Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
17.6.2009 | 10:44
Gleðilega þjóðhátíð kæru landar - Hátíðarhöldin í beinni.
Það ríkir mikil þjóðerniskennd hér í eldhúsinu mínu núna þar sem hornablástur hljómar hér frá tölvunni og við ég og hann Erró minn hlustum með andakt á Öxar við ána spilaða af merkum hornleikurum Íslands. Það er að segja ég hlusta en hundurinn gólar upp í sumarsólina sem skín hér að tilefni dagsins.
Ég er ein heima (og hundurinn) eins og stendur þar sem gestir okkar brugðu sér af bæ og skondruðust í bæinn. Hér áður fyrr var maður nú venjulega komin niður í borg og búin að skreyta Restaurant Reykjavík með fánum og blöðrum þennan dag en þar sem það er liðin tíð þá læt ég duga að horfa hér á aðeins einn fána lýðveldisins blakta í golunni við Stjörnustein.
Oft hefur verið hér glatt á hjalla á þessum degi og við tekið á móti mörgum góðum gestum í tilefni dagsins. Í dag verður hér fámennt og góðmennt.
Ég heyri að ekkert bjáti á óeirðum á Austurvelli eða það tilkynnti þulan hér fyrir nokkrum mínútum. Er fólk að búast við pottaliðinu á sjálfan þjóðhátíðardaginn? Er það ekki einum of mikið vesen, held það verði alveg nóg um uppákomur í höfuðborginni í dag þó við getum verið laus við pottaglamur og leifaslag.
En nú heyri ég að hátíðargestir eru sestir á stólana sína við hlið Jóns Sigurðssonar og áhorfendur sem sagt sauðsvartur almúginn standi stilltur bak við reipin þar sem lögreglan heldur vörð um svo enginn geti laumast að yfirstéttinni.
Ágætu landar GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ!!!!!!!!!!
VERIÐ STILLT OG PRÚÐ OG GANGIÐ HÆGT UM GLEÐINNAR DYR Í DAG!!
Góðar og hlýjar kveðjur heim frá okkur héðan að Stjörnusteini.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.6.2009 | 11:21
Ekkert lát á hjónabandsælunni jafnvel eftir 35 ár í blíðu og stríðu.
Ég rakst á þetta í morgun þegar ég var að blaða í Perlunum hans Laxness og datt í hug að setja þetta hér inn með færsu dagsins:
Það er ekki annað en uppspuni að konan kasti sér andvarpandi um háls elskhuganum þegar hann stynur upp bónorðinu og svari: Ég er þín að eilífu! Slíkt ber ekki við nema í illa ortum ljóðum og fimmtíu aura lygasögum skrifuðum fyrir vinnukonur og borgara.
Þegar karlmaður hefur upp bónorð sitt svarar konan alltaf þessu sama: Hvað býðurðu mér? Hvað borgarðu mér? Fæ ég borðstofumubblur, stássstofumubblur og píanó? Gefurðu mér steiktan kjúkling? Gefurðu mér strútsfjöður? Gefurðu mér bíl?
Þetta á við færslu dagsins þar sem við hér að Stjörnusteini héldum upp á 35 ára hjúskaparafmæli okkar í gær og ekki nóg með það heldur héldum við upp á 40 ára hjúskaparafmæli Helga bróður Þóris og Jónu konu hans hér hátíðlegt þann 14. júní en þau komu hingað á fimmtudaginn til að halda með okkar hátíð þessa helgi. Hér erum við í fyrsta í afmæli. Glæsileg hjón og ekkert mjög þreytuleg þrátt fyrir að vera búin að hanga saman í 75 ár samanlagt!
Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið dugleg að blogga undan farið, hef bara haft alveg brjálað að gera í partýstandi alla daga og verður ekkert lát á fyrr en á fimmtudaginn en þá fljúga vinir okkar heim.
Martial Nardeau hélt stofutónleika fyrir okkur í gærkvöldi. Ekki allir sem fá svona stórkostlegan glaðning á afmælisdaginn sinn.
Í dag ætlum við að taka það rólega enda dumbungur í lofti og ekkert spes veður. Gestir okkar keyrðu sig í Mallið en við gömlu erum heima og tökum lífinu með ró.
Svo bíðum við bara eftir næsta ,,Happy hour" eins og venjulega.
Eins gott að halda sig við efnið!
10.6.2009 | 09:22
Fer alveg að losna við sótthreinsilyktina úr nefinu sem hefur fylgt mér síðustu mánuði.
Yes, Yes, Yesssssssss!!!!! Sagði ég og hélt hnefanum hátt á lofti um leið og ég tók smá hliðarspor þegar gekk út af spítalanum í gær eftir síðustu chemo meðferðina. Allt tekur þetta endi og í næstu viku tek ég síðustu ógeðspillurnar sem hafa farið verst í mig.
Ég bjóst við að fá grænt ljós svo ég gæti farið heim í júní en minn góði læknir vill ekki sleppa af mér hendinni fyrr en ég hef farið vel í gegn um meðferðina og vill fylgjast með mér næstu þrjár vikurnar svo ég kem ekki heim fyrr en í byrjun júlí og ætla þá að mála borg og bæi rauða að hætti Íu í heilan mánuð.
Jamm þið losnið ekki við mig aftur fyrr en í byjun ágúst greyin mín. Og þið sem viljið komast hjá því að hitta mig getið pantað ykkur flug núna til útlanda hehehe..... love you all guys!
3.6.2009 | 19:17
Og heitasta ósk mín var sú.......ú
Þegar ég var yngri og nú er ég að tala um töluvert yngri þá hafði ég eins og flestir jafnaldrar mínir miklar áhyggjur af útlitinu og ég bað alla góða vætti, hátt og í hljóði að redda mér um hátt og greindarlegt enni.
Ég var fædd með þetta svokallaða ,,Heiðarenni" úr föðurfjölskyldunni og mér fannst ég hafa verið illa svikin þar sem systkini mín voru öll með hátt og greindarlegt enni úr móðurættinni.
Í þá daga þótti heldur ekki flott að greiða aftur frá andlitinu heldur var maður að halda lookinu með því að vera með skipt í miðju og hárið svona sleikt niður með andlitinu. Þessi hárgreiðsla gerði það að verkum að andlitið á mér varð ennislaust. Það var ekki fyrr en árið 1969 sem ég fór að greiða aftur frá enninu og þvílíkur munur ég leit allt í einu ekki út eins og ennislaus vanskapningur.
Nú loksins er að rætast þessi heitasta ósk mín ég er að fá þetta líka fína greindarlega enni svona líka hátt og velformað. Segið svo að maður hafi ekki góða vætti til að þóknast manni. Mínir bara voru heldur treggáfaðir og tóku seint við sér. En það er alveg bannað að vera vanþakklátur svo ég segi bara betra seint en aldrei.
Nú erum við tvö að fara úr hárum ég og Erró minn svo það er erfitt að sjá hvort okkar skilur meira eftir sig á gólfunum hann eða hún ég.
Á morgun þarf ég að mæta í veislu og ég er búin að velta fyrir mér nýrri hárgreiðslu í allan dag. Held ég verði með svona ,,Bryndísar Schram sleikt aftur" greiðslu. Ef þú lest þetta Bryndís mín þá vil ég að þú vitir að mér finnst þú alltaf svo flott með þá greiðslu.
Svo bara verið til friðs greyin mín.
25.5.2009 | 10:47
Af Hnallþórum og það að taka viljann fyrir verkið.
Helgin liðin.
Nú er þetta að verða helv... töff. Virðist ætla að ná saman á milli gjafa. Enginn svona opsadeisí dagur lengur. Skil alveg núna fólk sem neitar að ganga í gegn um þetta trekk í trekk en það góða við þetta er þó að þetta tekur allt enda. Eftir mánuð verð ég farin að dansa aftur.
Ég var búin að segja ykkur að ég á besta og elskulegasta eiginmann í heimi það versta er að ég læt hann allt of sjaldan vita af því. Hann reynir allt hvað hann getur að létta mér lífið þessa dagana en stundum er ég bara ekkert nema fýlan og finnst hann bara eigi að láta hluti eiga sig, ég ætti að geta gert þetta sjálf.
Ég hafði hugsað mér fyrir helgi að nú ætti ég að skella í eina klessu svona til málamynda ef einhver ræki hér inn nefið en það varð ekkert úr framkvæmdum en stunum er eins og við hjónin hugum nákvæmlega það sama svo í gærmorgun tekur minn bökunarbókina mína og byrjar að hræra í súkkulaðiköku.
Ég lét þetta fara í pirrurnar á mér og varð hrikalega fúl á móti. Hann átti bara ekkert með það að taka hugsunina frá mér og færa hana til raunveruleikans. Andsk... frekja og svo líka það að hann kann ekkert að baka! Flest annað fer honum vel út hendi en bakstur er eitthvað sem hann hefur alls engin tök á.
Enda kom það í ljós þegar hann, þetta líka montinn, skellti Hnallþórunni á borðið fyrir framan tengdadóttur og son. Kakan var kolfallin en til að bæta það hafði hann sullað saman súkkulaði og einhverju fleiru og skellt yfir svo flæddi yfir barmana á kökudiskinum. Bar þetta svo fram með þeyttum rjóma svona sem punktinn yfir i-ið.
Ég sem hafði fylgst með aðförunum við baksturinn sagði ekki orð en tengdadóttirin sagði svona frekar pent: Hvað er nú þetta? Ég sagði að við yrðum að taka viljann fyrir verkið hann væri búin að hafa mikið fyrir þessu allan morguninn. Tengdadóttirin leit sposk á mig og sagði:Þú hefðir nú aldrei borið þetta á borð. Svona slys hefði farið beint í ruslið.
Kakan smakkaðist samt alveg ágætlega.
Það sem ég elska þennan mann, það er alveg dæmalaust!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
22.5.2009 | 09:35
Ég ætlaði að skrifa um allt annað en held að lyklaborðið sé með sjálfstæða hugsun í dag.
Ég rúllaði upp og niður fréttablöðunum hér í morgun með kaffibollann rjúkandi við hlið mér. Þunnar fundust mér fréttirnar og mér var hugsað til gömlu senjoritunnar sem bloggaði 97 ára.
Hvað er það sem gerir bloggið svona áhugavert? Væri ég að blogga ef ég byggi á Íslandi, lifði þessu venjulega lífi hins dæmigerða landa míns sem segir að ekkert sé nýtt að frétta síðan síðast þegar við töluðum saman.
Þetta er t.d. dæmigert þegar ég spyr hvað er að frétta?
- Bara svo sem ekki neitt, allt bara við það sama og svo kemur smá dæs í lokin.
Ég reyni yfirleitt að veiða einhverjar fréttir svo stundum fæ ég þetta......
....- ja Stína átti afmæli um daginn.
-Ok og hélt hún veislu, var ekki fjör?
- jú það var haldið í so and so salnum og var bara ágætt, sogið upp í nefið svona til að gefa til kynna að þetta hefði nú ekki verið par merkilegt afmæli og óþarfi að tala um það meir.
- so erum við að fara upp í bústað um helgina
- jæja og ætlar einhver að fara með ykkur.
- Nei krakkarnir nenna ekki lengur með okkur, ætluðum að bjóða Jón og Gunnu en þau eru eitthvað upptekin þessa helgi. Held að mamma hennar sé að fara á elliheimili eða eitthvað sollis. Svo ætli við verðum bara ekki í því að mála veröndina. Annars er nú spáin ekkert góð, held það eigi að rigna alla helgina, langt dæs alveg neðan úr maga fylgdi hér á eftir.
- Hva nú þá er bara að hafa það kósí inni og njóta þess að lesa góða bók eða ræða málin.
- Já æ ég veit ekki til hvers við erum eiginlega að eiga þennan kofa. Nenni varla að fara lengur þarna uppeftir. Svo er nú han Nonni minn ekki sá skemmtilegasti svona einn og sér. Alveg ótrúlegt hvað maðurinn getur sofið þarna uppfrá. So er ég alveg að drepast í mjöðminni og blóðbrystingurinn er upp úr öllu valdi. Maður er nú so sem ekki fertugur lengur.
- Jæja, heyrðu segi ég ,tala við þig betur seinna. Verð að skreppa aðeins núna. Farðu nú vel með þig og já, góða skemmtun um helgina.
Legg tólið á og þakka fyrir að ég eigi ekki bústað lengur á Íslandi sem þarf að bera fúavörn á veröndina á hverju ári og það sé upp á Guð og lukkuna að maður fá einn dag án þess að hann rigni.
Ég gæti haldið áfram hér í allan dag ætlaði að skrifa um eitthvað allt annað en hér er ritað en læt þetta bara standa.
Var ég ekki að tala um bloggið og af hverju ég væri eiginlega að þessu hér. OK segi ykkur það bara seinna.
Stórt knús inn í góðan föstudag með öllu því sem hann kemur til með að gefa ykkur.
Elsti bloggari heims allur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 09:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
20.5.2009 | 07:37
Getur einhver vitringurinn hannað rafmagnsflysjara fyrir aspas.......
Fáir fussa við ferskum aspas með ítalskri pharma skinku og Hollandaise sósu eða hvað? Nei held ekki en mikið óskaplega er nú þessi athöfn við að flysja þetta frábæra grænmeti þreytandi og seinlegt. En tilhugsunin um þetta ljúfmeti í munni gerir það að verkum að þú lætur þig hafa alla þessa fyrirhöfn.
.......ég skildi glöð borga vel fyrir þannig græju. Hann (flysjarinn) mætti líka þjóna í víðtækari tilgangi þá er ég að hugsa um annað gott grænmeti sem við stöndum sveitt við að flysja áður en skellt er í pottinn. Nú segir einhver, hva ertu að flysja, þá helst vítamínið ekki í gærnmetinu. Já elskurnar mínar við hér á þessu heimili étum ekki skrælling, síðan lítur grænmetið svo miklu fallegra út flysjað.
Það var Þýsk vinkona mín sem kenndi mér, konunni úr norðri hvernig best væri að hantera og elda aspas, þennan góða vorboða mið Evrópu. Ég sýð hann alltaf í sykurvatni það gerir reginmun á bragðinu. En mikið vildi ég að einhver vitringur gæti fundið upp annað verkfæri en þennan venjulega aspasflysjara til að létta okkur verkið.
Af hverju er ég að pæla í þessu núna jú vegna þess að ég stóð í nærri einn tíma í fyrradag við að flysja aspas sem ég ætlaði að hafa í hádeginu handa gestum mínum. En það var þess virði og þessir sænsku vinir okkar sem komu hingað jömmuðu og ummuðu yfir góðgætinu.
Í dag skín sólin eins og fyrr og kominn tími til að koma sér á fætur og finna einhver smart sumarföt því nú skal halda til afmælisveislu í hádeginu. Við vinkonurnar ætlum að halda surprise party fyrir Írska vinkonu okkar sem varð sextug í síðustu viku.
Dagurinn er sem sagt að byrja vel og verður vonandi einn af þessu opsadeysí dögum.
17.5.2009 | 19:50
Að njóta þess að vera til
Já ég líka ef ég hefði kosið! Til hamingju Jóhanna. Frábært að þú skildir bjarga þjóðinni fyrir horn og lenda í öðru sæti annars værum við bara í djúpum skít eða þannig. Ja ekki lýgur útvarpsstjóri vor.
Til lykke med dagen Norge! 17. mai og líka með strákspottið hann Rybak.
Ég á vin sem heitir Rybak en hann er einn af fremstu glerlistamönnum Tékklands Gæti verið að þeir tveir væru skildir, annars þori ég að éta skóna mína upp á það að minn Rybak mundi aldrei viðurkenna að hann væri ættaður frá Hvíta Rússlandi. Þannig er nú það.
Dagurinn hér var bara einn af þessum sólardögum eins og þið upplifðuð heima á Íslandi í dag. Hitinn yfir 25° (var ekki líka hitabylgja heima, held það barasta) og ég ákvað í morgun að nú færi ég út í garð og reyndi aðeins að hreinsa til, alla vega í einu beði eða svo. Þrátt fyrir brunaverki í öllum skrokknum og velgju þá ákvað ég að ég skildi sjá til hvað ég gæti gert.
Ég fékk líka þessa fínu uppörvun frá lækninum mínum í síðustu viku. Hún sagði að ég væri ein af hennar uppáhalds sjúklingum. Ég væri svo jákvæð og eins og hún orðaði það: Að hafa sjúkling eins og þig er það sem gefur mér kraft og lífinu gildi og ég finn að starf mitt er einhvers virði. Alla vega orðaði hún þetta einhvern vegin svona. Og þetta gaf mér ekki minni styrk og áframhaldandi vilja til að berjast áfram.
Þess vegna fór ég út í morgun og vopnaðist hrífu, skóflu, röku, hjólbörum og setti upp þessa líka fínu garðhanska með bláum blómum á handarbakinu. Verð alltaf að vera pínu dúlluleg þó ég sé bara að grafa í illgresinu með rassinn upp í loft. Það er bara part av programmet.
Það var nú ekki bara ég sem fór í garðverkin í dag heldur líka minn elskulegi sem fór eins og stormsveipurá traktor og orfi um alla landareignina.
Ég verð að viðurkenna að það var yndisleg tilfinning að standa undir sturtunni eftir sex tíma vinnu í garðinum vitandi það að maður hafði getað gert eitthvert gagn.
Eftir sturtuna hófst þessi venjulega meðferð. Mouse í hárið til að gera það meira fluffy ( er alltaf á nálum að það fari að hrynja af mér) andlitskrem, augnkrem þið vitið maður er auðvitað eins og harmonikka í framan. Boddy lotion, fótakrem og grejer. Svo fór ég í sumarskápinn og dró fram, held ég, fimmtán ára gamlan síðan kjól sem ég skellti yfir mig og vá hvað mér leið vel. Smá brunaverkir en iss, hva, maður lifir það nú af.
Síðan fór ég út og blandaði mér einn af mínum uppáhalds sumardrykkjum. Martini Rosso, agúrka, appelsína og sprite. Og með þetta fór ég síðan og gekk um landareignina eins og drottning í ríki mínu og horfði hreykin á frábært dagsverk okkar hjóna.
NB. Minn elskulegi kom síðan hálftíma seinna, hreinn og strokinn og við sátum saman í kvöldsólinni og nutum þess að vera til.
Ég hefði kosið Ísland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.5.2009 | 17:40
Maður kemst í hátíðarskap við að lesa svona fréttir sem ylja.
Þegar maður heyrir af rjómablíðu og að hitastigið fari upp yfir 15 gráðurnar þá er ekki alveg laust við það að maður gæti vel hugsað sér að skreppa heim. Setjast á kaffihús í miðbænum, að sjálfsögðu sólarmegin, rölta síðan niður að tjörn og jafnvel að skreppa í heimsókn í Grjótaþorpið.
Ekki skemmir heldur að nú stendur yfir Listahátíð og Fjölmenningarhátíð hvað sem það merkir nú, sjálfsagt fjölskrúðug menning í hátíðarskapi. Sem sagt gaman að þessu og hitinn sló met eða var það ekki. Gula fíflið skein á réttláta sem rangláta og það blakti ekki hár á höfði í hitabylgjunni sem fór yfir landið. Æ eitthvað svo krúttlegt.
Er komin hálfa leiðina heim bara við að lesa svona góðar og fréttir sem ylja.
Svo á morgun heyrir maður af frábæru grillveislunum út um allan bæ og síðan hvað við hefðum átt það svoooooooo skilið að vinna Eurovision hehehhe....... bara klúður hjá dómnefndinni, örugglega vitlaust talið eða þannig! Enginn nær þessu alveg, allir eitthvað svo voða hissa.
Við sem vorum algjörlega best í keppninni. Ég meina það við vorum BEST!!!!
Og svo bara þið vitið það þá verður EKKI horft hér á Eurovision í kvöld.
Stemmning í blíðunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2009 | 19:12
Við verðum að horfast í augu við það að lífið okkar verður aldrei samt.
Má mann ekki kvarta aðeins, jú mann má það alveg.
Þetta er líka spurning um hvort grasið sé græna hinu megin girðingar eins og svo margir halda.
Hingað til hef ég ekki kvartað yfir því að búa hér innan um villt dádýr, snáka, snigla,kanínur, héra, moldvörpur að ógleymdum fuglunum sem ég tel vera sérstaka vini mína. Sveitasælan hefur átt vel við mig og hér hefur mér liðið eins og blóm í eggi og ekki haft yfir neinu að kvarta fyrr en allt í einu núna þá finnst mér þessir 50 km frá borginni vera næstum óyfirstíganlegur þröskuldur.
Ég er líka þreytt og við bæði það fer ekkert á milli mála.
Fyrir tveimur og hálfum mánuði gat ég stjórnað mínum ferðum og þar sem ég er ekki morgunmanneskja þá valdi ég yfirleitt eftirmiðdaga til að fara minna erinda inn í borgina og yfirleitt reyndi ég að komast hjá því að fara tvær ferðir á dag þessa 50 km hvora leið.
Nú get ég ekki lengur stjórnað þessu sjálf. Nú verð ég að fara eftir því hvað aðrir segja mér að gera og ég verð að gegna. Tvisvar í viku verðum við að vakna fyrir allar aldir, löngu áður en haninn galar og keyra 70 km upp á spítala hvora leið.
Já lífsviðhorfið hefur breyst mikið á þessum stutta tíma og við höfum orðið að horfast í augu við það að það verður sjálfsagt ekki svo auðvelt að búa hér upp í sveit þar sem við verðum að sækja allt inn í borgina. Jafnvel næsti stórmarkaður er hér í 30 km fjarlægð.
Við sjáum líka fram á það að það verður ekki auðveldara með árunum að sjá hér um landareignina án þess að hafa utanaðkomandi aðstoð.
Við erum líka að horfa á eftir vinum okkar hér fara aftur til síns heima og við erum nú komin í hóp þeirra sem lengst hafa verið hér í landinu og við erum örfáar eftirlegukindur.
Ég vil nú ekki segja að við förum að flytja héðan alveg á næstunni en alla vega erum við farin að hugsa okkur til hreyfings en við komum nú til með að gefa okkur nokkur ár í viðbót hér að Stjörnusteini.
Draumurinn er að eignast fallega íbúð hér í Prag með útsýni yfir Moldá og síðan athvarf á Íslandi og jafnvel þriðja staðinn svona in case einhvers staðar í suðurhöfum.
Já það er ljúft að dreyma fallega drauma og ég læt það eftir mér öðru hvoru.
Annars bara góð í kvöld eftir langan dag í borginni.
Hvað það var gott að koma heim og fara úr haldaranum og í gamla velúrsloppinn.
Og svo bara svo þið vitið það þá verður EKKI horft á Eurovision á þessu heimili.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)