.  Þá kemur til mín minn gamli vinur Gunnar Eyjólfs og segir:  Þetta verður allt í lagi Ía mín, þú bara improviserar, engar áhyggjur haltu þig bara í námunda við mig svo ferð þú bara útí væng og færð  þetta hjá hvíslaranum.  

Ég róaðist aðeins en hélt samt dauðahaldi í handritið og fletti og fletti til að reyna alla vega að læra stikkorðin.  Síðan kom næsta áfall:  Hvað skildi leikstjórinn segja (Sveinn Einars)  hann hafði aldrei séð mig á einni einustu æfingu og ég fengi örugglega reisupassann, engin spurning.  Hélt samt í litla hálmstráið, að hann hefði aldrei saknað mín á æfingum svo þetta gæti reddast.

Vaknaði áður en sýning hófst, sem betur fer annars væri ég ekki hér til að segja þessa sögu. Wink 

 Er enn í rusli.  Ætla í langan göngutúr til að koma mér inn í  raunveruleikann. 

Epidaurus 

 

 

 

 

     


Ætli þetta yrði ekki bannað á Íslandi en er samt snjöll hugmynd

Mitt í öllu krepputali, þá datt mér í hug að segja ykkur hvernig eitt stórfyrirtæki hér á landi kemur á móts við viðskiptavini sína og fær alla til að brosa um leið og þeir greiða fyrir sína vöru með ánægju.

Þetta stórfyrirtæki heitir Mountfield og selur allt frá garðhrífum upp í sundlaugar og stórvirk garðtæki.  Um daginn þegar minn elskulegi var að versla þar eitthvað smotterí og kom að kassanum gekk allt sinn vanagang.  Afgreiðsludaman stimplaði allt samviskusamlega inn og gaf síðan upp upphæðina.  Um leið og hún sá að viðskiptavinurinn átti pening í buddunni og ætlaði ekki að svíkjast um að borga tilgreinda vöru brosti hún sínu blíðasta svo skein í hvítar tennur og bauð mínum elskulega að snúa stóru rúllettuhjóli sem var við enda á kassaborðinu.

Hjólið var þannig útbúið að á því stóðu tölur frá 1% og upp í 100% og einskonar lukkuhjól fyrir viðskiptavini.  Minn sneri hjólinu af mikilli snilld og talan 17% kom upp.  Viti menn, hann fékk þá 17% afslátt af vörunni sem hann var tilbúinn að greiða fyrir fullt verð. 

Ég hélt nú í fyrstu þegar ég heyrði þessa sögu að hann væri að búa hana til bara svona til að lífga upp á hversdaginn en þetta var staðreynd. 

 Hann sagði mér að hann hefði að gamni fylgst með nokkrum viðskiptavinum og sumir hefðu farið upp í 20% en yfirleitt hafi nú hjólið stoppað í 10 prósentum.  Hann var líka viss um að hjólið væri stillt á ákveðna prósentu og síðan væri e.t.v. þúsundasti hver viðskiptavinur sem fengi 50% eða jafnvel 100%  bara til að fá umtalið.  Því auðvitað berast svona fréttir fljótt og örugglega og allir vilja jú græða ekki satt.

Þetta kallar maður hugmyndaflug í lagi.  Viðskiptavinir alsælir með kaupin og verslunin stórgræðir því auðvitað laðar þetta að viðskiptin.

En þetta væri nú örugglega stranglega bannað á Íslandi því landanum er forboðið að taka þátt í svona leikjum.Blush

 Roulette 


Hvað er fólk líka að þvælast upp í svona tæki?

 Ég hef aldrei skilið þá áráttu hjá fólki að vilja dinglast svona í lausu lofti til þess eins að dásama útsýnið. Alveg sama þó maður sé innilokaður í einhverju glerbúri.  Allir með sælusvip og baðandi út öllum öngum yfir fegurð landslagsins.  Gólandi á himnaföðurinn, þakkandi honum fyrir að skapa jörðina. 

  En það er nú ekki alveg að marka mig ég er svo lofthrædd að bara það að stíga upp á stól getur farið með mig á tauginni. Fyrir mér er fall af stól eins og fall fram af ystu nöf ofan í stórgrýtt gil og lífinu þar með lokið. 

Einu sinni gerðist ég rosalega voguð og fór upp í svona hrillingstæki eftir mikið nauð frá krökkunum mínum, aðhlátur og stórar yfirlýsingar frá mínum elskulega hvað ég væri nú mikil gunga.  Að sjálfsögðu stoppaði karfan efst uppi og ég fraus gjörsamlega.  Þegar við vorum komin niður á jarðfast sagði minn elskulegi að þetta myndi hann aldrei gera mér aftur, hann sá konuna sína verða græna í framan og hélt að hún væri að syngja sitt síðasta þar sem honum fannst hún vera hætt að anda og dauðastjarfi kominn í líkamann.

Á meðan dóttir mín bjó í London í nær átta ár var oft imprað á því við mig hvort ég hefði ekki farið upp í The London Eye. Yfirleitt hunsaði ég spurninguna því bara það að bera þetta ferlíki augum í hvert skipti sem kom í borgina fékk hárin á mér til að rísa og kuldahrollur hélst í margar mínútur í mínum fína skrokki.    

 Mér finnst fólk hugdjarft sem getur klifið fjöll, gengið þrönga stíga á ystu nöf, eða farið sér til skemmtunar upp í turna bara til þess eins að dásama útsýnið.  En ég elska að ferðast með flugvélum, enda er það allt annað mál.

Lofthræðsla er ekkert grín það er bara þannig. Yodeler  

 

 

 

  


mbl.is 400 manns sátu fastir í Lundúnaauganu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annar í páskum, dagur barnanna. Páskasagan endar hér

Hody, hody, doprovody syngja börnin hér núna og ganga hús úr húsi.  Að launum fá þau nammi í körfurnar sínar sem stelpurnar bera en strákarnir reyna að koma á mann höggi með skreyttum reyrstöfunum. 

Vísan er eitthvað á þessa leið:  Hátíð, hátíð vinir mínir.  Gefið okkur rauð egg en ef þið eigið ekki máluð egg þá gefið okkur hvít.  Þetta syngja þau hátt og snjallt fyrir alla sem heyra vilja. 

Þessi páskasiður hefur lítið breyst í aldanna rás nema að því leiti að hér áður fyrr eltust ungir menn við þær stelpur sem þeir voru skotnir í og oft endaði eltingarleikurinn upp á hlöðulofti með tilheyrandi hlátrasköllum og hamagangi en sumir ungir menn urðu að súpa súrt seyði og gefast upp, þar sem heimasætan lokaði sig inn í föðurhúsum og vildi ekkert með gaurinn hafa.

Minnir óneitanlega dálítið á Öskudaginn okkar.

Þar með endar Páskasagan, á degi barnanna hér í Tékklandi.  Ég vona að einhverjir hafi haft gaman að.


Páskadagur með fjölskyldunni og enska sparkinu

Alveg er það makalaust hvað fótbolti getur umturnað öllu í okkar fjölskyldu, ja öllum nema mér. 

Páskadagur og litla fjölskyldan hér í Prag hittist á Four Season hótelinu í hádeginu til þess að eiga ánægjulega samverustund og borða góðan mat.  Þessum sið höfum við haldið síðan við fluttum hingað og þykir öllum ómissandi á páskadag.

Að þessu sinni voru með okkur systur Bríetar tengdadóttur, Íris og Jón Helgi maður hennar og þeirra tvö börn og Ingunn.  Mér var hugsað til þess þar sem ég leit yfir hópinn hvað við værum heppin að eiga svona yndislega fjölskyldu en saknaði sárlega dóttur minnar og hennar fjölskyldu sem nú eru að spóka sig á skíðum á Akureyri.

Sólin sendi hlýja vorgeisla inn í veitingasalinn þar sem við sátum og gæddum okkur á Nóa Sirius páskaeggjum með kaffinu og lásum málshættina fyrir hvort annað eftir að hafa verið búin að raða í okkur dýrindis krásum úr Michelin eldhúsi hótelsins.  Svona líka hugguleg páskastemmning.

Allt í einu spyr einhver við borðið á svona ekta norðlensku:  Hæ hvenær byrjar leikkurinn?

Annar svarar:  Hann er að byrja núna.

Viti menn það var bara eins og rakettu væri stungið í afturendann á öllum, nema mér og allir ruku upp til handa og fóta.  Sá stutti, fimm ára Grenvíkingurinn var held ég verstur:  Drífa sig, drífa sig, leikurinn er að byrja pabbi!

Kyss, kyss, allir heim.  The end!

Nú liggur minn hér uppi fyrir framan TV eftir að hafa keyrt á methraða heim og glápir úr sér augun og það eina sem hann hefur sagt við mig síðan við komum heim er:  Rosalega held ég að þau séu fúl núna þarna í Prag 6.  ( Þau búa þar krakkarnir)  Liverpool tapaði.  Sem sagt allir í fýlu á því heimili núna. Pinch

Mér gæti ekki verið meira sama hvor vann eða ekki.  Svona tuðruspark á bara alls ekki upp á pallborðið hjá mér að ég tali nú ekki um þegar fullorðnir menn kássast upp á hvern annan og veltast  um annan þveran í misjafnlega ástúðlegum faðmlögum er bara eitthvað sem ég skil ekki.

Ætla að fá mér annað Nóa Sirius egg, svona til að hressa mig.Wink 


mbl.is Man. Utd með 6 stiga forystu eftir 3:0 sigur á Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páskasagan héðan frá Stjörnusteini, Föstudagurinn langi

Ég lofaði ykkur framhaldi af páskasögunni.

Eftir allt stússið á Skírdag var börnunum smalað saman niður að næstu á eða læk og nú skildi baða liðið.  Mig hryllir við þeirri hugsun, bara það að sumar árnar hér eru jafn mórauðar eins og Moldá en  bergvatnsár finnast ekki nema á hálendinu svo blessuðum börnunum var dýft ofan í vatn sama hvernig það leit út.  Líka það að núna er hér 3° hiti svo þetta hefur ekki verið tekið út með þegjandi sældinni hjá mörgum á þessum árstíma.  En bað skildi það vera á Föstudaginn langa og ekkert múður.  Allir fengu síðan hrein föt og sjálfasagt margir kvef í þokkabót.

Fullorðna fólkið fastaði þennan dag en börnin fengu heita mjólk, sem skýrir allt sem þarf, auðvitað heita mjólk eftir vosbúðina og ,,Macanec" en það eru brauðin sem ég sagði frá í síðustu færslu.  Ef mikil fátækt var á heimilinu fengu börnin hveitikökur með hunangi sem kallaðar voru ,, Jidásky" en það þýðir Júdas.

Svona var nú Föstudagurinn langi hér áður fyrr og þá er ég að taka um fyrir 1990.  Þegar ég var á leið heim í dag, keyrandi hraðbrautina frá Supermarkaðnum þá hugsaði ég ,já hér hefur mikið vatn runnið til sjávar. Umferðin silaðist áfram á svona 140 km á kl.st. og allir á leið út úr borginni sjálfsagt á leið í sumarhúsin.  (Allir Tékkar eiga sitt sumarhús) ja annars ertu þú úti, það er bara þannig.

Nú rennir fjölskyldan inn á McDonalds á leiðinni og fær sér einn Big Mac.  Þegar komið er í sveitina er tekið upp franskt rauðvín og svissneskir ostar og þýskar pylsur.  Ef veður leyfir er grillað um kvöldmatarleitið á Webergræju.  Börnin eru böðuð í heitum pottum eða baðkerum með nuddgræjum. Enginn borðar lengur Jidásky eða baðar sig í ísköldum ám. 

Á morgun ætla ég að segja ykkur frá Píslagöngustígnum hér í sveitinni okkar.    

        


Kveðja frá okkur héðan í Tékklandi

Veit að sumir eru með áhyggjur af okkur þar sem þetta er þjóðvegurinn heim til okkar að Stjörnusteini. Við erum hér heima og allt í lagi með okkur. Vorum bæði á ferðinni  klukkustundu fyrir óhappið á hraðbrautinni. 

Bestu páskakveðjur til ykkar allra.  Ía, Þórir og fjölskylda. 


mbl.is 115 bíla árekstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hody, hody, doprovody! - Hátíð, hátíð, vinir mínir!

Skírdagur er ekki haldinn hér hátíðlegur. Hér áður fyrr notuðu Tékkneskar húsmæður daginn til að undirbúa páskana með því að baka páskabrauð sem svipar aðeins til okkar gamla rúsínubrauðs.  Brauðið var bakað í svotilgerðu kanínuformi og síðan skreytt með möndluflögum. Snurfusa heimilið svo allt sé tandurhreint á sjálfan páskadaginn. Bunny 

Gamlar konur sátu með barnabörnunum og fléttuðu reyrstafi sem síðan voru skreyttir með alla vega litum borðum.  Segi seinna frá því til hvers þeir eru notaðir. 

 Aðrir sátu heima og máluðu egg með fjölskyldu og vinum.  Þessi egg eru augnayndi og hér á þessu heimili er til stór karfa með þessum eggjum sem varðveitt eru frá ári til árs og skreyta hér greinar í stofunni.  Egg Painting 2 

Nútímakonan þeysist í stórmarkaðinn og fyllir körfuna af allskonar góðgæti handa krökkunum á páskadag, brauðið góða er keypt tilbúið, sveittir og geðyllir eiginmenn drattast með ólund á eftir húsmóðurinni sem auðvitað er með vælandi krakkagrislingana í eftirdragi.  Enginn brosir, allir búnir að taka fýlupillu með morgunmatnum.   Shopping 2 

Ömmurnar sitja heima og núa höndum saman vegna þess að nú er reyrstafurinn keyptur úti á næsta götuhorni svo það er ekkert fyrir þær að gera nema láta sér leiðast. Granny 

Enginn nennir að mála egg nema þeir sem hafa það að atvinnu og stórgræða á túrhestum og öðrum sem álpast til að fjárfesta í þessum gersemum. 

Svona er nú það og ég ætla að fara að dæmi nútímakonunnar og fá mér andlitsbað hjá dúllunni minni henni Marketu.

Á morgun kemur síðan framhald af páskasögunni héðan frá Stjörnusteini.

Gleðilega páska Bunny Face . 

 


Eru þetta spælegg í páskagardínunum mínum?

Hér skipta veðurguðirnir um skoðun á fimm mínútna fresti.  Vita ekkert vort þeir eiga að láta himininn gráta eða brosa niður til okkar.  Ég er hálf fúl út í almanakið, páskarnir eru allt of snemma í ár. 

 Mínir páskar eiga að vera sólríkir dagar, sitja undir blómgandi kirsuberjatrjám í léttum sumarkjól með hádegisverðinn framreiddan á veröndinni sem skreytt er með páskaliljum og túlípönum sem boða okkur komu sumarsins. Öll tré skreytt með gulum og grænum eggjum sem flökta í vorgolunni eins og fiðrildi.

Ég lít hér út um gluggann og snjónum kyngir niður í svona jólaflyksum.  Sem betur fer festist hann ekki neitt að ráði þar sem hitastigið er rétt yfir frostmarkið! Við sem fyrir viku kepptumst við að þrífa hér utanhúss jafnvel alveg út að þjóðveg til þess að hafa sem þokkalegast hér um páskana.  Sú fyrirhöfn gaf ekkert af sér nema sára bakverki hjá okkur hjónum.

Þegar minn elskulegi snaraðist inn úr dyrunum seint í gærkvöldi varð honum á orði:  Hvaða hvíta stöff er þetta sem þú ert búin að þekja alla lóðina með?  Ég sat bara með kökkinn í hálsinum því ég hafði búist við einhverju á þessa leið:  Nei, elskan ertu búin að páskaskreyta, og baka líka!!!!

Þrátt fyrir að hér væri ekki mjög páskalegt úti ákvað ég þó að setja dálítinn páskasvip á heimilið.  Keypti nýjar eldhúsgardínur, voða páskalegar. 

Athugasemd frá mínum elskulega:  Heyrðu það eru spælegg í gardínunum. 

 Ég frussaði út úr mér: Nei, þetta eru svona gulir hringir, minnir ekkert á spælegg! (er enn að pæla í hvort hann hafi rétt fyrir sér, góni á þær í hver sinn sem ég kem inn í eldhús)

Minnir mig á þegar ég keypti nýjar gardínur eina páskana fyrir gluggann í holið í Traðarlandinu og pabbi kom í heimsókn og varð starsýnt á gardínurnar sem ég var rosalega hrifin af og sagði á milli hlátursroka:

 Nei bara Séra Ólafur Skúlason kominn fyrir glugga á heimilinu!!!  Gardínurnar minntu hann víst á möttul Ólafs. 

En sem sagt hér er kominn pínu ponsi páskafílingur innanhúss og nú bara þarf ég að leggjast á bæn um gott veður.  Held samt að himnafaðirinn fari nú ekki að ómaka sig yfir svo lítilsverðri bón svo ég ætla bara að fara núna og skvera mig í betri fötin og koma mér á tónleika.  Það hjálpar alltaf sálartetrinu. Duh 

 

 

 


Það blæs ekki byrlega fyrir ferðamenn um páskana.

Þeir Íslendingar sem ætla að leggja land undir fót nú um páskana og heimsækja Evrópulöndin verða aldeilis að taka á honum stóra sínum. Það er ekki einungis blessuð krónan ykkar sem hefur lækkað heldur  líka hitastigið. Hér gengur á með hryðjum og blæs kröftuglega og hitinn um 3 gráður.  Skítakuldi.

Við máttum jú svo sem búast við páskahreti hér og marsmánuður getur oft verið ansi dyntóttur og spáin er ekki góð fyrir næstu daga svo þið sem leggið land undir fót verið viðbúin skítakulda.

Ekki beint góðar fréttir.  Money 2 

 

 


mbl.is Gríðarlegt flökt á krónunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband