Færsluflokkur: Samgöngur
20.10.2008 | 09:22
Fréttalaus helgi og misstum ekki af neinu.
Fyrir mörgum árum fundust mér það forréttindi að geta hoppað upp í bílinn minn og keyra yfir landamærin inn í ,,nýjan heim" eins og við kölluðum það. Komast í burtu frá amstri hversdagsins og skilja allar veraldlegar áhyggjur eftir heima.
Í glóandi litum haustsins sl. föstudagsmorgunn hentum við tannburstum niður í tösku og ókum suður á bóginn. Eiginlega var engin sérstök ferðaáætlun, bara komast aðeins í burtu og gleyma sér augnablik og njóta samvistar hvors annars.
Ekki er alveg jafn auðvelt að kúpla sig frá fréttum eins og áður fyrr þegar tölvan var of stór til að taka hana með sér og við áttum engan farsíma. Núna fer maður ekki einu sinni út í garð án þess að göngusíminn sé meðferðis og tölvan er eitt af því sem pakkað er niður ef farið er lengra en 200 km frá heimilinu.
Ég opnaði aldrei tölvuna þessa daga en var þakklát fyrir göngusímann þar sem ég gat hringt í vinkonu mína sem stödd var á Barcelona í tilefni 60 ára afmælis hennar og líka þegar ég týndi mínum elskulega alveg óvart eða þannig. Hvar ertu? Hann stóð við hliðina á mér, get svarið það.
Við áttum góða helgi, nutum þess að dóla okkur í haustsólinni, borðuðum góðan mat og fórum í leikhús.
Í gærmorgun ákváðum við að keyra sveitavegina heim þar sem við höfðum ekki keyrt þá leið í tíu ár eða fleiri. Eitthvað hlýtur minnið að hafa skertst því það tók okkur fimm og hálfan tíma að keyra þessa leið. Fallegt en verður ekki gert aftur i bráð, minn rass þolir illa svona langkeyrslu á misjöfnum fjallavegum.
Það kom í ljós þegar heim var komið að við höfðum ekki misst af neinu sérstöku úr fréttum að heiman. Allt var við það sama. Samningar sem löngu hefðu átt að vera í höfn voru enn í frysti og sama blablabla í gangi. Horfðum á Silfrið í gærkvöldi og var gott að heyra í vini okkar Jóni Baldvin, hann talar enga tæpitungu karlinn sá frekar en fyrri daginn.
Eigið góðan mánudag öll sömul.
Farin að sinna haustverkum.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
7.10.2008 | 17:04
Kemur okkur alls ekki á óvart.
Í mörg ár erum við búin að vara fólk við að skipta peningum í þessum svo kölluðu ExChange búllum hér í Prag. Þessir skiptibankar ef kalla má svo. hafa aldrei verið neitt betri en ruslaralýðurinn á götunni sem bauðst til að skipta erlendri mynt í tékkapeninga en létu oft á tíðum saklausa túrista fá Pólsk slotsy í staðin, algjörlega verðlaus.
Stundum sá maður þessa þjófa fyrir utan skiptibúllurnar reyna að lokka fólk að og er ég næstum 100& viss um að þessi lýður var á vegum eiganda skiptibúllanna.
Sem betur fer hlustuðu Íslendingar, í flestum tilfellum á okkur, þegar við vöruðum þá við en auðvitað voru sumir sem nenntu ekki að leita að hraðbanka og fannst auðveldara að randa inn í næstu okursjoppu.
Oftar en einu sinni lamdi ræðismaðurinn í borðið hjá skiptibúllunni út á horni hjá okkur og krafðist þess að rétt gengi væri gefið upp. Einu sinni hótaði hann þeim lögreglu og mig minnir að þá hafi gengið verið leiðrétt á staðnum en bara fyrir þann kúnnann, hinir sem á eftir komu voru teknir áfram í nefið.
Þessi frétt er gleðifrétt fyrir okkur sem búum hér því borgin hefur haft á sér óorð vegna margskonar spillingar og þetta var ein af þeim.
Fyrr á árinu tók Borgarstjórinn í Prag 1 sig til og dulbjóst sem ferðamaður og ferðaðist með leigubílum borgarinnar til að sannreyna alla þá spillingu sem þar viðhófst. Hann hafði með sér blaðamann og fréttin var það kræsileg að leigubílar fóru að hegða sér eftir lögum og reglum.
NB takið bara leigubíla sem merktir eru AAA og eru auðþekkjanlegir af sínum heiðgula lit þið sem eruð að koma hingað á næstunni. Þeir eru OK.
Vil ég bara óska lögreglunni í Prag 1 til hamingju með rassíuna og haldið bara áfram stákar því af nógu er að taka.
Skiptibanki í Prag flæktur í glæpastarfsemi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2008 | 19:10
Prag tók á móti mér í litskrúði haustsins
Þegar ég renndi til Keflavíkur klukkan fimm í morgun með stírur í augum og geispa niður í maga voru tilfinningarnar heldur blendnar. Auðvitað hlakkaði ég til að fara heim en um leið fór um mig óhugur yfir að skilja ykkur öll eftir þarna í volæði og óstjórn.
Þar sem ég sat í vélinni og horfði niður á landið mitt, sem pínulítil snjóföl þakti eftir úrkomu næturinnar, langaði mig helst til að hrópa niður til ykkar allra: Verið sterk og standið saman gegn allri þessari spillingu sem verið hefur og óstjórn! Það birtir til, verið viss!
En hvað veit ég vanmáttug konan sem bý ekki einu sinni þarna uppi.
Sveitin mín tók á móti mér í sínum fegurstu haustklæðum sem glóðu í síðdegissólinni. Mikið var gott að koma heim.
Ég er komin í skotið mitt í eldhúsinu. Minn elskulegi er ekki væntanlegur fyrr en eftir miðnætti þar sem hann varð að fara snemma í morgun til borgarinnar Zlín í embættiserindum.
Ég verð sjálfsagt farin að gæla við koddann þegar hann birtist og komin inn í draumheima.
Lái mér hver sem er, ósofin kona með hroll í hjarta yfir öllu óstandinu á gamla landinu.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.9.2008 | 10:31
Þetta er flugsjórinn ykkar sem talar.
Ég hef aldrei verið flughrædd en annað mál gegnir með bílhræðslu mína sem er oft gert grín að. Einhverra hluta vegna hefur þetta ágerst með aldrinum og núna áður en við héldum hingað heim upp á Hamingjulandið örlaði fyrir má kvíða fyrir fluginu. Ef til vill var það vegna þess að ég var svo mikið á fylgjast með veðurfregnum og las meira að segja pistlana hans Einar veðurfræðings í þaula.
Og ekki bætti úr skák að hann sagði að angi af Ike væri á leið til landsins og ætti að fara yfir landið í gærkvöldi og nótt á sama tíma og við áttum að lenda heima. Stormur í aðsigi! Þessi litli fiðringur í maganum magnaðist og var að hnút!
Við höfum alltaf verið mjög fastheldin og höfum valið að fljúga með sömu flugfélögunum en í gær breyttum við út af vananum og flugum frá Prag til Köben með Sterling í stað SAS eða Cz. Airlines. Þetta voru nú óþarfa áhyggjur. Bara allt í lagi að fljúga með þeim, dálítið þröngt en fyrir eins tíma flug er óþarfi að kvarta.
Eftir nokkra tíma bið í Köben var haldið heim með Icelandair.
Á meðan þeir voru að lóðsa vélina út á brautina kom þessi ljúfa rödd í hátalarann og sagði:
Góðir farþegar þetta er flugstjórinn ykkar sem talar. Ég heiti Linda Gunnarsdóttir.
Úps, mér var litið á minn elskulega hvernig ætli honum líki að hafa konu við stjórnvöldin? Þetta var nefnilega í fyrsta skipti sem við höfum lent í því að fljúga með konu í kokkpittinu sem bar alla ábyrgð á ferðinni yfir hafið.
Minn var bara voða rólegur og lét ekki á neinu bera. Sætt af honum.
Ferðin heim var bara þægileg og af og til kom þessi mjúka rödd sem útskýrði hvar við værum stödd og hvernig veðurhorfur væru heima. Sem gömul flugfreyja bjóst ég nú við smá dýfum og hristing þegar við nálguðumst landið en allt voru það óþarfa áhyggjur. Vélin varla haggaðist og Linda lenti vélinni eins og engill. Bara svona renndi sér niður á fósturjörðina með mjúkri lendingu, afskaplega kvenlega.
Það var ekki fyrr en slökkt hafði verið á hreyflunum að vélin fór að hristast enda brjálað veður þarna á rampinum.
Takk fyrir ferðina Linda og áhöfn FI 213.
Déskoti var veðrið brjálað í nótt.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.8.2008 | 11:25
Mannfagnaðir margfaldir og ég missi af þessu öllu saman. Púhú...
Ég er að missa af hverjum stórviðburðinum þarna uppi á Hamingjulandinu! Svona er að búa erlendis og hafa svo ekki einu sinni rænu á því að kaupa sér miða heim heldur hanga hér hálfvolandi ofan í takkaborðið og vorkenna sjálfri mér þessi líka reiginar ósköp. Nei ég er nú aðeins að ýkja en það hefði ekki verið verra að vera heima núna og mæta í fimmtugsafmælis-Brunch hjá mágkonu minni í hádeginu í dag.
Til hamingju með daginn Bökka mín, heyrði að tónleikarnir hefðu verið dúndur flottir!!!!!
Á morgun á svo bróðursonur minn afmæli, ekki að ég hefði verið boðin í neitt unglingadúndur en hvað veit maður. Síðan er mágur minn hann Helgi Gunn 65 ára á fimmtudaginn! Þar með held ég að afmælisbörn mánaðarinn innan familíunnar séu upptalinn. Þetta er enginn smá hellingur, átta stykki í sama mánuðinum!
Finnst ykkur ekki annars, þið sem þekkið ekki haus né sporð af þessu fólki, skemmtilegt að lesa þetta hehehe.... jú mér datt það svona í hug!!! hehehehhe.....
Annars stendur hér mikið til um helgina, segi ykkur frá því seinna.
12.8.2008 | 19:27
Ég er soddan hænumamma
Ef það eru ekki tafir hjá verktökum þá eru það tafir sveitafélags. Eftir hverju er verið að bíða, einu stórslysinu í viðbót? Ég á mjög bágt með að skilja þetta og mig óar við því í hvert sinn sem ég veit af mínum nánustu út á þjóðvegum landsins og ekki bara þarna heima heldur líka hér erlendis þó vegirnir hér séu betur merktir ef um vegavinnu eða umferðaróhöpp er að ræða þá gera slysin ekki boð á undan sér því er nú ver og miður.
Um daginn þegar við vorum að keyra frá Munchen til Prag í samfloti með dóttur okkar, tengdasyni og barnabarni dróust þau dálítið aftur úr. Við vorum búin að vera í símasambandi alla ferðina en þarna sem við hjónin vorum komin langleiðina að ,,landamærunum" höfðum við ekki náð sambandi við þau í nærri heila klukkustund og mér var farið að líða frekar illa, maginn kominn í hnút og heilmið drama í gangi hjá minni.
Ég endurtók í sífellu það er örugglega eitthvað að, þau ansa hvorugum símanum, við verðum að snúa við. Ég var næstum búin að sannfæra minn elskulega um að ég hefði rétt fyrir mér svo hann ákveður að stoppa á næstu resteriu. Ég held áfram að hringja og fæ ekkert svar. Síminn hringir út og vinaleg rödd segir að báðir símar séu utan þjónustusvæðis. Það gat alls ekki staðist vegna þess að símarnir okkar voru inni allan tímann.
Þegar þarna er komið er ég orðin verulega histerisk og segi: Nú keyrum við bara á næstu lögreglustöð og fáum að vita hvort slys hafi orðið á leiðinni.
- Bíðum aðeins segir minn elskulegi en er orðinn ansi þungbúin enda með konuna í rusli í framsætinu.
Einhverra hluta vegna hafði hann parkerað bílnum þannig að hann sá út á hraðbrautina og allt í einu segir hann...- Þarna eru þau!
Ég píri augun og segi þú getur ekki séð svona vel frá þér
- Jú ég sá númerið, þetta eru þau.
Við brennum af stað og náum í skottið á þeim eftir örfá augnablik, og ég gef merki um að þau eigi að hringja í okkur um leið og við rennum fram úr þeim. Ég hugsa að augnatillitið sem dóttir mín og fjölskylda fékk þarna hafi ekki verið neitt sérlega fallegt.
Hún hringir og segir - Varstu að reyna að ná í okkur, æ símarnir voru báðir á silent!
Ég húðskammaði hana fyrir tillitleysið þegar við komum heim og hún lofaði að þetta kæmi aldrei aftur fyrir en ég sá að hún brosti út í annað yfir móðursjúkri móður sinni.
Æ það er bara aldrei of varlega farið í umferðinni og vonandi laga þeir þennan vegarspotta við fyrsta tækifæri.
Sveitarfélög tefja vegabætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.7.2008 | 20:35
Amberg var okkar bær og bjargaði okkar sálarheill fyrir átján árum
Ohhh ég veit nákvæmlega hvar þetta hótel er! Þessi litli bær í Bæjaraland var okkar lífsbjörg fyrir átján árum þegar við fórum einu sinni í viku yfir landamærin til að kaupa allar okkar nauðsynjavörur allt frá klósettpappír upp í mannsæmandi matvæli sem ekki fengust hér í þá daga.
Við bjuggum alltaf á sama hótelinu, Hotel Alstath og þar réði ríkjum fyrrverandi fegurðadrottning Amberg 1971, alveg satt, það var meira að segja mynd af henni á vegg í veitingasalnum. Blessunin leit nú ekki út eins og fegurðadrottning árið 1991 en hvað sem öðru leið þá var hún mjög elskuleg og tók alltaf á móti okkur eins og höfðingjum enda vorum við fastagestir í nokkur ár.
Í þá daga var Amberg bara lítill sveitabær, ég vil segja að þetta hafi verið svefnbær, rétt við landamæri Tékklands sem hafði ósköp lítið uppá að bjóða en hefur blómstrað með árunum. Ég sá strax að bærinn hafði mikla sögu að geyma og að hluta til er hann umkringdur háum múrveggjum og hliðum sem hafa staðið síðan á 15. öld. Í dag kemur þú í sögubæ sem hefur byggst upp ótrúlega hratt og varðveitt gamlar mynjar, s.b. þetta einstaka hótel sem ég ætla svo sannarlega að heimsækja næst þegar ég á leið um.
Ég get sagt ykkur margar sögur frá Amberg en læt nægja í þetta sinn að segja að minn elskulegi elskaði að gista hjá fegurðardrottningunni og heimtaði alltaf að við gistum í tvær nætur.
Segi ef til vill fleiri sögur frá Amberg seinna.
Minnsta hótel í heimi? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.7.2008 | 10:11
Tékkar eru sjálfstæð þjóð og hræðast ekki lengur
Um leið og utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Tékklands, Karel Schwarzenberg og Condoleezza Rice skrifuðu undir samninginn um uppsetningu eldflaugavarnarkerfis í Tékklandi blésu kaldir vindar um hundrað turna borgina Prag.
Þrátt fyrir lítil sem engin mótmæli hér í borginni höfðu sumir á orði að veðurguðirnir sýndu glögglega að þetta væri viðburður sem vert væri að taka eftir. Tékkar eru að því leiti líkir okkur Íslendingum að þeir trúa á veðurguðina og fara mikið eftir því hvernig vindar blása þegar stórviðburðir gerast. Eins og við eiga þeir líka óteljandi málshætti þar sem veður og vindar segja til um ókomna framtíð.
Tékkar eru þjóð sem bjó undir oki kommúnismanns í fimmtíu ár og létu yfir sig ganga kúgun og niðurrif og þau ár gleymast aldrei. Tékkar eru friðsöm þjóð og vinnusöm sem í dag eru á góðri leið með að verða eitt fremsta ríki V- Evrópu.
Uppbyggingin sem orðið hefur hér á undanförnum árum er ótrúleg og þeir eru stoltir af því að vera í dag sjálfstætt ríki sem stendur á eigin fótum. Þeir áunnu sér fljótlega, eftir flauelsbyltinguna hylli allra vestrænna þjóða og hræðast ekki lengur stóra bróður í austri.
Saka Rússa um þrætugirni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 10:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
30.6.2008 | 19:59
Dánartilkynningar á hraðbrautum Þýskalands.
Sorgleg staðreynd. Þegar við vorum í Þýskalandi um daginn og keyrðum hraðbrautina rákum við augun í ný aðvörunarskilti með vissu millibili. Þessi skilti voru svo sláandi að við hægðum ósjálfrátt á ferðinni í hvert skipti sem þau blöstu við okkur.
Þetta lítur út eins og risastór dánartilkynning. Svartur rammi, svartur kross á hvítum fleti og undir honum mynd af fjögra manna fallegri fjölskyldu síðan eftir nokkra tugi kílómetra byrtist önnur mynd af ungu pari sem klædd eru í mótorhjólabúning. Myndirnar eru risastórar og í svart hvítu. Gleði og hamingja skín úr augum þessa fólks og manni finnst eins og lífið blasi við þeim. Undir myndunum koma síðan nöfn þessara einstaklinga.
Mig minnir að ég hafi séð á Íslandi skilti sem á stóð Liggur þér lífið á, eða eitthvað í þá áttina og að mér hafi þótt þau góð á sínum tíma, en þessi aðvörunarskilti í Þýskalandi eru svo raunveruleg að jafnvel löngu eftir að þú hefur ekið fram hjá þeim þá eru þessir einstaklingar enn ljóslifandi fyrir þér og þú hefur lækkað hraðann umtalsvert.
Hraðakstur algengast orsök banaslysa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
29.6.2008 | 19:34
Hef upplifað hér storma og flóð en ekkert eins og þetta. Við vorum í auga stormguðsins!
Það er ekki laust við að ég hafi verið komin með pínu fráhvarfseinkenni þar sem ég hef verið dálítið fyrir utan alheiminn í nokkra daga. Ekki það að ég hafi saknað ykkar neitt rosalega mikið grey skammirnar ykkar hér á blogginu, og þó.... e.t.v. pínu pons.
Í fyrsta lagi var ég mjög upptekin af því að taka á móti minni elskulegu systur, hennar ektamaka og tveimur börnum. Fimm ára og 10 mánaða. Þið skiljið að þá hefur maður meir en nóg að gera. Cheriosið, kókópuppsið, ávextir og önnur hollusta verður auðvitað að vera til á staðnum og síðan að taka fram öll leikföng og græjur fyrir þennan aldur. Síðan verður maður að vera í stuði til að ræða við fullorðna, leika við börnin og njóta samvista við fjölskylduna eins vel og maður getur. Sko þetta er full time job elskurnar en I love it!
Á miðvikudagskvöldið var ég að fara að leggja hér á borðið úti á verönd og er litið til himins og sé hvar kolsvartur himininn hvelfist yfir sveitina. Ég segi: Jæja folkens hér verður nú ekki snætt úti í kvöld. Ég rétt náði að henda inn af borðinu og taka það mesta lauslega þegar skall á hvirfilvindur eins og þeir gerast verstir. Hér varð myrkur eins og um hánótt og lætin í veðrinu voru ógurleg.
Veðrið gekk niður á hálftíma eða svo. Þegar stytti upp fórum við út að kanna skemmdir og það var ekki fögur sjón sem blasti við okkur. Hér féllu fjögur 25 metra há tré í garðinum okkar svo og þrjú þriggja ára sem ég hafði umhyggjusamlega gróðursett. Við vorum heppin að þau tré sem féllu voru það langt frá húsunum að við sluppum við skrekkinn. Sem sagt maður fór í smá Pollýönnu leik, enda var ekkert annað hægt að gera í stöðunni.
Við vorum rafmagnslaus og vatnslaus hér í tvo sólarhringa þar sem sveitin okkar varð víst verst úti. Það er hræðilegt umhorfs hér í skóginum, trén molnuðu eins og eldspítur og einhver hús urðu undir stórum trjám hér í nágrenninu. Vegir lokuðust víða en sem betur fer höfum við ekki heyrt um neinn mannskaða.
Það var langt í frá auðvelt að vera hér með lítil börn, vatns- og rafmagnslaus. Matur var farinn að skemmast í ískápunum og þetta hefði varla getað gengið lengur. Var farin að búa mig undir að flytja með alla niðrí Prag. En nú er allt komið í gott lag og við hér skötuhjúin ein í kotinu vegna þess að litla systir fór niðrí íbúðina okkar í Prag og ætlar að vera það í nokkra daga og njóta borgarlífsins. Ætli þau hafi bara ekki verið búin að fá nóg, bannað að taka mig alvarlega núna!! Heyriði það !
Sem sagt hér erum við búin að upplifa ævintýri og hamfarir síðustu daga. En nú er lífið komið í samt horf og við erum bara hress að vanda í blankalogni og heiðríkju.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)