Færsluflokkur: Ljóð

Gleðilega hátíð

Gleðilega páska

Vorið 2009 016

 

Þegar vorar fjörgast flest

fæst vart stund til náða

í hug mér ómar heima er best

og hvetur mig til dáða.

Bestu kveðjur til ykkar allra héðan frá Stjörnusteini.

Njótið dagsins við störf og leik hvar sem þið eruð stödd í heiminum.


Ljóð að morgni

Þetta ljóð kom til mín með póstinum í gær sent frá skólasystkinum mínum Kristjönu og Pétri Maack. Takk kæru vinir fyrir hlýjar kveðjur.

Langaði að deila þessu með ykkur þar sem mér fannst það eiga svo vel við núna á þessum fallega föstudagsmorgni. 

 

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður

vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður

Ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það 

hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

 

Ég ákveð því að velja að vandamálin fá

vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá

tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti

ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

 

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur

faðma þennan morgun og allar hans rætur

hita mér gott kaffi af kærleik þess ég nýt

kex smyr með osti í blöðin svo  ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest

þetta er góður dagur, hafðu það sem best.

Ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni

ég faðmlag þér sendi og kveð þig að sinni.

Höf. ókunnugur

 

 


Senn kveðjum við árið 2008

Hér næða engir vindar.  Það er froststilla og sólin skín hér á milli trjátoppa. Síðasti dagur ársins ætlar að kveðja með því að skarta sínu fegursta vetrarveðri hér að Stjörnusteini.

Við tölum um að nú fari daginn að styttast um hænufet.  Árið 2008 fannst mér nú ekki fara hænufetin.  Leið allt of hratt að okkar mati.  Sjálfsagt er þetta aldurinn sem farinn er að segja til sín. 

Árið hefur verið okkur gott og gjöfult og margs að minnast og þakka fyrir.

Þessi áramót verða sjálfsagt aðeins öðru vísi en undanfarin ár þar sem við höfum alltaf haldið áramótin niðri í borginni meðal fjölda vina og stundum ættingja en nú verðum við aðeins fimm hér í sveitinni. Egill og Bríet koma síðan á morgun og gleðjast með okkur.  Þannig að við ákváðum að kveikja ekki í brennunni fyrr en þá svo allir geti notið.

Á tímamótum verð ég alltaf dálítið meir og vatna músum yfirleitt um tólf þegar við syngjum saman Nú árið er liðið í aldanna skaut.  Það er eins og ég eigi alltaf jafn erfitt með að skilja við gamla árið.  Hef nú samt aðeins lagast með árunum sem betur fer.  Kallar maður það ekki að þroskast frá hlutunum. Held það bara dúllurnar mínar. 

 

ÁRAMÓT

Senn kveðjum við árið og höldum á framandi haf

hins hverfula rúms og tíma.

En gætum þess fengs er forsjónin okkur gaf

uns fellur hin hinsta gríma.

Og árin þau hverfa eitt og eitt og aldirnar renna sitt skeið

en minningar lifa og saga er sögð af samfelldum ættarmeið.

 

Hvert mannslíf er hlekkur í mannfélagskeðju

þar megnum við lítls sérhvert.

Af örlögum hent í allskyns hrúg eða beðju

og enginn fær við því gert.

Við vitum ei gjörla hvar markað er spor eða bás

í margslungnu flakki í tímans eilífu rás.

 

En þrátt fyrir óvissu um allt sem er hulið sýn

og enginn getur veitt við spurnum svör.

Þá er og verður óhögguð vissa mín

að áfram sé mörkuð leið og ákvörðuð för

því færi ég þökk fyrir samveru síðustu ár

samferðafólki nýjárssól skíni klár.

S.A.S.

Sendum ykkur öllum bestu óskir um gæfuríkt komandi  ár héðan frá Stjörnusteini.

Megi nýja árið færa ykkur allt það besta sem völ er á.

 

 

 

 

 

 

  


Jólakveðja frá Stjörnusteini - Tékklandi

Gamla torgið jólin 2008 019

Hækkar senn á himni sól

hnekkir myrkra valdi svörtu

beri þessi blessuð jól

birtu og frið í ykkar hjörtu.

Nú senn líður að hátíð ljóss og friðar.  Héðan úr sveitinni okkar sendum við öllum ættingjum og vinum, bloggvinum og ykkur öllum sem komið hafa við hér á síðunni minni á árinu hugheilar óskir um gleðileg jól.

Gamla torgið jólin 2008 018

Megi gleði ríkja á hverju heimili og friðarljós lýsa ykkur hvar sem þið eruð í heiminum.

Gamla torgið jólin 2008 001

Vil þakka öllum mínum bloggvinum ánægjuleg kynni á árinu sem er að líða.

Gamla torgið jólin 2008 022

Blessun fylgi ykkur öllum á nýju ári 2009!

Ía og Þórir Gunnarsson

Stjörnusteini - CZ. Sternberg - Tékklandi.

 

 


Haustljóð skáldsins færði okkur kyrrð og ró hér í kvöld.

Skáldið, Jóhann Hjálmarsson hallaði sér makindalega aftur í hnausþykkan leðurstólinn með gleraugun á nefinu og las upp úr síðustu bók sinni sem gefin var út 2003. Kertin á borðinu flögruðu í takt við ljóðlínurnar. Við erum stödd í Listasetrinu okkar Leifsbúð.

Nóttin var dimm en inni var bjart og hlýtt.  Við sem nutum þessa upplesturs vorum aðeins þrjú, ég, Þórir og eiginkona skáldsins Ragnheiður. Við hölluðum okkur aftur með rauðvín í glösum og hlustuðum á skáldið fara með ljóðin sín.  Fyrst þau gömlu en síðan ný sem hann hefur samið hér undanfarnar vikur.  Ljóðin hans Jóhanns eru svo myndræn að ég var komin hálfa leið í gönguferð hér um nágrennið á stundum. 

Ekkert þykir mér betra en að hlusta á skáldin fara með sinn eigin kveðskap eða ritverk sama hversu góðir flytjendur eru þá jafnast ekkert á við það að hlusta á meistarana sjálfa.  Merking orðanna verður aldrei sú sama jafnvel þó okkar færustu listamenn fari með ljóð eða lesi úr ritverkum.

Verð að geta þess að Erró okkar sem telst til einstakra hunda, listelskur og næmur settist niður með okkur og góndi upp í skáldið og hlustaði dolfallinn.  Hef alltaf sagt að þessi hundur ber nafn með réttu.

Kvöld sem þetta gleymist seint.  Ég finn það svo vel núna hvað ljóðið gefur okkur mikið ef við hlustum.

Hlakka til að fá í hendurnar næstu ljóðabók sem samin var hér í Bohemiu. 

 

 

 

 


Horfum til framtíðarinnar og verum jákvæð.

Loksins kom eitthvað jákvætt í fréttum og á rektor Háskóla Íslands hrós skilið fyrir að ætla að leggja aukna áherslu á nýsköpunarverkefni á vegum vísinda og fræða á komandi ári. 

Þetta litla ljóð er búið að sitja fast í mér í nokkra daga svo ég ætla að láta það fylgja hér með.

 

AÐEINS EITT LÍF 

 

Við erum ekki með níu líf

eins og James Bond eða köttur

 

við erum sannast sagna

aðeins með eitt líf

svo vitað sé með vissu

 

því skaltu nú hætta

   að mæla flest í hljóði

 

að sofa kastalasvefni

bíðandi eftir kossinum

sem öllu muni breyta

 

að láta þvottavélar

samvisku þinnar

þeytivinda blóðið

úr lífæðunum

 

já hættu líka að ganga

ávallt troðnar slóðir

 

farðu heldur kattarstígana

ósýnilegu, spolausu

sem liggja hér og þar

gegnum skrifuð og óskrifuð

ævintýri

 

þú munt reyndar ekki eignast

neitt af níu lífum kattarins

 

en lætur þér eflaust nægja

 

ævintýrin.

Úr ljóðabókinni Öskudagar eftir Ara Jóhannesson

 


mbl.is Háskólinn mun svara kalli samtímans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir frá Listasetrinu Leifsbúð

Í gærkvöldi komu síðustu ábúendurnir að Listasetrinu þetta árið.  Jóhann Hjálmarsson skáld og kona hans Ragnheiður en þau dvelja hér næstu sex vikurnar. Hjartanlega velkomin kæru hjón.

 Það var eins og sveitin biði þau líka velkomin þar sem litaskrúð haustsins var með eindæmum fallegt í dag.  Hér blakti ekki hár á höfði og hitinn fór yfir 19° um miðjan daginn.  

Vonum að dvölin  hér verði ykkur ánægjuleg, sveitin okkar og setrið veiti ykkur innblástur og skjól.


Í ,,útlegðinni" en hér á ég heima

Í gær voru mér tileinkaðar nokkrar línur úr ljóði Jóns Helgasonar hér á blogginu.  Þessi fallega kveðja kom frá Hallgerði Pétursdóttur bloggvinkonu minni.  Þetta yljaði og gladdi mig mikið.

  Það er ekki á hverjum degi sem kveðjur berast hingað sem gefa manni tilefni til að setjast niður og hugsa, hvað er ég að gera hér, hver er tilgangurinn, er það þetta sem ég vil, hverju er ég að missa af, eða er ég að missa af einhverju, síðan falla eitt og eitt tár bara svona alveg óvart. 

Sogið er pínu upp í nefið og þessi leiðinlega kerling ,,heimþráin"  er hrakin burt með löngu andvarpi sem berst út í nóttina og fáir eða engin heyrir.  

Maður vaknar að morgni, sólin skín og fuglarnir kvaka sitt dirrindí, nýr dagur með nýjum verkefnum en enn yljar kveðjan hennar Hallgerðar mér um hjartarætur.

Lífið er yndislegt  og hér á ég heima. 


Þessi upprúllaði guli úrelti pappír í páskaeggjunum er ekki lengur findinn

Eftir að hafa opnað tvö míní páskaegg í dag fór ég að hugsa um hvers vegna í ósköpunum er verið að setja þessa hundleiðinlegu, úreltu málshætti inn í eggin.  En allir lesa þetta og alltaf með jafn mikilli tilhlökkun en síðan kemur skeifa í munnvikin.  Æ, sama og í fyrra eða æ, sama og þú.

Það er hefð hjá okkur í fjölskyldunni að lesa málshættina sem við fáum en þetta er orðið svo hundleiðinlegt.  Engum stekkur bros, allir sitja og bíða eftir að komi að sér og stundum þarf maður ekki annað en að lesa fyrsta orðið.  Að sjálfsögðu kann maður flesta málshætti utanbókar.  Svo er ekki kominn tími til að lyfta þessari hrútleiðinlegu lesningu upp í skemmtilegheit

Hvar eru allir vitringarnir, íslenskufræðimennirnir, séníin sem lifa þarna uppi heima á landinu góða.  Hefur engum dottið í hug eða fundið betri málshætti en það sem hefur gengið hér mann fram af manni já alla vega síðan ég man eftir!  Einstaka egg eru með málshætti sem eru afbökun úr erlendu máli og höfða alls ekki til okkar og eru jafnvel hreint út sagt óskiljanlegir.

Einn frábær bloggari afbakaði íslenskan málshátt hér á blogginu ekki alls fyrir löngu og ég skellihló.  Þarna var eitthvað alveg nýtt en með sömu meiningu. Bara á léttari nótunum. 

Þið ágætu rithöfundar og aðrir góðir pennar.  Hefur engum dottið í hug að fara til Nóa Sirius og uppfæra gulu miðana?  Hérna er kærkomið tækifæri fyrir ykkur að stórgræða, en súkkulaðifyrirtækin  gætu e.t.v. verið treg í fyrstu því það þarf að prenta nýja gula miða en þegar uppi er staðið þá koma allir til með að hagnast á þessu, ja nema neitendur en það er bara allt annað mál. Það glepja allir við nýungum ekki satt.

Bara hugsið ykkur, auglýsing hjá Nóa Sirius eða annarri súkkulaðifabrikku. 

 Nýjir málshættir að hætti nútímafólks!  Halló koma svo.......

 NÝJA OG FINDNA MÁLSHÆTTI FYRIR NÆSTU PÁSKA! Too Funny 

 


Fengu hláturskast

Írskir vinir okkar, sem við sátum með í kvöld skemmtu sér vel þegar ég sagði þeim frá fréttinni um söngbannið á þeirra fræga lagi ,,Danny Boy" á St. Patricks Day á Manhattan.  Þau gjörsamlega veltust um af hlátri og höfðu aldrei heyrt annað eins bull.  Að þetta fræga lag væri sungið við jarðafarir er þvílík firra að það nær engu tali. 

 En svona geta menn droppað upp með skemmtilegar hugmyndir til þess eins að koma sér á framfæri.  Gott hjá þessum knæpueiganda, það verður örugglega brjálað að gera hjá honum á St. Patricks Day, ekki spurning. 

 


mbl.is „Danny Boy“ bannaður á degi heilags Patreks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband