Færsluflokkur: Vefurinn

Það liggur eitthvað í loftinu

Ef maður tryði því að dagurinn í dag væri bundinn álögum þá færi maður nú ekki langt frá húsi.  Satt best að segja er ég svona hálft í hvoru að spá í að vera bara inni en það hefur ekkert með almanakið að gera heldur er ég bara hræðilega löt. Held það sé einhver lægð hér innra svo þá er ekki að búast við miklum afrekum á þessu heimili.

Enda hvernig á annað að vera þegar hitastigið fellur niður um 10 til 15° og austanvindar blása hressilega.  Já ég veit þetta er auðvitað eintómur aumingjaskapur en hér sit ég og er búin að draga fram lopapeysu og er vafin inn í 66°norður teppi og er skítkalt. Horfi hér út þar sem þungbúin ský hrannast upp eins og óvættir.  Þau gera aðför að mér ég meina það!  

OK, best að hætta að bulla þetta og koma sér út út húsi, en ég fer ekki úr lopanum, það er sko alveg á hreinu!  Svo kemur gollan líka til með að hjálpa til ef ég skildi nú hendast á hausinn, dregur alla vega úr fallinu og áverkum.

Ætli hundurinn viti að það sé föstudagurinn 13.?  Hann hefur heldur ekki farið út fyrir dyr í dag!


mbl.is Óhappadegi fagnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi fallegi dagur, þessi fallegi dagur!

Elsku kallinn okkar. Var að hlusta á lagið þitt og fannst það eiga svo vel við á þessum fallega degi.  Okkar innilegustu hamingjuóskir til ykkar Hrafnhildar!  Vonandi kíkið þið í kaffi fljótlega. Borgin skartar sínu fegursta hér núna og við flöggum fána í tilefni dagsins.

Njótið þess að vera til!  Bestu kveðjur og knús frá okkur hér að Stjörnusteini og öðru frændfólki hér í Prag. Heart


mbl.is Bubbi Morthens á afmæli í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum ekki ENDUR!

Hvernig dettur Unni Sigurþórsdóttur að svara svona!  Hélt að fólk sem starfaði við umönnun dýra væru dýravinir.  Færsla Jóhönnu Magnúsar- Völudóttur lýsir ótrúlegri grimmd starfsfólks Húsdýragarðsins.  Maður fer ósjálfrátt að hugsa hvort umönnun dýranna sé ásættanleg. 

En fyrst Húsdýragarðurinn vill ekki taka á móti málleysingjunum þá er hægt að fara með þá niður að tjörn og vona að einhver mamman taki munaðarleysingjann að sér. 

Það er líka ekki auðvelt að reyna að útskýra fyrir börnum um eðli náttúrunnar og hvernig ungar geti bjargað sér ófleygir og villtir í stórborg. 

 Ég átti föðursystur sem var sérstaklega elsk að fuglum.  Hún var yfirhjúkrunarkona á Farsóttarheimilinu sem þá var og hét.  Frænka mín, Anna Kjartansdóttir bjó þarna meir og minna, hafði sitt herbergi og út frá því voru svalir.  Þar hafði hún komið fyrir stóru búri og tók að sér að hlúa að veikum og ósjálfbjarga fuglum.  Alla tíð sem hún vann þarna voru að minnsta kosti fjórir til fimm þrestir og einn til tveir krummar. 

Þessir ólíku fuglar voru ekkert aðskildir í búrinu og ég man sérstaklega eftir einum krumma sem hélt til þarna nokkuð lengi og löngu eftir að hann var orðinn ferðafær.  Hann átti það til að sitja á öxl frænku minnar og narta í hennar hrafnsvarta hár. 

Þarna fór merk kona með hjartað á réttum stað hvort sem var við menn eða málleysingja.

 


mbl.is Ekki „bjarga" fuglsungum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn bætist hér við Flóruna í Listasetrinu okkar

Næstu sex vikurnar mun Halldór Guðmundsson, rithöfundur dvelja hér í Listasetrinu Leifsbúð og hlökkum við hjónin til að kynnast þessum víðfræga fræðimanni og rithöfundi í eigin persónu. 

Mér datt í hug áðan þegar himnarnir opnuðust og helltu hér yfir okkur þrumum og eldingum hvort einhver sterk öfl fylgdu þeim hjónum hingað, lætin voru þvílík! Það er ekki óalgengt að fylgjur gesta okkar geri vart við sig hér rétt áður en þeir banka uppá. Nei, verið ekki að taka mig svona alvarlega, ég er hálft í hvoru að grínast.

 En nú hefur stytt upp og sólin er aftur farin að þurrka jarðveginn.  Innkeyrslan hjá okkur varð eitt stórfljót og leist mér satt að segja ekki alveg á blikuna minnug flóðanna sem urðu hér í fyrrasumar.

Hér með bjóðum við Halldór og hans konu hjartanlega velkomin hingað að Listasetrinu.  Njótið vel kæru gestir. 

Best að fara að klippa nokkrar rósir hér úti og setja í vasa, gera smá huggó út í Leifsbúð, já og kampavín í kælinn ekki má gleyma því.


Bio matseðill Vesturlandabúa

Við sátum saman á veitingastað nokkrar góðar vinkonur hér einn sólríkan dag við bakka Viltava (Moldá) með útsýni yfir Karlsbrúnna.  Áin fyrir neðan okkur glitraði í hádegissólinni og skemmtiferðabátarnir lulluðu fram hjá.  Frá einstaka bát ómuðu Jazz tónar frá hljómsveit upp á dekki en frá öðrum undurfagrir tónar Smetana. 

Einstaka túristi veifaði glaðlega til okkar þegar siglt var fram hjá okkur þar sem við nutum þessa sérstaka útsýnis og sötruðum hvítvínið. 

Þjónninn kom með matseðilinn sem var tvískiptur.  Annarsvegar þessi hefðbundni og hinsvegar Bio matseðill sem nýfarinn er að sjást hér á nokkrum veitingastöðum borgarinnar. 

Umræðan snerist fljótlega um þennan Organic seðil.  Við sem búið höfum hér í nokkuð mörg ár höfðum litla trú á að það sem boðið var upp á væri 100% organic og ein hafði á orði að e.t.v. væru þarna ýmis skordýr því nóg væri af þeim hér í landinu.  Og vitnaði í þessa frétt sem birtist nú í Mbl.  Þetta þætti hollur og góður matur, fólk yrði bara að kunna að matreiða þetta á réttan hátt.

Held að um okkur allar hafi farið svona nettur, klígjugjarn hrollur við þessar umræður en þrátt fyrir það ákvað ég að prófa kjúkling af Bio seðlinum. 

Ekki fann ég nú neinn mun á þessu lostæti nema verðið svo ég spurði þjóninn hvaðan þessi fugl kæmi og hann var ansi fljótur til svars og sagði frá Frakklandi.  OK, e.t.v var hann að segja satt en ég var ekki alveg sannfærð.

Satt best að segja held ég að við hér setjum ofan í okkur þokkalega mikið af skordýrum á sumrin.  Hvað haldið þið að ég hafi drukkið margar moskito flugur með kókinu mínu, eða eina og eina vespu með pastanu.  Humm..... vil helst ekki hugsa um þetta.

Ætla að borða framvegis innandyra með net yfir sjálfri mér og því sem ég læt ofan í mig. Beekeeper 

  


mbl.is Ráðlagt að borða skordýr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugum að fólkinu okkar næstu mánuði

Margir spyrja núna sjálfsagt hver verða eftirköstin?  Hvaða sálræn áhrif hafa þessar endalausu hræringar á fólkið sem býr á þessu svæði? Landlæknir Sigurður Guðmundsson bendir á í viðtali við Mbl. í morgun að nú verði að fara að huga að þessum málum ekki bara núna heldur næstu vikur og mánuði. 

Það eru svo ótal margir sem geta staðið uppréttir á meðan ósköpin ganga yfir og engin skilur hvaðan sá styrkur kemur. En gleymum ekki að líkaminn okkar er eins og vél og vélina þarf að smyrja reglulega.  Ef það gleymist hættir vélin að ganga eðlilega.  

Hugum að fólkinu okkar næstu mánuði, gleymum ekki að hringja, spyrjast fyrir og aðstoða eins vel og við getum.  Lítið hvatningaorð getur gert kraftaverk.   


mbl.is Snarpir kippir í nótt og morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugurinn sækir heim á stundum sem þessum

NÚ HEYRI ÉG MINNAR ÞJÓÐAR ÞÚSUND ÁR

SEM ÞYT Í LAUFI Á SUMARKVÖLDI HLJÓÐU.

Eins og flestir landar okkar fylgdumst við með þeim ósköpum sem gengu yfir suðurlandið í gær og hugur okkar hjá þeim sem lentu í þessum náttúruhamförum.  Mildi að ekki urðu alvarleg slys á fólki. Heyrði í morgunfréttum að lítill gutti hefði fæðst fyrir austan mitt í öllum látunum. Dúlluleg frétt það.

Eftir að fréttir birtust um að sá stóri hefði líklega komið strax í kjölfarið varð manni rórra og við hættum á vaktinni um miðnætti.  Dóttir okkar er á leið austur í dag og ætlar að dvelja í sumarhúsi yfir helgina með vinum sínum.  Ekki veit ég hvernig ástandið er þar og helst hefði ég nú bara viljað vita haf henni í bænum en ætli þetta sé ekki að ganga yfir svo það þýðir ekkert að vera með einhverja móðursýki hér handan hafsins.

Kæru landar, sendum ykkur hlýjar kveðjur og hugur okkar er hjá ykkur öllum.   


mbl.is Tíðindalítil nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svokallaðar ,,partí- línur" voru algengar hér og spæjarar á hverju horni.

Um leið og ég heyri orðið hlerun fer um mig ískaldur gustur.  Áður en við lögðum leið okkar hingað til Tékklands vorum við oft gestir í sendiráði Tékkóslóvakíu í Reykjavík.  Það var altalað að hvert orð væri hlerað og hljóðnemar í hverju herbergi.  Okkur var ráðlagt að tala varlega jafnvel á okkar eigin móðurmáli því heimilisfólkið skildi meir en það vildi láta uppi í okkar ylhýra tungumáli.

Þegar við fluttum síðan hingað 1991 var maður hvergi öruggur, spæjarar í hverju horni og síminn var hleraður og það var ekkert leyndarmál á þeim tímum.  Ekki það að þetta böggaði okkur hið minnsta, okkur stóð svo nákvæmlega á sama hvort fylgst væri með okkur þar sem við höfðum ekkert að fela og síðan hefðu þeir orðið að hafa ansi færan túlk til að túlka okkar tungumál.  Ef til vill var það gert, hvað veit ég?  Hér var engin óhultur á þeim árum.

Símalínur voru fáar og ófullkomnar svo algengt var að fjórar til fimm fjölskyldur deildu einu símanúmeri.  Maður varð að sæta lagi til að ná línu út.  Um leið og maður tók upp tólið heyrði maður hvort einhver var á línunni og gat fylgst með fjörugum samræðum eða hávaðarifrildi ef maður var hnýsinn á annað borð. 

Ég skal nú samt viðurkenna að við vorum afskaplega fegin þegar ástandið fór batnandi með árunum og síminn varð okkar prívatapparat. Shocked 


mbl.is Dómarar ekki viljalaus verkfæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýning Auðar Vésteinsdóttur vel tekið hér að Listasetrinu

Vel mætt var á sýningu Auðar Vésteinsdóttur, veflistakonu hér sl. sunnudag.  Auður er búin að dvelja hér í Listasetrinu Leifsbúð undanfarnar fimm vikur og lauk dvöl sinni hér með fallegri sýningu á 20 - 25 verkum sem hún hefur unnið að þennan tíma.

Má geta þess að þegar Auður byrjaði að vinna hér voru verk hennar frekar dökk og drungaleg en eitthvað hefur litasinfónían hér í sveitinni haft áhrif því verkin fóru að taka á sig allt aðra mynd þegar líða tók á dvölina. Fólk var sammála því að mikil litagleði og hamingja ríkti í verkunum og var auðvelt að sjá hvað náttúran og birtan hér hefur haft áhrif.

Því miður erum við ekki búin að koma okkur upp vefstól hér svo verkin voru mestmegnis klippimyndir.  Það kemur e.t.v. að því að við fjárfestum í vefstól hér fyrir þá listamenn sem kjósa að nota það apparat.

Ég vil nota tækifærið hér og þakka Auði og hennar manni, Sveini fyrir skemmtileg kynni og vonum að þau hafi notið dvalarinnar hér þessar vikur. Góða ferð heim kæru vinir og sjáumst fljótlega aftur. 

  


Sorgleg grein sem vekur mann til umhugsunar

Þegar ég las þessa grein eftir Ingibjörgu S. Benediktsdóttur í morgun setti mig hljóða.  Ef þetta er staðreynd þá er mikið að í okkar fyrirmyndar þjóðfélagi.  Sem betur fer hef ég aldrei orðið að horfa upp á slíkar hörmungar í minni fjölskyldu svo erfitt er að dæma en á hinn bóginn get ég heldur ekki rengt frásögn Ingibjargar. 

Vonandi vekur þetta fólk til umhugsunar og hvet ég alla til að lesa greinina.     


mbl.is Um 20 fíklar látist frá börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband