Færsluflokkur: Samgöngur
22.4.2010 | 16:24
Ég er eins og hinir hrafnarnir nema ég er mörgum sinnum stærri
Hann blaktir hér fallegi fáninn okkar fyrir utan gluggann minn og er í fullkomni setteringu við dimmbláan voginn sem næstum er spegilsléttur.
Það hefði verið gaman að hafa hér teljara við höndina í dag og taka tölu á öllu því iðandi mannlífi sem nýtir sér góða veðrið, gangandi, hjólandi nú eða hlaupandi hér út um allar trissur.
Eins og margur veit þá er ég nú ein af þessum göngufríkum og tek mína klukkustund eða meir á hverjum degi mér til heilsubótar. Og vegna þess að ég er að segja ykkur þetta þá ætla ég að vara ykkur líka við. Það er ekkert ólíklegt að fólk skoði mig sem dálítið furðuverk þar sem ég lít út eins og risa stór hrafn þar sem ég arka í skósíðri skepnunni minni með eldrauða húfu frá húfum sem brosa. Múnderingin er hrikaleg skal ég segja ykkur en mér er hlýtt og það er auðvitað fyrir öllu.
Ég komst að því um daginn að ég gæti komist inn á lóðina hjá gömlu skóræktinni og gengið þar óhindrað. Þá byrjar ballið skal ég segja ykkur. Þá fer Hrafninn á stjá og gerir æfingar með fótum, höndum og beygi og toga með stafnum eins og ég vilji bara takast á loft með hinum fuglunum. Kolsvartur minkurinn slæst um mig þegar ég geri fótsveiflur og rauða skotthúfan dinglar á nauðasköllóttri kerlingunni
Einn daginn verð ég sótt og lokuð inni, ég sver það!!!!!!!! En þangað til ætla ég að halda uppteknum hætti. Munið þið ekki eftir í gamla daga að það voru svona nornir eins og ég á sveimi út um allan bæ og krakkar voru skíthrædd við þær, nú er ég ein af þeim þessum skrítnu!!!!
Jæja elskurnar mínar sýnið mér umburðalindi og ég skal lofa að vera góð.
GLEÐILEGAN SUMARDAG OG NJÓTIÐ LÍFSINS OG HUGLEIÐIÐ. SÆKIÐ KRAFT Í NÁTTÚRUNA. EITT TRÉ HJÁLPAR MIKIÐ. GEFIÐ ÞVÍ FAÐMLAG.
18.4.2010 | 11:50
Hér á suðvesturhorninu skín sólin og ekki auðvelt að ímynda sér að hér rétt austan við heiðina sé ástandið grámóskulegt.
Þegar ég minnist föðursystur minnar sem upplifði Kötlu gömlu í sínum mikla ham 1918 gleymi ég aldri svipnum sem myndaðist á hálffrosnu andlitinu og hún rifjaði upp fyrir mér þennan tíma þar sem illfært vara ða komast lönd né leið. Amma mín bjó þá með mörg börn í ómegð. sum flutt á mölina en önnur brjóstmylkingar.
Í hvert sinn sem jarðhræringar fundust jafnvel þegar hún var flutt suður fraus hún á spottinu og stóð sem negld við gólfið. Man að það tók hana langan tíma að fá lit í andlitið og verða aftur eðlileg. Þetta fannst mér stelpunni óþægilegt þrátt fyrir að skilja sem minnst á þeim tíma.
Nú á þessum tímamótum þar sem við erum í landinu okkar tilneydd þá fer að horfa á alla hluti öðrum augum og vonandi mildari dauðlangar okkur heim en sættum okkur við svo komið. Við erum svo afskaplega þakklát fyrir alla á góðu ummönnun sem við höfum fengið hér heima og verðum hér þar il annað kemur í ljós.
Það fer ekkert á milli mála að nú verð ég að fara og versla mér nýja tölvu. Þessi er að syngja sitt síðasta.
SENDI YKKUR ÖLLUM LÖGIN HANS Atla Heimis út Dimmalimm sem eru í mínu uppáhaldi.
Þau róa og hvíla huga,
Hugur minn er oft í sveitinni minni fyrir austan fjall og hjá vinum mínum sem búa það og ströglast við að halda lífi í búfénaði og bjarga landareignum og mannvirkjum. Mín samúð er með ykkur öllum og bið fyrir hverjum þeim sem sárt á um að binda. En þjóðin okkar er sterk og hefur komist í gegn um svo ótal ánauðir aldir eftir aldir með dug og þor!
Dálítið ruglingsleg færsla en ég skrifa það alfarið á tölvuna sem senn fær ferðapassann í Sorpu.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.11.2009 | 12:40
Ekki er þetta Gullfaxi.... heldur ekki Glófaxi.
Þarna kemur hún svona líka rennileg. Það glyttir í fagurlagaðan silfraðan skrokkinn í vetrarsólinni. Hún keyrir hægt fram á tangann og nú snýr hún sér varlega við. Ótrúlega nett séð svona héðan úr borðstofuglugganum.
Ég heyri inn í höfði mínu notalegt malið frá henni þar sem hún mjakar sér í ,take off" stöðu. Ljósin eru kveikt og nú er gefið í. Hún hverfur bak við nýju háskólabyggingarnar sem eru að rísa þarna í Nauthólsvíkinni. En rétt eins og hendi væri veifað birtist hún aftur hér rétt yfir Perlunni eins og fuglinn fljúgandi. Hún tekur netta beygju yfir borginni og hverfur í norður eða vestur.
Ekki heitir hún Gullfaxi og heldur ekki Glófaxi. Þetta er etv. Askja, Hekla eða Skjaldbreið. Var ekki verið að endurskíra þær allar.
Í gamla daga voru það ,,faxarnir" síðan komu landnámsmennirnir Ingólfur, Fróði og hvað þeir nú hétu og það voru líka nokkrar ,,Dísir" en ekki alls fyrir löngu var þeim skipt út fyrir eldfjöll og fagurtinda.
Mig hefur alltaf langað til að heita eitthvað annað en þessu fornaldarnafni sem var klínt á mig í vöggu. Ætla aðeins að pæla í því hvort tími sé til að skipta út fyrir t.d. Glódís, Myrká eða Lipurtá.
Jæja hún er flogin á braut og far hún vel.
Það liggur hér flutningaskip út við sjóndeildarhringinn.
Set þetta inn svona fyrir tollverðina, klárir í bátana drengir!
Átti að fara heim með einhverju fjallinu á morgun en búin að framlengja dvölinni um nokkra daga. Ástæðan það vantar svo margt til heimilisins.
Hvar í ands.... finn ég ruslafötu.
Ætla að fara og heimsækja Ingimar. Ég þoli ekki IKEA.
Bömmer að þið skildur ekki hundskast til að opna hér Bauhaus. Þá væri ég ekki með þetta ruslafötuvandamál eða WC burstadæmi.
Farin í helv......IKEA.
22.7.2009 | 11:57
Hvar er flugvöllurinn? Þetta er ekki alveg að gera sig fyrir lofthrædda.
Hér áður fyrr þegar við fórum norður heiða var bara keyrt eins og leið lá beint af augum og aldrei farið út af þjóðveginum. Að taka aukakrók var ekkert rosalega vinsælt þ.a.l. hafði ég aldrei komið á Siglufjörð eða aðra útkjálka landsins. En nú var breytt út af venju og við erum búin að þræða flest smáþorp og bæi norðurlands.
Eftir frábæra daga fyrir norðan með litlu fjölskyldunni frá Prag og Garðabæ þar sem við spókuðum okkur í höfuðstað Norðlendinga, fórum í böðin á Mývatni og nutum sjáfarloftsins á Grenivík í sól og sumaryl tókum við bátinn út í Hrísey og tókum eina Taxann á svæðinu sem keyrði okkur um eyna og sagði um leið sögur af lífinu í eynni. Þetta er sem sagt eini leigubíllinn þeirra Hríseyjarmanna. Flott farartæki en frekar hast á misjöfnum vegum.
Eftir að hafa skoðað Hrísey héldum við suður á bóginn með stuttum stoppum á hinum ýmsu stöðum. Ég hef oftsinnis sagt ykkur frá minni hrikalegu lofthræðslu en vegna þess að ég hafði aldrei komið á Siglufjörð vildi ég endilega keyra sem lá leið út á þetta margrómaða síldarpleis.
Við vorum komin svona hálfa leið að Strákagöngum þegar var ég næstum farin út úr bílnum á ferð. Ég er ekki að djóka. Ég hélt mér dauðahaldi í hurðina og hallaði mér yfir að mínum elskulega þar sem ég var alveg klár á því að ef ég hallaði mér að honum héldist bíllinn frekar á veginum en hentist ekki fyrir björg. Í hvert skipti sem minn elskulegi opnaði munninn til að lýsa fyrir mér, sem sat með klemmd augu, fegurð lands og sjávar bað ég han um að halda KJ, horfa á veginn og hugsa bara um það að koma okkur niður úr þessu þverhnípi þegjandi og hljóðalaust. Ég hefði engan áhuga á að vita hvernig umhorfs væri upp á þessum fjallvegi. ,,Keyrð þú bara og ekki tala við mig, ekki eitt orð!"
Göngin sem maður keyrir þarna á milli eru heldur ekki fyrir fólk með innilokunarkennd. Ég er sem betur fer laus við að hafa hana líka en mér leið eins og ég færi inn í ginið á Miðgarðsorminum og kæmi inn í kolsvart holið sem engan endi ætlaði að taka. EMMIN sem segja þér að þar geti þú farið inn í afkima ef þú mætir öðrum bíl eru eitthvað sem ég hef aldrei séð áður en auðvitað bráðnauðsynleg. Ég saup hveljur í hvert skipti sem við sáum ljós framundan. Náum við að næsta EMMI.
Ég var mjög fegin þegar við komumst út úr þessu svartholi og út í sumarsólina og þarna lá inn fægi síldarfjörður í öllu sínu veldi og ég sagði: ,, Hvar er flugvöllurinn?"
Minn leit á mig dálítið sposkur á svip og sagði: ,, Hva ætlar þú að fljúga suður?" Ég get svarið það að það hvarflaði að mér, ég gat ekki hugsað mér að keyra þetta aftur og þá með hyldýpið á mína hönd allan tímann.
Við keyrðum inn í bæinn og ég sló á þráðinn til vinkonu minnar sem á hús þarna upp á brekkunni. Hún var auðvitað ekki á svæðinu en svona á milli þess sem hún lóðsaði mig að húsinu og ég gekk um í garðinum hennar og kíkti á glugga með hennar leyfi datt út úr mér svona alveg óvart:,, Heyrðu Birna hvar er flugvöllurinn?" Hún vissi alveg af minni lofthræðslu og sagði: ,,Elskan mín, það er ekki lengur flogið til Siglufjarðar" og bætti svo við: ,, veistu vegurinn var sko helmingi verri hér í gamla daga, annars skil ég vel að það fari um fólk sem keyrir þetta svona í fyrsta skipti"
Ég varð sem sagt að keyra þetta aftur til baka og ekki spyrja mig hvernig útsýnið er því ég fór þetta með lokuð augu.
Nenni ekki að segja ykkur fleiri sögur í dag, er farin út í góða veðrið.
Njótið sumarblíðunnar á meðan hún endist.
8.7.2009 | 10:54
Værirðu til í að opna dyrnar in case við lendum í nauðlendingu.
Þetta er eitthvað svo týpískt. Í hvert skipti sem ég legg upp í ferðalag með flugi þá gerast svona hópflugslys rétt áður eða alla vega yfirvofandi slysahætta í háloftunum. Ekki það að ég sé flughrædd enda hvernig ætti það að gera sig svona hundgömul flugfreyja sem var sko klár í bátana hér í denn. En samt, það hefur aukist með aldrinum að ég fari með mína farbæn um leið og vélin sleppir taki á flugbrautinni.
Mig langar að segja ykkur smá sögu. Eitt sinn sem oftar vorum við á leið yfir hafið og ég hef haft það fyrir venju, sérstaklega á löngum leiðum og ef ég man eftir að biðja um sæti við Exitið. Þá getur maður rétt betur úr fótunum og er ekki að troðast með bossann upp í andliti á næsta farþega sem situr við hliðina á manni þegar maður þarf að skutlast á WC-ið.
Jæja rétt fyrir flugtak kemur þessi líka fallega stelpa til okkar og spyr mig hvort mér sé alveg sama um að sitja í Exitinu?
-Ég lít á hana svona með spurningu í augum en segi síðan ,, Já ég bað um þessi sæti sérstaklega"
- Hún brosir um leið og hún segir: ,, Ja sko er þér þá sama að þú berir ábyrgð á því að opna hurðina ef við verðum að nauðlenda?"
Mér svelgdist aðeins á munnvatninu enda aldrei verið spurð að þessu áður og oftsinnis setið við neyðarútganginn. -,, Ha humm, já ég held ég ráði alveg við það"
- Viltu þá ekki að ég kenni þér hvernig á að opna?
- Neip segi ég þetta er í góðum málum, hefði nú frekar átt að segja að þetta væri í góðum höndum.
Við vorum ekki fyrr komin í loftið en alls konar spurningar fóru að vakna í mínum ljósa kolli.
Ætli það sé eitthvað að vélinni? Hvers vegna spurði hún mig hvort ég kynni örugglega á opnunarbúnaðinn? Var Capteinninn eitthvað veikur, eða timbó eða bara hálf fullur? Var vélin komin yfir skoðunartíma? Var illa raðað í Cargoið eða hafði gleymst að afísa vélina?
Svona spurningar veltust í mínum kolli fram og til baka en það versta var að ég fór allt í einu að hugsa:
My good, kann ég yfir höfuð að opna þessar dyr!!!!!!! Ég var að fljúga fyrir þrjátíu og eitthvað árum. Hefur ekki búnaður vélanna breyst á þeim tíma?
Þarna sat ég kófsveitt og titrandi í heila þrjá tíma og bar ábyrgð á lífi 250 farþega plús áhöfn á vegum Icelandair þar sem ég hafði ekki hugmynd um hvort ég gæti opnað neyðarútganginn í tíma ef vélin færi niður. Og einhver ljóshærð og bláeygð stelpa hafði spurt í sakleysi sínu hvort ég gæti örugglega opnað helvítis dyrnar.
Eftir þetta hef ég oft gjóað augum á flugfreyjuna sem opnar dyrnar eftir lendingu og mér sýnist þetta vera bara gamla góða systemið og nokkuð auðvelt.
Er að fara í flug á morgun. Ætla að sitja i Monkey og ekki að ræða það að ég biðji um sæti við Exitið. Tek ekki nokkurn séns hvort ég geti höndlað þetta verk ef til þarf.
Farþegi gerði við flugvélina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.7.2009 | 08:58
Æ mín elskulega þjóð ætlið þið aldrei að læra af reynslunni.
Er þetta ekki alveg eftir öllu öðru á Íslandi. Nú ætla allir að græða á ferðamönum bæði bílaleigur og hótelin. Satt best að segja eru Íslendingar grunnhyggin þjóð. Um leið og einhver sér að hægt er að græða á einhverju er verðið sprengt upp úr öllu valdi og hvað gerist þá. Jú asnarnir ykkar ferðamenn hætta að koma til landsins.
Við litla fjölskyldan erum á leið heim og vinafólk Egils og Bríetar, útlendingar, eru núna að spóka sig með börnin ásamt þeim fyrir norðan. Áður en þau lögðu land undir fót fóru þau að huga að bílaleigubíl fyrir sjö manns. Hvað haldið þið að slíkur bíll hafi kostað í eina viku. yfir 500.000.- kall! Já sæll, Agli datt í hug að kaupa bíl það yrði örugglega ódýrara. Henda honum bara síðan eftir notkun. Hótelherbergin á góðum hótelum í henni Reykjavík voru á uppsprengdu verði og sum jafnvel með tvö verð Euro og Krónu. Nú á sko að græða á útlendingunum.
Fífl, vitið þið ekki að fjögra til fimm stjörnu hótel sem voru á bilinu 180 - 260 Euro í fyrra hafa lækkað um helming í Evrópu en þið sauðirnir hækkið eins og fífl. Og hver verður árangurinn, jú kæru landar þið missið þetta eina sem hefur haldið ykkur á floti undanfarna mánuði, túrismann. Fólk hættir að koma og þetta er því miður þegar farið að spyrjast út hér.
Ballið er líka að verða búið hjá veitingamönnum, hóteleigendum og öllum öðrum sem hafa sett allt sitt traust á ferðamanninn hingað til. Þetta er allt keðjuverkandi ef þið hafið ekki skilið það enn og ef engin eru túrhestarnir þá fara veitingahúsin og Rammagerðin eða hvað þetta heitir í dag sem selur lopapeysur og aska að taka upp á því að væla aftur.
Þetta minnir mig á þegar þið mín elskulega þjóð fóruð að senda hingað til Tékklands lambakjötið og það seldist eins og heitar lummur. Hvað gerðu þið þá , jú asnarnir ykkar þið hækkuðuð kílóaverðið um einhver cent og um leið hætti Tékkland að versla við ykkur og sneri sér til Nýja Sjálands.
Eins þegar þið senduð okkur útrunna niðursuðuvöru og voruð rosalega hissa á að við fengjum þetta ekki samþykkt af heilbrigðiskerfinu og spurðu í forundran: Hva er þetta ekki austantjalds land! Svo kom lausnin frá ykkur: ,,Setjið bara nýjan miða yfir dagsetninguna þá fattar engin neitt! Við vorum heiðarlegri en svo að fara eftir ykkar ráðum. Nú fer maður að skilja hvernig sumir urðu svona oheyrilega ríkir á svindli og svínaríi.
Annað sem mér dettur í hug þar sem ég er byrjuð að agnúast út í landann er þegar við fengum sendan heitreyktan Silung frá Íslandi. Okkur fannst hann svo góður og vel verkaður að við pöntuðum heilan gám en hvað gerðist. Jú fiskurinn kom hingað óhreinsaður og hrikalega vondur, við kvörtuðum og svarið var: ,, Já ég veit, en þú pantaðir svo mikið magn að við höfðum ekki mannskap til að hreinsa fiskinn"
Finnst ykkur eitthvað skrítið að við hættum að versla við ykkur kæru landar!
Í guðana bænum farið nú að hugsa aðeins. Þessi græðgi gerir ykkur að athlægi út um allan heim. Það er betra að selja ódýrt, gott og í magni en lítið, vont og taka fólk í nefið. Það græðir engin á því að verða að aurum api!
Ég ætla nú samt heim og hjálpa til við gjaldeyrissjóðinn. Setja nokkrar Euro inn í kassann af því mér þykir svo undurvænt um ykkur öll bjánarnir ykkar.
Verðgjá á milli innlendra og erlendra ferðamanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
12.5.2009 | 19:12
Við verðum að horfast í augu við það að lífið okkar verður aldrei samt.
Má mann ekki kvarta aðeins, jú mann má það alveg.
Þetta er líka spurning um hvort grasið sé græna hinu megin girðingar eins og svo margir halda.
Hingað til hef ég ekki kvartað yfir því að búa hér innan um villt dádýr, snáka, snigla,kanínur, héra, moldvörpur að ógleymdum fuglunum sem ég tel vera sérstaka vini mína. Sveitasælan hefur átt vel við mig og hér hefur mér liðið eins og blóm í eggi og ekki haft yfir neinu að kvarta fyrr en allt í einu núna þá finnst mér þessir 50 km frá borginni vera næstum óyfirstíganlegur þröskuldur.
Ég er líka þreytt og við bæði það fer ekkert á milli mála.
Fyrir tveimur og hálfum mánuði gat ég stjórnað mínum ferðum og þar sem ég er ekki morgunmanneskja þá valdi ég yfirleitt eftirmiðdaga til að fara minna erinda inn í borgina og yfirleitt reyndi ég að komast hjá því að fara tvær ferðir á dag þessa 50 km hvora leið.
Nú get ég ekki lengur stjórnað þessu sjálf. Nú verð ég að fara eftir því hvað aðrir segja mér að gera og ég verð að gegna. Tvisvar í viku verðum við að vakna fyrir allar aldir, löngu áður en haninn galar og keyra 70 km upp á spítala hvora leið.
Já lífsviðhorfið hefur breyst mikið á þessum stutta tíma og við höfum orðið að horfast í augu við það að það verður sjálfsagt ekki svo auðvelt að búa hér upp í sveit þar sem við verðum að sækja allt inn í borgina. Jafnvel næsti stórmarkaður er hér í 30 km fjarlægð.
Við sjáum líka fram á það að það verður ekki auðveldara með árunum að sjá hér um landareignina án þess að hafa utanaðkomandi aðstoð.
Við erum líka að horfa á eftir vinum okkar hér fara aftur til síns heima og við erum nú komin í hóp þeirra sem lengst hafa verið hér í landinu og við erum örfáar eftirlegukindur.
Ég vil nú ekki segja að við förum að flytja héðan alveg á næstunni en alla vega erum við farin að hugsa okkur til hreyfings en við komum nú til með að gefa okkur nokkur ár í viðbót hér að Stjörnusteini.
Draumurinn er að eignast fallega íbúð hér í Prag með útsýni yfir Moldá og síðan athvarf á Íslandi og jafnvel þriðja staðinn svona in case einhvers staðar í suðurhöfum.
Já það er ljúft að dreyma fallega drauma og ég læt það eftir mér öðru hvoru.
Annars bara góð í kvöld eftir langan dag í borginni.
Hvað það var gott að koma heim og fara úr haldaranum og í gamla velúrsloppinn.
Og svo bara svo þið vitið það þá verður EKKI horft á Eurovision á þessu heimili.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
19.4.2009 | 13:38
Hotel Reiterhof í Wirsberg alltaf jafn kósí
Ég hef sagt ykkur það áður en minn elskulegi er stundum langt á undan sjálfum sér þannig að venjulegt fólk á stundum erfitt með að fylgja honum og föstudagurinn var einn af þessum dögum sem maður bara andar djúpt og bíður bara þar til hann róast niður.
Þegar ég vaknaði var hann rétt nýbúinn að bera á eldhúsgólfið efni sem lokar steininum og lyktar eins og blanda af terpentínu og lími. Ég gat sem betur fer smokrað mér inn fyrir skörina og teygt mig í kaffið, annars hefði hann nú fengið smá Gú moren á Tékknesku ef ég hefði ekki fengið morgunsopann minn fyrr en eftir dúk og disk.
Ég heyrði í traktornum og vissi að þar fór minn hamförum í slætti sem stóð langt fram yfir ádegi eða þar til fór að rigna um fjögur leitið. Hann var ekki fyrr kominn inn en hann segir: Hvernig hefur þú það núna elskan?
- Ég , jú bara fínt.
-Já er það. Ég var að pæla í því hvort þú vildir skella þér til Þýskalands.
-Núna? Ég horfi á hann þar sem hann situr við tölvuna og greinilega búinn að finna hótel á netinu og kominn hálfa leið í huganum.
- Já hvernig væri það segir hann, eigum við að skella okkur til Nürnberg?
- Æ ég nenni ekki inn í stórborg segi ég, væri miklu meira til í að fara bara til Wirsberg.
Wirsberg er lítill bær ekki langt frá Bayreuth og þar er eitt af mínum uppáhalds hótelum. Það tekur svona þrjá tíma að keyra þangað heiman frá okkur. Ég var varla búin að sleppa orðinu þá var minn búinn að hringja og panta herbergi, ríkur upp af stólnum og segir: ókey drífum okkur þá.
Eftir hálftíma vorum við búin að pakka niður fyrir okkur og hundinn, því auðvitað varð að keyra hann í pössun í leiðinni og klukkan hálf sex renndum við hér úr hlaði.
Ég get alveg sagt ykkur að þetta var ekki alveg það gáfulegasta sem okkur gat dottið í hug. Í fyrsta lagi var föstudagur og brjáluð traffik í öðru lagi var ausandi rigning og hrikalegt skygni.
Það tók okkur tvo klukkutíma að ná út úr borginni, segi og skrifa tvo tíma!
Það sem hefði tekið þrjá tíma tók okkur fjóra og hálfan.
En skítt með það þessi keyrsla var þess virði. Eins og alltaf var tekið vel á móti okkur við nutum þess í botn að láta stjana við okkur yfir helgina. Þar sem Reiterhof er Spa hotel þá var dagurinn í gær svona heilsu dagur með gufu, sundi, nuddi og fl. sem var ekki slæmt fyrir minn eðalskrokk.
Þá vitið þið það, þið sem eruð búin að reyna að ná í okkur yfir helgina. Við vorum ekki heima.
Erum sem sagt komin aftur heim og minn kominn á traktorinn og ég er að hugsa um að setjast í sólina með góða bók og halda áfram að hafa það huggulegt.
11.4.2009 | 11:13
Bloggvinkona frá Danaveldi bankaði uppá í gær.
Bloggedí blogg hér á laugardegi fyrir páska.
Þið heyrið nú að hér er kona bara mjög hress. Ætli þetta sé ekki svona ,,opsa deisí " dagur og það meir að segja númer tvö. Það sem ég var búin að bíða lengi eftir þessu en svo bara kom þetta allt í einu án þess að gera boð á undan sér. Frábært!
Ekki datt mér nú í hug að ég ætti eftir að hitta einhvern af þessum fáu bloggvinum mínum en viti menn var ekki bara bankað uppá hjá okkur í gær og var þar komin bloggvinkona mín Guðrún Þorleifsdóttir og hennar maður Brynjólfur en þau búa á eyjunni Als í Danaveldi. Óvænt ánægja og sátum við hér og spjölluðum í góða veðrinu allan eftirmiðdaginn.
Virkilega gaman að hitta þessa frábæru konu.
Já kæru vinir hér er komið þetta líka fína veður svo maður heyrir næstum þegar blómin blómgast á trjánum svo mikill flýtir er á vorkomunni.
Ætla nú ekkert að vera að svekkja ykkur þarna heima meir með fréttum af hitastigi en bara svo þið vitið það þá er hér 25° úps ég bara varð, sorry.
Farin út að vökva kryddjurtirnar mínar.
6.4.2009 | 11:03
Mánudagsmórall
Ég er með móral. Hér hrannast upp póstur í tölvunni, sniglapóstur úr póstkassanum, bókasendingar, blóm og svo mætti lengi telja en ég, þessi samviskusama kona sem ég er kemst ekki til að svara öllum og þakka fyrir mig.
Hrikalega fer þetta mikið í pirrurnar mínar. Þið vitið þessar fínustu.
Elskurnar mínar þið sem lesið þetta takið á móti stóru knúsi frá mér og þakklæti fyrir alla umhyggjuna undanfarið. Satt að segja hef ég nú minnstar áhyggjur af ykkur þarna heima það eru vinir mínir úti í hinum stóra heimisem ég er með móral yfir. Ég horfi á bunkann hér af kortum og hugsa mikið hrikalega eigum við mikið að vinum og kunningjum. Hvaðan í ósköpunum kemur allt þetta fólk.
Ég ætla að reyna að vera duglegri að svara.
Annars er ég nokkuð hress í dag. Og þar sem ég veit að sumir hafa áhyggjur ef þeir sjá ekki færslu hér daglega þá eigi ég lousy dag. Jú það getur svo sem verið en stundum hef ég bara ekkert að gefa og þá er best að hlaða batteríiin og koma fílefldur inn seinna, ekki satt.
Í morgun þegar ég vaknaði hélt ég að þessi dagur yrði einn af þessum lousy eins og ein vinkona mín orðaði það svo skemmtilega en síðan ákvað ég að svo skildi ekki verða og áður en minn elskulegi fór niðr´í Prag bað ég hann að kippa niður tveimur kössum með páskaskrauti og nú ætla ég að fara út og skreyta pínu lítið hér í kring.
Búin að klippa greinar og setja í vasa svo þær verða útsprungnar með fallegum gulum blómum á skírdag.
Nú ætla ég út og sjá til hvort ég get ekki hengt nokkur plastpáskaegg á eitt tré hér á veröndinni. Ef ég meika þetta í dag þá er ég bara góð skal ég segja ykkur.