Færsluflokkur: Samgöngur

Sogamýri - Rafstöð

Rosalega er nú pirrandi þegar maður klúðrar ómerkilegum hlutum eins og að baka eina smá klessu handa sínum elskulega á Valentínusardaginn en ég hafði það af í gærkvöldi. Ef til vill var ég bara orðin of þreytt eftir daginn til að vera með fulla athygli við kökugerð.  Ætti ef til vill að reyna aftur í dag, sé til.

Annars áttum við gott kvöld saman í gær.  Ég afþakkaði að fara út að borða svo við höfðum það bara notalegt hér.  Eftir matinn settumst við að hljóðskrafi og eitt af því sem við ræddum voru strætóferðir á okkar yngri árum. 

 Við fórum að minnast gömlu vagnanna með vinalegum´strætisvagnastjórum sem opnuðu með sveif hurðarnar. Stóru peningabaukunum sem voru gulir að mig minnir.  Háir hlunkar sem mjókkuðu aðeins upp að ofan.  Bílstjórinn sem ýtti á þar tllgerðan hnapp ofan á geispunni og maður gat heyrt þegar klinkið féll niður.  Málmkennt hljóð ef baukurinn var hálftómur annars lægra og dempaðra. 

-Allir úr að aftan var viðkvæðið hjá bílstjórunum en ekki -allir út að aftan.  Eða þannig er það í minningunni og um háannatímann þegar fólk var að fara til og frá vinnu hljómaði oft úr barka bílstjórans -  færið ykkur aftar í vagninn.  Þarna stóð maður oft eins og síld í tunnu og ég man hvað mér leið oft hræðilega illa þar sem ég var svo lyktnæm og fann fúkkalykt af manninum við hliðina eða fiskifýlu af konunni sem var að koma úr frystihúsinu.  Úff, eins og þetta hafi gerst í gær.

Við hjónin vorum lítillega að karpa um heiti vagnanna og ég stóð í þeirri meiningu að ég hefði alltaf tekið leið átta.  Hann stoppaði í götunni heima og ég tók hann á hverjum degi til og frá Ísaksskóla svo og ef ég fór til ömmu minnar á Flókagötuna.   Þórir vildi meina að ég hefði tekið Sogamýri - Rafstöð og eftir smá vangaveltur komumst við auðvitað að því að ég hafði rétt fyrir mér. Hef alltaf rétt fyrir mér, eða þannig hehe

  Það getur svo sem verið að vagninn hafi heitið eitthvað í áttina við Bústaðarhverfi, Smáíbúðarhverfi en ég bara man eftir leið átta og síðan leið 18 sem var hraðferð og kom löngu seinna.  Þórir aftur á móti tók Sogamýri - Rafstöð þar sem hann er Vogavillingur og engin annar vagn farin að keyra nálægt Karfavoginum í þá daga.

Er búin að fara í stuttan göngutúr í dag en ekki fór nú gamla langt en fór þó. 

 

 

 

 


Bíllinn sem talar mannamál, eða þannig.........

Ekkert lát er á brunakuldanum hér í Tékklandi og telja veðurfræðingar að þetta kuldakast haldist eitthvað fram í næstu viku. 

Í morgun sýndi hitamælirinn sem ég er nú farin að kalla frostmæli - 23° hér í sveitinni.  Brrr...

Það tók minn elskulega langan tíma að koma bílnum í gang þar sem hann átti erindi inn í borgina eldsnemma í morgun og þegar það loks tókst blikkuðu öll viðvörunarljós í mælaborðinu og birtist stórum stöfum og gáfuleg rödd tilkynnti: End journey now!!! eða eitthvað álíka gáfulegt.  Sko bíllinn hans talar mannamál og eins gott því annars hefði minn bara flanað út í einhverja vitleysu.

Hann lét farartækið ganga smá stund og eftir nokkrar mínútur fór að lækka rostinn í bílnum og viðvörunarljósin slokknuðu smátt og smátt og röddin kom aftur:  You can start your journey now but drive carefully!!!  Já, já alveg hreina satt.  Whistling

Annars var helgin hér róleg og mest gert nákvæmlega ekki neitt.  Í gær heimsóttum við þessa litlu dúllu sem bræðir öll hjörtu með sínu yndislega brosi.   

 

 Elma Lind

       Hvað ég geri í dag veit ég ekki enn er svona að pæla í því hér yfir þriðja kaffibollanum.

 


,,Þar rauður loginn brann" hér að Stjörnusteini. Trúi mér hver sem vill.

Stjörnubjartur himinn hvelfist hér yfir sveitina og tungl veður í skýjum í frostkaldri vetrarnóttinni.  Það er Þrettándinn.

Ég heyri ógreinilega hófaskellina á íshjarninu hér á akrinum. Hljóðið færist nær og nær.  Nú sé ég loga frá blysunum sem bærast vart því enginn er vindurinn. Þau koma út úr kolsvartri nóttinni hvert af öðru ríðandi hvítum fákum.  Það heyrist klingja í reiðtygjum. Tær bjölluhljómur.

Nú sé ég þau greinilega.  Fyrstur fer Álfakóngurinn hvítklæddur í silki og purpura.  Þá næst Álfadrottningin, glæsilegust allra, klædd bláu silki með glitrandi bryddingum og skinni.  Þau ríða hægt yfir, hér er engin að flýta sér.  Á eftir kemur fjöldinn allur af fylgdarliði og þvílík ró sem fylgir þessu fólki.  Enginn mælir orð af vörum. Allir eru fyrir utan tíma og rúm.

Nú stoppar kóngur og réttir upp hendi. Allir hinir hægja á hestunum.  Úr annarri átt kemur önnur ekki síðri glæsileg hersing.  Þegar um það bil einn meter er á milli þessara tveggja höfðingja  þá reisa þeir sig upp í hnökkunum og heilsa hvor öðrum kurteislega. 

Enginn mælir orð frá munni.  Þeir sem komu frá austri halda til vesturs en þeir sem komu frá vestri halda beint hingað að Stjörnusteini.  Þar sem ég stend og fylgist með þessu reyni ég að píra augun og sjá hvert þeir fara en allt í einu skellur á þoka fyrir augum mínum og ég get ekki lengur fylgt þeim eftir.

Það eina sem ég veit með vissu, Huldufólkið hefur tekið búsetu hér hjá okkur og bíð ég þau hjartanlega velkomin. 

Fari þeir sem fara vilja.

Veri þeir sem vera vilja.

Mér og mínum að meinalausu.

 


mbl.is Jólin kvödd með virktum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

St. Mikulas, Svarti Pétur og púkar úr neðra.

Tékkar þjófstörtuðu St. Mikulas deginum í fyrradag en hann er haldinn hátíðlegur 6. desember ár hvert.  Við hjónin gerðum okkur ferð í bæinn á föstudag og hugmyndin var að versla eitthvað nytsamlegt og ónytsamlegt.  Ef ég hefði vitað um þessa þjófstörtun hefði ég nú valið annan dag til bæjarráps.

Hvar sem litið var sáum við karlinn klæddan í hvíta kuflinn sinn með biskupshúfuna og stafinn umkringdan fjölda af æpandi púkum og Svarta Pétri.  Börnin höfðu auðsjáanlega mikið gaman að þessari uppákomu og létu blessa sig í bak og fyrir.

Á markaðnum kepptist fólk við að selja púkahorn sem glóðu eins og vítislogar.  Annar hver maður, jafnt börn sem fullorðnir báru þessi horn svo Gamla torgið leit út eins og sjálft neðra.

Torgið er alveg einstaklega fallega skreytt þetta árið og ætla ég að fara aftur eitthvert kvöldið og njóta í rólegheitum þar sem ég á það eki á hættu að fá jólaglöggið yfir mig eða hreinlega verða troðin undir. 

Nú ætla ég að fara upp og tendra Betlehemskertið en svo nefnist kerti annars sunnudag í aðventu.

Eigið notalegt kvöld.

 


Silfurskálin sem á sér langa sögu.

Ég sat og velti skálinni fyrir mér. Hvarf eins langt aftur og ég gat munað.

 Silfurskál, dálítið snjáð eftir endalaust nudd í tugi ára. Man fyrst eftir henni hjá ömmu minni á Flókagötunni, alltaf á sama stað á eldhúsborðinu.  Síðan flutti hún með ömmu og systrum pabba inn á Selvogsgrunn og enn var hún sett á eldhúsborðið. 

Dagsdaglega var hún full af tvinnum, skærum, saumnálum og gott ef ekki var sígarettupakka.  Sem sagt full af nytsömum hlutum til daglegs brúks.  Það var alltaf saumað mikið á því heimili.

En svo komu jólin.  Skálin hennar ömmu fékk yfirhalningu með Silvo og var fyllt af rauðum eplum sem pússuð höfðu verið með hreinu ,,viskastykki" svo þau glóðu eins og lifandi ljós.  Skjannahvítum útsaumuðum jóladúk, stífuðum eins og pappa, var komið snyrtilega undir skálinni og þannig var það öll jólin.  Síðan kom janúar og skálin fór aftur í sitt gamla hlutverk að halda til haga saumadóti frænknanna. 

Þessi skál fylgdi mér hingað sem erfðargripur og á sinn sess núna hér í eldhúsinu mínu. Dagsdaglega þjónar hún þeim tilgangi að geima símahleðslur, myndavélahleðslur og fl. drasl sem tilheyrir nútímanum.  Endrum og eins er þurrkað úr henni svona til málamynda en venjulega fær hún bara að liggja þarna í neðstu hillunni og safna ryki.

En fyrir hver jól fær hún ærlega yfirhalningu með ,,silvo" og er færð aðeins ofar í hillurnar.  Smá jólaskraut er sett  til að gleðja hana en engin epli lengur.  Önnur nútímalegri hefur tekið við sem eplaskál.

Þegar ég í dag hélt á skálinni var ekki laust við það að ég finndi fyrir ömmu minni og þó sérstaklega einni systur pabba sem alltaf sá um heimilið þeirra þar til yfir lauk. 

Oft er sagt:  Æ þetta er bara dauður hlutur, en sumir hlutir hafa, ég vil nú ekki kalla það sál, en alla vega kraft.

Svo er ég hætt að fílosofera í bili.  

 

 


Hverju orði sammála.

Langt í frá að það sé skemmtilegt að ferðast í dag með Íslenskt vegabréf í farteskinu.  Við fundum vel fyrir þeirri niðurlægingu á ferð okkar núna um Danmörk og Þýskaland sem frú Vigdís talar hér um í viðtalinu við El País. Við erum því miður öll merkt sama brennimarkinu. 

 Fólk brosir ekki lengur við okkur þegar við sýnum vegabréfin okkar.  Það spyr ekki lengur um land eða þjóð og segist vilja heimsækja okkur eða upplýsir mann um að það hafi nú hitt Íslendinga áður eða eigi vini á Íslandi.  

Við vorum spurð að því, þar sem við sátum á veitingastað, hvort við værum Svíar?  Nei, við erum Íslendingar svöruðum við samhljóma.  Ég var hreint ekki alveg á því hvort þjónninn kæmi aftur að borðinu eða mundi senda einhvern útlending til að afgreiða okkur.  Sorglegt, mjög sorglegt.

Mér fannst erfit að koma heim núna.  Það ríkti svo mikið svartnætti í sál margra.  Þó voru all margir sem báru sig vel og voru enn með bjartsýnina að leiðarljósi en umræðan var skelfileg hvar sem maður kom.

En nú er ég sest hér í skotið mitt og búin að kveikja á kertum til handa öllum ættingjum og vinum heima.

Ég veit að við komum öll til með að endurheimta virðingu meðal annarra þjóða en það á eftir að taka tímann sinn.  Það fer víst ekkert á milli mála því miður. 

      


mbl.is Íslendingar verða að endurheimta virðinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljós í gluggum sem ylja og gleðja án orða.

Um hádegisbil keyrðum við út úr Berlin eftir tvo góða daga í þeirri merkisborg.

Hittum Þráinn og frú Sólveigu á föstudagskvöldið og fórum yfir ,,Íslandssöguna"  Mjög skemmtilegt!

Þráinn gaf okkur nýju bókina sína ÉG ef mig skyldi kalla og auðvitað tók minn hana fyrst traustataki en ég er nú búin að fá hana í hendur og ætla að lesa hana í háloftunum annað kvöld.

  Það er alveg svona típiskt fyrir okkur að athuga ekki með brottför ferjunnar frá Rostock til Gedser svo auðvitað rétt misstum við af eitt ferjunni og urðum að dúsa tvo tíma á kajanum eftir þeirri næstu og þar sem við höfðum heldur ekki pantað far fyrirfram, sem er líka alveg típiskt fyrir okkur, þá lentum við á biðlista.

Við rétt náðum inn, vorum næst síðasti bíllinn. 

Þar sem við keyrðum inn til Kóngsins Köbenhavn var farið að skyggja og það vakti athygli mína að í öðru hvoru húsi var fólk að kveikja á kertum í gluggum eða inn í stofum og mér varð á orði við minn elskulega hvað þetta væri eitthvað vinalegt.  Að sjálfsögðu voru lítil viðbrögð við þessari athugasemd minni, þótti örugglega of væmin til að svara eða þá að hann var svo mikið að keyra þessi elska, þið vitið þeir geta bara gert einn hlut í einu.

Mér alla vega fannst þetta mjög athyglisvert og fannst hvert ljós bjóða okkur velkomin til landsins.

Þegar ég síðan kom inn á hótel og opnaði tölvuna mína eftir nokkra daga hvíld blasti við mér ótal póstar frá bloggurum sem hvöttu fólk til þess að kveikja á kerti í gluggum.  Að gefa ljós til náungans og byrja snemma að undirbúa aðventuna með litlu kertaljósi í glugga.  Fræbær hugmynd og falleg!

Ég hef eflaust ekki mikinn tíma fyrir komment næstu daga hjá bloggvinum en ætla að setja inn færslu þegar tími gefst til.

Á morgun verður farið í uppáhalds búðirnar og síðan haldið heim með kvöldvélinni.

   

 


Þankar úr fjarlægð.

Ég sit hér og horfi inn í kertalogann.  Það er myrkur allt í kring og það er myrkur í huga mínum. 

 Ég kveikti á kerti fyrir góðan vin okkar hjóna. Loginn flöktir, hann stendur líka kyrr og síðan flöktir hann aftur alveg eins og lífið sjálft.  Ég veit líka að það þarf ekki nema lítinn gust til að það slökni á loganum og engin fær neinu þar breytt, en ef ekki gustar þá fær kertið að brenna niður hægt og sígandi en því miður er ekki alltaf svo.

Ég horfi inn í logann og minningar liðinna ára koma upp í hugann, allar góðar.  Ég hugsa heim til æskuvinkonu minnar og það er svo sárt.  Vildi að ég gæti tekið utan um hana og faðmað að mér og veitt henni einhverja huggun.  Ég geri það í huganum og horfi inn í logann.

Doðinn sem heltók mig í morgun vill ekki hverfa.  

Á föstudaginn höldum við heim á leið.   


Ekki fleiri draugasögur!

Munið þið eftir leikritinu Innrásin frá Marz.

Þeir eru að koma, þeir eru að koma! Þannig hljómaði setningin í útvarpinu og fólk þyrptist út á götur skelfingu lostið, svo trúverðug var framsetning leikarans.

Æ elskurnar mínar í gær sást skært ljós á himni sem síðan sprakk í milljón eindir og fólk fékk fyrir hjartað af æsing.  Þetta reyndist síðan aðeins vera stjörnubrot sem villst hafði yfir litla Ísland.

Nú birtist svartur hringur.  Hvað táknar þetta?  Hverjir eru að fylgjast svona með okkur dag eftir dag?  Haldið ró ykkar kæru landar þetta reyndist aðeins vera sérsveitarmenn að æfa sig fyrir innrásina á........ ja hverja haldið þið? 

Ég veit ekkert af hverju en þegar ég las fréttina var ég allt í einu stödd í torfbæ, nb. kom aldrei svo ég muni inn í torfbæ þar sem fólk bjó.  Ég sat þar og hlustaði á gamlan mann segja draugasögu.  Ég horfði út um ljórann en sá ekkert nema svart myrkrið.  Mér leið ekki vel á meðan á þessu stóð en þegar bráði af mér hugsaði ég, æi nei ekki fleiri drauga eða draugasögur það eru allir búnir að fá nóg! 

Bara datt þetta í hug svona af því það er nú alveg að koma Halló-vín!

Njótið kvöldsins og dreymi ykkur vel.


mbl.is Dularfullur hringur yfir Reykjanesbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég ætla aldrei, aldrei aftur í bláu og gulu búðina!

Ég lét mig hafa það í dag að keyra í samtals þrjá klukkutíma og þrjátíu mínútur til þess eins að koma heim froðufellandi og aðframkomin á sál og líkama.  Ég varð sem sagt að fara í þessa mannskemmandi verslun hans Ingmars af því það var eini staðurinn hér í Prag sem ég vissi að ég fengi rauðan lakkrís. 

Segi og skrifa rauðan lakkrís af því ég ætla að baka köku fyrir afmælisbarnið hana Elmu Lind á laugardaginn og ég vildi hafa rauðan lakkrís fyrir hár. Svo helvítis IKEA varð það að vera.

Þegar ég loksins fann bílastæði eftir að hafa keyrt í klukkutíma og tíu mínútur skellti ég harkalega á eftir mér hurðinni og skundaði að aðaldyrunum.  Datt nú í hug að svindla mér inn bakdyramegin, eða þeim megin sem maður kemur út en get stundum verið svo ógeðslega heiðarleg svo inn fór ég og eftir hringsól komst ég loksins niðrá neðri hæðina og fyrst ég var nú búin að randa þetta þá skellti ég mér í kertadeildina og stakk fjórum hlussu kertum í poka, þið vitið þessa gulu sem maður dregur síðan á eftir sér eftir gólfinu af því böndin eru ekki hönnuð fyrir lágvaxna!

Ég sá einhvern útgang og hugsaði mér að þarna gæti ég stytt mér leið að kassafjandanum.  Ég villtist!!!!  Var komin aftur á byrjunarreit!!!!!  Píluandskotinn í gólfinu sneri öfugt!!!!!  Ég sneri við og komst við illan leik að kassanum og valdi auðvitað kolrangan kassa þar sem aðeins ein hræða stóð við og að mér virtist vera komin að því að borga.  Nei takk, viti menn þarna var einhver snillingurinn að láta endurreikna vörur sem hann hafði keypt í gær!!!!  Ég skimaði að hinum kössunum en þar voru raðir svo ég ákvað að hinkra aðeins.  Eftir korter tók ég kertin, henti þeim aftur í gula skjattann og strunsaði að næsta kassa þar sem ég mátti dúsa í allt að korter í viðbót.

Loksins komst ég að matarversluninni þar sem lakkrísinn átti að finnast.  Eitthvað hafði gerst þarna síðan ég var þarna síðast en það eru jú ansi margir mánuðir síðan.  Búið var að umsnúa öllu og vöruúrval sama og ekkert.  Ég fann loks lakkrísinn niður við gólfið og skellti um leið tveimur pokum af kjöttbullar í poka fyrst ég var nú komin þarna á annað borð.  Borgaði og út, út, út!!!!!  

Ég var komin með suð fyrir eyrun og dúndrandi hausverk en sá rauði var kominn í skottið og ég gat haldið heim.  Þetta var búið að taka mig þrjá klukkutíma síðan ég lagði af stað að heiman.  NB ég bý hinum megin fyrir utan borgina sem sagt í suður en andskotans bláa og gula búðin er vestur af borginni. 

Það bjargaði öllu að ég kom við hjá syni okkar og tengdadóttur og dúllunni henni Elmu Lind.  Gat aðeins andað áður en ég hélt heimleiðis.

Sú ferð tók nær tvo klukkutíma vegna þess að það er verið að gera við Autobanann heim til okkar og þarna sat ég í stau í nærri heila klukkustund með snarvitlausa ökuníðinga allt í kringum mig. 

Þar sem ég hafði talað við minn elskulega um það leiti sem ég lagði af stað frá Agli var minn farinn að ókyrrast heldur betur og var næstum farinn að kalla út hjálparsveit skáta til að leita að konu sem sat föst einhvers staðar out of no where. 

 Guði sé lof fyrir göngusímann, hann alla vega virkaði.

Þetta skal verða mín síðasta ferð í þessa hryllingsbúð hans Ingmars, ja nema ef ég verð nauðsynlega að kaupa rauðan lakkrís fyrir barnabarnið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband