Færsluflokkur: Spil og leikir
1.12.2008 | 18:54
Það má svo sem reka suma jólasveina aftur til síns heima fyrir mér.
TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN 1. DESEMBER!
Datt í hug að setja inn hér mynd af jólastrákunum mínum sem skemmta sér í gluggakistunni úti við innganginn svona til að dreyfa huga ykkar frá uppákomum dagsins.
Jólasveinarnir okkar eru svo sem ekki allir góðir en það er held ég af og frá að við færum að banna komu þeirra eins og þessi Jón Knúdsen í DK vill ólmur koma á framfæri í sínu landi.
Suma jólasveina sem nú ráða ríkjum á Íslandi má svo sem reka aftur til síns heima en það er víst hægara sagt en gert.
Held að særingar norna og fylgiliðs hafi ósköp lítið upp á sig. Mér fannst nú helst þegar ég horfði á fréttina að ,,norninni" væri alveg skítkalt þar sem hún æddi um og baðaði út svörtum vængjum.
En sitt sýnist hverjum. Góðar stundir gott fólk.
Vill banna jólasveina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.8.2008 | 20:39
Aquapalace, ævintýraheimur Pragbúa
Í morgun var ákveðið að fara með Juniorinn í sund og fyrir valinu varð auðvitað Aquapalace sem er 30 km héðan frá okkur. Þvílíkt ævintýri að koma í þennan vatnsskemmtigarð, jafnvel okkur fullorðna fólkinu fannst mikið til koma. Endalausar rennibrautir, ormar, heitir pottar og kaldir, fossar, sprænur, ár og laugar, strendur með öldugangi og sjóræningjaskip sem vatnið gusaðist úr héðan og þaðan. Jafnvel litlir hákarlar sem syntu í lokuðum kerjum, (skildi nú ekki alveg hugmyndina á bak við það) en sitt sýnist hverjum.
Auðvelt er að eyða heilum degi þarna þar sem þetta er að hluta til innanhúss og auðsjáanlega hugsað sem fjölskyldustaður. Eitthvað fyrir alla. Líkamsrækt, nudd, gufuböð, snyrting, hárgreiðsla og nokkrar verslanir fyrir þá kaupóðu. Veitingasalir og sundbarir.
Amman var eitthvað hálf slöpp þegar lagt var af stað en lét það nú ekki á sig fá þar sem hana langaði mikið til að fara með litla guttanum í sund. Yfir hádegisverðinum fór heilsan aðeins að versna því auðvitað er hún búin að ná sér í sumarkvef. Situr nú hér skjálfandi, kófsveitt og með Kleenex pakka við hendina. Hnerrar hér ofan í tölvuna og nefið eins og á versta tóbakskarli.
Ætlar samt í bæinn á morgun því það er síðasti dagurinn þeirra Soffu, Steina og Þóris Inga áður en þau halda heim og amman ætlar að nota daginn til að fara með sínum í búðir og versla pínu pons.
Svo nú er bara að pakka sér inn í dúnsængina og koma sér til kojs.
Verð fín á morgun.
Það er nú ekki oft sem tækifæri gefst til að halda míní fjölskyldusamkomu hér að Stjörnusteini og hvað ég elska það að hafa fólkið mitt hér þegar færi gefst. Bæjarrotturnar mínar komu aftur hingað í sveitasæluna í gær með börnin og slegið var upp veislu hér í garðinum. Egill okkar og Bríet komu með Elmu Lind, Ingi og Thelma með dúllurnar sínar tvær Elínu Helgu og Kristínu Helgu en þau eru hér í heimsókn núna.
Að fylgjast með þremur litlum dúllum, ein ný orðin eins árs, önnur tíu mánaða og síðan ömmustelpan mín átta mánaða var ekki óskemmtilegt og sjá hvað börnin stækka og þroskast ört á stuttum tíma. Sú elsta hljóp hér um allt í göngugrindinni, sú í miðið rétt gat ýtt sér aftur á bak en mín stutta bara sat og lét fara vel um sig þó litlu tásurnar væru auðsjáanlega að reyna að spyrna í stéttina.
Óli lék við hvern sinn fingur enda tók Egill hann á fótboltaæfingu. Fimm ára guttinn leit ekkert smá upp til stóra frænda sem einu sinni var markmaður í drengjalandsliðinu. Þið hefðuð átt að sjá aðdáunarsvipinn þegar Egill sagði honum að Eiður Smári hefði byrjað að sparka bolta í garðinum okkar í Traðarlandinu þá jafn gamall Óla í dag.
Elín Helga hélt sig aðeins fyrir utan þessa leiki en fékk auðvitað líka tilsögn frá stóra frænda enda hún orðin svo mikil dama, níu ára pæjan.
Grillið brást ekki hjá mínum elskulega og fóru allir saddir og þreyttir áleiðis til Prag þegar líða tók á daginn.
Verð að bæta því hér við að þegar Kolbrún Eva var sett í göngugrindina í morgun liðu ekki nema fimm mínútur þar til mín var komin á fleygiferð hér um veröndina. Maður má varla snúa sér við þá eru þau búin að læra eitthvað nýtt. Bara krúttlegt.
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 19:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.5.2008 | 09:36
Sumargleðin okkar endaði sem Eurovision partí
Þrátt fyrir eindreginn ásetning minn og loforð bæði hátt og í hljóði um að hér yrði ekki fylgst með Júró var ég kaffærð af gestum mínum á laugardagskvöldið. En hvernig átti annað að vera þar sem 12 Íslendingar voru saman komnir og margir algjörir Eurovision Fan, búnir að fylgjast með undankeppni og alles!
Á laugardaginn buðum við til Sumargleði hér að Stjörnusteini og um fimm leitið renndu hér í hlað kampakátir Íslenskir vinir okkar frá Vínarborg meira að segja með fánabera í forgöngu. Að sjálfsögðu var rætt um Júróið og eftir kvöldverðinn vissi ég ekki fyrr en að búið var að tengja tölvuna við græjurnar og sjónvarpið á eftir hæðinni líka komið á full swing svo undir tók í allri sveitinni. Ég var, þrátt fyrir allan minn góða ásetning komin í Júró partí og þar sem ég er svo rosalega gestrisin, eins og kemur fram í síðustu færslu, þá ákvað ég að horfa fram hjá þessum mistökum í mínu eigin húsi.
Að sjálfsögðu var ég farin að dilla mér í takt við gömlu íslensku lögin og tók jafnvel nokkur spor hér úti á veröndinni gestum mínum til samlætis. Áhugi minn var nú ekki meiri en það að ég varð að spyrja í lokin hver hefði unnið og hvort við hefðum lent ofar en í sextánda sæti.
Annars varð úr þessu dúndur partí fram eftir nóttu og allir í bana-júróstuði, jafnvel hún ég!
Takk fyrir komuna kæru vinir og landar! Sjáumst fljótlega aftur í sama stuðinu hér eða í Vín!
Partí hjá Páli Óskari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.5.2008 | 08:13
Var engin beinagrind gerð?
Þetta hljómar mjög undarlega og dettur mér helst í hug auglýsingabrella. Auðvitað getur komið upp ágreiningur en að hætta samstarfi á síðustu stundu finnst mér dálítið skondið. The Show must go on!
Ég hef lítið sem ekkert vit á gjörningum hvað þá kynlífsráðgjöf en sem leikmanni kemur mér þetta dálítið spánskt fyrir sjónir. Töluðu þessar konur ekkert saman áður en þær ákváðu að troða upp á Listahátíð? Var engin beinagrind gerð að uppákomunni? Eða hrundi hún við fyrstu kynni?
Ánægjulegt samt að heyra að listamaðurinn og kynlífsráðgjafinn gátu troðið upp hver fyrir sig fyrir fullu húsi.
Atriði Dr. Ruth og Marinu féll um sjálft sig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.5.2008 | 07:56
Sveinn Baldursson hleypur Prag maraþonið á morgun.
Á morgun sunnudag fer fram hér Prag maraþonið 2008 en ekki láta ykkur detta í hug að ég ætli að fara að hlaupa. Hef lítinn áhuga á svona sprangi út um alla trissur. En ástæðan fyrir að ég hef fylgst með þessu er sú að Sveinn ábúandi hér í Leifsbúð þessa dagana ætlar að vera einn af þessum tugi þúsunda hlaupara.
Í fyrradag fór hann og skráði sig inn í hlaupið og sagði okkur að hann hefði aldrei séð jafn glæsilegan undirbúning. Svæðið sem innskráning fer fram er hér í Prag 7, Vista Vista eins og við köllum það. Þetta er útivistasvæði nánast hér í miðborginni, skemmtigarður, íþróttasvæði m.m.
Þarna var tekið á móti þátttakendum með margskonar uppákomum, lifandi tónlist og sölutjöld voru áberandi út um allt sem seldu hlaupaskó, boli og fl. sem ég kann ekki skil á enda ég ekki í þessari deild.
Við innritun var honum afhent bæklingur þar sem leiðin er vandlega kynnt og allar vatnsstöðvar á hlaupaleiðinni. Hann sagði að hann hefði aldrei séð svona vel staðið að undirbúning hlaups áður.
Gangi þér vel á morgun Sveinn!
Dæmigerð helgi er 40 km á laugardegi og 30 á sunnudegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.4.2008 | 11:08
Ég er að læra nýtt tungumál sem heitir ,,Þóríska".
Dagarnir hér þjóta frá okkur og hvernig á annað að vera þegar maður er með hugann við lítinn gutta sem stoppar aldrei og lætur afa og ömmu snúast eins og skoparakringlur allan daginn.
Við höfum líka orðið að hafa okkur öll við að læra nýtt tungumál blandað táknmáli sbr. ,,brrritssi"/bíll, ssssiiii með vísifingur á vör/ drekka. Nokkur orð eru mjög skiljanleg t.d. ,,sessssdu" sem er notað mikið í svona skipunartón, með hrikalegri áherslu. Síðan er eitt orð sem allir ættu að skilja og það er orðið ,,agalega" en hefur allt aðra meiningu í munni barnsins. E.t.v. verð ég búin að fá botn í þetta áður en ég fer heim.
Er þetta ekki bara yndislegt!
En nú eru mamma og pabbi komin heim frá útlöndum og afi og amma komin í ,,frí" í nokkra daga.
Hér á fjórða degi sumars sendi ég ykkur öllum, vinir mínir og fjölskylda, okkar bestur kveðjur inn í gott og sólríkt sumar !
9.4.2008 | 09:22
Í gær birtust hér tveir Strumpar
Ég gerist garð- Strumpur í gær vopnuð öllum þeim tiltæku tólum sem Strumpar nota við garðvinnu og hamaðist í níu tíma hér úti á landareigninni.
Ég set mér yfirleitt markmið þegar ég fer út í moldina, klára verður verkið og ekkert múður. Mér virðist ganga seint að læra að ég er ekki lengur 29 eitthvað en verð að viðurkenna að verkin taka aðeins lengri tíma en hér áður fyrr og í stað þess að segja hingað og ekki lengra þá bara djöflast ég áfram þó minn eðalskrokkur sé löngu búinn að gefast upp. Hér segi ég aldrei hálfnað verk þá hafið er heldur byrjað verk þá búið er.
Annar Strumpur leit inn í gær þegar ég tók Strumpaprófið svona mér til skemmtunar. Ég er víst Painter Smurf og bara ekkert ósátt við það.
Skapandi, skýr, alltaf að útvíkka sjóndeildarhringinn, listræn, get stundum verið skapill en líka mjög tilfinningarík. Held bara að þetta hafi verið nokkuð rétt enda tók ég prófið af mikilli samviskusemi.
Nú ætla ég að fara hér út í góða veðrið og sjá til hvaða Strump ég hitti í dag.
25.3.2008 | 14:32
Hvað er fólk líka að þvælast upp í svona tæki?
Ég hef aldrei skilið þá áráttu hjá fólki að vilja dinglast svona í lausu lofti til þess eins að dásama útsýnið. Alveg sama þó maður sé innilokaður í einhverju glerbúri. Allir með sælusvip og baðandi út öllum öngum yfir fegurð landslagsins. Gólandi á himnaföðurinn, þakkandi honum fyrir að skapa jörðina.
En það er nú ekki alveg að marka mig ég er svo lofthrædd að bara það að stíga upp á stól getur farið með mig á tauginni. Fyrir mér er fall af stól eins og fall fram af ystu nöf ofan í stórgrýtt gil og lífinu þar með lokið.
Einu sinni gerðist ég rosalega voguð og fór upp í svona hrillingstæki eftir mikið nauð frá krökkunum mínum, aðhlátur og stórar yfirlýsingar frá mínum elskulega hvað ég væri nú mikil gunga. Að sjálfsögðu stoppaði karfan efst uppi og ég fraus gjörsamlega. Þegar við vorum komin niður á jarðfast sagði minn elskulegi að þetta myndi hann aldrei gera mér aftur, hann sá konuna sína verða græna í framan og hélt að hún væri að syngja sitt síðasta þar sem honum fannst hún vera hætt að anda og dauðastjarfi kominn í líkamann.
Á meðan dóttir mín bjó í London í nær átta ár var oft imprað á því við mig hvort ég hefði ekki farið upp í The London Eye. Yfirleitt hunsaði ég spurninguna því bara það að bera þetta ferlíki augum í hvert skipti sem kom í borgina fékk hárin á mér til að rísa og kuldahrollur hélst í margar mínútur í mínum fína skrokki.
Mér finnst fólk hugdjarft sem getur klifið fjöll, gengið þrönga stíga á ystu nöf, eða farið sér til skemmtunar upp í turna bara til þess eins að dásama útsýnið. En ég elska að ferðast með flugvélum, enda er það allt annað mál.
Lofthræðsla er ekkert grín það er bara þannig.
400 manns sátu fastir í Lundúnaauganu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Eftir að hafa opnað tvö míní páskaegg í dag fór ég að hugsa um hvers vegna í ósköpunum er verið að setja þessa hundleiðinlegu, úreltu málshætti inn í eggin. En allir lesa þetta og alltaf með jafn mikilli tilhlökkun en síðan kemur skeifa í munnvikin. Æ, sama og í fyrra eða æ, sama og þú.
Það er hefð hjá okkur í fjölskyldunni að lesa málshættina sem við fáum en þetta er orðið svo hundleiðinlegt. Engum stekkur bros, allir sitja og bíða eftir að komi að sér og stundum þarf maður ekki annað en að lesa fyrsta orðið. Að sjálfsögðu kann maður flesta málshætti utanbókar. Svo er ekki kominn tími til að lyfta þessari hrútleiðinlegu lesningu upp í skemmtilegheit
Hvar eru allir vitringarnir, íslenskufræðimennirnir, séníin sem lifa þarna uppi heima á landinu góða. Hefur engum dottið í hug eða fundið betri málshætti en það sem hefur gengið hér mann fram af manni já alla vega síðan ég man eftir! Einstaka egg eru með málshætti sem eru afbökun úr erlendu máli og höfða alls ekki til okkar og eru jafnvel hreint út sagt óskiljanlegir.
Einn frábær bloggari afbakaði íslenskan málshátt hér á blogginu ekki alls fyrir löngu og ég skellihló. Þarna var eitthvað alveg nýtt en með sömu meiningu. Bara á léttari nótunum.
Þið ágætu rithöfundar og aðrir góðir pennar. Hefur engum dottið í hug að fara til Nóa Sirius og uppfæra gulu miðana? Hérna er kærkomið tækifæri fyrir ykkur að stórgræða, en súkkulaðifyrirtækin gætu e.t.v. verið treg í fyrstu því það þarf að prenta nýja gula miða en þegar uppi er staðið þá koma allir til með að hagnast á þessu, ja nema neitendur en það er bara allt annað mál. Það glepja allir við nýungum ekki satt.
Bara hugsið ykkur, auglýsing hjá Nóa Sirius eða annarri súkkulaðifabrikku.
Nýjir málshættir að hætti nútímafólks! Halló koma svo.......
NÝJA OG FINDNA MÁLSHÆTTI FYRIR NÆSTU PÁSKA!
Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)