Færsluflokkur: Vefurinn
30.6.2008 | 19:59
Dánartilkynningar á hraðbrautum Þýskalands.
Sorgleg staðreynd. Þegar við vorum í Þýskalandi um daginn og keyrðum hraðbrautina rákum við augun í ný aðvörunarskilti með vissu millibili. Þessi skilti voru svo sláandi að við hægðum ósjálfrátt á ferðinni í hvert skipti sem þau blöstu við okkur.
Þetta lítur út eins og risastór dánartilkynning. Svartur rammi, svartur kross á hvítum fleti og undir honum mynd af fjögra manna fallegri fjölskyldu síðan eftir nokkra tugi kílómetra byrtist önnur mynd af ungu pari sem klædd eru í mótorhjólabúning. Myndirnar eru risastórar og í svart hvítu. Gleði og hamingja skín úr augum þessa fólks og manni finnst eins og lífið blasi við þeim. Undir myndunum koma síðan nöfn þessara einstaklinga.
Mig minnir að ég hafi séð á Íslandi skilti sem á stóð Liggur þér lífið á, eða eitthvað í þá áttina og að mér hafi þótt þau góð á sínum tíma, en þessi aðvörunarskilti í Þýskalandi eru svo raunveruleg að jafnvel löngu eftir að þú hefur ekið fram hjá þeim þá eru þessir einstaklingar enn ljóslifandi fyrir þér og þú hefur lækkað hraðann umtalsvert.
![]() |
Hraðakstur algengast orsök banaslysa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
29.6.2008 | 19:34
Hef upplifað hér storma og flóð en ekkert eins og þetta. Við vorum í auga stormguðsins!
Það er ekki laust við að ég hafi verið komin með pínu fráhvarfseinkenni þar sem ég hef verið dálítið fyrir utan alheiminn í nokkra daga. Ekki það að ég hafi saknað ykkar neitt rosalega mikið grey skammirnar ykkar hér á blogginu, og þó.... e.t.v. pínu pons.
Í fyrsta lagi var ég mjög upptekin af því að taka á móti minni elskulegu systur, hennar ektamaka og tveimur börnum. Fimm ára og 10 mánaða. Þið skiljið að þá hefur maður meir en nóg að gera. Cheriosið, kókópuppsið, ávextir og önnur hollusta verður auðvitað að vera til á staðnum og síðan að taka fram öll leikföng og græjur fyrir þennan aldur. Síðan verður maður að vera í stuði til að ræða við fullorðna, leika við börnin og njóta samvista við fjölskylduna eins vel og maður getur. Sko þetta er full time job elskurnar en I love it!
Á miðvikudagskvöldið var ég að fara að leggja hér á borðið úti á verönd og er litið til himins og sé hvar kolsvartur himininn hvelfist yfir sveitina. Ég segi: Jæja folkens hér verður nú ekki snætt úti í kvöld. Ég rétt náði að henda inn af borðinu og taka það mesta lauslega þegar skall á hvirfilvindur eins og þeir gerast verstir. Hér varð myrkur eins og um hánótt og lætin í veðrinu voru ógurleg.
Veðrið gekk niður á hálftíma eða svo. Þegar stytti upp fórum við út að kanna skemmdir og það var ekki fögur sjón sem blasti við okkur. Hér féllu fjögur 25 metra há tré í garðinum okkar svo og þrjú þriggja ára sem ég hafði umhyggjusamlega gróðursett. Við vorum heppin að þau tré sem féllu voru það langt frá húsunum að við sluppum við skrekkinn. Sem sagt maður fór í smá Pollýönnu leik, enda var ekkert annað hægt að gera í stöðunni.
Við vorum rafmagnslaus og vatnslaus hér í tvo sólarhringa þar sem sveitin okkar varð víst verst úti. Það er hræðilegt umhorfs hér í skóginum, trén molnuðu eins og eldspítur og einhver hús urðu undir stórum trjám hér í nágrenninu. Vegir lokuðust víða en sem betur fer höfum við ekki heyrt um neinn mannskaða.
Það var langt í frá auðvelt að vera hér með lítil börn, vatns- og rafmagnslaus. Matur var farinn að skemmast í ískápunum og þetta hefði varla getað gengið lengur. Var farin að búa mig undir að flytja með alla niðrí Prag. En nú er allt komið í gott lag og við hér skötuhjúin ein í kotinu vegna þess að litla systir fór niðrí íbúðina okkar í Prag og ætlar að vera það í nokkra daga og njóta borgarlífsins. Ætli þau hafi bara ekki verið búin að fá nóg, bannað að taka mig alvarlega núna!! Heyriði það !
Sem sagt hér erum við búin að upplifa ævintýri og hamfarir síðustu daga. En nú er lífið komið í samt horf og við erum bara hress að vanda í blankalogni og heiðríkju.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hefði ég átt að vaka lengur og velta mér upp úr dögginni í nótt. Haldið þið að það hefði borið einhvern árangur, neip ætli það, heldur hefði ég átt að vakna hér í morgunsárið og láta steypiregnið dynja á mínum eðal fína skrokk þá hefði etv Jóhannes skírari séð aumur á kellu, en eins og sagan segir þá var Jóhannes skírður þennan dag og sel ég það nú ekki dýrara en ég keypti.
Ég kynntist hátíð Jónsmessunar fyrst árið 1966 en þá var ég í Noregi. Mér fannst alveg stórkostlegt að sjá eldanna sem loguðu um allar eyjar, firði og fjörur. Það var einhver dulmögnun yfir þessu svo um mann fór smá hrollur, e.t.v. var það bara næturkulið sem smaug inn undir peysuna. Nóttin var alla vega kynngimögnuð og sagt var að nornir og seiðkarlar hafi komið saman 24. júní til að fremja sín myrkraverk. Nornir flugu gandreið um himininn á meðan karlarnir göluðu sinn seið.
Sorlegt er að heyra að fólk taki slík æðisköst eins og kemur fram hér í grein Jyllands-Posten, mildi að ekki fór verr. Gæti verið að hann hafi verið hnepptur í álög af einhverju eða einhverjum? Líklega er það þannig.
Annað sem mér datt í hug af því ég er nú að bulla þetta hér. Ég heyrði einhvern tíma um jurt sem kölluð er Jónsmessugras. Mig langar svo til þess að vita hvort einhver veit um undramátt þessara jurtar og hvar eða hvort hún finnst einhvers staðar?
![]() |
Reynt að drekkja konu á Jónsmessuhátíð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
23.6.2008 | 09:09
Brynja Benediktsdóttir
Ég rifja upp í huga mér hvað fyrir bar
og leita þín í svipmynd þess, sem eitt sinn var.
Mig setti hljóða í gærkvöldi þegar við fréttum af andláti Brynju Benediktsdóttur. Það var ekki fyrr en við vorum búin að hringja heim og fá þetta staðfest að ég skildi allt í einu að þarna var farin minn góði lærimeistari og vinur. Svo ótímabært og svo snöggt.
Ekki nema nokkrir mánuðir síðan við hittumst heima og töluðum um að nú væri kominn tími til að hittast hér heima hjá okkur í Prag. Stundum er lífið svo óréttlátt og grimmt.
Elsku Erlingur minn, sendum þér og allri fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi ljós fylgja ykkur og lýsa á þessum erfiðu tímum.
![]() |
Andlát: Brynja Benediktsdóttir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.6.2008 | 09:44
Enginn veit sína æfi fyrr en öll er
Skemmtileg grein eftir Orra í Mbl. í dag. Við tönglumst oft á því að aldur sé afstæður, þá sérstaklega fólk á mínum aldri. Og það er jú orð að sönnu alla vega þegar heilsan er góð og við í góðu jafnvægi.
Fyrir nokkrum mánuðum skrifaði ég svipaðar hugleiðingar og hvort við sem nú erum komin yfir miðjan aldur kæmum til með að sætta okkur við soðninguna á elliheimilum. Eða hlusta á Hvíta Máva með Helenu okkar Eyjólfs. Nei ætli það, ég held að mín kynslóð komi til með að rísa upp á afturfæturna og heimti sitt sushi og hvítvín í hádeginu.
Reyndar þarf nú ekki mína kynslóð til að kvarta þar sem tengdafaðir minn dvelur á Eir en móðir mín er nú svo heppin að búa í sinni íbúð á Skúlagötu 20 en getur fengið mat út í næsta húsi. Þau kvarta bæði yfir bragðlausum mat og það sé ekkert fútt á þessum heimilum, en þau eru af þeirri kynslóð sem láta þetta bara gott heita kvarta ekki mikið nema bara svona sín á milli.
Ætli mín kynslóð verði líka þannig með árunum, ætli við komum til með að taka öllu þegjandi og hljóðalaust, nei ég held og vona ekki.
En því miður er það oft að ellilífeyrisþegar verða að sætta sig við örlög sín, hvort sem þeim líkar betur eða ver þá sérstaklega þegar heilsan brestur.
Þegar móðuramma mín sem þjónaði ríkisstjórninni okkar í 20 ár eða frá árunum 1948 - 1968 lét af störfum átti hún enga í búð enda alltaf búið á vegum ríkisins sem húsfrú. Bjarni Benediktsson heitinn útvegaði henni þá herbergi á Hrafnistu sem hún þáði með þökkum. Eftir það fór aðeins að halla undan fæti hjá henni og hún sem alltaf var svo kát og hress fór að fá heilablóðföll hvað ofan í annað. Eftir eitt kastið sagði hún við móður mína að hún vildi alls ekki láta planta sér inn á sjúkradeildina á Hrafnistu. Eitthvað hafði hún á móti þeirri deild en því miður fór svo að þegar hún fékk þriðja blóðfallið var ekki aftur snúið og hún var lögð inn á deildina og var þar rúmliggjandi í 10 ár.
Enginn viss hvort hún skynjaði hvar hún var en ég held samt að svo hafi verið. Grátköstin og svipurinn sagði meir en nokkur orð. Stundum átti hún góða daga og það var eiginlega bara þegar karlmenn heimsóttu hana, þá lék hún við hvern sinn fingur, hló og augun ljómuðu. Blessuð sé minning ömmu minnar góðu.
Þannig er nú það, við vitum ekki hvar við komum til með að enda eða hvort heilsa og lífskraftur fylgi okkur fram á grafarbakkann. Það besta sem við getum gert er að reyna að lifa í núinu og njóta lífsins á meðan við getum. Elska hvort annað og bera umhyggju fyrir náunganum.
Ég ætla samt að rokka og róla og borða góðan mat og njóta góðra veiga í ellinni. Hvar það verður veit ég ekki en það verður fjör þar sem ég verð. Lofa því.
Allir velkomnir á draumastaðinn minn. Læt ykkur vita þegar nær dregur hvar hann verður.
![]() |
Húðflúr, sushi og bikinivax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.6.2008 | 11:08
Alltaf verður eitthvað einhverntíma fyrst
Í gærkvöldi má segja að brotið hafi verið blað í sögunni þar sem í fyrsta skipti var haldin sameiginleg þjóðhátíð átta landa hér í Prag. Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Ísland, Eistland, Lettland og Litháen tóku sig saman og ákváðu að nú skildi halda sameiginlega sumarhátíð og var dagurinn 18. júní ákveðinn með það í huga að hægt væri að halda samkomuna undir berum himni.
Þessi hugmynd kom upp einhvern tíma þegar tveir sendiherrar voru að tala um hversu ótækt það væri að halda stórar móttökur á þjóðhátíðardag þjóðanna. Allar þjóðir eru með nokkurn vegin sama boðslista svo þessi hugmynd var alls ekki galin. Margar þjóðir hafa hætt við þessar stóru móttökur þar á meðal við Íslendingar vegna hins gífurlega kostnaðar sem slík boð hafa í för með sér.
Að sjálfsögðu þarf að undirbúa svona samkvæmi með löngum fyrirvara en þegar átta lönd sameinast verður verkið léttara.
Boðið í gær var haldið í garðinum við Kampa Museum og við áætlum að milli sex og sjö hundruð manns hafi glaðst með okkur þarna í gærkvöldi. Það var söguleg stund að sjá alla Sendiherra ríkjanna og General Consul Íslands standa þarna í handabandamóttökunni. Þau stóðu undir fánum landanna og voru stórglæsileg.
Sendiherra Svía setti hátíðina og síðan hélt prodokolmeistari Tékkneska utanríkisráðuneytisins stutta tölu þar sem hann lýsti ánægju sinni með þetta framtak okkar. Annars voru allar ræður afþakkaðar. Okkar eina og sanna Diddú söng síðan nokkur lög á íslensku, sænsku og norsku þar sem við vorum svo heppin að hún var hér á söngferðalagi. Takk fyrir það Diddú mín og Steinunn.
Veislugestir nutu sumarblíðunnar og mikil og góð stemmning myndast þegar líða tók á kvöldið.
Við sem stóðum að þessari hátíð vorum sammála um að slíkar sameiginlegar móttökur kæmu til með að vera. Ekki nokkur spurning og þætti okkur ekki ólíklegt að fleiri þjóðir tækju upp þennan sið í náinni framtíð.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.6.2008 | 23:47
Diddú söng sig inn í hjörtu allra hér í kvöld
Hvað er hægt að hugsa sér betri Íslandskynningu en að fá okkar ástsælu sópran söngkonu til að halda uppi tónleikum á þjóðhátíðardaginn okkar! Diddú var perla okkar hér í kvöld og ljósmyndarar kepptust um að mynda hana í bak og fyrir eftir stórkostlega tónleika hér í Rudolfinum.
Divan okkar var númer eitt og ekki spillti undirleikari hennar hún Steinunn Birna Ragnarsdóttir. Þær stöllur komu fram hér í kvöld á sameiginlegum tónleikum Tyrkja og Íslendinga. Öllum fyrirmönnum þjóðarinnar var boðið og salurinn var þétt setinn bæði uppi og niðri.
Tyrkir byrjuðu konsertinn og komu þar fram ágætlega frambærilegir tónlistamenn, flautuleikari sem ég kunni nú ekki alveg að meta enda var tónlistin afskaplega Tyrknesk en síðan kom mjög svo frambærilegur píanisti sem skilaði vel Mozart.
Eftir hlé kom að okkur Íslendingum og stigum við hjón saman á svið og buðum gesti velkomna og sögðum lítileiga frá því að nú væri haldinn þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Síðan kynntum við þær stöllur Diddú og Steinunni og óskuðum fólki góðrar skemmtunar.
Steinunn Birna byrjaði á því að spila verk eftir Dvorsák og síðan sigldi okkar eina og sanna sópransöngkona inn á sviðið. Diddú byrjaði á því að syngja nokkur nokkur Íslensk lög og í lokin tók hún með hljómsveitinni aríu úr LaTraviata
Við áttum kvöldið! Eftir tónleikana buðum við um 80 manns til smá samsætis í forsetasalnum þar sem fólki gafst kostur á að hitta listamennina. Það fór ekkert á milli mála við stóðum með pálmann í höndunum í kvöld!
Takk elsku Diddú mín og þakka þér fyrir að tileinka mér eitt lagið á tónleikunum. Við erum báðar svo elskar Halldóri okkar Laxness enda varstu bara smá písl þegar við hittumst fyrst í Brekkukotinu.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.6.2008 | 07:33
Gleðilega hátíð góðir landsmenn nær og fjær
Hæ hó Jibbí jey! Hér brosir sólin og allir eru í þjóðhátíðarskapi. Ja eða svo held ég hef nú ekki séð neinn nema hundinn hér í morgun. Minn elskulegi löngu farinn að undirbúa daginn niðrí Prag.
Hátíðahöldin byrja hér ekki fyrr en í kvöld en þá heldur okkar eina og sanna Diddú konsert hér í Rudolfinum tónleikahöllinni. Á morgun verður síðan haldið rækilega upp á daginn en ég segi ykkur frá því seinna.
Sendum ykkur öllum, fjölskyldu, vinum og öðrum landsmönnum hvar sem þið eruð stödd í heiminum okkar bestu kveðjur í tilefni dagsins. Vonanadi skín sólin líka á ykkur í dag og allir í góðum þjóðhátíðarfíling til bæja og sveita.
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.6.2008 | 18:51
Allt að verða hið dularfyllsta mál.
Elskurnar mínar ekki skjóta bangsa en ef þið komist ekki hjá því þá bið ég ykkur að setja ekki fleiri hryllingsmyndir í fjölmiðla landsins. Þetta berst svo fljótt yfir hafið og við hér fengum slatta af skömmum frá Tékkum sem fannst við haga okkur ansi bjánalega í viðureigninni við síðasta gest okkar frá Grænlandi. Hum ég sægi þá nú mæta skógarbirni hér, ætli þeir hefðu ekki gripið til byssu ég er nú ansi hrædd um það.
Nú getum við átt von á fleiri Bangsimonum í heimsókn á næstunni, ja alla vega ef mark er takandi á draumi Sævars bónda á Hrauni í Skagafirði þar sem hann sá í draumi þrjá bangsa á göngu. Þetta er að verða allt hið dularfyllsta mál. Síðan kemur frétt um að báðar stúlkurnar sem fyrstar urðu varar við Bangsimonana heita báðar því fallega nafni Karen. Svo nú bíðum við spennt hvaða Karen kemur til með að sjá þann þriðja á vappi.
En svona án gríns, ekki drepa Bangsimon nema í neyð.
![]() |
Reynt að ná birninum lifandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
15.6.2008 | 12:23
Gömul ísvél og gullhringar á fingur
Fyrir nákvæmlega 34 árum vaknaði ungur maður við hlið kærustu sinnar sem enn svaf vært. Hann fór varlega fram úr rúminu, klæddi sig hljóðlega, smellti koss á kinn sinnar elskulegu og hvarf út um útidyrnar. Settist inn í gamlan gulan Volkswagen og keyrði sem leið lá úr Breiðholtinu og niður í bæ.
Nú skildi fjárfesta í ísvél, ekki nýrri enda fjárhagurinn ekki bæsinn en kæmi sér vel á veitingastaðnum þar sem 17. júni var á næsta leiti og uppgripsdagur fyrir veitingamenn.
Upp í leiguíbúðinni í Dvergabakkanum vaknaði unnustan og brosti framan í heiminn. Í dag var dagurinn þeirra. 15. júní 1974. Þetta var mildur sumardagur, smá skýjað en það gerði ekkert til bara að hann færi nú ekki að rigna. Unga konan klæddi sig og og gjóaði augunum á kjólinn sem hékk á herðatré á fataskápnum. Fallegur síður kjóll, ekki hvítur heldur í mörgum fallegum pastellitum vegna þess að kona var ekki einsömul og það þótti ekki við hæfi að ganga í það heilaga þó aðeins þrír mánuðir væru liðnir á meðgönguna. En áður en hún ætlaði að klæðast þessum kjól var haldið til hárgreiðsludömu í næsta nágrenni. Í þá daga var ekki mikið um að farið væri í handsnyrtingu, ljósabekki eða förðun, nei bara það allra nauðsynlegasta var látið duga.
Um tvö leitið byrtist brúðguminn aftur heima með brúðarvöndinn sem hann hafði náð í á heimleiðinni. Var þá búinn að tengja ísvélina og íshræran komin á sinn stað svo nú færu seðlarnir að halast inn. Brúðurin var komin í kjólinn og var að maskara á sér augun og setja punktinn yfir Iið.
Man nú ekki alveg um hvað var rætt en örugglega var það ísvélin góða sem var enn hápunktur dagsins. Brúðguminn skveraði sig í sturtu og klæddi sig í smókinginn og um hálf þrjúleitið héldu brúðhjónin saman til kirkjunnar. Man eftir að mér var oft litið til himins á leiðinni var svolítið hrædd um að hann færi að rigna og það mátti bara alls ekki.
Þegar við stigum út úr bílnum við litlu Árbæjarkirkjuna tóku á móti okkur fámenn fjölskylda og presturinn Sr. Halldór Gröndal. Það hvessti skyndilega svo brúðurin var í vandræðum með að halda þunnum siffonkjólnum í skorðum. En í miðri athöfn fór sólin að skína og geislarnir þrengdu sér inn um litla kirkjugluggana.
Það er oft sagt að hjónabandið þróist eins og veðurfar brúðkaupsdagsins. Sumir vilja halda því fram að þetta séu eintómar kerlingabækur en ef ég á að vera hreinskilin þá held ég að okkar hjónaband hafi mótast dálítið eins og veðrið þennan dag. Það hefur verið ansi vindasamt á stundum en nú í dag skín bara sólin.
Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)