Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
7.10.2009 | 11:32
Hvað var konan eiginlega að hugsa?
Vóóó! Þegar konan leit í spegil í morgun rétt skriðin framúr fékk hún vægt áfall. Hver var þessi kona í speglinum? Hún minnti ekkert á konuna sem birtist í speglinum í gær.
Þessi kona minnti frekar á Gög, þið sem eruð komin um og yfir miðjan aldur munið eftir Gög öðru nafni Stan Laurel sem lék á móti Oliver Hardy eða Gökke. Stan var sá sem alltaf var með hrikalegan hárbrúsk sem stóð út í allar áttir. Eða var þetta Karíus bróðir Baktusar sem góndi þarna á konuna í speglinum eða bara múmínálfur.. konan var bara alls ekki viss. Þetta var alla vega einhver furðufugl, alls ekki konan sem fór að sofa í gærkvöldi í rúminu sínu við hlið síns elskulega.
Nei, nei,nei ekki að ræða það!
Þessi furðuvera starði á konuna galopnum augum, ja alla vega eins opnum og hægt var svona nývöknuð. Hún bara góndi og góndi, hallaði sér að speglinum og síðan aftur á bak trekk í trekk. Hendi var lift að hárbrúski sem stóð út í allar áttir eins og hann hefði orðið fyrir raflosti, og konan ýfði aðeins upp í því sem eftir var þarna ofan á hvirflinum.
Það var ekki um að villast þetta var konan..... konan sem alltaf hafði svo þykkan og flottan makka. Andsk..... hvað gerðist eiginlega?
Allt í einu, klikk og það kom ljós, konan fór í klippingu í gær og hafði gefið hárgreiðslumanni sínum grænt ljós og algjörlega frjálsar hendur og hann hafði látið vaða á lufsurnar. Konan hafði verið alsæl þegar hún hélt heimleiðis með nýju hárgreiðsluna og eitthvað hárkrem í poka sem á að gera gæfumuninn.
OK kona var bara ekki eins flott eftir nætursvefninn og tók hana nokkrar mínútur að venjast þessari nýju konu með Stan- greiðsluna.
Konan er farin núna að prófa hárkremið og ætlar að sjá síðan til hvort hægt er að bjarga einhverju fyrir horn.
Hvað var konan eiginlega að hugsa?
Nær þessu ekki alveg!
6.10.2009 | 09:46
Það haustar hér í hundrað turna borginni.
Það er einhver uggur í mér. Eitthvað sem liggur í loftinu sem ég get ekki skilgreint.
Ég horfi hér á síðustu rósir sumarsins springa út í garðinum og smáfuglarnir mínir eru komnir aftur á veröndina og það segir mér að haustið sé alveg að skella á með sínu fallega litaskrúði og bráðum verði ég að fara að fæða þessa vini mína.
Veit ekki hvort það er aðgerðaleysið, letin eða árstíminn sem gerir það að verkum að ég er í þessum ham þessa dagana.
Satt best að segja er ekkert eitt sem er að pirra mig neitt sérstaklega frekar en hitt.
T.d. Mér gæti ekki staðið meir á sama hvort Íslenska eða Tékkneska ríkisstjórnin stendur eða fellur. Það eru sömu aularnir sem halda um veldissprotann í báðum þessum ,,heimalöndum" mínum og undirtillur þessara aula eru engu betri. Sama spillingarbælið í báðum þessum löndum. Sama silkihúfan ofan á hver annarri með gylltum skúfum og alles!
Og ekki get ég kvartað yfir veðrinu. Hér er haustið eins fallegt og hlýtt og það getur verið. Ekki þarf ég að skafa bílrúður eða moka snjó af stétt.
Það er ekkert sem ég get kvartað yfir og ég má bara skammast mín fyrir aumingjahugsanaganginn.
Svona kerling upp með húmorinn og farðu að gera eitthvað af viti.
En samt, það liggur eitthvað í loftinu, ég fer bara ekkert ofan af því.
Eigið góðan og friðsælan dag.
29.9.2009 | 13:33
Bara allt brjálað að gera og mér finnst það miður!
Undir eðlilegum kringumstæðum á maður að fyllast þakklæti fyrir hönd viðmælenda þegar okkur er tilkynnt að viðkomandi hafi yfir nóg að gera, sé eiginlega alveg að kafna úr vinnu og sjái varla út úr augum vegna þreytu og álagið sé alveg að fara með hann.
Maður á að biðjast velvirðingar á að vera að trufla og segjast bara bera upp erindið seinna ekki satt? Á þessum síðustu og verstu tímum er gott að einhver sé á kafi í vinnu, geti aldrei unað sér hvíldar hvort sem er á nóttu eða degi.
En það er ein stétt manna sem ég get ómögulega samglaðst eða fyllst þessari samhyggju og þakkað guði fyrir að þetta fólk hafi nóg að gera. Nú halda sumir að ég sé alveg að missa það því ætti manni ekki að líða vel að allir hafi næga vinnu og yfirfulla tímatöflu jafnvel marg yfirbókaða.
Mér datt þetta bara sí svona í hug hér rétt áðan þar sem ég var að tala við einn af mínum frábæru læknum hér í Prag. Símtalið byrjaði sem sagt þannig:
- Good afternoon Dr. Koupkova. This is I.J. speaking. How are you?
- Ohh hi madam. I´m fine but very busy, lot of work, lot of work!
Það er einmitt það hugsaði ég og varð hálf billt við. Og hvað segir maður þá við lækninn sinn?
- So sorry to hear that, call you later in more convenient time, því ekki getur maður sagt ,,Great, good you are keeping your self busy and people are still geting sick"
Eins mikið og ég vildi samgleðjast yfir vinnuálagi lækna þá bara get ég það ómögulega.
Þess vegna varð hálf vandræðaleg þögn í símann en ég lét síðan vaða með erindið og fékk skír og góð svör.
Þarf vonandi ekki að trufla hana næsta hálfa árið eða svo.
Svona getur lífið stundum verið öfugsnúið.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.9.2009 | 23:08
Á söguslóðum Romeo og Juliet
Ef eitthvað er Paris þá er það þetta umhverfi ekki satt?
Eins og þið hafið sjálfsagt tekið eftir þá erum við komin heim eftir 4000 km keyrslu á tveimur vikum og fjögurra landa sýn. Frábær ferð með tilheyrandi stoppum hingað og þangað jafnt á merkilegum sem ómerkilegum stöðum.
Held nú að heimsókn okkar á vinnustofu Erró í París standi ofar öllu. Meistarinn tók feikna vel á móti okkur þó mikið hefði gengið á á svæðinu rétt áður en við renndum í hlað þar sem hnullungs steinflís hafði hlunkast niður í gegn um glerglugga í loftinu og splundrast yfir vinnuborð og verkin hans en sem betur fer urðu engar skemmdir að ráði.
Við ætlum að reyna að mæta á sýninguna hans í Vínarborg í næsta mánuði.
Við heimsóttum líka annan landa okkar, Ármann Örn Ármannsson en hann býr í Provence með sinni yndislegu frönsku konu. Það er ekki auðvelt fyrir lofthrædda að sækja þau hjón heim þar sem þau búa hátt upp í fjöllum í litlum bæ, Essparron de Verdon. Ég hafði það samt af að hanga í bílnum upp brekkurnar og sá mest lítið af þessari fallegu sveit en mér var sagt að útsýnið hefði verið heillandi. Það hreyfir voða lítið við mér skal ég segja ykkur.
Ætlunin var að koma þarna aðeins við í hádeginu en við ílengdumst þar til daginn eftir þar sem gestrisni þeirra hjóna var ómæld. Natalie er líka alveg frábær kokkur og fengum við ekta franskan sveitamat sem sæmt hefði á hvaða höfðingjaborði sem væri.
Ármann, Þórir og Natalie þetta var bara Lunch!
Daginn eftir vorum við mætt í hádegismat hjá Breskum vinum okkar sem eiga hús þarna ekki langt frá og þar dvöldum við í tvo daga við leiki og spil.
Fyrir kvöldverðinn fengum við einkakonsert. Ármann Örn sem betur þekktur sem Ármann í Ármannsfelli situr við grand piano.
Við héldum síðan niður á frönsku rivieruna og spókuðum okkur á St. Tropez en misstum rétt aðeins af teboði heima hjá Bridget Bardot en kella býr þar með öllum hundunum sínum og nokkrum selum að mér skilst. Veit ekki hvort við rákumst á rétta húsið en við sáum alla vega stóra ruslatunnu fyrir framan eina af glæsivillunum merkta bak og fyrir með stórum B B. Næstum viss um að þar fyrir innan bjó frúin umvafin öllum sínum gæludýrum.
Því miður náðist þetta ekki á mynd en hér er ein frá St. Trobez
Við hjónakornin höfum verið að skoða okkur um á hinum ýmsu stöðum hér undanfarin ár og heimsótt marga fallega staði en engin hefur heillað okkur eins og St. Trobez þar gætum við alveg hugsað okkur að dvelja í ellinni. Alveg perfect place for us!
Eins var það þegar við komum til Monaco, furstafamilían var nýfarin á fasanaveiðar svo við rétt misstum af því að taka einn tangó í forsalnum í höll Grace Kelly. Ojæja skítt með það, bara næst.
Við gengum um listisnekkjuhöfnina í von um að rekast á 101 skútuna en hún hefur sjálfsagt verið á siglingu einhvers staðar við Kanarí eða Bahama, nú eða bara í slipp. Það verður víst að fara yfir þessi tæki öðru hvoru og fylgjast með að þetta drasl ryðgi ekki.
Ekki rákumst við á landa okkar þarna og er það mjög sjaldgæft að geta gengið þarna um rivieruna án þess að heyra móðurmálið.
Þórir fékk ekki tíma til að skella sér inn í Casinoið fræga í þetta sinn og taka eina Bertu eða hvað þetta heitir nú en ég lofaði að hann fengi að gera það næst. Annars var hann ekkert heppin síðast þegar við vorum þarna á ferð svo ekki eftir miklu að sækjast.
Next time my darling. Glæsilegt Casino ekki satt?
Verð að segja ykkur frá því að á leiðinni þarna um rivieruna gistum við á mjög merkilegu hóteli í bæ sem heitir Haut de Cagnes. Elsti hlutinn er frá þrettándu öld og hótelið sem við gistum á er upphaflega frá þeim tíma en endurbyggt á fimmtándu öld. Sagt er að fyrirmyndin af Romeo og Juliet sé fengin frá þessum kastala, sel það nú ekki dýrara en ég keypti það. En rómó var það með endalausum ranghölum og skúmaskotum. Mæli með þessu ef einhver er þarna á ferð.
Romeo, oh..Romeo hvar ertu Romeo...? Horft niður af svölum Júlíu og bak við svörtu hurðina var okkar herbergi í kastalanum. NB við sváfum eins og englar hvort sem það var vegna þreytu eða öðrum orsökum skal ekki greinast hér á þessum blöðum en þetta var mustiskur kastali segir maður ekki á íslensku dulúðlegur heheheh.......
Takið eftir hvað myndin er spuky. Allar hinar myndirnar eru í pörfekt fókus en þessi og allar myndir sem við tókum upp í kastalanaum eru svona skýjamyndaðar. OK nornin ég hef e.t.v. verið eitthvað að pirra drottnara kastalans. Úhhhh..ahhhhh.......
Við keyrðum síðan upp Ítalíu og dvöldum eina nótt við Lago de Garda og brendum síðan til Þýskalands þar sem við tókum þátt í uppskeruhátíð í Nürnberg. Sungum okkur hás með ítölskum farandsöngvara og fl. skemmtilegu fólki.
Home sweet home! Vá hvað það var gott að koma heim!
Nú verður lífið tekið með ró þar til við höldum í næstu reisu eftir þrjár vikur eða svo.
Eða hvað? Mér sýnist dagskráin vera ansi bókuð næstu daga.
Farin í rúmið að gæla við koddann.
Þið sem hafið nennt að lesa þetta takk fyrir það. Gott að eiga góða vini í fjarlægð.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.9.2009 | 21:42
Ég valdi ,,Bistro á besta stað" eða þannig.
Fyrir nokkrum dögum gekk ég út af hótelinu okkar í Paris og teigaði að mér angan af borginni og sagði: ,, Ohhh þetta er eins og vera í New York" Lyktin þennan morgun minnti mig á haust í NY svona sambland af kaffi, pönnukökum, ferskum ávöxtum og bensíni.
Nú veit ég ekki hvort einhver kannast við þetta en svona er minning mín frá The big Apple.
Í morgun kvöddum við eitt af mínum uppáhaldshóteli í Rhone Alps héraðinu og keyrðum niður til French Rivieira þar sem við eigum heimboð hjá tveimur vinum okkar. Annars vegar Bretum og hins vegar Íslendingum. Þar sem við erum aðeins fyrr á ferðinni ákváðum við að keyra aðeins inn í Provence og finna okkur svona ,, Bistro á besta stað".
Ég á kortinu og fann ,,rosa flott hótel" alveg í leiðinni. Hehehehe..... sko málið var að við vorum bæði orðin frekar pirró og þreytan farin að segja til sín í sex´tíu ára gömlum skrokkum svo það var bara parkerað og bókað sig inn á herligheden!!!!!!!!!!!!!!!
Ja so svinger vi heheheheh............ elskurnar mínar við erum á svona elliheimilishóteli here in the middle of Provance og klukkan á mínútunni fimm byrjaði liðið að dansa hér vangadans á barnum svo eitthvað sætt og krúsulegt svo v ið bara hrökkluðumst út í hláturskasti. Sko halló ég er gömul en ekki svona helvíti gömul. Horfði á liðið dansa vangadans og varla hreyfast úr sporunum, haldandi í rassinn á hvort öðru, svona eins og horfa á hæggenga ´bíómynd.
Ég reyndi eftir fremsta megni að láta sem ekkert væri en þetta var einum of mikið af því góða.
Ef minn elskulegi hefði getað drepið mig með augunum væri ég ekki hér til frásagnar!
Sem betur fer bara ein nótt hér á elliheimilinu sem ég valdi.
Næstu daga verðum við hjá vinum okkar hér í Provence og eftir það er sko ekki til umræðu að ég velji hótel á leiðinni heim.
En rosalega var gaman að sjá hvernig ,,fólk á okkar aldri" velur sér hótel en ég er ekki alveg að sjá það að okkar vinir létu segja sér það- að barinn væri lokaður klukkan tíu og gömlu dansarnir væru milli fimm og sjö. Síðan fá sér kvöldmat og svo í rúmið og beint á koddann ekkert svona knús eða dodo,,,,,,
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.9.2009 | 14:46
Það eru allar kýr hér með anorexíu.
það ganga um bakka Signu og njóta er eitthvað sem maður gerir ekki á hverjum degi. Dagarnir sem við dvöldum í Paris voru fljótir að líða. Við lékum við hvern okkar fingur og nutum þess í botn að slíta skósólunum í þessari fallegu borg menningar og lista.
Það sem stendur uppi er heimsókn okkar í vinnustofu Erró en þar tók hann á móti okkur síðasta daginn sem við dvöldum í borginni. Við gerðum stutt stans þar sem við vildum ekki trufla listamanninn en samt nóg til þess að við gátum rifjað upp gömul kynni. Hlökkum til að hitta hann í Vínarborg í október.
Núna sit ég hér á einu af okkar draumahóteli 85 km suður af Dijon í pínulitlu sveitaþorpi sem heitir Port Lesney svo lítið að það er ekki einu sinni merkt á korti. Þetta er lítið Cháteau með frábæru umhverfi og Gourme eldhúsi. Eitthvað sem við elskum að heimsækja.
Við fórum í göngu um bæinn um hádegi og fundum út að á þessum árstíma er þessi litli bær eins og dauðs manns gröf. Það sást ekki sála á götunum og hverfisbúðin var lokuð sem og eina Bistroið í hverfinu svo við keyrðum hér í næsta þorp sem er frægt fyrir góð vín frá vínökrunum sem teygja sig hér upp eftir hlíðunum.
Hvert sem auga er litið eru bændur að tína vínberjaklasana af vínviðnum og gaman að sjá fólk hér eins og fiðrildi hér upp um allar hlíðar. Við stálum okkur einum klasa og jammí hvað berin í ár smakkast vel.
Annað sem vakti athygli okkar hér á ferð okkar um sveitina i dag eru að hver einasta belja í sveitinni er með anorexíu á háu stigi. Hef aldrei á ævi minni séð jafn mjóslegnar kýr.
Aumingja blessuð dýrin.
Í kvöld verður borðað hér margrétta dinner og drukkið gott vín héðan úr héraði og notið sveitasælunnar.
Á morgun er ferðinni heitið til Aix Provenc eða alla vega eitthvað á suðurleið.
Læt heyra í mér aftur næst þegar ég kemst í samband.
9.9.2009 | 11:31
Picture it!
Hef aldrei verið mikið fyrir að slíta skónum mínum á malbikinu hvað þá í skógi Hans og Grétu. Var fræg þegar ég bjó á Íslandi lagði alltaf bílum mínum ólöglega vegna þess að mér fannst alveg óþarfi að ganga ef ég komst hjá því og var þ.a.l. daglegur gestur á lögreglustöðinni með sektarmiða í bunkum.
Verð nú samt að segja að eftir að ég fluttist af ,,mölinni" þá hefur viðhorf mitt til útivistar breyst til batnaðar og nú dansa ég hér skógargötuna með körfu undir handlegg eins og Rauðhetta og Erró í líki úlfsins fylgir mér hvert fótmál.
Hrikalega hallærislegt líkingamál en skítt með það.
Koma sér að efninu..............
Þessi klukkutíma daglega ganga á að gera kraftaverk eða svo er mér sagt og ég er næstum orðin húkt á þessari vitleysu. Minn elskulegi byrjaði á því að fara með mig í þessar göngur og var svona eins og ,,gulrót" á undan mér í byrjun enda gengur hann hraðar og tekur helmingi stærri skref en hún litla ég.
,,Picture it!" Hann svona 10 metra á undan mér valhoppandi frá hægri yfir á vinstri helming götunnar til að vinna tíma. Ég blásandi og másandi (sko bara með eitt og hálft lunga aularnir ykkar) á eftir, riðandi og með skjálfta í lærum, hælsæri, steina í skónum, augun næstum út úr tóftunum af áreynslu og með svona geðveikislegan svip á andlitinu vegna þess að ég ætla sko ekki að láta í minni pokann. Tíu metrum fyrir aftan mig dólar hundurinn eins og til þess að reka á eftir mér sem ég væri fé af fjalli.
Djöfull sem þetta fór í mig en ég lét mig hafa það hef alla tíð verið auðmjúk og eftirgefanleg í sambúð eða þannig.
Það er heldur ekki mikið um samræður á þessum göngum. Skiljanlega þar sem svo langt er á milli okkar að við gætum hvort eð er ekki heyrt til hvors annars.
Um daginn þegar við vorum á einni slíkri göngu og vorum komin rétt út á þjóðveginn heyrum við hvar bíll kemur keyrandi og við færum okkur út í vegkantinn. Í humátt á eftir bílnum kemur farartæki sem leit út í fjarlægð eins og móturhjól og ég sá andlitið á mínum elskulega breytast og það komu glampar í augun og hann næstum slefaði af ágirnd. Ég sá ekkert nema þetta væri mótorhjól en minn með sína kattarsjón sá betur og þegar farartækið nálgaðist vissi ég hverskins var. Þarna kom draumafarartæki míns elskulega. Svona mótorhjól með hliðarvagni. Hann hefur dreymt um svona tæki síðan við komum hingað. Ástæðan? Augljós...............
Þarna gæti hann þeyst um allar trissur með mig lokaði inn í hliðarvagninum og ekki séns að við gætum haldið uppi samræðum og hann myndi losna við allt mimm í mér. Hann alsæll í sínum heimi með kerlinguna í farteskinu í orðsins fyllstu.
Ég leit á hann glottandi og sagði: ,,Dream on my darling!"
Skil hann samt vel, ég get verið alveg hrikalegt ,,pain in the ass" enda farin að fara sjálf í mína daglegu göngur alla vega svona af og til en búin að bæta mig stórlega á tíma.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Það var hálf haustlegt hér í gær og blés kröftuglega þar sem við stóðum í einum af glæsilegasta hallargarði hundrað turna borgarinnar.
Gestir stóðu í litlum hópum hér og þar um garðinn og spjölluðu.
Svo birtist hún eins og engill, hvítklædd með hvítan blómvönd. Andlitið geislaði af hamingju og hún næstum sveif niður tröppurnar í fylgd föður síns. Ég þekki hana næstum ekki neitt en samt táraðist ég. Hvað er þetta með það að grenja alltaf við brúðkaup?
Við vorum viðstödd borgaralegt brúðkaup í gær þar sem gefin voru saman Íslendingurinn Leifur Alexander og fallega tékkneska Marketa eða Marky eins og hún er kölluð.
Falleg látlaus athöfn sem fór fram á þremur tungumálum, tékknesku, íslensku og ensku svo það færi ekki fram hjá neinum hvað um var að ræða þarna.
Það getur verið algjör þolraun að lenda í tékkneskum brúðkaupum þar sem haldið er í ævafornar hefðir. Sem betur fer var farið milliveginn í gær svo þetta varð ágætis blanda af ísl./tékk. brúðkaupi.
Venja er að fjölskylda brúðarinnar kemur saman heima hjá foreldrum hennar eldsnemma um morguninn og hjálpast við að klæða hana og skreyta bíla gestanna á milli þess sem sópað er í sig skinku, súrum gúrkum, sveppum og stundum köldum snitzel og rennt niður með bjór og Becerovka sem er snaps.
Athöfnin fer síðan venjulega fram um hádegi hvort sem það er borgaralegt eða kirkjubrúðkaup. Við vorum einu sinni boðin þar sem hjónin voru gefin saman hér í ráðhúsinu og sú athöfn minnti mig helst á hersýningu á tímum Stalins.
Eftir athöfnina fara veislugestir í halarófu á skreyttum bílum þangað sem veisla er haldin. Allir þenja bílflauturnar eins og frekast er kostur. Það er ein hefðin og ef þú lesandi góður ert einhvern tíma staddur í hundrað turna borginni á föstudegi um hádegisbil láttu þá ekki koma þér á óvart óþolandi bílflautuvæl sem ómar hér um öngstræti borgarinnar. Þetta gengur yfir sem betur fer.
Það fyrsta sem gerist þegar komið er að veislusalnum er það að brúðurin brýtur disk fyrir framan brúðgumann og saman tína þau upp brotin og sópa vel og vandlega ekkert brot má verða eftir því það stýrir ólukku. Þannig að þarna skríða brúðhjónin um allt gólf tínandi upp glerbrot og sópandi flísar. Þegar þau standa upp er brúðarkjóllinn orðinn ansi sjabbí og brúðguminn með hné í buxunum.
Það er mikið nastravíað (skálað) í svona veislum og venja að byrjað sé á kampavíni og léttum málsverði sem samanstendur af kjúklingalifrasúpu, nautakjöti (Pot roast) með knellik (soðkökum) og þungri sósu. Brúðarterta og kaffi. Þessu er skolað niður með góðu magni af víni, öllum sortum.
Ræður eru ekki margar (sem betur fer) Brúðhjónin fá fyrst allra súpuna og þjónninn kemur með stóran dúk og bindur hann utan um nýgiftu hjónin svo þau eru nú komin með einn ,,smekk" og mata hvort annað á súpunni. Eitthvað hefur það líka með það að gera að það má ekki sulla einum dropa niður þá er víst voðinn vís. Eftir þessa þolraun taka allir til matar síns.
Eftir kökuátið tekur maður eftir því að brúðurin er horfin. Þá er sem sagt búið að stela brúðinni og koma henni fyrir einhvers staðar á nærliggjandi pöbb þar sem hún djammar með vinkonum sínum. Brúðguminn fer síðan með sínum vinum að leita hennar og finnur alltaf á endanum og þar setjast þau að sumbli. Á meðan þessu fer fram sitja veislugestir áfram og blaðra við vini og vandamenn. Þeir sem ekki þekkja neinn eins og komið hefur fyrir okkur hjónin þá lætur maður sér leiðast út í horni. Þetta getur tekið allt upp í þrjár klukkustundir. Þetta er eins og það sé verið að hegna manni fyrir að mæta í viðkomandi gilli.
Loksins þegar þau nýgiftu láta sjá sig aftur eru þau orðin vel kippó og kát. Þá er tekið við að borða aftur! Nú er svíni sem búið var að slátra fyrr um morguninn og hefur snúist á teini allan daginn, sporðrennt með tilheyrandi súrmeti og dóteríi.
Þegar þarna er komið er maður orðinn svo stútfullur af mat að ekki er möguleiki að koma sér út á dansgólfið þar sem nú hefur verið skverað upp balli í tilefni dagsins.
Þá er aðeins ein hefð eftir og það er það að brúðurin sér færi á því að nú geti hún halað inn smá pening í sínu eigin brúðkaupi svo hún skellir sér úr skónum og haltrar á milli gesta sem sitja afvelta eftir allan matinn eða ofurölvi og nú rekur hún skóinn með táfýlunni næstum upp í nef gestanna og biður þá góðfúslega um ölmusu. Allir rétta eitthvað fram, það bara tilheyrir. Eftir þessa uppákomu geta gestir loks haskað sér heim á leið en um leið og þú lætur þig hverfa er þér rétt karfa full af smákökum og vín í flösku svo maður hafi nú eitthvað að maula á heimleiðinni.
Brúðkaupið í gær var sem betur fer ekki svona hefðbundið. Það voru brotnir diskar og þau mötuðu hvort annað af súpunni og allir síðan átu á sig gat en aðrar tékkneskar uppákomur voru látnar eiga sig.
Það datt aðeins andlitið af Tékkunum þegar Íslendingarnir fóru að slá í glös og hjónin stigu upp á stólana til að kyssast en þeir lærðu fljótlega þennan ,,sið" okkar (sem ég hef ekki hugmynd hvaðan kemur) og fannst bara gaman að þessu.
Þá vitið þið hvað við vorum að bardúsa í gærdag og langt fram eftir kvöldi.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.9.2009 | 11:10
Svona er lífið.
Ég er sjálfsagt alls ekki ein um það að finnast tíminn líða eins og örskot fyrir sólu. Allt það sem ég ætlaði að framkvæma í gær liggur bara á hakanum og bíður betri tíma.
Hér eyddi ég megninu af deginum í gær og lét mig dreyma, las í bók og hugsaði.
Nei svo sem ekki amalegt skot.
Á föstudagskvöld fengum við góða gesti og héldum lítið kveðjusamsæti fyrir norska vini okkar, svona knus og kram party með tilheyrandi tárum og snýtuklútum.
Ég bjó til borðskreytingu með haustívafi, ekki svo galið hjá minni.
Ávextir eru notaðir í allt á þessu heimili þessa dagana, líka til skrauts
Hér sjáið þið ef vel er skoðað kryddjurtirnar mínar sem eru ómissandi líka þessa dagana.
Neip sjást ekkert vel. Jæja skítt með það.
Þessi stóð fyrir því að fæða liðið með stórsteikum og öðru gómsætu gumsi.
Hann hefur aldrei neitt fyrir þessu minn elskulegi, galdrar jafnvel blindandi alltaf eitthvað fínerí.
Já svona var nú umhorfs hjá okkur hér á veröndinni í góðum félagskap á síðsumarskvöldi.
Séð yfir hálfa veröndina að Stjörnusteini
Takið eftir Erró sem liggur þarna fram á lappir sér og bíður eftir því að kampavínið flæði. Orðinn hrikalega þreyttur á því að bíða.
Datt bara svona í hug að setja þetta inn til minningar.
Farin út í skotið mitt með bókina mína.
28.8.2009 | 10:48
Nú er kominn tími til að uppskera hér að Stjörnusteini.
Þegar við fluttum í fyrsta húsið okkar hér í Prag fyrir mörgum árum fylgdi með þokkalegur garður. Ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég var himinlifandi, ekki aðeins af því að komast úr kakkalakkaíbúð í mannsæmandi húsnæði heldur líka að fá garð og með þetta líka flottum ávaxtatrjám. Epli, perur, plómur, kirsuber og radísur, vaxa þær ekki líka á tránum? Bara nefndu það!
Og konan var himinlifandi en dvaldi ekki lengi í Paradís því þegar haustaði kom að því að sulta, safta, búa til grauta og hvað þetta nú allt heitir og hún ég hafði aldrei farið í húsmæðraskóla ( ég taldi nefnilega alla visku koma frá Húsmæðraskólum bara af því ég hafði farið frekar á Lýðháskóla og nennti ekki að læra að elda norsk mad) aðeins verið í matreiðslu í Réttó og alltaf staðið álengdar þegar mamma bjó til sultur og saft því það var ekki ætlast til að maður tæki til hendi í því eldhúsi.
Hér með er því komið á framfæri að ég hef aldrei verið mikil búkona. Alla vega ekki svona sultu,grautar eða sveppagerðarmanneskja. Voða gott að láta bara aðra sem nenna að vesenast í þessu gera það fyrir mig.
Ég man hvað ég glápti á trén, andskoti var mikið á þeim, ætlaði þetta aldrei að taka enda svo ákvað ég að láta náttúruna sjá um sig og hætt að glápa á trén.
Ég hefði betur hundskast út og tínt eitthvað af þessari hollu fæðu og gefið bara öskuköllunum (þeir fengu allt sem ég vildi ekki nota lengur eða gat verið án í þá daga) því þegar leið á haustið var garðurinn eitt drullusvað þar sem epli, perur og annar úrgangur safnaðist fyrir neðan trén og safnaði í sig allslags bakteríum og óþverra. Get svarið fyrir það garðurinn leit út eins og í hryllingsmynd og það var ekki farandi niðrí hann nema á klofstígvélum.
Ekki man ég hvernig þetta endaði en örugglega með ósköpum og ég fengið einhvern velviljaðan sem vantaði pening til að þrífa þetta gums.
Þegar við fluttum hingað að Litla Íslandi þá var ég svo himinlifandi yfir því að það voru engin ávaxtatré eða svo hélt ég. Komst að því fyrsta vorið að hér er himinhátt kirsuberjatré en sem betur fer svo hátt að þangað kemst aðeins fuglinn fljúgandi eftir berjunum og veisla hjá þeim allan júlímánuð. Síðan voru þrír kræklóttir aumingjar hér við lóðarmörkin langt frá húsinu okkar. Ég skipti mér ekkert af þeim en eftir því sem við fórum að þrífa í kring um þessar hríslur byrjuðu þær að dafna og viti menn voru þá þetta ekki plómutré sem Tékkar kalla svetské eða sveskjutré.
Í dag eru þetta hin gerðalegustu tré og í ár eru miljónir sveskja sem dingla þarna engum til ánægju og mér til ama vegna þess að ég veit að ég verð að hunskast til að tína þetta.
Ef vel er að gáð þá er þetta blágráa afurðin, obboslega eitthvað krúsulegt.
Er einhver til í að koma og hjálpa mér? Ég borga vel í PLÓMUM nú eða SVESKJUM ef það verður komið fram á haustið.
Hugmynd býð gestunum mínum bara að tína hér í kvöld fyrir matinn við undirleik og söng frá Tom Jones hann hefur alltaf svo hressandi áhrif á mig.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)