Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Að vera valin ein af þessum 5% heppnu er ómetanlegt!

Ég var búin að segja ykkur að það yrði ekki alveg svona auðvelt að losna við mig aularnir ykkar!

Í gær hitti ég Dr. Kopkova yndislega lækninn minn og eftir nokkra bið og venjulega rannsókn sagði hún okkur þær gleðifréttir að allt liti vel út og ég væri ,,hrein".  Ég fer í CT eftir tvær vikur og eitthvað annað sull sem verður sprautað í mig sem ég kann ekki að nefna en það er bara til að taka af allan vafa.

Stórum áfanga er náð!

Það er búið að taka mig aðeins tíma að átta mig á þessum góðu fréttum.  Loftið er smám saman að fara úr blöðrunni og ég fer að geta andað léttar með þessu hálfa lunga.  Ég get núna fyrst grátið af þakklæti yfir að vera valin ein af þessum 5 % heppnu. 

Og áður en ég fer að háskæla þá vil ég þakka ykkur öllum sem stutt hafa mig alla þessa mánuði með orðum og í verki. Minn elskulegi sem stóð eins og klettur við hlið mér og rak mig áfram bæði með harðri og mjúkri hendi fær alveg spes knús.  Börnin mín og tengdabörn sem stóðu sig eins og hetjur þakka ég líka fyrir að vera til.  Án þeirra hefði baráttan verið erfiðari.

 Stórt faðmlag inn í góðan og bjartan dag.

  Guð blessi ykkur öll.  

 


Skáldin okkar góðu þeir Þórbergur, Gunnar og Halldór.

Allt annað líf enda búin að vera með Skáldalífið hans Halldórs Guðmundssonar í eyrunum síðustu tvo dagana á meðan ég dingla hér út við grindverkið. 

Þökk sé Walkman og framförum alheimsins. 

Það er ekki laust við að mig langi til að taka bækurnar þeirra kumpána, Þórbergs og Gunnars Gunnarssonar til yfirlestrar enn einu sinni.  Viss um að ég mundi leggja allt annan skilning í þær núna en fyrir 30 árum eða svo.

Hallgerður Péturs bloggvinkona mín benti mér á bloggið hans Illuga Jökulssonar hér fyrir tveimur dögum að ég held, þar sem Illugi fer á kostum með að skilgreina Bjart í Sumarhúsum.  Ekki vil ég nú segja að ég hafi verið allskostar sammála Illuga en greinin, sem er snilldarvel skrifuð, kom mér til að hugsa um hvort ekki væri tími til kominn að taka Sjálfstætt Fólk ofan úr hillu einu sinni enn. Ef til vill finn ég nýjan Bjart eftir lesturinn.

En allt um það í dag er merkisdagur því hún Soffa okkar og hennar Steini eiga sex ára brúðkaupsafmæli.  Að hugsa sér að það séu sex ár síðan Séra Ragnheiður pússaði þau saman hér í garðinum okkar.

Innilega til hamingju með daginn krakkar mínir.  

  

 


Þetta er hættulegt, þetta er stórhættulegt!

Undanfarna daga hef ég hangið hér á grindverkinu og málað hvítt. Nú hugsar sjálfsagt einhver: Ekki eru nú afköstin mikil hjá kerlingunni, bara enn að mála.  Sko þið þarna, þetta grindverk er hátt á annan kílómeter að lengd svo þið skuluð ekkert vera að hæðast að mér. 

En hvað er svona hættulegt.  Jú það skal ég segja ykkur.  Að hanga svona dag eftir dag aleinn út við grindverk, mála einslitt og það hvítt, ekki kjaftur í mílu fjarlægð með brennheita sólina í bak og fyrir það getur gert hvern mann hálf vitlausan.

Sem sagt stórhættulegt fyrir sálartetrið.  Jú ég á Ipod en hann er í láni, Nei ég á ekki ferðaútvarp eða CD ferðaspilara ef svo væri þá væri ég ekki að væla þetta asnarnir ykkar.

Fyrstu dagarnir voru OK ég hlustaði á fuglana tala við mig og söng á móti, voða svona sætt.  Svo fór mér að leiðast að tala við málleysingja og hundinn svo ég fór að hugsa og hugsa og hugsa sem endaði með því að ég var farin að tala við sjálfa mig, UPPHÁTT!  Shit sem sagt stórhættulegt ástand!

Svo var það andskotans gula fíflið svo hrikalega heit gæti auðveldlega fengið sólsting ofan í geðveikina.  Treð húfunni fastar ofan á hausinn alveg ofan í augu.  Tek ekki sénsinn á neinu.

Farin út að hanga á grindverkinu, mála hvítt og hugsa.

 


Vélin fær að halda heiðurssætinu aðeins lengur.

Ég skokkaði ,,léttfætt" niður stigann í morgun.  Viku djúsdögum var lokið og nú gat ég farið og gúffað í mig öllu því sem mér finnst gott á morgnanna.  Hafrakex með miklu smjöri og marmelaði, ómælt kaffi og bara að nefna það!

Þegar niður kom barst mér í vit sama lyktin og ég hef fundið á hverjum morgni alla vikuna.  Lykt af nýpressuðum ávöxtum með engifer og annarri hollustu. Minn elskulegi hafði auðsjáanlega haldið áfram í djúsnum. 

Þarna stóð hún á sama staðnum og hún hefur verið alla vikuna.  Í nokkurs konar heiðurssæti í eldhúsinu. Við hlið hennar var shakevélin, viktin og kannan.  Allt eins og það er búið að vera í heila viku. 

 Um hvað er ég að tala? Nú auðvitað djúsvélina sem ég var búin að hlakka svo til að koma aftur út í horn hinum megin í eldhúsið.  ´Langt, langt úr sjónmáli!  Bara pakka græjunni og nota aðeins spari.  Þetta var orðið ágætt og ég svindlaði ekki nema síðasta daginn enda búin að fá upp í kok af allri þessari hollustu.

Neip, minn elskulegi nú er nóg komið hugsaði ég og sótti mitt hafrakex í skúffuna, sem enn var í þokkalegu standi, ekkert farið að mygla að ráði, smjörinu og marmelaðinu var skellt á borðið og ég smurði kexið á meðan munnvatnið lak út um munnvikin.  

Með kaffið í krúsinni og kexið í hendi settist ég og nú skildi kjamsað á óhollustunni.  KJammmssss..... viti menn þetta var ekki eins gott og mig minnti.  ´Stóð upp náði í djúskönnuna úr ísskápnum og skellti í mig einum góðum.

Djúsvélin fær að standa í heiðurssætinu aðeins lengur.

Verð sjálfsagt að drekka mig niður næstu daga.

Farin út að mála grindverkið hvítt.  

Það er heitt, það er hrikalega heitt úti.  Finna mér sólhlíf.  

 


Ekki eftirsóknarvert

Var að koma heim úr einu af þessum puttamatarboðum.

Þið vitið hvernig þetta er, heilsa kurteisilega og kynna sig:

,,Gott kvöld.  Ég heiti so & so og er frá Íslandi".

Skil ekki alveg hvers vegna ég segi alltaf öllum hvaðan ég kem.  Einhver lenska hjá mér í öll þessi ár. Held bara að mér hafi þótt það flott að vera frá þessari litlu eyju á norðurhjara veraldarinnar. Alla vega þótti það athyglisvert að vera frá Íslandi.  Landinu þar sem allt var að gerast.

   Í dag veldur það mér bara veseni að tilkynna hvaðan ég kem. Sorgleg staðreynd.

,,Vá ertu frá Íslandi?  Hvernig er ástandið þar núna?  Hvernig stóð á því að þið fóruð á hausinn?  Hverjir eru ábyrgir fyrir því að þið eruð gjaldþrota þjóð?  Hvað með skuldirnar, ætlið þið að borga?  Haldið þið að þið komist inn í EU?  Er forsætisráðherrann ykkar lessa?

Haldið að þetta sé ekki skemmtilegt?    Nei elskurnar í dag er ekki eftirsóknarvert að vera frá fallegu eyjunni okkar í norðri.

Annars erum við bara í góðum málum hér að Stjörnusteini og mætum í næsta puttamatarboð á morgunn klukkan sex, promt. 


Endalausar biðraðir hvar sem maður kemur.

Þessi færsla er sett saman hér í eldhúskróknum mínum að Stjörnusteini.  Við erum sem sagt komin heim eftir fjögra vikna ferð til heimalandsins.

Í gær eftir að hafa snætt hádegismat með Ástu vinkonu á Jómfrúnni náði ég að sjá hvernig hinsegin dagur fer fram á Íslandi.  Athyglivert!  Flott skrautsýning!

Á leið minni heim til móður minnar gekk ég upp Laugaveginn og rakst á Jóhönnu bloggvinkonu mína í mátunarklefa hjá Sævari Karli.  Það var óvænt ánægja.  Einnig tókst mér að smella kossi á Berg Thorberg bloggvin þar sem hann sat og málaði með kaffinu sínu í einni skartgripabúðinni en hann hafði ég heldur aldrei hitt áður. 

Það tók mig ansi langan tíma að komast upp allan Laugaveginn þar sem ég næstum stoppaði við hvert horn til að heilsa vinum og vandamönnum enda dagurinn til þess að sporta sig aðeins.

Íslenskur humar er hnossæti og okkur litlu fjölskyldunni tókst að torga fleiri kílóum af humri í gærkvöldi en það var svona smá kveðjusamsæti heima hjá Soffu okkar og Steina fyrir okkur og svo komu mamma og tengdapabbi auðvitað líka.

Við vorum komin snemma upp í íbúð enda mæting klukkan sex í morgun í flug til Köben. Ég veit ekki hvað ég er alltaf að taka þessi morgunflug trekk í trekk. Bara til þess að gera mann hálf geðillan! Lærir aldrei af reynslunni, get svo svarið fyrir það!

Maður ætlar sér að ná einhverjum svefni en tekst það aldrei nokkurn tíma.  Er eins og milli svefns og vöku alla nóttina af því maður treystir ekki á að vekjaraklukkan standi sig, sko hún gæti klikkað einmitt þá.  

Í morgun fór ég undir sturtuna hálf sofandi og auðvitað var hún annað hvort of heit eða of köld.  Þar sem ég stóð þarna með lokuð augun og reyndi að stilla hitastigið var það auðvitað ekki hægt, hver geturðu stillt hitastig með lokuð augun, þið vitið, sturtan var með svona 30° - 60°dæmi. Ég ákvað að láta þennan kattarþvott nægja og hálf skaðbrunnin krönglaðist ég upp úr baðkarinu og auðvitað varð mér fótaskortur og rann til í bleytunni en slasaði mig ekki vitund en þetta var til þess að ég glaðvaknaði og byrjaði daginn á því að bölva og ragna. Ekki beint skemmtilegt. 

Út í bíl, töskunum skellt afturí og beðið fallega um að ekkert hafi nú gleymst í íbúðinni.  Passinn, útskriftin á farmiðanum, gleraugun og snyrtibuddan sé nú örugglega í handfarangrinum. Við hefðum verið í djúpum skít ef við hefðum gleymt einhverju af þessu í íbúðinni því lykillinn var kominn í póstkassann og eigendur einhvers staðar að ríða hrossum upp í óbyggðum, en allt var á sínum stað, hjúkket! 

Bruna í Garðabæinn til að ná í Steina tengdason og síðan var lullað til Keflavíkur, ég segi lulla þegar keyrt er á 90 km pr. klst.  Verst að geta ekki sofið en ég kann ekki að sofa í bíl, þarf alltaf að vera á vaktinni, sko það gæti eitthvað gerst sem ég hefði betur vit á en bílstjórinn.

Komum til Keflavíkur tveimur tímum fyrir brottför.  Eins gott, það var varla að maður kæmist inn í afgreiðslusalinn svo mikil var örtröðin.  Vitið þið hvernig manni líður eftir að hafa staðið í endalausum biðröðum í heilan mánuð upp á hvern einasta dag?  Nei ekki það, ég skal sko segja ykkur að maður fær velgju fyrir brjóstið og svona snert af innilokunarkennd.  Síðan fyllast vitin af alls konar líkamslykt sem gerir það að verkum að það er örstutt í það að maður lognist útaf á staðnum.

Þannig leið mér í morgun og við máttum bíða í klukkutíma innan um túhestana áður en við fengum bording passann. Svo þegar þú flýgur í Monkey þá er ekkert sem bjargar þér úr þessari prísund.  Næst spandera ég á okkur deLux.

 Síðan tekur önnur biðröð við þegar þú ferð í gegn um eftirlitið og ég átti líka eftir að fara í Tax free en hefði sleppt því ef ekki hefði verið um töluverða upphæð að ræða.  Búin að vera óhemju dugleg að styðja við bakið á landanum sl. mánuð. Bara verslað eins og ....... þar beið ég í tuttugu mínútur!

Þá voru tíu mínútur í brottför og ég ekki enn búin að fá kaffið mitt.  Engin bók keypt og ekkert af ´öllu því sem ég kaupi reglulega þegar ég fer þarna í gegn, allt þessum bölvuðu biðröðum að kenna.  Ég dæsti framan í minn elskulega og sagði: ,, Veistu ég þoli ekki fleiri biðraðir, ef ég sé eina í viðbót þá klikkast ég"  Auðvitað var svo önnur við hliðið og síðan bara endalausar raðir í allan dag!  

Ég er svo fegin að vera komin heim og ég fer ekki einu sinni út í búð á morgun því þar get ég lent í því að verða að standa í biðröð við kassann og það hef ég alls ekki ætlað mér að gera.

Engar biðraðir í bráð. Please!!!!!!!!!!!!!!!

 

 

  

 


Vissuð þið að það er ekkert níu bíó lengur?

Helgin fór rólega fram hjá okkur hjónum og nutum við þess að vera hér í fámenninu í höfuðborginni, gengum um meðal ferðamanna og einstaka samlanda í sumri og sól.

Það var rölt um miðbæinn, einn daginn var kaffi drukkið á svölunum hjá Eymundsson við Austurvöll hinn daginn kaffi í gamla Hljómskálanum og gengið um garðinn.  Minn elskulegi fór með mig í sund í Árbæjarlaugina og á eftir röltum við um Árbæjarsafnið en þangað höfðum við ekki komið í mörg ár.

Ég fór með móður mína í Grasagarðinn, takið eftir nú er ég ,,farin að fara með fólk" hingað og þangað en fólk hætt að ,,fara með mig", batnandi konu er best að lifa eða þannig.

Í dag tók ég sjálfa mig og gekk niður Laugaveginn en komst ekki lengra en niður hann hálfan, ekki það að ég hefði ekkert úthald heldur var svo gaman á búðarröltinu, bara alltaf jólin hjá okkur þessa daga. Nú á ég eftir skemmtilegri hlutann sko þennan með öllum flottu búðunum sem eru með vörur eftir Íslenska hönnuði.  Það verður skannað á morgun svona á milli þess sem ég verð í heimsóknum.

En þetta var nú ekki það sem ég ætlaði að skrifa um í kvöld.

Vissuð þið að það er ekki hægt að fara í níu bíó lengur?, Neip, get svo svarið það bara átta og tíu bíó. 

 Nú ok vissuð þið þetta.

Ekki ég, varð bara hálf fúl þar sem við ætluðum að skella okkur í bíó, vegna þess að það er svo grautfúlt sjónvarpið á þessu landi, og okkur langaði að eiga bara svona eitt kvöld útaf fyrir okkur, haldast í hendur, maula popp og bara verða sextán aftur, en svo bara var ekkert níu bíó lengur.

Djö... frekar spælandi, fórum þá bara upp yfir snjólínu og horfðum á Bláfjallahringinn út um gluggann.  Stóðum og héldumst í hendur þar til við vorum komin með sinadrátt og alles, sko föttuðum ekki að auðvitað hefðum við átt að setjast í stóla, fólk á okkar aldri, en fattarinn er stunum ekki alveg að meika það hjá okkur.

Aldurinn skiljið þið.

Minn elskulegi kominn til kojs og ég alveg að fara að skríða uppí enda langur dagur á morgun.

Ég skal sko segja ykkur það að það tekur á að heimsækja landið okkar.

Eintóm gleði en líka smá púl og stundum jafnvel pínu þrældómur.

Er ekki annars allt í góðu? Eins og ein servitrísan spurði okkur um daginn á einu fínu veitingahúsi hér í borg.  

Ha jú jú allt í góðu.  Hef ekki enn hugmynd um hvað hún átti við, en það er ekki að marka mig svo hrikalega langur fattarinn þessa dagana. 

 

 

 

 


Það verður ekki farið yfir Elliðaárnar oftar í þessari reisu!

Það var fallegt að horfa til Eyja í fyrradag þegar við keyrðum austur fyrir fjall.  Við vorum svona í fyrra fallinu eins og Hallgerður myndi orða það og ekki laust við að okkur langaði að skella okkur yfir með Herjólfi en létum skynsemina ráða og héldum okkur á meginlandinu.

Við gerðum víðreisn á fimmtudag. Heimsóttum vinkonu okkar sem býr ekki langt frá Skálholti og fengum þar frábærar súpur í hádeginu, já segi súpur því hún bauð upp á tvennskonar súpur.

Sumar á Íslandi 2009 001   Gerist ekki betra á Íslandi.

Þá keyrðum við að sumarhúsi vina okkar ekki all langt frá og lentum þar á skemmtilegu ,,félagsmóti"  algjörlega óvart.  Hrikalega skemmtileg uppákoma.

Sumar á Íslandi 2009 014 Þeir eru flottir kofarnir á Íslandi!

Sumar á Íslandi 2009 016  Þrjár í stuði.

Um sexleitið renndum við í hlað hjá HelgaSumar á Íslandi 2009 018 bróður Þóris og Jónu í Grímsnesinu en þar beið okkar uppdúkað borð og kræsingar.  Eins og gefur að skilja var ómögulegt að keyra heim eftir að hafa stútfyllt magann allan daginn svo við þáðum gistingu um nóttina.

Í gær eftir góðan sundsprett í Hraunborgarlaug og auðvitað Brunch því maður verður jú að halda sér við efnið síðan keyrðum við í fyrra fallinu til Reykjavíkur.  

Við sem sagt tókum Verslunarmannahelgina snemma og enduðum í gærkvöldi heima hjá góðum æskuvinum í frábærum félagsskap og að sjálfsögðu enn og aftur glæsilegum dinner!

Sumar á Íslandi 2009 026 Blómum skreytt salat!

Vitiði það við bæði hjónin stöndum nú á blístri eftir allt átið síðustu daga!  Þetta er ekki nokkur hemja að kunna sér ekki magamál.

Svo bara hugsar maður:  ,,Mikið vildi ég að ég væri sofnaður, vaknaður aftur og farin að éta"

 Ætla að reyna að koma mér út úr húsi og rölta með móður minni um Hljómskálagarðinn í góða veðrinu.

Og eitt er alveg á hreinu ég fer ekki yfir Elliðaárnar já alla vega ekki lengra en að Rauðavatni í þessari ferð.  Er aveg búin að fá nóg af sveitasælu í bili. 

Ég er líka fegin að við tókum helgina í fyrra fallinu, þá getum verið hér í borginni alein, eða næstum því.


mbl.is Blíða í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir vinir mínir allir að vera til!

Við þessar flottu vinkonur hittumst í dag heima hjá Ingunni Jens eftir áratuga aðskilnað.   Skil bara ekkert í því hvernig við fórum að því að halda út þennan langa aðskilnað og að sjálfsögðu var ákveðið að nú yrði bætt um betur og við kæmum til með að hittast reglulega á komandi árum.

Sumar 2009 á Íslandi 090  Það er engin spurning við erum flottastar, Ingunn, Halla Guðmunds og ég.  Jónína H. var með okkur og tók þessa flottu mynd af flottustu leikkonum ever!

Fyrst ég er komin hér í myndalistann þá ætla ég að smella inn nokkrum myndum af okkur með góðum vinum okkar sem við erum búin að vera að hitta sl. viku. 

Sumar 2009 á Íslandi 013 

 Minn elskulegi með okkar góðu vinum Sverri og Dennies Bernhöft.

Sumar 2009 á Íslandi 015 

Sveinn Grétar Jónsson og Hanna Kristín kona hans fær koss frá mínum elskulega.

Sumar 2009 á Íslandi 030

Við vinkonurnar í Grasagarðinum fyrir viku. Ester, Hanna Kristín, Ég, Erla og Inga á myndina vantar í hópinn Helgu og J'onínu Bjartmarz en þær voru því miður fjarri góðu gamni.  Sjáumst bara næst mínar kæru.

Sumar 2009 á Íslandi 034

Það er aldrei leiðinlegt hjá þessum vinum.  Hann er uppáhalds dansfélagi minn og æskuvinur hann Kristján Guðmundsson.  Góð saman!

Sumar 2009 á Íslandi 037

Elsa Baldurs og Arndís Borgþórsdóttir mínar æskuvinkonur. Frábært kvöld en þarna bauð Arndís og Ísleifur bloggfélagi m.m. okkur í mat og ljúfa drykki.

Sumar 2009 á Íslandi 072

Hér kemur síðan síðasta myndin í bili.  Þetta eru skólasystur sem hittast árlega eða jafnvel oftar og hafa gert það í fjörutíu og eitthvað ár.  My oh my eithvað svo rosalega ,,Otto flotto" á myndinni. 

 Talið frá vinstri:  Sigdís Sigmundsdóttir, Ía pía, Sigrún Erlendsdóttir, Birna Dís Benediktsdóttir og Elsa Baldursdóttir.  Því miður vantar á myndina Huldu Ólafsdóttur en hún tók myndina þar sem við hitumst í fyrradag á Skrúð. 

Þið sjáið nú að við hjónin höfum ekki bara setið og prjónað síðan við komum.  Þetta er búið að vera endalaus gleði og kemur til með að halda áfram þar til við förum heim. 

 


Snæfellsjökull er enn kynngimagnaður.

Sumar á Íslandi 2009 117  Á ferð okkar frá höfuðstað norðurlands og suður til Reykjavíkur vakti það athygli okkar hvað þorpin og sveitabæirnir á Snæfellsnesi báru af hvað snyrtimennsku og fallegt umhverfi varðar. Þá sérstaklega fannst okkur Stykkishólmur bera af með sínum fallegu gömlu húsum.  Við keyrðum fyrir jökul og gistum á Búðum síðustu nóttina okkar á þessu ferðalagi. 

Engin bauð þó upp á Hnallþórur í þetta sinn og fannst okkur pyngjan léttast all verulega við það að snæða kvöldverð á þessu ,, rómaða"  hóteli.  Held að Jónas Kristjáns hefði ekki orðið par hrifinn ef hann hefði verið þarna við næsta borð. 

Við gengum um fjöruna í kvöldkyrrðinni og soguðum að okkur kraftinn sem streymdi frá jöklinum er glóði sem gull við sólsetur.  Það er ekki oft sem færi gefst á að upplifa slíka daga hér á ísaköldu landi. Kynngimagnað!

 Við komum seint til með að gleyma þessari ferð. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband