Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
22.7.2009 | 11:57
Hvar er flugvöllurinn? Þetta er ekki alveg að gera sig fyrir lofthrædda.
Hér áður fyrr þegar við fórum norður heiða var bara keyrt eins og leið lá beint af augum og aldrei farið út af þjóðveginum. Að taka aukakrók var ekkert rosalega vinsælt þ.a.l. hafði ég aldrei komið á Siglufjörð eða aðra útkjálka landsins. En nú var breytt út af venju og við erum búin að þræða flest smáþorp og bæi norðurlands.
Eftir frábæra daga fyrir norðan með litlu fjölskyldunni frá Prag og Garðabæ þar sem við spókuðum okkur í höfuðstað Norðlendinga, fórum í böðin á Mývatni og nutum sjáfarloftsins á Grenivík í sól og sumaryl tókum við bátinn út í Hrísey og tókum eina Taxann á svæðinu sem keyrði okkur um eyna og sagði um leið sögur af lífinu í eynni. Þetta er sem sagt eini leigubíllinn þeirra Hríseyjarmanna. Flott farartæki en frekar hast á misjöfnum vegum.
Eftir að hafa skoðað Hrísey héldum við suður á bóginn með stuttum stoppum á hinum ýmsu stöðum. Ég hef oftsinnis sagt ykkur frá minni hrikalegu lofthræðslu en vegna þess að ég hafði aldrei komið á Siglufjörð vildi ég endilega keyra sem lá leið út á þetta margrómaða síldarpleis.
Við vorum komin svona hálfa leið að Strákagöngum þegar var ég næstum farin út úr bílnum á ferð. Ég er ekki að djóka. Ég hélt mér dauðahaldi í hurðina og hallaði mér yfir að mínum elskulega þar sem ég var alveg klár á því að ef ég hallaði mér að honum héldist bíllinn frekar á veginum en hentist ekki fyrir björg. Í hvert skipti sem minn elskulegi opnaði munninn til að lýsa fyrir mér, sem sat með klemmd augu, fegurð lands og sjávar bað ég han um að halda KJ, horfa á veginn og hugsa bara um það að koma okkur niður úr þessu þverhnípi þegjandi og hljóðalaust. Ég hefði engan áhuga á að vita hvernig umhorfs væri upp á þessum fjallvegi. ,,Keyrð þú bara og ekki tala við mig, ekki eitt orð!"
Göngin sem maður keyrir þarna á milli eru heldur ekki fyrir fólk með innilokunarkennd. Ég er sem betur fer laus við að hafa hana líka en mér leið eins og ég færi inn í ginið á Miðgarðsorminum og kæmi inn í kolsvart holið sem engan endi ætlaði að taka. EMMIN sem segja þér að þar geti þú farið inn í afkima ef þú mætir öðrum bíl eru eitthvað sem ég hef aldrei séð áður en auðvitað bráðnauðsynleg. Ég saup hveljur í hvert skipti sem við sáum ljós framundan. Náum við að næsta EMMI.
Ég var mjög fegin þegar við komumst út úr þessu svartholi og út í sumarsólina og þarna lá inn fægi síldarfjörður í öllu sínu veldi og ég sagði: ,, Hvar er flugvöllurinn?"
Minn leit á mig dálítið sposkur á svip og sagði: ,, Hva ætlar þú að fljúga suður?" Ég get svarið það að það hvarflaði að mér, ég gat ekki hugsað mér að keyra þetta aftur og þá með hyldýpið á mína hönd allan tímann.
Við keyrðum inn í bæinn og ég sló á þráðinn til vinkonu minnar sem á hús þarna upp á brekkunni. Hún var auðvitað ekki á svæðinu en svona á milli þess sem hún lóðsaði mig að húsinu og ég gekk um í garðinum hennar og kíkti á glugga með hennar leyfi datt út úr mér svona alveg óvart:,, Heyrðu Birna hvar er flugvöllurinn?" Hún vissi alveg af minni lofthræðslu og sagði: ,,Elskan mín, það er ekki lengur flogið til Siglufjarðar" og bætti svo við: ,, veistu vegurinn var sko helmingi verri hér í gamla daga, annars skil ég vel að það fari um fólk sem keyrir þetta svona í fyrsta skipti"
Ég varð sem sagt að keyra þetta aftur til baka og ekki spyrja mig hvernig útsýnið er því ég fór þetta með lokuð augu.
Nenni ekki að segja ykkur fleiri sögur í dag, er farin út í góða veðrið.
Njótið sumarblíðunnar á meðan hún endist.
15.7.2009 | 13:57
Á Feeeeerðalagi
Sit hér innan um þéttvaxið birkið að Húsafelli og læt fara vel um mig í skjóli jökla.
Neip ég er ekki í apaleik (tjaldferð) læt aðra um það sem nenna svoleiðis vitleysu.Sitjum hér inn í hlýjum bústað og látum fara vel um okkur þar sem gula fíflið fór í frí í nokkra daga.
Ég verð nú að segja það að ég get ekki annað en dáðst að því fólki sem þyrpist hingað á tjaldsvæðin með heilu húsin í aftanídragi. Enn meir dáist ég að þeim sem koma sér fyrir á fallegum bala í kvöldsólinni og tjalda því sem tjaldað verður, sem sagt allt frá einu herbergi og upp í þriggja herbergja tjaldi með eldhúsi og setustofu. Síðan er farið að sofa og vaknað við það næsta morgun að það eru komnir nágrannar. Annar er húsbíll sem er á stærð við heilt einbýlishús og hinn er svona tjaldvagn með útskotum. Tjaldbúinn sem var svo ánægður með tjaldstæðið sitt kvöldið áður getur rétt skotið sér út fyrir skörina og verður að skáskjóta sér á milli tjalds og ferlíkisins til þess að létta á sér eftir nætursvefninn.
Ég hef nú ekki verið hrifin af teiknimyndum Mbl. en myndin í dag er alveg óborganleg og segir alla söguna.
Það yrði að borga mér afar vel fyrir að ferðast á þennan máta.
Eftir að hafa visiterað suðurlandsundirlendið um síðustu helgi með bróður mínum Kjartani og Bökku mágkonu, m.a. fórum við á tónleika að Listasetrinu Seli við Heklurætur þar sem Signý og Bergþór fluttu okkur sumardúetta og einsöngslög af þeirra einstöku snilld við undirleik Þóru Fríðu. Grilluðum með fjölskyldu Signýjar að Bjalla í Landssveit um kvöldið. Gistum um nóttina að Rangá. Gerðum usla hjá nokkrum vinum okkar sem áttu sér einskis ills von og ætluðu að hafa það náðugt í sumarhúsunum sínum. Tókum bæði vini okkar í heitum pottum,á kafi í byggingarvinnu og jafnvel náðum einum hjónum í rúminu. Ekki oft sem okkur tekst það!
Tókum gamla fólkið þ.e.a.s. mömmu og tengdapabba með okkur í Perluna á sunnudagskvöldið eftir mjög langan dag. Þreytt kona sem fór í rúmið þá um miðnætti og þess vegna erum við ekki komin lengra en upp í Borgarfjörðinn þar sem ég er að reyna að ná upp dampinum áður en við höldum áfram norður, en ætlunin er að leggja í hann á morgun.
Sendi frá mér fleiri pistla þegar ég verð í stuði.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2009 | 11:38
Út í óvissuna í dag.
Við hjónin byrjuðum ferðina hingað heim á því að fá ærlegt hláturskast þegar við settumst upp í flugvélina frá Prag til Köben. Haldið þið að við höfum ekki fengið sæti í Exitinu alveg óumbeðið og ég fékk sömu lesninguna eins og ég lýsti hér tveimur færslum framar á síðunni minni.
Þetta var næstum svona taka tvö hehehe...
Nú þegar þetta er skrifað er ég stödd hér rétt við Rauðhóla í íbúð Guðfinnu vinkonu minnar með himneskan fjallahringinn í augsýn. Hengilinn, Hellisheiðina og Bláfjöllin í öllu sínu veldi. Ótrúlegt útsýni héðan af þriðju hæð. Ég held að þetta hús sé byggt á nákvæmlega sama stað og ég fór með móður minni í gamla daga í berjamó og þá þótti okkur við fara langt upp í sveit í ber.
Í gær fór ég og hitti góða vinkonu, Hönnu Kristínu sem kennd er við hárgreiðsustofuna Kristu og hún tók það sem eftir var af lubbanum mínum og gerði mig húsum hæfa svo nú get ég státað af stuttu hári og með lit sem ekkert líkist þeim músarlit sem var kominn á kollinn á mér. Takk elsku Hanna mín.
Það er búið að vera nóg að gera að heimsækja fjölskylduna og nú ætlum við að brenna austur yfir fjall með bróður mínum og mágkonu út í algjöra óvissu. Ætlum alla vega að hlusta á Signýju og Bergþór syngja í kvöld þarna fyrir austan.
Síðan sjáum við bara til.
9.7.2009 | 07:07
Fara heim með sundfötin og Evrur í farteskinu
Jæja þá er hinn langþráði dagur runninn upp og við loksins á leiðinni heim. Ekki nema örfáir klukkutímar þar til við lendum í Keflavík.
Þið vonandi búin að draga út rauða dregilinn og flagga þjóðarfánanum. Lúðrasveitin tilbúin með ættjarðarlögin og svo ekki gleyma að það eru alltaf svona litlar sætar stúlkur klæddar í Íslenska þjóðbúninginn sem færa konu blómvönd. Muna að taka sellófanið utan af vendinum, þoli ekki blómvendi klædda í sellófan, bara svo það sé á tæru.
En svo ég tali nú í alvöru þá er mikil tilhlökkun hjá okkur að koma heim og knúsa ykkur öll!
Heyrði utan af mér að við skildum taka með okkur sólfatnað þar sem heima væri bongó blíða og Evrur og nóg af þeim vegna þess að sumir aðilar sbr. Hvalaskoðunarferðir, Einhverjir heilsupollar og ekki hvað síst nokkur veitingahús tækju nú aðeins evrur ef þeir hreyrðu á máli þínu að þú byggir ekki á landinu þá veskú taka upp Evrubudduna.
Púra íslenska verður það að vera heillin. Er búin að vera að æfa mig í slangmáli Íslendinga alveg í heila viku: Kaddamar ekki málið. Já sæll. Ertu ekki að grínast í mér og fleiri afbögur sem ég nenni ekki að telja upp núna.
Ég á eftir að sannreyna þetta allt á næstu vikum elskurnar mínar. Læt ykkur heyra frá mér.
En talandi um veitingahúsin þá hef ég oft farið inn á síðuna hans Jónasar Kristjáns veitingarýnis áður en ég hef komið heim, hann veit yfirleitt hvað hann syngur og það eru alla vega tveir staðir sem ég ætlar EKKI að sækja því hann telur þá engan veginn boðlega. Tek alla vega enga sénsa í þeim efnunum.
Ok er sem sagt alveg eldklár í bátana og allt tilbúið fyrir heimför.
Hendi inn einni og einni fæslu næstu vikur ef mér ofbýður eitthvað eða ég get sagt ykkur eitthvað skondið.
Njótið þess að vera til og elska lífið og tilverunna.
6.7.2009 | 10:09
C´est la vie!
Þegar fólk kvartar þá reyni ég að bæta um betur svo hér bæti ég við tveimur myndum af stækkuninni á Häagen-Dazs ísbúðinni. Hættið svo að væla í mér, ég get ekki gert betur nema þá að fá professjónal ljósmyndara og maður eyðir ekki peningunum sínum í sollis vitleysu eins og ástandið er í heiminum. Skilið?
Happy?
Og svo vil ég ekki heyra fleiri kvartanir frá ykkur þarna heima í landi ís og funa.
Og þar sem hitastigið er komið yfir 25° í skugga og gula fíflið alveg að missa það úr hamingju þá ætla ég að fara út og setjast hér í skuggann og ekki hreyfa mig fyrr en sólin er sest þá e.t.v. reyni ég að gera eitthvað af viti. C´est la vie!
5.7.2009 | 09:50
Häagen - Dazs opnar aftur í Prag eftir breytingar
Í gær opnuðum við aftur Häagen-Dazs ísbúðina okkar eftir miklar breytingar. Í stað þess að selja ís í anddyrinu á Restaurant Reykjavík eins og við gerðum hér áður tífölduðum við plássið og tókum hluta af gamla Rest. Reykjavík þegar við seldum staðinn. Íssbúðin er núna á þremur hæðum og ein sú glæsilegasta í allri Prag.
Úrvalið er miklu meira en áður og þjónustað er á borðin bæði úti og inni.
Þessar myndir voru teknar í gærkvöldi. Þetta eru hægindin á neðri hæðinni
En hér sést í hluta setustofunnar á efri hæðinni.
Ég veit að það verða margir ánægðir núna því fólk hefur beðið spennt eftir því að við opnuðum aftur.
1.7.2009 | 20:25
Þetta Aloa Vera er farið að fara aðeins í mínar fínustu.
Það er endalaust verið að troða í mig heilsusamlegu viðbiti. Ég er bara ekkert sérstaklega móttækileg fyrir svoleiðis gumsi og ef einhver vill ólmur að ég prófi þetta eða hitt aðeins vegna þess að það sé svo heilsusamlegt fer ég hreinlega í baklás.
Undanfarið hef ég fengið svo mikið af þessu Aloa Vera kjaftæði að ég er komin með hálfgerð útbrot og er alveg klár á því að þau eru afleiðing af því að allir eru að troða að mér kremum, olíum og ég tala nú ekki um tei sem ég á núna hér í pakkavís uppi í skáp. Halló, eða já sæll, sko ég drekk ekki te!!!!!!!!!!!! alveg sama hversu heilsusamlegt það er.
Eftir kvöldmatinn hér að Stjörnusteini sem var ekkert sérstaklega óheilsusamlegur, Tandori kjúlli með steiktu grænmeti, Jasmin hrísgrjónum og dreypt á Cianti rauðvíni til að skola þessu niður röltum við hjónin yfir í Leifsbúð til að heilsa upp á flautuhjónin.
Eftir að hafa verið kynnt fyrir eðal Mozart flautu og rabbað um heima og geima vildi Guðrún endilega gefa mér einhvern heilsudrykk sem væri allra meina bót og gerði húðina svo mjúka.
Vegna þess að ég er með afbrigðum kurteis að eðlisfari vildi ég ekki afþakka drykkinn og þáði bara svona rétt neðan í glasið. Ég bjóst við einhverju heimalöguðu en þetta er framleitt hér í landi Bóhema og kemur í plastflöskum eins og vatnið.
Nota bene mín húð er eins og barnsrass eftir chemo meðferðina svo ég þarf ekkert á einhverjum drykk að halda til að gera hana mýkri, þá bara fengi ég enn fleiri sár þar sem húðin er viðkvæm eins og silki en eins og ég sagði ég vildi vera kurteis þess vegna smakkaði ég á þessum Aloa Vera drykk.
Ég fór mjög pent í þetta og þegar ég var búin að kyngja spurði Guðrún: ,, Jæja og hvernig finnst þér?" Ég reyndi að gretta mig sem minnst um leið og ég sagði: , Hehem sko þetta smakkast eins og útþynnt sykurvatn þar sem Opal brjóstsykur er búinn að liggja í bleyti og vatnið búið að standa út í sólinni í sólarhring, sem sagt hræðilega vont"
Hrikalegt að vera svona hreinskilin. En mér fannst þetta vera þannig á bragðið.
Hvers vegna eru allir að berjast við að troða í mig einhverju heilsusamlegu? Bara svo þið vitið það áður en ég kem heim þá finnst mér allt svoleiðis hræðilega vont!
30.6.2009 | 10:49
Ljúfur drengur ljós og fagur.......... fæddist í sólmyrkva...........
...........á Fæðingardeildinni fyrir fimmtíu og fimm árum. Himintunglunum varð svo mikið um þessa fæðingu að það gerði sólmyrkva um leið og hann kom úr móðurkviði. Ég man ekki mikið eftir því að hafa verið eitthvað spennt fyrir þessari fæðingu en man þó hvar ég stóð með föður mínum fyrir utan Fæðingardeild Landspítalans og við horfðum saman til himins. Faðir minn sjálfsagt að þakka fyrir fæðingu sonar síns og ég bara að glápa eins og fimm ára bjáni á sólina hverfa bak við tunglið.
Þessi ljúfi drengur sem fæddist þennan dag var auðvitað bróðir minn Kjartan Oddur Jóhannsson. Ég held ég hafi verið afskaplega stolt stóra systir en þar sem þetta barn var með einsdæmum rólegt og fyrirferðalítið hafði ég lítið af honum að segja fyrstu árin. Ég man eftir honum sitjandi uppi í vagni með einn lítinn bíl burrrandi langtímum saman. Ég býst við því að mér hafi ekki þótt hann neitt sérlega spennandi leikfang. Man aldrei eftir því að hann hafi grenjað eins og hinir krakkarnir í hverfinu. Sem sagt frekar ólíkur systur sinni sem var algjört óþekktarrasskat.
Hann Daddi bróðir minn er enn þetta ljúfmenni og gæti ég ekki hugsað mér betri félaga og bróður. Við þroskuðumst vel saman með árunum.
Ég sendi þér kæri vinur okkar innilegustu hamingjuóskir með daginn sem þú heldur hátíðlegan þarna einhvers staðar norður í Eyjafirði. Við skálum svo saman þegar ég kem heim í næstu viku.
22.6.2009 | 18:06
Undir húsveggnum hér og þar.
Ég sat undir húsvegg með syni mínum á laugardaginn og þar sem við nutum þess að láta júnísólina verma okkur sagði Egill: ,,Mamma veistu að það er alveg óþarfi að spyrja þig hvernig þú hafir það" Ég pírði augun á móti honum og júnísólinni og hváði:,, Ha nú?" -Ja sérðu, maður þarf bara að opna bloggið og ef þú hefur ekki bloggað þann daginn þá veit maður að þú hefur það lousy en ef maður sér færslu frá þér þá veit maður að þú ert í lagi sagði hann og brosti sínu fallega brosi á móti mömmu sinni sem hafði þá ekkert bloggað í nokkra daga.
Humm, en bara svo þið vitið það þá hef ég það reglulega skítt í dag en ætla samt að setja hér inn litla færslu. Verð víst að fara í sprautu í fyrramálið en samt er þetta allt á uppleið og ég verð fín eftir nokkra daga. Ekkert helvítis væl núna þegar þetta er alveg að verða búið!
Orðalagið sem ég notaði hér að ofan ,,að sitja undir húsvegg" fékk mig til að fljúga á vit minninganna og ég var allt í einu orðin lítil stelpa sitjandi undir húsvegg með Sigrúnu vinkonu minni.
Við sátum á teppi og dúkkurnar okkar hjá okkur. Við vorum í mömmuleik. Það var sunnudagur og sól skein í heiði. Mín dúkka hét Pressý og var með ,,ekta hár" man ekki hvað Sigrúnar dúkka hét en mig minnir að það hafi verið negrastrákur.
Ég átti forláta dúkkuvagn svona mínitur af Pedegrí vagni. Vagninn minn bar af öllum dúkkuvögnum í hverfinu enda keyptur í útlöndum og ég var ofsalega montin með hann og þarna stóð hann við hlið mér og glampaði á krómaðar gjarðirnar í sólinni.
Hvernig var það þarna í denn var alltaf sól á sumrin? Alla vega var alltaf sól hjá mér og við vinkonurnar spásseruðum í mjallahvítum sportsokkum með risa slaufur í hárinu og ýttum dúkkuvögnunum á undan okkur upp og niður Hólmgarðinn sem þá var varla hægt að kalla götu heldur leit meira út sem moldartröð. Reyndar máttum við aldrei, alla vega ekki ég, fara niður fyrir millibilið, það bjuggu villingar fyrir neðan búð. Svanhvít mín og þið hin sem bjugguð þarna, ef þið lesið þetta þá bara brosa með mér núna.
Eftir göngutúrinn settumst við aftur undir húsvegg og plokkuðum drulluslettur af hvítum sportsokkunum og vonuðumst til að mæður okkar myndu ekki taka eftir því hvað við vorum orðnar skítugar til fótanna. En hvernig átti annað að vera þar sem við höfðum skondrast á milli drullupolla með dúkkuvagnana okkar.
Jahá það voru þarna drullupollar svo það hlýtur að hafa rignt líka á þessum árum.
Á meðan við biðum eftir að vera kallaðar í matinn hlustuðum við á Séra Jón Auðuns jarma yfir messugestum því ómurinn frá útvarpsmessunni barst út um eldhúsgluggann og við fundum ylminn af lærinu sem kraumaði í ofni mæðra okkar.
Ef ég man rétt þá hef ég sjálfsagt fengið mér forrétt þarna við húsvegginn. Ég var nefnilega dálítið sérkennilegur krakki. Mér nægði ekki að éta hundasúrur eins og allir hinir krakkarnir gerðu heldur át ég gras eins og kýrnar. Það hlýtur að hafa vantað helling af einhverjum efnum í mig þegar ég var að alast upp því ég lét mér til munns hin ólíkustu efni jarðar.
Já ég var hrikalega spes krakki.
Meir um það seinna.
B.T.W. Súkkulaðikakan klikkaði aðeins. Á að skila góðum kveðjum frá mínum elskulega til ykkar allra sem standið með honum í blíðu og stríðu hér í eldhúsinu að Stjörnusteini. Hann tók það fram í dag að hann vildi svo gjarna hitta þessar vinkonur mínar hehehe... ekki skrítið eins og þið dásamið hann í bak og fyrir.
20.6.2009 | 12:06
Taka tvö í eldhúsinu að Stjörnusteini
Þú vogar þér ekki að blogga um þetta Ía fyrr en búið er að smakka á tertunni sagði minn elskulegi þar sem ég sat við tölvuna í eldhúskróknum. - Ha nei, nei sagði ég en auðvitað varð það til þess að þessi færsla er nú að renna hér út í tómið.
Nú stendur sem sagt yfir taka tvö á súkkulaðikökubakstri hér í eldhúsinu okkar og ég berst við að halda mér á mottunni og skipta mér sem minnst af gjörningnum.
Þið sem fylgst hafið með hér munið eftir súkkulaðikökubakstri míns elskulega fyrir nokkrum vikum. Nú sem sagt átti að reyna að bæta um betur því eins og þið eflaust hafið tekið eftir þá gefst minn ekki upp fyrr en í fulla hnefana.
Gjörningurinn byrjaði hér snemma í morgun og ég sá að hann barðist við að fara eftir uppskriftinni minni, alla veg lá hún opin á borðinu. Það datt út úr mér svona af og til: Það eru til bollamál og mæliskeiðar. Það á að hræra smjörið og sykurinn saman FYRST!!!!
Þegar hann var búinn að hræra vel og lengi þá kom að því að finna form og þar sem mér fannst hann vera búinn að dúlla í þessu allt of lengi sagði ég: - Settu þetta bara í skúffukökuform. Það átti ég auðvitað ekki að segja því hann fór alveg í baklás og þverneitaði að gera eins og ég vildi. Tók út klemmuform og spurði á að smyrja það? Ég játti því og með það skellti hann öllu deiginu í formið og inn í ofn á 150°
Ég þagði en vissi að með þessu færi kakan að falla svo ég sagði: Veistu ég held þú verðir að hækka hitann og hafa kökuna aðeins lengur en stendur í bókinni. Hann hegndi þessu svona með hangandi haus en gegndi samt.
Kakan kom út og ekki svo slæm. Þá kom að kreminu sem hann gerði ,,his way" hafið þið til dæmis séð súkkulaðikrem hrært í laukskrerara þessum þið vitið litlu sem taka einn lauk eða tíu olivur. Ekki ég en honum tókst að troða þarna ofaní smjöri, einu eggi og kakó (engin flórsykur) hehe..... ástæðan fyrir að þetta apparat var notað: Hrærivélaskálin var í uppþvottavélinni og ég benti honum á að við ættum svona BLENDER, neip I´m going to do it MY WAY darling!!!!!!!!! OK !
Þessu gumsi var síðan hellt á kökuna sem hann var búinn að skera snyrtilega í tvo botna. Skellt saman og soðkrem ,,his way" (ég kalla það soðkrem því hann sýður það í potti) sett ofaná og skreytt með silfurkúlum.
Not bad skal ég segja ykkur.
Nema hvað ég bað hann vinsamlegast um að færa kökuna aðeins frá eldavélinni þar sem brúna sósan sem hann var að búa til um leið og kremið, kraumaði í potti. Þegar hann fór að sigta laukinn og kryddið úr soðinu þá gat ég ekki setið lengur á mér. Mér finnst nefnilega ekkert gott að hafa lambakjötskeim af súkkulaðiköku.
Ef ég vissi ekki betur gæti ég haldið að hann væri náskyldur Jamie Oliver, það eru svipuð vinnubrögðin í eldhúsinu. Báðir frábærir kokkar en frekar messy.
Nú bíður kakan inn í kæli eftir að litla Prag fjölskyldan komi og smakki á herlegheitunum. Og ég bíð eftir að fá yfirhalningu þegar þessi færsla er farin út í tómið í óþökk míns elskulega.
Læt ykkur vita hvernig til tókst seinna í dag.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)