Það var örugglega meira fjör inn í hólkinum síðast.

Ég svaf lítið í nótt.  Var svona á milli svefns og vöku alla nóttina.  Mig dreymdi eða ég held mig hafi verið að dreyma fólk sem mig hefur aldrei dreymt áður en gott fólk og góðar draumfarir svo ekki ætla ég að kvarta yfir því.   

Ég er mikið að velta því fyrir mér hvort ég eigi að fá mér blund.  Held að það sé alveg bráðnauðsynlegt þar sem ég var komin á ról hér fyrir fimm í morgun.  Það er bara spurning hvort ég eigi að henda mér á rúmið eða fleyja mér í sólstól úti á verönd. 

Sem sagt hrikalega erfið ákvörðun sem ég stend fram fyrir, svo líka þar sem sólin felur sig öðru hvoru bak við ský þá gæti mér orðið kalt á tásunum ef ég legg mig úti en ef ég fer upp þá gæti verið að ég gæti ekki fest blund þar sem ég er ekki vön að henda mér að degi til. 

Hætti bara við, þetta er allt of mikið vesen.

Nú spyr einhver hvað var konan að gera klukkan fimm í morgun. Jú elskurnar mínar ég varð að vera komin inn í Prag klukkan sjö en þá átti ég að vera mætt í CT og þar sem ég hafði aldrei komið á þennan spítala fyrr var eins gott að hafa tímann fyrir sig.  Þetta eru þvílíkir ranghalar og byggingar við þessar stofnanir hér. 

Ég var sem sagt í seinustu rannsókninni eða þar til annað verður ákveðið. Mig minnir endilega að það hafi verið meira fjör inn í hólkinum síðast alla vega voru engin smile merki í þessum sem mér var rennt inn í í morgun enda var verið að taka scan af öllu draslinu inní mér í morgun en ekki bara einhverjum parti af innyflunum. 

Þá vitið þið hvers vegna mig langar til að fá mér ,,kríu"  held bara að ég láti það eftir mér.

Er samt enn að pæla í því hvort ég eigi að fara út eða vera inni.

Það sem maður getur verið ósjálfstæður og klikk!

Nennessekki lengur!  Farin út!


Brotnir diskar, brúðarstuldur og aðrar hefðir í hundrað turna borginni.

Það var hálf haustlegt hér í gær og blés kröftuglega þar sem við stóðum í einum af glæsilegasta hallargarði hundrað turna borgarinnar. 

Gestir stóðu í litlum hópum hér og þar um garðinn og spjölluðu.

Svo birtist hún eins og engill, hvítklædd með hvítan blómvönd.  Andlitið geislaði af hamingju og hún næstum sveif niður tröppurnar í fylgd föður síns.  Ég þekki hana næstum ekki neitt en samt táraðist ég.  Hvað er þetta með það að grenja alltaf við brúðkaup? 

Við vorum viðstödd borgaralegt brúðkaup í gær þar sem gefin voru saman Íslendingurinn Leifur Alexander og fallega tékkneska Marketa eða Marky eins og hún er kölluð.

Falleg látlaus athöfn sem fór fram á þremur tungumálum, tékknesku, íslensku og ensku svo það færi ekki fram hjá neinum hvað um var að ræða þarna.

Það getur verið algjör þolraun að lenda í tékkneskum brúðkaupum þar sem haldið er í ævafornar hefðir.  Sem betur fer var farið milliveginn í gær svo þetta varð ágætis blanda af ísl./tékk. brúðkaupi.

Venja er að fjölskylda brúðarinnar kemur saman heima hjá foreldrum hennar eldsnemma um morguninn og hjálpast við að klæða hana og skreyta bíla gestanna á milli þess sem sópað er í sig skinku, súrum gúrkum, sveppum og stundum köldum snitzel og rennt niður með bjór og Becerovka sem er snaps.

Athöfnin fer síðan venjulega fram um hádegi hvort sem það er borgaralegt eða kirkjubrúðkaup.  Við vorum einu sinni boðin þar sem hjónin voru gefin saman hér í ráðhúsinu og sú athöfn minnti mig helst á hersýningu á tímum Stalins.

Eftir athöfnina fara veislugestir í halarófu á skreyttum bílum þangað sem veisla er haldin.  Allir þenja bílflauturnar eins og frekast er kostur.  Það er ein hefðin og ef þú lesandi góður ert einhvern tíma staddur í hundrað turna borginni á föstudegi um hádegisbil láttu þá ekki koma þér á óvart óþolandi bílflautuvæl sem ómar hér um öngstræti borgarinnar.  Þetta gengur yfir sem betur fer.

Það fyrsta sem gerist þegar komið er að veislusalnum er það að brúðurin brýtur disk fyrir framan brúðgumann og saman tína þau upp brotin og sópa vel og vandlega ekkert brot má verða eftir því það stýrir ólukku.  Þannig að þarna skríða brúðhjónin um allt gólf tínandi upp glerbrot og sópandi flísar.  Þegar þau standa upp er brúðarkjóllinn orðinn ansi sjabbí og brúðguminn með hné í buxunum. 

Það er mikið nastravíað (skálað) í svona veislum og venja að byrjað sé á kampavíni og léttum málsverði sem samanstendur af kjúklingalifrasúpu, nautakjöti (Pot roast) með knellik (soðkökum) og þungri sósu.  Brúðarterta og kaffi.  Þessu er skolað niður með góðu magni af víni, öllum sortum.

Ræður eru ekki margar (sem betur fer) Brúðhjónin fá fyrst allra súpuna og þjónninn kemur með stóran dúk og bindur hann utan um nýgiftu hjónin svo þau eru nú komin með einn ,,smekk" og mata hvort annað á súpunni.  Eitthvað hefur það líka með það að gera að það má ekki sulla einum dropa niður þá er víst voðinn vís. Eftir þessa þolraun taka allir til matar síns.

Eftir kökuátið tekur maður eftir því að brúðurin er horfin. Þá er sem sagt búið að stela brúðinni og koma henni fyrir einhvers staðar á nærliggjandi pöbb þar sem hún djammar með vinkonum sínum.  Brúðguminn fer síðan með sínum vinum að leita hennar og finnur alltaf á endanum og þar setjast þau að sumbli.  Á meðan þessu fer fram sitja veislugestir áfram og blaðra við vini og vandamenn.  Þeir sem ekki þekkja neinn eins og komið hefur fyrir okkur hjónin þá lætur maður sér leiðast út í horni.  Þetta getur tekið allt upp í þrjár klukkustundir.  Þetta er eins og það sé verið að hegna manni fyrir að mæta í viðkomandi gilli.

Loksins þegar þau nýgiftu láta sjá sig aftur eru þau orðin vel kippó og kát.  Þá er tekið við að borða aftur!  Nú er svíni sem búið var að slátra fyrr um morguninn og hefur snúist á teini allan daginn, sporðrennt með tilheyrandi súrmeti og dóteríi.

Þegar þarna er komið er maður orðinn svo stútfullur af mat að ekki er möguleiki að koma sér út á dansgólfið þar sem nú hefur verið skverað upp balli í tilefni dagsins.

Þá er aðeins ein hefð eftir og það er það að brúðurin sér færi á því að nú geti hún halað inn smá pening í sínu eigin brúðkaupi svo hún skellir sér úr skónum og haltrar á milli gesta sem sitja afvelta eftir allan matinn eða ofurölvi og nú rekur hún skóinn með táfýlunni næstum upp í nef gestanna og biður þá góðfúslega um ölmusu.  Allir rétta eitthvað fram, það bara tilheyrir.  Eftir þessa uppákomu geta gestir loks haskað sér heim á leið en um leið og þú lætur þig hverfa er þér rétt karfa full af smákökum og vín í flösku svo maður hafi nú eitthvað að maula á heimleiðinni.

Brúðkaupið í gær var sem betur fer ekki svona hefðbundið.  Það voru brotnir diskar og þau mötuðu hvort annað af súpunni og allir síðan átu á sig gat en aðrar tékkneskar uppákomur voru látnar eiga sig.

Það datt aðeins andlitið af Tékkunum þegar Íslendingarnir fóru að slá í glös og hjónin stigu upp á stólana til að kyssast en þeir lærðu fljótlega þennan ,,sið"  okkar (sem ég hef ekki hugmynd hvaðan kemur) og fannst bara gaman að þessu.

Þá vitið þið hvað við vorum að bardúsa í gærdag og langt fram eftir kvöldi. 

 


Af hverju þið ekki bara skjóta þessa bankamenn og aumingja? Það við gera, mín þjóð.

Skiljanlega kippist fólk til við að heyra skothvelli nálægt byggð. En stendur ekki veiðitíminn yfir núna og þá fara skotglaðir á stúfana og leika sér í byssu og bófahasar.

Ekki það að ég sé að mæla með því að drita á blessað fiðurféð nálægt byggð og raska þar með ró manna um óttubil, nei aldeilis ekki.  Halda sig alla vega fyrir ofan snjólínu hvar sem hún er nú sögð vera þessa dagana.

Þetta minnir mig á atvik sem gerðist hér sl. sunnudag.  Við, ég og minn elskulegi sátum í hádeginu úti á veitingastað í einni fjölförnustu götu Pragborgar með góðum vinum frá Íslandi. 

Þar sem við sátum þarna og rifjuðum upp skemmtilegan tíma saman sl. sumars kom maður gangandi að borðinu okkar og heilsaði.  Við kyntum manninn fyrir gestum okkar og hann fór að spyrja frétta frá Íslandi.  Hafði verið búsettur heima í nokkur ár og spilað m.a. með Ísl. Sinfóníunni.

Umræðan snerist brátt að ástandinu og ,,útlendingurinn" sagði okkur ekki farir sínar sléttar.  Hafði tapað peningum þarna heima og var skiljanlega mjög heitt í hamsi eins og við gætum bara leyst þessi mál hans þarna á gangstéttinni í miðri Evrópu.

Eftir að hafa hlustað á langa og ítarlega sögu hans segir hann:  Af hverju þið ekki bara skjóta þessa bankamenn og aumingja?

Við urðum hálf hvumsa, var maðurinn að djóka eða hvað? 

Nei honum var fúlasta alvara og þegar ég sagði:  Já þú meinar það, bara fá okkur byssur og skjóta þá alla á færi?

Hann horfði á mig með þessum svörtu augum og sagði:  Já það við gera, mín þjóð, bara finna einhverja sem hafa þetta að atvinnu og borga þeim slikk fyrir að skjóta þá. Ekkert vesen.  Minnsta mál í heimi. Bara svona eitt púff og þið laus við alla vitleysingana.  Svo auðvelt að finna svona atvinnumorðingja. 

Ég beið eftir því að hann segði: ,, Ég skal hjálpa ykkur með þetta".´

Ef satt skal segja varð mér svo um að ég stóð upp og fór inn á salernið.  Þegar ég kom út aftur var hann að kveðja og við sátum eftir hálf viðutan og hugsandi öll saman. 

Manninum hafði verið fúlasta alvara!

 


mbl.is Skothvellir í Salahverfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er lífið.

Ég er sjálfsagt alls ekki ein um það að finnast tíminn líða eins og örskot fyrir sólu. Allt það sem ég ætlaði að framkvæma í gær liggur bara á hakanum og bíður betri tíma.

Hér eyddi ég megninu af deginum í gær og lét mig dreyma, las í bók og hugsaði.

Ágúst 2009 006 Nei svo sem ekki amalegt skot.

Á föstudagskvöld fengum við góða gesti og héldum lítið kveðjusamsæti fyrir norska vini okkar, svona knus og kram party með tilheyrandi tárum og snýtuklútum.

Ég bjó til borðskreytingu með haustívafi, ekki svo galið hjá minni.

Ágúst 2009 003

Ávextir eru notaðir í allt á þessu heimili þessa dagana, líka til skrauts

Ágúst 2009 005

Hér sjáið þið ef vel er skoðað kryddjurtirnar mínar sem eru ómissandi líka þessa dagana.

Ágúst 2009 007

Neip sjást ekkert vel. Jæja skítt með það.

Þessi stóð fyrir því að fæða liðið með stórsteikum og öðru gómsætu gumsi.

Ágúst 2009 013 Hann hefur aldrei neitt fyrir þessu minn elskulegi, galdrar jafnvel blindandi alltaf eitthvað fínerí.

Já svona var nú umhorfs hjá okkur hér á veröndinni í góðum félagskap á síðsumarskvöldi.

Ágúst 2009 012 

Séð yfir hálfa veröndina að Stjörnusteini

Ágúst 2009 008  Takið eftir Erró sem liggur þarna fram á lappir sér og bíður eftir því að kampavínið flæði.  Orðinn hrikalega þreyttur á því að bíða.

 Datt bara svona í hug að setja þetta inn til minningar.

Farin út í skotið mitt með bókina mína.

 

 


Nú er kominn tími til að uppskera hér að Stjörnusteini.

Þegar við fluttum í fyrsta húsið okkar hér í Prag fyrir mörgum árum fylgdi með þokkalegur garður.  Ég ætla ekki að segja ykkur hvað ég var himinlifandi, ekki aðeins af því að komast úr kakkalakkaíbúð í mannsæmandi húsnæði heldur líka að fá garð og með þetta líka flottum ávaxtatrjám.  Epli, perur, plómur, kirsuber og radísur, vaxa þær ekki líka á tránum?  Bara nefndu það! 

Og konan var himinlifandi en dvaldi ekki lengi í Paradís því þegar haustaði kom að því að sulta, safta, búa til grauta og hvað þetta nú allt heitir og hún ég hafði aldrei farið í húsmæðraskóla ( ég taldi nefnilega alla visku koma frá Húsmæðraskólum bara af því ég hafði farið frekar á Lýðháskóla og nennti ekki að læra að elda norsk mad) aðeins verið í matreiðslu í Réttó og alltaf staðið álengdar þegar mamma bjó til sultur og saft því það var ekki ætlast til að maður tæki til hendi í því eldhúsi. 

Hér með er því komið á framfæri að ég hef aldrei verið mikil búkona. Alla vega ekki svona sultu,grautar eða sveppagerðarmanneskja.  Voða gott að láta bara aðra sem nenna að vesenast í þessu gera það fyrir mig. 

Ég man hvað ég glápti á trén, andskoti var mikið á þeim, ætlaði þetta aldrei að taka enda svo ákvað ég að láta náttúruna sjá um sig og hætt að glápa á trén. 

Ég hefði betur hundskast út og tínt eitthvað af þessari hollu fæðu og gefið bara öskuköllunum (þeir fengu allt sem ég vildi ekki nota lengur eða gat verið án í þá daga) því þegar leið á haustið var garðurinn eitt drullusvað þar sem epli, perur og annar úrgangur safnaðist fyrir neðan trén og safnaði í sig allslags bakteríum og óþverra.  Get svarið fyrir það garðurinn leit út eins og í hryllingsmynd og það var ekki farandi niðrí hann nema á klofstígvélum.

Ekki man ég hvernig þetta endaði en örugglega með ósköpum og ég fengið einhvern velviljaðan sem vantaði pening til að þrífa þetta gums.

Þegar við fluttum hingað að Litla Íslandi þá var ég svo himinlifandi yfir því að það voru engin ávaxtatré eða svo hélt ég.  Komst að því fyrsta vorið að hér er himinhátt kirsuberjatré en sem betur fer svo hátt að þangað kemst aðeins fuglinn fljúgandi eftir berjunum og veisla hjá þeim allan júlímánuð.  Síðan voru þrír kræklóttir aumingjar hér við lóðarmörkin langt frá húsinu okkar.  Ég skipti mér ekkert af þeim en eftir því sem við fórum að þrífa í kring um þessar hríslur byrjuðu þær að dafna og viti menn voru þá þetta ekki plómutré sem Tékkar kalla svetské eða sveskjutré. 

Í dag eru þetta hin gerðalegustu tré og í ár eru miljónir sveskja sem dingla þarna engum til ánægju og mér til ama vegna þess að ég veit að ég verð að hunskast til að tína þetta.

Indian sumar 2009 015 

Ef vel er að gáð þá er þetta blágráa afurðin, obboslega eitthvað krúsulegt.

Er einhver til í að koma og hjálpa mér?  Ég borga vel í PLÓMUM nú eða SVESKJUM ef það verður komið fram á haustið.

Hugmynd býð gestunum mínum bara að tína hér í kvöld fyrir matinn við undirleik og söng frá Tom Jones hann hefur alltaf svo hressandi áhrif á mig. 


Að vera valin ein af þessum 5% heppnu er ómetanlegt!

Ég var búin að segja ykkur að það yrði ekki alveg svona auðvelt að losna við mig aularnir ykkar!

Í gær hitti ég Dr. Kopkova yndislega lækninn minn og eftir nokkra bið og venjulega rannsókn sagði hún okkur þær gleðifréttir að allt liti vel út og ég væri ,,hrein".  Ég fer í CT eftir tvær vikur og eitthvað annað sull sem verður sprautað í mig sem ég kann ekki að nefna en það er bara til að taka af allan vafa.

Stórum áfanga er náð!

Það er búið að taka mig aðeins tíma að átta mig á þessum góðu fréttum.  Loftið er smám saman að fara úr blöðrunni og ég fer að geta andað léttar með þessu hálfa lunga.  Ég get núna fyrst grátið af þakklæti yfir að vera valin ein af þessum 5 % heppnu. 

Og áður en ég fer að háskæla þá vil ég þakka ykkur öllum sem stutt hafa mig alla þessa mánuði með orðum og í verki. Minn elskulegi sem stóð eins og klettur við hlið mér og rak mig áfram bæði með harðri og mjúkri hendi fær alveg spes knús.  Börnin mín og tengdabörn sem stóðu sig eins og hetjur þakka ég líka fyrir að vera til.  Án þeirra hefði baráttan verið erfiðari.

 Stórt faðmlag inn í góðan og bjartan dag.

  Guð blessi ykkur öll.  

 


Skáldin okkar góðu þeir Þórbergur, Gunnar og Halldór.

Allt annað líf enda búin að vera með Skáldalífið hans Halldórs Guðmundssonar í eyrunum síðustu tvo dagana á meðan ég dingla hér út við grindverkið. 

Þökk sé Walkman og framförum alheimsins. 

Það er ekki laust við að mig langi til að taka bækurnar þeirra kumpána, Þórbergs og Gunnars Gunnarssonar til yfirlestrar enn einu sinni.  Viss um að ég mundi leggja allt annan skilning í þær núna en fyrir 30 árum eða svo.

Hallgerður Péturs bloggvinkona mín benti mér á bloggið hans Illuga Jökulssonar hér fyrir tveimur dögum að ég held, þar sem Illugi fer á kostum með að skilgreina Bjart í Sumarhúsum.  Ekki vil ég nú segja að ég hafi verið allskostar sammála Illuga en greinin, sem er snilldarvel skrifuð, kom mér til að hugsa um hvort ekki væri tími til kominn að taka Sjálfstætt Fólk ofan úr hillu einu sinni enn. Ef til vill finn ég nýjan Bjart eftir lesturinn.

En allt um það í dag er merkisdagur því hún Soffa okkar og hennar Steini eiga sex ára brúðkaupsafmæli.  Að hugsa sér að það séu sex ár síðan Séra Ragnheiður pússaði þau saman hér í garðinum okkar.

Innilega til hamingju með daginn krakkar mínir.  

  

 


Þetta er hættulegt, þetta er stórhættulegt!

Undanfarna daga hef ég hangið hér á grindverkinu og málað hvítt. Nú hugsar sjálfsagt einhver: Ekki eru nú afköstin mikil hjá kerlingunni, bara enn að mála.  Sko þið þarna, þetta grindverk er hátt á annan kílómeter að lengd svo þið skuluð ekkert vera að hæðast að mér. 

En hvað er svona hættulegt.  Jú það skal ég segja ykkur.  Að hanga svona dag eftir dag aleinn út við grindverk, mála einslitt og það hvítt, ekki kjaftur í mílu fjarlægð með brennheita sólina í bak og fyrir það getur gert hvern mann hálf vitlausan.

Sem sagt stórhættulegt fyrir sálartetrið.  Jú ég á Ipod en hann er í láni, Nei ég á ekki ferðaútvarp eða CD ferðaspilara ef svo væri þá væri ég ekki að væla þetta asnarnir ykkar.

Fyrstu dagarnir voru OK ég hlustaði á fuglana tala við mig og söng á móti, voða svona sætt.  Svo fór mér að leiðast að tala við málleysingja og hundinn svo ég fór að hugsa og hugsa og hugsa sem endaði með því að ég var farin að tala við sjálfa mig, UPPHÁTT!  Shit sem sagt stórhættulegt ástand!

Svo var það andskotans gula fíflið svo hrikalega heit gæti auðveldlega fengið sólsting ofan í geðveikina.  Treð húfunni fastar ofan á hausinn alveg ofan í augu.  Tek ekki sénsinn á neinu.

Farin út að hanga á grindverkinu, mála hvítt og hugsa.

 


Vélin fær að halda heiðurssætinu aðeins lengur.

Ég skokkaði ,,léttfætt" niður stigann í morgun.  Viku djúsdögum var lokið og nú gat ég farið og gúffað í mig öllu því sem mér finnst gott á morgnanna.  Hafrakex með miklu smjöri og marmelaði, ómælt kaffi og bara að nefna það!

Þegar niður kom barst mér í vit sama lyktin og ég hef fundið á hverjum morgni alla vikuna.  Lykt af nýpressuðum ávöxtum með engifer og annarri hollustu. Minn elskulegi hafði auðsjáanlega haldið áfram í djúsnum. 

Þarna stóð hún á sama staðnum og hún hefur verið alla vikuna.  Í nokkurs konar heiðurssæti í eldhúsinu. Við hlið hennar var shakevélin, viktin og kannan.  Allt eins og það er búið að vera í heila viku. 

 Um hvað er ég að tala? Nú auðvitað djúsvélina sem ég var búin að hlakka svo til að koma aftur út í horn hinum megin í eldhúsið.  ´Langt, langt úr sjónmáli!  Bara pakka græjunni og nota aðeins spari.  Þetta var orðið ágætt og ég svindlaði ekki nema síðasta daginn enda búin að fá upp í kok af allri þessari hollustu.

Neip, minn elskulegi nú er nóg komið hugsaði ég og sótti mitt hafrakex í skúffuna, sem enn var í þokkalegu standi, ekkert farið að mygla að ráði, smjörinu og marmelaðinu var skellt á borðið og ég smurði kexið á meðan munnvatnið lak út um munnvikin.  

Með kaffið í krúsinni og kexið í hendi settist ég og nú skildi kjamsað á óhollustunni.  KJammmssss..... viti menn þetta var ekki eins gott og mig minnti.  ´Stóð upp náði í djúskönnuna úr ísskápnum og skellti í mig einum góðum.

Djúsvélin fær að standa í heiðurssætinu aðeins lengur.

Verð sjálfsagt að drekka mig niður næstu daga.

Farin út að mála grindverkið hvítt.  

Það er heitt, það er hrikalega heitt úti.  Finna mér sólhlíf.  

 


Ekki eftirsóknarvert

Var að koma heim úr einu af þessum puttamatarboðum.

Þið vitið hvernig þetta er, heilsa kurteisilega og kynna sig:

,,Gott kvöld.  Ég heiti so & so og er frá Íslandi".

Skil ekki alveg hvers vegna ég segi alltaf öllum hvaðan ég kem.  Einhver lenska hjá mér í öll þessi ár. Held bara að mér hafi þótt það flott að vera frá þessari litlu eyju á norðurhjara veraldarinnar. Alla vega þótti það athyglisvert að vera frá Íslandi.  Landinu þar sem allt var að gerast.

   Í dag veldur það mér bara veseni að tilkynna hvaðan ég kem. Sorgleg staðreynd.

,,Vá ertu frá Íslandi?  Hvernig er ástandið þar núna?  Hvernig stóð á því að þið fóruð á hausinn?  Hverjir eru ábyrgir fyrir því að þið eruð gjaldþrota þjóð?  Hvað með skuldirnar, ætlið þið að borga?  Haldið þið að þið komist inn í EU?  Er forsætisráðherrann ykkar lessa?

Haldið að þetta sé ekki skemmtilegt?    Nei elskurnar í dag er ekki eftirsóknarvert að vera frá fallegu eyjunni okkar í norðri.

Annars erum við bara í góðum málum hér að Stjörnusteini og mætum í næsta puttamatarboð á morgunn klukkan sex, promt. 


Sárt!

Hvernig getur konan látið annað eins út úr sér!

Mig verkjar í brjóstið eftir að hafa lesið þessa frétt! 

Hvílítkt blygðunarleysi hjá Margréti Tryggvadóttur!

Þráinn minn okkur tekur þetta sárt og sendum þér baráttukveðjur héðan frá Stjörnusteini.

 


mbl.is Þráinn segir sig úr þingflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurbyggjum Valhöll á Þingvöllum.

Eigum við svo ekki að hittast einhvern dagin á Þingvöllum og fá okkur snarl saman á Valhöll? 

Þetta sagði einn góður vinur okkar þegar við hittumst heima í sumar og við tókum vel undir þessa tillögu. Okkur hafði líka dottið í hug að taka gamla settið þ.e. móður mína og tengdaföður í Þingvallasilung að Valhöll einn daginn á meðan við værum á landinu.

Það var alltaf svo hátíðlegt að heimsækja þjóðgarðinn.  Alveg sama í hvernig veðri þú komst það ríkti alltaf einhver dulmögnuð stemmning á svæðinu.

Nokkrum dögum eftir að við komum heim brann Valhöll.

30. júlí keyrðum við hjónin austur á Þingvöll og svona var umhorfs þá.

Sumar 2009 á Íslandi 075

Þarna stóð Valhöll eitt sinn.  Þegar myndin er tekin er verið að tyrfa yfir reitinn.

Ég og sjálfsagt fleiri eigum góðar og ljúfar minningar frá þessum stað alveg síðan við vorum börn. 

Nú er búið að skipa í nýja Þingvallanefnd sem á að sjá um þjóðgarðinn og alla framkvæmd á svæðinu. 

 Ég vona af heilhug að sú nefnd sjái til þess að endurbyggt verði þarna fallegt hótel sem gæti jafnvel þjónað sem lítið snoturt ráðstefnuhótel.  Listamenn þjóðarinnar gætu fengið að sýna verk sýn, jafnvel hver og einn fengið eitt herbergi til þess að skreyta með list sinni.

Garðskáli með Flóru Íslands væri líka augnayndi þar sem hægt væri að sitja með góðan kaffisopa.

Að við almenningur gætum aftur heimsótt Valhöll og gert okkur glaðan dag eins og fyrr. 

Þjóðgarðurinn er fyrir almenning og þar á okkur að líða vel. 

 Það nægir ekki að hafa vegasjoppu og upplýsingaborð!

Ég bíð þess að geta aftur komið að Valhöll í nýrri og betri mynd og fengið mér silung úr Þingvallavatni.    

  


Þráinn stóð við sín loforð og er það vel!

Hafa þessir þremenningar ekkert betra að gera heldur en karpa yfir kaffibolla um hvort Þráinn sitji áfram eður ei.  Þið sem ætluðu að gera hrossakaupin á ,,Eyrinni"  hættið þessum bjánaskap og farið að vinna eða er Alþingi of stór vinnustaður fyrir ykkur?  Hvernig væri þá að þið fengjuð ykkar varamenn til að setjast í sætin ykkar og þið færuð heim og hugsið ykkar gang.

Þráinn gerði ekkert annað en að standa við gefin loforð! Stend með þér Þráinn!


mbl.is Vilja Þráin af þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum sterk þjóð og frábær! Stöndum af okkur alla storma!

Það fór ekki fram hjá okkur á ferð okkar um landið sl mánuð að það vantaði mikið upp á gamla góða baráttuviljann hjá mörgum. 

Þrátt fyrir sól og sumaryl fannst mér eins og dimm ský lægju yfir mönnum og málleysingjum. Fólk skiptist í hópa sumir töluðu ekkert um ástandið hvort það var af því þeir höfðu gefist upp eða vildu njóta þess að vera til örlítið lengur veit ég ekki en það voru líka aðrir sem töluðu út i eitt um þetta hryllingsástand. Skömmuðust og rögnuðu yfir öllu en voru ekki með neina lausn á takteinum.  Dapurlegt.

 Þegar við vorum heima í nóvember í fyrra var viðkvæðið hjá flestum: ,, Hva þetta reddast" eða ,,þetta er nú ekki svo svart"  Enda hvernig var hægt að trúa því að nokkrir einstaklingar gætu verið það siðblindir og geggjaðir að þeir gætu komið heilli þjóð á heljarþröm?

Því miður gerðist þetta og það virkilega tók á að horfa upp á allar breytingar sem orðið hafa í þjóðfélaginu á ekki lengri tíma.  Verslanir sem áður gengu feiknavel var búið að loka eða hálf tómar hillur blöstu við manni þegar maður kom inn og afgreiðslustúlkan stóð örvæntingafull bak við borðið með hangandi hendi því það var ekkert til að selja lengur og engin tilgangur með því að halda þessu áfram.  Þetta næstum stóð skrifað skýrum stöfum á enninu.

Túristabúðir, veitingastaðir og annað sem laðar að ferðamenn voru yfirfull af kátum ferðamönnum í BIÐRÖÐUM og þreyttu starfsfólki sem fékk varla matarpásu vegna þess að það var svo geðveikt að gera.  Ég þori engu að spá um framhaldið á þessu en mikið asskoti mega Íslendingar vara sig ef þeir hætla að halda uppi ferðabransanum.  Verðlagið er ekki í samræmi við gæði og sum staðar er maður bara einfaldlega tekinn harkalega i nefið. 

Það fer ekkert á milli mála að þetta ástand gengur jafnt yfir alla, ríka sem fátæka, börn og  gamalmenni.  Nú þegar haustið nálgast með sínum dimmu dögum, verðlag hækkar og útivistartíminn styttist þá bið ég fyrir þjóð minni. 

 

 

 


mbl.is Gífurlegt þunglyndisálag á íslensku þjóðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalausar biðraðir hvar sem maður kemur.

Þessi færsla er sett saman hér í eldhúskróknum mínum að Stjörnusteini.  Við erum sem sagt komin heim eftir fjögra vikna ferð til heimalandsins.

Í gær eftir að hafa snætt hádegismat með Ástu vinkonu á Jómfrúnni náði ég að sjá hvernig hinsegin dagur fer fram á Íslandi.  Athyglivert!  Flott skrautsýning!

Á leið minni heim til móður minnar gekk ég upp Laugaveginn og rakst á Jóhönnu bloggvinkonu mína í mátunarklefa hjá Sævari Karli.  Það var óvænt ánægja.  Einnig tókst mér að smella kossi á Berg Thorberg bloggvin þar sem hann sat og málaði með kaffinu sínu í einni skartgripabúðinni en hann hafði ég heldur aldrei hitt áður. 

Það tók mig ansi langan tíma að komast upp allan Laugaveginn þar sem ég næstum stoppaði við hvert horn til að heilsa vinum og vandamönnum enda dagurinn til þess að sporta sig aðeins.

Íslenskur humar er hnossæti og okkur litlu fjölskyldunni tókst að torga fleiri kílóum af humri í gærkvöldi en það var svona smá kveðjusamsæti heima hjá Soffu okkar og Steina fyrir okkur og svo komu mamma og tengdapabbi auðvitað líka.

Við vorum komin snemma upp í íbúð enda mæting klukkan sex í morgun í flug til Köben. Ég veit ekki hvað ég er alltaf að taka þessi morgunflug trekk í trekk. Bara til þess að gera mann hálf geðillan! Lærir aldrei af reynslunni, get svo svarið fyrir það!

Maður ætlar sér að ná einhverjum svefni en tekst það aldrei nokkurn tíma.  Er eins og milli svefns og vöku alla nóttina af því maður treystir ekki á að vekjaraklukkan standi sig, sko hún gæti klikkað einmitt þá.  

Í morgun fór ég undir sturtuna hálf sofandi og auðvitað var hún annað hvort of heit eða of köld.  Þar sem ég stóð þarna með lokuð augun og reyndi að stilla hitastigið var það auðvitað ekki hægt, hver geturðu stillt hitastig með lokuð augun, þið vitið, sturtan var með svona 30° - 60°dæmi. Ég ákvað að láta þennan kattarþvott nægja og hálf skaðbrunnin krönglaðist ég upp úr baðkarinu og auðvitað varð mér fótaskortur og rann til í bleytunni en slasaði mig ekki vitund en þetta var til þess að ég glaðvaknaði og byrjaði daginn á því að bölva og ragna. Ekki beint skemmtilegt. 

Út í bíl, töskunum skellt afturí og beðið fallega um að ekkert hafi nú gleymst í íbúðinni.  Passinn, útskriftin á farmiðanum, gleraugun og snyrtibuddan sé nú örugglega í handfarangrinum. Við hefðum verið í djúpum skít ef við hefðum gleymt einhverju af þessu í íbúðinni því lykillinn var kominn í póstkassann og eigendur einhvers staðar að ríða hrossum upp í óbyggðum, en allt var á sínum stað, hjúkket! 

Bruna í Garðabæinn til að ná í Steina tengdason og síðan var lullað til Keflavíkur, ég segi lulla þegar keyrt er á 90 km pr. klst.  Verst að geta ekki sofið en ég kann ekki að sofa í bíl, þarf alltaf að vera á vaktinni, sko það gæti eitthvað gerst sem ég hefði betur vit á en bílstjórinn.

Komum til Keflavíkur tveimur tímum fyrir brottför.  Eins gott, það var varla að maður kæmist inn í afgreiðslusalinn svo mikil var örtröðin.  Vitið þið hvernig manni líður eftir að hafa staðið í endalausum biðröðum í heilan mánuð upp á hvern einasta dag?  Nei ekki það, ég skal sko segja ykkur að maður fær velgju fyrir brjóstið og svona snert af innilokunarkennd.  Síðan fyllast vitin af alls konar líkamslykt sem gerir það að verkum að það er örstutt í það að maður lognist útaf á staðnum.

Þannig leið mér í morgun og við máttum bíða í klukkutíma innan um túhestana áður en við fengum bording passann. Svo þegar þú flýgur í Monkey þá er ekkert sem bjargar þér úr þessari prísund.  Næst spandera ég á okkur deLux.

 Síðan tekur önnur biðröð við þegar þú ferð í gegn um eftirlitið og ég átti líka eftir að fara í Tax free en hefði sleppt því ef ekki hefði verið um töluverða upphæð að ræða.  Búin að vera óhemju dugleg að styðja við bakið á landanum sl. mánuð. Bara verslað eins og ....... þar beið ég í tuttugu mínútur!

Þá voru tíu mínútur í brottför og ég ekki enn búin að fá kaffið mitt.  Engin bók keypt og ekkert af ´öllu því sem ég kaupi reglulega þegar ég fer þarna í gegn, allt þessum bölvuðu biðröðum að kenna.  Ég dæsti framan í minn elskulega og sagði: ,, Veistu ég þoli ekki fleiri biðraðir, ef ég sé eina í viðbót þá klikkast ég"  Auðvitað var svo önnur við hliðið og síðan bara endalausar raðir í allan dag!  

Ég er svo fegin að vera komin heim og ég fer ekki einu sinni út í búð á morgun því þar get ég lent í því að verða að standa í biðröð við kassann og það hef ég alls ekki ætlað mér að gera.

Engar biðraðir í bráð. Please!!!!!!!!!!!!!!!

 

 

  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband