Færsluflokkur: Lífstíll
25.12.2007 | 23:31
Ó helga nótt.
Nú hefur færst ró yfir heimilið og stjörnubjartur himinn hvelfist yfir okkur með allri sinni dýrð hér að Stjörnusteini. Við erum búin að eiga yndisleg jól með litlu fjölskyldunni okkar bæði í gær og í dag og nú sit ég hér ein við kertaljós og nýt kyrrðarinnar. Litla sálartetrið mitt er fullt af þakklæti fyrir þá blessun sem fylgir barnaláni en mikið hef ég saknað Soffíu minnar, litla skriðdrekans,Þóri Inga og Steina þessi jól. En það er ekki hægt að heimta allt hér í henni veslu, svo maður verður bara að vera þakklátur fyrir það sem Guð gefur manni hverju sinni. Og það koma jól eftir þessi jól.
Þegar þið vaknið í fyrramálið, gleymið ekki að gefa smáfuglunum. Það leynist alltaf einn og einn á meðal þeirra sem fylgja ykkur á lífsleiðinni.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.12.2007 | 22:58
Mamma þú verður að snúa messunni við!
Allt frá því ég var barn var sest niður klukkan sex, fjölskyldan og móðuramma mín og hlustað á messuna í útvarpinu og þessum sið hef ég haldið. Ég varð mér út um kassettu hjá Ríkisútvarpinu með jólamessunni eftir að ég fór að halda jól hér og hún var spiluð alla vega í fimm ef ekki sex ár. Það var dálítið fyndið með þessa spólu það varð að snúa henni við í tækinu þegar messan var hálfnuð og stundum gall í krökkunum: ,, mamma þú verður að snúa messunni við"
Ég man í gamla daga þegar amma mín sussaði á okkur systkinin. Við skildum sitja prúð og hljóð og hlusta á ritninguna og syngja alla sálmana á meðan mamma mín var yfirleitt að sýsla eitthvað í eldhúsinu en alltaf kom hún inn í stofu til að syngja með okkur Heims um ból, helg eru jól.
En talandi um messuna okkar hér í Prag þá nefndi ég þetta einhvern tíma við vinkonu mín og sagði að við værum eiginlega alveg búin að fá nóg af því að snúa alltaf jólamessunni svo hún sendi mér, fyrir nokkuð mörgum árum, jólamessuna á CD. Þvílíkur munur, nú þurfti ekki að snúa við messunni og falleg ritning og sálmar komu óhindruð úr geislaspilaranum.
En ef satt skal segja þá held ég að öll fjölskyldan sé farin að kunna jólaerindi Dómkirkjuprests upp á sína tíu fingur svo nú er kominn tími til að endurnýja messuna á þessu heimili. Mér datt í hug á aðfangadag að seinka jólunum hér um eina klukkustund og hlusta á messuna í beinni á netinu en æ ég vissi að það myndi ekki falla í góðan jarðveg hjá heimilisfólkinu svo og að það er ekki alveg að gera sig þetta net stundum, og hlusta á messuna í ,,stakadó" úps, held bara að það geri sig ekki.
Svo nú ætla ég að gera mér ferð upp í útvarp og fá nýja jólamessu fyrir næsta ár, veit ekki hvort þetta liggur léttilega fyrir almenning, alla vega var það ekki þannig í gamla daga þegar ég fékk kassettuna góðu. Þá varð ég að fara bakdyra megin og grenja þetta út. En þar sem ég þekkti vel til hjá þeirri stofnun var þetta ekki mikið mál fyrir mig en ég man að fólk sem bjó þá líka erlendis skildi ekki hvernig þetta var hægt. Ég held samt í dag að þetta sé ekki mikið mál, ætla alla vega að kíkja á gamla liðið þarna hjá RUV. og e.t.v. man einhver eftir mér. Svo er nú hann ,,litli" bróðir minn þarna og hann reddar þessu örugglega snarlega ef ég þekki hann rétt.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.12.2007 | 11:18
Skata, hangikjöt, rauðkál og jólakveðjur útvarpsins á Þorláksmessu
Hér hefur aldrei fengist leyfi til að elda skötu á heimilinu á Þorláksmessu enda borða ég ekki ónýtan mat! En minn elskulegi verður að fá þetta ómeti svo Skatan er komin hingað fljúgandi yfir hafið og staffið okkar og gestir verða bara að láta sig hafa það að þola ammoníaklyktina eina ferðina enn.
Þeir íslendingar sem borða Skötu og eru hér í borginni yfir hátíðarnar koma alltaf saman á Rest. Reykjavík og gæða sér á þessum þjóðlega rétti með tilheyrandi ummi og jammli. Við hin sem ekki borðum Skötu fáum okkur sjálfsagt í ár af jólahlaðborðinu okkar. Ef satt skal segja er ekki ýkja mikið um gesti á Reykjavík á Þorláksmessu þeir hrökklast í burtu um leið og lyktin fer að berast inn í salinn og út á götuna
Það er kominn mikill hátíðarblær hér yfir heimilinu. Rauðkálið soðið, grunnurinn af rjúpusósunni mallar í potti og hangikjötið komið yfir og húsið ylmar af Þorláksmessulykt, alveg eins og það á að vera. Nú bíð ég bara eftir að jóakveðjurnar byrji í útvarpinu, Guði sé lof fyrir netið, og á meðan ég hlusta á þær sný ég mér að því að laga eftirréttinn.
Núna á eftir rennum við í bæinn og hittum vini og kunningja í hundrað turna borginni okkar og röltum út á Stare Mesto en þar er jólamarkaður og meiri háttar jólalegt. Man ekki eftir að hafa séð eins smekklegar jólaskreytingar ein og í ár.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2007 | 23:07
,,Jólaballinu" fer nú senn að ljúka
Var aðkoma inn úr frostkaldri nóttinni eftir að hafa verið með mínum elskulega í næst síðasta jólapartýi ársins 2007. Trallallalla mikið er ég fegin að þessum jólagleðskap fer að ljúka og við getum bara sest niður og ,,chillað" hér heima í kotinu okkar. Annars var þetta frábær veisla hjá Hollenskum vinum okkar þar sem samankomnir voru allra þjóða listamenn, frægir sem og minna frægir.
Því miður misstum við af því að hlusta á nokkrar af mínum kunningjakonum, sem komu saman í kvöld og gengu um miðborgina og sungu jólalög. Þær komu við á Restaurant Reykjavík og sungu fyrir gesti og gangandi en við sendum þjónana okkar út á götu sem færðu þeim heitt jólaglögg frá okkur sem var víst vel þegið þar sem frostkuldinn var farinn að herja á beinin.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2007 | 10:21
Vinkonan gat ómögulega munað hvar hún hefði gift sig!
Var þetta jólastress eða hvað? Í snarvitlausu veðri hittust vinkonur mínar í Langholtskirkju þar sem tónleikar voru haldnir til minnangar Sturlu Erlendssonar sem lést fyrir tæpu ári síðan. Búið var að kaupa miða og fram að síðustu stundu var beðið eftir einni okkar sem, ja ef satt skal segja, er iðulega ansi róleg í tíðinni. Þar sem ekkert bólaði á minni héldu þær að hún hefði bara ekki treyst sér út í veðrið og ákveðið að halda sig heima en svo var nú aldeilis ekki raunin.
Eftir tónleikana var ákveðið að fara á kaffihús og spjalla aðeins saman. Þegar þær vinkonurnar, sem höfðu notið frábærra tónleika Fóstbræðra, mættu á kaffihúsið situr ekki mín bara þar og er ansi kindarleg á svip. Hún hafði bara alls ekki munað hvort hún hefði gift sig í Langholtskirkju eða Áskirkju fyrir 36 eða -7 árum! Það skal tekið fram að þessi vinkona okkar er fædd og uppalin í Reykjavík.
Þegar hún kom að Langholtskirkju en vinkonurnar voru búnar að segja henni að tónleikarnir væru í kirkjunni sem hún hefði gift sig í, fannst henni ekkert kunnuglegt við umhverfið enda hefur mikið verið lagað í kring um kirkjuna síðan 1969. Og eins og hún tók til orða: ,, það voru svo margir bílar á bílastæðinu svo hún sá ekki almennilega hvort hún væri á réttum stað". Hún ákvað með sjálfri sér að þetta gæti ekki verið rétta kirkjan og hélt að Áskirkju en þá kannaðist hún heldur ekkert við að hafa gift sig þar
Þetta held ég að sé hámark jólastressins! Því við hinar vinkonurnar neitum því alfarið að þetta sé ,,old timer" við erum ekki svo gamla eða kalkaðar að muna ekki hvar við giftum okkur þó árin séu orðin ansi mörg.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2007 | 16:50
Norðlenska hráa hangikjötið þótti lostæti
Í gær héldum við ,,Opið Jólahús" hér heima í sveitinni fyrir vini og kunningja. Um förutíu manns komu og dönsuðu inn jólin með okkur. Það myndast alltaf dálítil stemmning þegar minn elskulegi kemur með hangilærið og sker smá flís handa hverjum og einum að smakka.
Jólaglöggið, sem við lögum á ,,okkar vísu" með Grandi og koníaki rann ljúflega niður og fólk var farið að taka undir jólalögin sem hljómuðu hér um allt hús. Hver með sínu nefi að sjálfsögðu.
Möndluleikurinn vekur líka mikla lukku og að þessu sinni var sá heppni frá Englandi og fékk að sjálfsögðu möndlugjöf.
Virkileg jólastemmning hér í sveitinni og þúsundir jólaljósa hér í garðinum gerði þetta ævintýralegt fyrir marga sem skilja ekki hvernig við förum að því að setja allar þessar seríur upp fyrir hver jól. Það var kátt fólk sem hélt útí stjörnubjarta vetrarnóttina með yl í sálu og sinni eftir skemmtilega samverustund á aðventu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2007 | 16:16
Sunnudagur annar í aðventu
Í tilefni afmælis Bríetar tengdadóttur okkar var snætt á Four Season í hádeginu og litla prinsessan okkar hún Elma Lind í fyrsta skipti úti á veitingastað. Ekki seinna vænna að venja barnið við, enda orðin sex vikna gömul.
Afmælisbarnið fékk þetta líka forláta kaffi, heilar tvær matskeiðar neðan í bolla, hnausþykkt, ræktað úr úrgangi katta sem ala aldur sinn á kaffiekrum, að mér skildist og auðvitað verðið eftir því. Datt í hug að spyrja hvort gullmoli leyndist í botninum.
Ég og minn elskulegi ætlum að hafa það huggulegt hér það sem eftir er dagsins og kveikja á Betlehemskerti aðventukransins og njóta þess að vera saman.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2007 | 11:33
Ljósin tendruð að Stjörnusteini
Það var jólalegt í gærkvöldi þegar ég renndi í hlaðið. Pavel minn var búinn að setja upp þúsundir ljósa hér um alla eignina svo lýsti langar leiðir. Hann hefur verið mér innanhandar undanfarin ár og sett seríurnar upp en átti stundum mjög erfitt með að skilja að seríum er hent ef þær virka ekki almennilega. Eitt árið var hann í heila viku, án þess að ég vissi, að dunda við að skipta um perur í tugum sería sem voru að mínu áliti gjör ónýtar. Það tók mig langan tíma að útskýra fyrir honum að þetta væri tímasóun og líka það að perurnar kostuðu meira en ný sería. Já stundum reynir á þolinmæðina í þessu landi.
Fyrstu árin hér áttum við í miklu basli með rafmagnið um hátíðarnar. Um leið og ég var búin að tengja eina seríu sló rafmagnið iðulega út. Þetta fór rosalega í mínar fínustu. En þegar árin liðu fóru þeir að skilja að á þessu heimili er rafmagn ekki sparað svo fljótlega komust hlutirnir í lag.
Sveitungar okkar gera sér ferðir hingað á aðventunni til þess að bera dýrðina augum enda skreytir engin hér um slóðir jafn mikið og hún ég. Jóla hvað?
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2007 | 11:46
Síðan á að set´í þetta aðeins bara kíló pipar
Þessar laglínur eru búnar að klingja í höfðinu á mér í morgun á meðan ég flatti piparkökudeigið,, út á fjööööl!" Varð hugsað til áranna þegar krakkarnir og ég skemmtum okkur við piparkökuskreytingar. Þvílíkt sullumsull. Jólaög sungin fullum hálsi um Gunnu á nýju skónum og Jólasveininn sem kyssti mömmu.
Ég erfði þetta líka forláta rúllukefli frá mömmu minni sem auðvelt var að rúlla yfir deigið og útkoman: jólasveinar, jólatré, bjöllur, stjörnur og mánar. (hvað ætli hafi orðið um það kefli?) Allt var þetta síðan skreytt með gulum, rauðum, grænum og hvítum glassúr og allir kepptust við að láta listræna hæfileika sína framkallast sem best á kökunum. Oft var rifist um þegar sagt var: ,, þessa gerði ég" þá heyrðist: ,, nei ég gerði þessa"
Dýrmætar minningar og skemmtilegar.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2007 | 23:43
Jólakort, kertaljós og jólalög fyrsta sunnudag í aðventu
Það voru börn í Bretlandi um miðja 19. öld sem byrjuðu að búa til jólakort og senda vinum og ættingjum, ja eða svo segir sagan. Yfirleitt voru þetta ljóð sem börnin settu niður á pappír og myndskreyttu síðan.
Handgerð jólakort eru fáséð í dag því miður, en alltaf slæðist þó eitt og eitt í póstkassann okkar. Ég dáist að fólki sem gefur sér tíma til að handgera jólakortin sín en þetta gerði maður jú hér í den í barnaskólanum og lagði sig allan fram til að hafa þau sem fallegust, glasmyndir og glimmer var alveg toppurinn.
Jólakortavinir okkar eru margir og um hver jól ætla ég að skera aðeins niður en það hefur gengið frekar illa hingað til. Ef ég tek einn út bætist bara annar við svo fjöldinn breytist lítið frá ári til árs. Ég er ansi hrædd um að þetta sé þannig hjá flestum sem á annað borð senda jólakveðjur.
Jólakveðjur eiga líka að vera persónulegar og skrifaðar með vinarþeli og hlýju. Hverjum finnst gaman að fá kort sem er prentað Gleðileg Jól, farsælt komandi ár, Jón og Gunna. Ekki mér. Fólk sem sendir svona kveðjur á bara að sleppa því. Annað sem sumir hafa tekið upp á er að senda jólakveðjur á aðfangadag í tölvupósti. Halló!
Jæja nóg um það. Hér er jólapósturinn langt kominn og ég naut hverrar mínútu í dag að sitja við skriftir og hugsa til hvers og eins þegar penninn þaut yfir kortin. Virkileg jólastemmning í húsinu þar sem jólatónlist og flöktandi kerti gerðu þetta að hátíðarstund fyrir mig á meðan minn elskulegi horfði á enska boltann í sjónvarpinu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)