Færsluflokkur: Spaugilegt

Pákuleikarinn og Páfuglar Tékknesku sinfóníunnar.

Hver nema ég gæti fengið hláturskast  í miðri sinfóníu Brahms, nánar tiltekið þegar Tékkneska sinfónían spilaði Allegro non troppo kaflann fyrir troðfullum áheyrandasal.  Þarna sat ég eins og fífl og hristist af hlátri innra með mér, OK ég gat sem betur fer hamið það að hljóðið bærist út úr búknum, en augnatillitið sem minn elskulegi sendi mér sagði allt sem þurfti:

Reyndu nú að hemja þig manneskja, það er bara ekki farandi með þig innan um fólk.  Þetta er kultúrkvöld, ekki trúðaskemmtun! 

 Við vorum sem sagt stödd á tónleikum í boði sendiherra Lettlands þar sem m.a. var frumflutt verk eftir Lettneska tónskáldið Péteris Vasks. Tónleikarnir byrjuðu á undurfögru verki eftir Haydn og síðan kom verk Mr. Vasks sem var bara virkilega gott miða við að ég er ekkert sérlega hrifin af nútímatónlist. 

Í hléi var síðan dreypt á kampavíni eins og tilheyrir á svona stundum og ég veit ekki hvort það var vínið eða Brahms sem fengu mig til þess að hætta að fylgjast með tónlistinni.  Sumum sem leiðist á tónleikum fara að telja hljóðfæraleikarana en ég dundaði mér þarna við að grandskoða múnderinguna á kvennaliði hljómsveitarinnar.

Eitthvert þema var þarna örugglega í gangi því allar höfðu saumað hárautt siffon hingað og þangað á svarta síða kjólana og litu út eins og páfuglar með fiðlur.  Hræðilegt að sjá þetta drusluverk bylgjast með hreyfingum hvers og eins.  E.t.v. hefur þetta verið gert í tilefni páskanna en þvílíkt mislukkað dæmi.

Þetta var nú samt ekki það sem vakti kátínu hjá mér heldur var það yndislegi pákuleikarinn sem trónaði þarna aftast.  Ungur og örugglega mjög efnilegur maður en gat bara ekki hamið tilfinningar sínar. 

 Þarna stóð hann í öllu sínu veldi og lifði sig þvílíkt inn í verkið að hann var farinn að stjórna öllum í hljómsveitinni með höfuðhneigingum til hljóðfæraleikaranna þegar þeir áttu að koma inn.  Andlitið gekk í bylgjum og einstaka sinnum sýndist mér hann tralla með.  Þegar hann fékk svo tækifæri á að koma inn sjálfur og sýna getu sína þá var það gert með þvílíkum tilþrifum að maður bjóst við að kjuðarnir myndu skoppa úr höndunum og lenda bein í hausinn á stjórnandanum.  Aumingja drengurinn var svo gjörsamlega ómeðvitaður um þessa tilburði sína og naut sín svo fullkomlega þarna að það hálfa var nú nóg.

Þetta voru sem sagt hálfgerðir trúðaleikar sem við fórum á í gærkvöldi.   Mime 

 

 

      


Hafragrautur veldur símatruflun

Svona atvik eru bara til þess að lífga upp á hversdaginn og koma manni í gott skap. Þannig var að ég var að tala við tengdadóttur mína áðan í símann og við bara svona að blaðra um daginn og veginn.  Á meðan á samtalinu stóð heyrði ég að hún var að smjatta á einhverju mjög gómsætu. 

Allt í einu heyri ég mikla skruðninga og spliss, splass, blobb,blobb, blobb. 

 Ég spyr: Hæ ertu þarna? 

Löng bið og ekkert heyrist nema blobb,blobb,blobb.

Ég:  Halló!

Loksins heyri ég í minni og mikið pat í röddinni:  Já, hæ er hérna, en ég missti símann ofan í hafragrautinn. Verð að fara að gera eitthvað í þessu sulli hér. Pinch  Heyrumst.

Ósjálfráð viðbrögð mín voru þau að færa símann í flýti frá eyranu og ég horfði á tækið eins og ég byggist við því að grautargumsið kæmi vellandi út úr tólinu.  Þoli nefnilega ekki hafragraut. Sick

 

 

 

 


Fengu hláturskast

Írskir vinir okkar, sem við sátum með í kvöld skemmtu sér vel þegar ég sagði þeim frá fréttinni um söngbannið á þeirra fræga lagi ,,Danny Boy" á St. Patricks Day á Manhattan.  Þau gjörsamlega veltust um af hlátri og höfðu aldrei heyrt annað eins bull.  Að þetta fræga lag væri sungið við jarðafarir er þvílík firra að það nær engu tali. 

 En svona geta menn droppað upp með skemmtilegar hugmyndir til þess eins að koma sér á framfæri.  Gott hjá þessum knæpueiganda, það verður örugglega brjálað að gera hjá honum á St. Patricks Day, ekki spurning. 

 


mbl.is „Danny Boy“ bannaður á degi heilags Patreks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7 - 9 - 13 og síðan allt búið

Já þetta datt mér í hug, það er algjör vitleysa að vera að drolla þetta.  Veit nú samt ekki hvort minn elskulegi samþykkir þetta svona einn tveir og þrír en næst þegar ,,messað" verður hér þá er það ekki spurning ég verð á klukkunni og 7 - 9 - 13, allt bú!Tounge

Asskotans vitleysa er þetta LoL og þó? Undecided


mbl.is Kynmök taki sjö til þrettán mínútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðfyndinn bæjarstjóri

Jæja vinur, nú skalt þú bara halda í líftóruna.  Mér er alveg sama hvernig þú gerir það en þú vogar þér ekki að hrökkva upp af.  Það er nefnilega ekkert pláss í kirkjugarðinum. 

 Við getum svo sem holað þér hér utan garðs en erum skíthrædd við að þú takir þá upp á því að ganga aftur og hrella bæjarbúa og það viljum við ekki, svo þú skalt bara verskú tóra þar til við gefum þér grænt ljós lagsmaður.   

Hvernig og hvar hefur hann hugsað sér að framliðnir taki út refsinguna, á himni eða jörð? LoL


mbl.is Gjörið svo vel að deyja ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta, önnur og þriðja position

Lögreglan í Timisoara dansar nú á hverju götuhorni eftir glymjandi Tschaikowsky úr Ipodinum.  Pligée og allar positionir teknar eftir kúnstarinnar reglum enda allir búnir að fara á ballettnámskeið. 

 Einn vörður laganna tekur sig til og skellir sér í táskóna og dansar Svanavatnið af mikilli innlifun svo umferðahnútar myndast við hringtorg borgarinnar.  Kollegi hans sér að þetta er að fara út í algjöra vitleysu og þeysist út á eyjuna við torgið  til að bjarga málunum.  Sér hann ekkert annað í stöðunni en að taka nokkur þeysistökk úr Hnotubrjótnum.

 Ökumenn eru nú farnir að ókyrrast, sumir komnir út úr bílunum en aðrir þeyta hornin.  Enginn kemst lönd né leið fyrir dansandi lögregluliði og hvað er þá hægt að gera í stöðunni annað en njóta sýningarinnar og klappa síðan léttfetum lof í lófa að sýningu lokinni. Allir hvort sem er orðnir of seinir á sitt stefnumót og þetta eru jú verðir laganna sem þarna eru að troða upp og ekki skammast maður út í þá eða hvað?           


mbl.is Lögreglumenn læra ballett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sápustríðið herjar á fleiri stöðum

Sá þessa undarlegu frétt ef frétt skildi kalla í morgun og af því að hún hangir enn inni (skil ekki hvað er málið) þá langar mig til að upplýsa ykkur um það að nú er að skella á sápustríð um gjörvalla Evrópu. Allir sem vettlingi geta valdið hella sér í stórþvotta með Ariel Ultra, Ariel Mountain og Ariel Color.  Sápulöðrið flæðir hér hvarvetna úr hýbýlum manna svo fólk á fótum sínum fjör að launa og kerlingar standa kófsveittar yfir þvottavélum og suðupottum og sést ekki til sólar fyrir mjallahvítum þvotti sem blaktir hér í vorgolunni eins og gunnfáni við hvert heimili.

Jú, jú hér fóru þeir líka hamförum, Proctor & Gamble og bjuggu til fjöll af þessu undra þvottaefni í öllum helstu stórmörkuðum Tékklands.  Hvað er svona merkilegt við það? Stórfrétt í Mbl. tekið beint úr Aftenposten.  Sápustyrjöld yfirvofandi!  Halló það vita allir sem hafa haft einhver kynni af Norðmönnum að þeir elska sitt OMO og fara nú varla að skipta um tegund eins fastheldnir og þeir eru. 

Ég skildi þessa herferð hér ósköp vel vegna þess að í dag flæðir inn í landið allskyns hreinlætisvörur sem Tékkar hafa litla sem enga þekkingu á svo fyrir mér var þetta ósköp eðlileg sjálfsbjargarviðleitni af hálfu P & G. 

Þegar við komum hingað 1991 var aðeins hægt að fá eina tegund þvottaefnis, man nú ekki hvað það hét en flestir keyptu bara þessa gömlu grænsápu svo og það sem við kölluðum Sólskinsápu þegar ég var að alast upp.  Mörg heimili suðu sína eigin sápu og hér var enginn sóðaskapur á heimilum.  Tékkar eru mjög þrifin þjóð og hvergi voru eins hreinar gardínur fyrir gluggum og hér.  Allir áttu eins gardínur og allar voru þær mjallahvítar.  Sápa var munaðarvara og ef þú komst inn á almenningssalerni þá var sápan í neti sem var kirfilega fest við vegginn, stundum með hengilás.

Einu sinni spurði ég konu hér hvert ég gæti farið með fötin mín í hreinsun.  Hún hafði aldrei heyrt um fatahreinsun svo ég spurði ,, Nú hvað gerir þú þá við t.d. jakkaföt mannsins þíns?"  ,,Ég þvæ þau í höndunum heillin"  svaraði hún og brosti svo skein í skemmdar tennurnar. Svona var nú þetta 1991 en hvort Arial eða Persil kemur til með að koma á einhverri sápustyrjöld hér það stórefa ég.

Datt þetta bara svona í hug þegar ég sá þessa bjánalegu frétt um yfirvofandi sápustríð í Noregi Tounge

 

 

 


mbl.is Nýtt sápustríð yfirvofandi í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn góður með morgunsopanum

Vinurinn hringdi í æskuvininn og spurði frétta

Æskuvinurinn ,, Nú bara allt ágætt"

Vinurinn:  ,, er ég að trufla þig"

Æskuvinurinn: ,, ha, nei, nei ég er bara að hugsa um heimilið"

Vinurinn:  ,,Nú hvar er konan, erlendis"?

Æskuvinurinn:  ,,Nei, hún er heima, bara svona að dúlla sér"

Vinurinn:  ,,Nú OK, og þú að hugsa um heimilið?"

Æskuvinurinn: ,, Jamm, ligg hér bara uppí sófa og hugsa um heimilið"


Furðuheiti manna og dýra

Ég þoli ekki nafnið mitt.  Þessu var klínt á mig þriggja mánaða gamalli og það eina sem ég gat gert til að mótmæla var að grenja hástöfum og af einskæru tillitsemi við mína nánustu hef ég ekki viljað gera stórt mál vegna þessa klúðurs sem gerðist fyrir miðja síðustu öld.  

Dýranöfn geta líka verið afskaplega villandi.  Þegar við bjuggum í Fossvoginum fyrir allmörgum árum flutti fólk í götuna fyrir ofan okkur og mér vitandi áttu þau tvo unglingsstráka og eina litla dömu. Á hverju kvöldi heyrði ég í frúnni þar sem hún stóð úti á svölum og kallaði hástöfum ,, Ragnar Magnús komdu að borða!" 

 Eftir nokkra mánuði hittumst við, ég og þessi tiltekna frú svo ég fer að spyrja hana hvað börnin séu gömul og hvað þau heiti.  Fékk ég að vita að drengirnir hétu Jón og Páll, man það nú ekki svo glöggt núna en dóttirin héti Þórhildur.

 ,, Aha og eigið þið svo þriðja strákinn?" 

 ,,Ha nei bara þessi þrjú" 

Ég hugsaði, ekki er hún að góla á kallinn sinn á hverju kvöldi svo ég spurði:

,,Nú en hver er Ragnar Magnús?"

,, Æ það er kötturinn okkar"

Eftir að ég heyrði um þetta furðuheiti kattarfjandans þá hætti ég að furða mig á öllum afbrigðilegum nöfnum hvort sem það voru dýra eða mannanöfn.

       


mbl.is Piu og Sven hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búin að panta með fyrstu ferð

Jahá, svo nú er bara að panta far og drífa sig með nektarfluginu.  Allir karlar á sprellunum og konur, væntanlega þýskar, með skúfana undir handarkrikunum.  Allir í stuði og þambandi bjór eða þýsk vín sem síðan klístrast við evu og adamsklæðin þegar hellist úr glösum í þyngdarleysinu jóðlandi á tyrólsku. 

 Áhöfnin eins of fífl innan um hin fíflin kappklædd og uppástrokin með flugþjónabros á vörum biðja farþega vinsamlegast um að spenna sætisbeltin fyrir lendingu, sem koma til með að límast óþyrmilega fast við klístraða líkama.  Það fylgir nú ekki fréttinni hvort farþegar mæti naktir á áfangastað eða þeim verði gefinn kostur á að koma sér í larfana áður en stigið er frá borði.

 Ekki spurning ég panta ferð hvert á land sem er, ekki seinna en núna!ToungeLoL


mbl.is Óvenjuleg ferðamennska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband